Bolton vs. Everton

 

Þá er það Bolton á útivelli. Þeim gekk vel framan af tímabili en hafa nú tapað fimm af síðustu sjö leikjum (við aðeins tapað einum af síðustu sjö). Það verður þó skarð fyrir skildi hjá okkar mönnum því bæði Saha og Rodwell meiddust í vikunni. Saha meiddist á æfingu og verður líklega í burtu í 10-14 daga. Rodwell meiddist aftur á móti í landsleik með U21 liði Englands á dögunum og verður frá í 4-6 vikur. Cahill ætti þó að vera leikfær. Hjá Bolton verður Grétar Steinsson (sem á mynd er í bændaglímu við Arteta) líklega ekki með og heldur ekki S. Davis, J. O’Brien, Gardner né Samuel.

Af öðru má nefna að Ian Turner var lánaður til Preston (93 daga neyðarlán) og rætt hefur verið um að Lonergan markvörður Preston sé á leið til Everton í sumar (áður hafði reyndar einnig verið nefnt að markvörður Coventry, Keiren Westwood, sé á leiðinni). Erfitt að segja hvað er til í þeim fréttum (um kaupin); kannski er þetta bara sögusagnir sprottnar af því að varamarkvörður okkar, Mucha, fær ekki að spila mucho.

Loks má geta þess að rekstrarniðurstöður voru birtar á dögunum. Það dróst aðeins að birta niðurstöðurnar þannig að ýmsar gróusögur fóru af stað en niðurstöðurnar eru í takt við árferðið, almennt hart í ári en klúbburinn ágætlega rekinn miðað við ástandið. Skuldirnar hafa aðeins aukist og var um hálfrar milljóna punda tap á rekstrinum (fyrir leikmannaskipti) á fjárhagsárinu. Það kom mér reyndar pínulítið á óvart að skv. Deloitte’s Money League er Everton í 8. sæti yfir hæsta "revenue" enskra klúbba, og í 27. sæti í heiminum. Það er þó greinilegt að við verðum að komast á stærri leikvang því við erum að fá inn £750,000 á heimaleik á meðan "stærri" ensku klúbbarnir eru að hala inn £2-3M. Það er ágætis greining á þessu hér fyrir þá sem vilja sökkva sér í þetta.

En hvað um það. Bolton á sunnudaginn. Taka á þessu!

 

 

Comments are closed.