Leicester – Everton 1-1

Mynd: Everton FC.

Þá er það fimmta umferðin í ensku úrvalsdeildinni en í dag, kl. 14:00, mætir Everton í heimsókn til Leicester.

Uppstillingin: Pickford, Garner, Keane, Tarkowski (fyrirliði), Young, Mangala, Doucouré, Ndiaye, Mcneil, Lindström, Calvert-Lewin.

Varamenn: Virginia, Begovic, Dixon, O’Brien, Armstrong, Iroegbunam, Harrison, Beto.

Bekkurinn er nokkuð þunnskipaður (tveir markmenn og tveir kjúklingar) enda er meiðslalistinn nokkuð langur, sérstaklega hvað vörnina varðar. Í dag leika, að mér sýnist, Garner og Young í bakvarðarstöðunum, en Coleman er meiddur, eftir landsleikjatörnina. Mykolenko var veikur á dögunum og er ekki í hóp í dag. Branthwaite og Patterson hafa ekkert komið við sögu á tímabilinu, svo að ég muni, en þó þeir séu byrjaðir að æfa aftur eru þeir ekki klárir í þennan leik. Gueye missir svo af leiknum vegna fráfalls föðurs síns. En þá að leiknum…

Frábær byrjun á leiknum. Stuðningsmenn Everton í miklu stuði á pöllunum og það smitaðist yfir í leik Everton.

Everton fékk dauðadæri strax á 4. mínútu þegar McNeil fór illa með tvo á vinstri kantinum, sendi fram á Ndiaye sem komst upp að vítateig vinstra megin og sendi frábæran bolta fyrir. Calvert-Lewin var upp við mark en boltinn aðeins of hár til að skalla hann, en Lindström var fyrir aftan og náði skoti, óáreittur, en skaut framhjá. Þar átti staðan að vera 0-1 fyrir Everton.

Leicester menn virkuðu hálf þunglamalegir í byrjun og áttu ekki færi fyrr en á 9. mínútu þegar þeir skölluðu yfir mark eftir hornspyrnu. Engin hætta.

En á 12. mínútu komst Everton yfir! Ashley Young sá hlaup Ndiaye inn í teig og sendi frábæran bolta á hann. Ndiaye tók vel á móti boltanum, skautaði framhjá varnarmanni Leicester (með annan að toga í sig aftan frá) og hlóð í skot — stöngin inn!

Ndidi reyndi að svara fyrir Leicester á 20. mínútu með slöku skoti á mark frá hægri, langt utan úr teig. Lindström sýndi hvernig á að gera þetta hinum megin – fékk langan bolta fram og náði skoti sem markvörður mátti hafa sig allan við til að slá í burtu.

Leicester náðu sæmilega almennilegri sókn á 35. mínútu sem endaði með því að Pickford varði upp í neðanverða slána og út (sem hljómar reyndar hættulegra en það var). Vardy þóttist rekast í hann óvart til að reyna að fá hann til að setja boltann í netið, en gekk ekki.

Úrhellisrigning í Leicester. Vonandi þannig dagur fyrir stuðningsmenn Leicester.

0-1 í hálfleik.

Seinni hálfleikur byrjaði örlítið seint, þar sem beðið var eftir því að veðrinu slotaði. Það gerðist þó ekki alveg, heldur gekk á öðru hverju með hellirigningu og leikurinn byrjaði að lokum.

Ndiaye kom sér í ákjósanlegt færi eftir skyndisókn á 50. mínútu, en skaut yfir mark Leicester og framhjá. Ayew svaraði fyrir Leicester en skaut einnig yfir.

Á 60. mínútu komst Lindström inn fyrir í teig og þurfti bara að renna boltanum á Ndiaye, sem tók sprettinn inn í teig vinstra megin og var á auðum sjó inni í teig og hefði bara þurft að pota boltanum í autt markið. En því miður náði varnarmaður að blokkera sendinguna á síðustu stundu. Það reyndist það síðasta markverða sem Lindström gerði í leiknum, því Harrison kom inn á fyrir hann á 61. mínútu.

Á 65. mínútu komst Calvert-Lewin í frábært skotfæri inni í teig hægra megin, eftir skyndisókn frá Everton, en markvörður Leicester varði glæsileg með útréttri hendi.

Leicester fengu svo dauðafæri á 68. mínútu, eftir vel útfært horn, þar sem þeir náðu að koma háum bolta fyrir mark af stuttu færi en sóknarmaður þeirra upp við mark skallaði vel yfir markið, sem betur fer. 

En á 71. mínútu kom svo jöfnunarmark Leicester eftir horn. Þeir voru pínu heppnir, því að tveir Everton leikmenn og tveir Leicester menn fóru upp í skallabolta, lentu í vægu samstuði og náðu ekki að skalla en boltinn datt hins vegar vel fyrir Mavididi sem skaut í jörðina og upp í þaknetið. McNeil nálægt því að verja á línu en skallaði upp í þaknetið. Jafnt — 1-1.

Nokkuð fjörugur leikur fylgdi í kjölfarið þar sem boltinn barst marka á milli en engin dauðafæri litu dagsins ljós. Iroegbunam kom svo inn á fyrir Ndiaye á 81. mínútu.

Fjórum mínútum var bætt við og Calvert-Lewin fékk eitt hálffæri í blálokin en náði ekki góðu skoti. Stuttu síðar flautaði dómarinn leikinn af. 1-1 jafntefli því niðurstaðan.

Einkunnir Sky Sports ekki komnar. Uppfæri síðar.  

7 Athugasemdir

  1. Diddi skrifar:

    Óttast það versta, vona það besta! Jordan Ayew breytist alltaf í Messi gegn okkur. Ekki sá eini reyndar sem virðist gera það

  2. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Þetta fer 3-1 fyrir Leicester.

  3. Eirikur skrifar:

    Jæja fyrsta stigið í hús 🙂

Leave a Reply