Mynd: Everton FC.
Everton mætti Aston Villa á útivelli í dag kl. 16:30 í fjórðu umferð ensku úrvalsdeildarinnar. Þetta var stórt verkefni og okkar menn töpuðum þar illa á síðasta tímabili. En frammistaðan í þessum leik var allt önnur, þó að uppskeran hafi ekki verið í samræmi við framlagið.
Uppstillingin: Pickford, Mykolenko, Tarkowski, Young, Gueye, Ireogbunam, Ndiaye, McNeil, Harrison, Calvert-Lewin.
Varamenn: Virginia, O’Brien, Dixon, Garner, Mangala, Armstrong, Doucouré, Lindström, Beto.
Eitt athyglisvert við uppstillinguna… McNeil í holunni og Ndiaye á kantinum.
BBC báðu Villa menn um að spá fyrir um úrslit fyrir leik og þar á bæ var mikil bjartsýni og svörin létu ekki á sér standa: 5-0 fyrir Villa, 6-0 fyrir Villa, o.s.frv. Leikmenn Everton voru hins vegar greinilega á allt öðru máli.En þetta var róleg byrjun á leiknum. Aston Villa byrjuðu með boltann og héldu honum vel, en gekk illa að brjóta niður vel skipulagt lið Everton. Aðallega bara í krabbaganginum, hliðarlínanna á milli.
Þeir náðu að skapa smá usla á 8. mínútu eftir horn, en vörn Everton náði að hreinsa frá. Fyrsta skot á mark kom frá Villa á 10. mínútu en það var slakt skot af löngu færi, beint á Pickford. Digne skapaði svo hálffæri fyrir Watkins á 12. mínútu en sá síðarnefndi sneiddi boltann langt framhjá marki.
En staðan breyttist svo allt í einu á 16. mínútu, nokkuð óvænt, þegar Villa menn voru að dóla með boltann á miðsvæðinu og McNeil rændi boltanum af okkar fyrrum leikmanni, Onana, rakti boltann svo hratt að vítateig. Þar komst hann rétt svo inn fyrir hægri bakvörð Villa og lét vaða á markið — beint í hliðarnetið innanvert hægra megin! Staðan orðin 0-1 fyrir Everton! Villa menn vildu meina að McNeil hefði brotið á Onana, en meira að segja lýsandinn, Jamie Caragher, betur þekktur sem jólasveinninn Barnahrækir, var því ósammála.
Á 26. mínútu kom Garner inn á fyrir Mykolenko, sem meiddist lítillega og aðeins örskömmu síðar fékk Everton aukaspyrnu, sem Harrison tók utan af kanti hægra megin. Sendi háan bolta fyrir mark og þar stökk Calvert-Lewin manna hæst og skallaði auðveldlega inn. Villa menn vissir um að þetta væri rangstaða en endursýning sýndi án vafa að svo var ekki! Everton því komið tveimur mörkum yfir!!
Villa menn komust inn í teig á 31. mínútu og í gott skotfæri, af svolítið löngu færi, en héldu uppteknum hætti — settu boltann beint á Pickford.
En á 36. mínútu náðu Villa menn hins vegar að svara. Luca Digne fékk allt of mikið pláss, á vinstri kanti (frá honum séð), fékk þar boltann og sendi háan bolti fyrir mark, yfir á fjærstöng þar sem Keane tapaði skallaeinvígi við Ollie Watkins, sem skallaði í markið. Staðan orðin 1-2.
Og þannig var það í hálfleik!
Villa menn fengu dauðafæri á 50. mínútu þegar þeir náðu stungusendingu inn fyrir vörn Everton hægra megin og Ollie Watkins náði skoti á mark, sem Pickford varði. Boltinn barst til Villa manns inni í teig og hann reyndi strax skot en leikmenn Everton köstuðu sér fyrir skotið og blokkeruðu það. Vel gert.
Á 53. mínútu komst Calvert-Lewin einn inn fyrir eftir stungusendingu og komst upp að marki, og þurfti bara að leggja boltann framhjá Martinez í markinu. En hann tók sér aðeins of langan tíma, því rétt áður en hann náði skotinu, náði Konsa að hlaupa hann uppi og sparka boltanum aftur fyrir endalínu — en var hins vegar næstum búinn að skora sjálfsmark, því boltinn nánast sleikti stöngina á leið framhjá. Upp úr horninu vildu leikmenn Everton fá víti, þegar boltinn fór augljóslega í höndina á leikmanni Villa. VAR var hins vegar á því að höndinn hefði verið í náttúrulegri stöðu, en þetta var ekki sýnt aftur (nema ég hafi misst af því). Villa menn stálheppnir þar.
En í staðinn, á 58. mínútu, náðu Villa menn að jafna og voru (aftur) nokkuð heppnir. Hættuleg löng stungusending fram á Digne, inn í teig Everton, sem Harrison náði rétt svo að blokkera áður en boltinn barst til Digne, en lagði þar með (að sjálfsögðu) boltann snyrtilega fyrir Ollie Watkins, sem var einn á móti Pickford og þurfti bara að leggja boltann framhjá Pickford. Sem hann því miður gerði og staðan þar með orðin 2-2.
Villa menn gengu á lagið og fengu dauðafæri á 63. mínútu þegar þeir komust tveir á einn inn fyrir vörn Everton og McGinn (?) þurfti bara að leggja boltann framhjá Pickford (sem hann gerði) og setja hann rétt í hlaupaleiðina hjá Watkins, svo að hann gæti potað inn (sem honum tókst ekki). Þar skall hurð nærri hælum í vörn Everton.
Dyche svaraði með tvöfaldri skiptingu aðeins mínútu síðar: Harrison og Gueye út af fyrir O’Brien og Mangala — sem kom þar með inn á fyrir Everton í fyrsta skipti.
Watkins fékk svo fínt færi á 72. mínútu en skotið frá honum, úr fínni stöðu, var arfaslakt og fór framhjá stönginni.
En þriðja mark Villa kom á endanum og það var algjörlega rándýrt. Duran fékk boltann mjög langt fyrir utan teig og hlóð í skot úr stöðu sem virkaði gjörsamlega vonlaus. En hann hefur líklega aldrei smellhitt boltann jafn vel og í kvöld, því boltinn fór í sveig upp í sammarann vinstra megin — óverjandi. Líklega mark umferðarinnar og örugglega í samkeppni um mark tímabilsins. Pínulítið svona stöngin út dagur fyrir Everton. Talandi um það…
Á 78. mínútu hefði Everton átt að jafna, þegar Calvert-Lewin fékk frábæra stungusendingu inn fyrir vörnina, notaði líkamsstyrkinn til að losa sig auðveldlega við varnarmann Villa, sem lá í grasinu eftir þau viðskipti. Calvert-Lewin náði föstu skoti á markið, sem Martinez, markvörður Villa, kom engum vörnum við, en því miður í neðanverða slána og út aftur. Þar hefði staðan átt að vera jöfn, en lukkan er ekki með okkar mönnum þessa dagana.
Iroegbunam og Ndiaye fóru svo út af og Lindström og Beto inn á.
En það breytti ekki gangi leiksins og annað grátlegt tap, eftir að hafa komist 2-0 yfir, staðreynd.
Einkunnir Sky Sports: Pickford (7), Young (6), Tarkowski (6), Keane (6), Mykolenko (6), Gueye (6), Iroegbunam (6), Harrison (6), McNeil (7), Ndiaye (7), Calvert-Lewin (6). Varamenn: Garner (6), Mangala (6), O’Brien (7).
Sorry en við eigum ekki séns, spái 6-0 fyrir Aston Villa.
Vinnum þetta með einu
Ég trúi varla eigin augum og ætla að njóta á meðan á nefinu stendur.
O jæja, þetta var gaman á meðan það entist. Býst við að flóðgáttirnar opnist núna.
Hvernig er þetta hægt aftur?
Þetta er ekki boðlegt fyrir okkur.
Hæ öll,
Tap í dag eftir fína byrjun. Miðað við síðasta leik þá var þetta svipað. Komast yfir og missa það niður. Mikið er að verða erfitt að horfa á liðið sitt tapa endalaust eftir fína leiki í vor (eða seinni hluta síðasta tímabils) Dominic Calvert var fínn í leiknum og skapaði sér færi en ALLS ekki nógu góður í að nýta færin sín. Reyndar pínu óheppinn að skora ekki þegar boltinn fór í slánna… Þetta virðist vera sagan endalausa en vonandi fer þetta að lagast… ég er ekki alveg nógu sáttur við nýju mennina veit ekki hvað það er en kannski vantar þeim sjálfstraust…. samt gaman að sjá O’Brien koma inná því við þurfum á honum að halda það er klárt. Og náttúrulega Branthwaite, hlakka til þegar hann byrjar.
Everton hlýtur að vera eina liðið í sögunni sem kemst í 2-0 tvo leiki í röð og tapar báðum 3-2. Við hefðum náð í stig ef Keane hefði bara amk reynt að vinna vinnuna sína og skalla frá fyrirgjöfina frá Digne í staðinn fyrir að beygja sig undir boltann og láta þennan fjandans Watkins vaða yfir sig. Nú eða Pickford hefði kannski getað farið upp í fyrirgjöfina til tilbreytingar og amk reynt að kýla boltann frá.
Svo er það alveg merkilegt hvernig sumir leikmenn virðast alltaf skora gegn Everton eins og þessi krakkaskítur Duran, hann skoraði líka gegn Everton í fyrra. Eða þetta með að menn sem ekki hafa skorað í einhvern tíma, hrökkva í gang og skora gegn Everton, eins og Watkins í dag.
Ég get ekki séð neitt gott framundan fyrr en Dyche er farinn, og hann er líklega ekkert á förum fyrr en nýr eigandi tekur við. Vonandi gerist það fljótlega því ef þessi steingervingur heldur áfram með liðið mikið lengur, þá er fallið gulltryggt.
Við getum þá kannski huggað okkur við að við verðum með flottasta völlinn í championship deildinni, svo er líka lægra miðaverð á leikina í henni.🙄
Jæja, ég las einhvers staðar að síðan 2018 hefur vinnungshlutfall hjá dyche í fyrstu fjórum leikjum tímabils verið 1-5-18 sem sagt einn sigur í tuttugu og fjórum leikjum og 6 stig af 72 mögulegum. Hann heldur sig samt ábyggilega bara við sitt þjálfunarplan á undirbúningstímabilinu og breytir engu ekki frekar en að prófa breytingar á liðinu eftir 13 sigurlausa leiki í fyrra. Hann hlýtur að kjósa framsókn því þetta er auðvitað allt að koma
Eiga auðvitað að vera 8 stig enda eins og ég sagði: þetta er allt að koma
Þetta er alveg rétt hjá þér nema það er allt á niðurleið.