Everton – Liverpool 2-0

Mynd: Everton FC.

Þá er komið að stórleik — derby leiknum við Liverpool á heimavelli okkar, Goodison Park, en þetta er 34. umferð beggja liða í ensku.

Hlutirnir gerast hratt í fótbolta. Fyrir örfáum vikum síðar var Liverpool í lykilstöðu á toppi ensku úrvaldsdeildarinnar og í vænlegri stöðu í bæði FA bikarnum og meistaradeildinni. Talað var jafnvel um möguleikann á ‘fairytale ending’ á síðasta tímabili Klopp. Annað kom hins vegar á daginn því apríl-mánuður reyndist þeim sérstaklega erfiður — þétt leikjaplan (6 leikir) með þrjú töp, eitt jafntefli og aðeins tvo sigra (þar af einn á heimavelli gegn botnliðinu). En nú er staðan önnur — þeir eru þeir dottnir út úr FA bikarnum og meistaradeildinni og eru aðeins þriðja líklegasta liðið til að vinna deildina á eftir City og Arsenal. 

Það hefur því verið þungt yfir Liverpool stuðningsmönnum undanfarið en það er að rofa til hjá okkur. Eftir afar mikilvægan sigur Everton á Nottingham Forest geta stuðningsmenn okkar andað léttar og farið að horfa upp á við aftur, enda liðið komið í bestu stöðuna af liðunum fimm á botninum eftir tvo sigra úr síðustu fjórum leikjum, eitt jafntefli og aðeins eitt tap. 

Pressan fyrir stuttu var öll á að Everton næði þremur stigum hvaðan sem mögulega var hægt að krafsa þau til sín en nú er pressan öll á Liverpool sem verður að vinna leikinn til að eiga möguleika á titlinum. Mig grunar að undir niðri örli á kvíða hjá Liverpool stuðningsmönnum að horfa á liðið mæta á Goodison Park og verða að ná þremur stigum, því niðurstaðan á þessum velli undanfarið hefur oft verið jafntefli. Það hjálpar þeim nákvæmlega ekki neitt. 

Uppstillingin: Pickford, Mykolenko, Branthwaite, Tarkowski, Godfrey, Gana, McNeil, Garner, Harrison, Doucouré, Calvert-Lewin.

Varamenn: Virginia, Keane, Young, Hunt, Onana, Gomes, Warrington, Danjuma, Chermiti.

Fjör strax á upphafsmínútunum og algjörlega frábær stemning á pöllunum enda fjörugur fyrri hálfleikur! Doucouré komst snemma í dauðafæri upp við mark Liverpool, en fékk lítinn tíma til að hugsa því boltinn barst óvænt til hans og hann setti boltann framhjá marki í ákjósanlegu færi. Liverpool svöruðu í næstu sókn með fyrirgjöf frá vinstri (frá þeim séð) sem sigldi framhjá marki og öllum leikmönnunum.

Á 6. mínútu gerðist Allison sig sekur um mistök þegar Harrison sendi háan bolta fyrir inn í teig, Calvert-Lewin náði til boltans og komst framhjá Allison sem felldi hann. Augljóst víti en VAR kom Liverpool til bjargar þar sem Calvert-Lewin hafði rangstæður í aðdragandanum. Liverpool stálheppnir þar. En þetta var viðvörunarbjalla sem leikmenn Liverpool hunsuðu.

En fyrst — á 10. mínútu kom Godfrey í veg fyrir mark hinum megin vallar. Salah náði fyrirgjöf fyrir merk af stuttu færi hægra megin í teig (frá þeim séð), framhjá Pickford, og þar voru tveir leikmenn Liverpool tilbúnir að pota inn, en Godfrey var þar fyrstur og náði að hreinsa í horn (sem ekkert kom úr).

Á 13. mínútu fékk Godfrey skallafæri nálægt marki — hálfgert dauðafæri en setti boltann rétt yfir slána. Illa farið með gott færi.

Okkar menn voru minna með boltann í fyrri hálfleik en virkuðu bæði ákafari og einbeittari. Meira svona… tilbúnir í þennan leik, fannst manni. Liverpool hálf þunglamalegir. Idrissa Gana Gueye (minnsti maðurinn á vellinum) meira að segja að vinna skallaeinvígi. Og Jurgen Klopp náttúrulega stöðugt að rífast í eftirlitsdómaranum — enda allt reynt. Stuttu síðar náði Calvert-Lewin frábærum skalla á mark Liverpool og Allison rétt náði að verja af mjög stuttu færi. Aftur voru Liverpool menn stálheppnir.

Og á 20. mínútu náði Everton aftur skalla á mark eftir aukaspyrnu. Í þetta skiptið Tarkowski, en skallinn beint á Allison.

Á 27. mínútu brast loksins stíflan. Everton setti þunga pressu á mark Liverpool og uppskar loksins mark. Það var smá darraðadans í teignum á undan, þmt. skot sem var blokkerað og fór í hælinn á Konate (?) hjá Liverpool og datt vel fyrir Branthwaite sem náði fínu lágu skoti á mark. Blokkerað að hluta til, en skotið svo fast að það fór í sveig í átt að marki, í stöngina og snerist þaðan inn. Calvert-Lewin hjálpaði til við að pota inn, en manni sýndist að boltinn hafi verið kominn yfir línuna þannig að markið skrifaðist á Branthwaite. Það gildir þó einu!

Staðan orðin 1-0 fyrir EVERTON og ekkert minna en Everton átti skilið!

Everton sátu heldur djúpt eftir markið og Liverpool fengu loks færi á 35. mínútu, þegar Liverpool náðu stungusendingu inn fyrir vörnina, sem setti Darwin-Awards Nunez einan á móti markverði, en á þeim bænum eru öll ljós kveikt en enginn heima. Hann setti boltann beint á Pickford úr algjöru dauðafæri. Tíu mínútum síðar fylgdi Diaz í kjölfarið og gerði allt eins og Nunez hafði sýnt honum — skotið beint á Pickford þegar hann hefði getað lagt hann framhjá honum í fjærhornið. Ekki grátum við það.

Salah átti tvö skot á mark á 45. mínútu. Bæði skotin afleit — annað beint í varnarmann (leit út fyrir að fara framhjá) en hitt skotið drap dúfu á bílastæðinu.

6 mínútum bætt við og Klopp hættur að rífast í eftirlitsdómaranum. Loksins orðinn orðlaus.

Þung pressa frá Liverpool síðustu mínúturnar en bitið vantaði í sóknarleik hjá þeim.

1-0 fyrir Everton í hálfleik! Verðskuldað!

Ein breyting á liði Everton í hálfleik, Young kom inn á fyrir Mykolenko sem hafði meiðst í stökk-lendingu í fyrri hálfleik. Afleitar fréttir — enda Mykolenko yfirleitt með Salah í vasanum þegar þeir mætast. Young tók hans stöðu, þó maður hefði kannski átt von á að Godfrey myndi verða færður yfir í vinstri bakvörðinn. Kannski var þetta „calculated risk“ hjá Sean Dyche þar sem Salah hefur ekki verið upp á sitt besta upp á síðkastið og var afleitur í þessum leik. 

En Liverpool fékk fyrsta færi seinni hálfleiks á 48. mínútu. Það var skallafæri frá Van Dyke eftir horn, en hann skallaði boltann bara beint á Pickford. Tack så mycket!

Everton fékk fínt færi á 55. mínútu eftir skyndisókn en skotið frá Gana Gueye laflaust og auðveldlega varið. Salah endurtók leikinn hinum megin, komst í færi og átti afleitt skot sem var svo laust að Pickford þurfti að bíða eftir að rúllaði til sín.

McNeil átti næstu tilraun á 56. mínútu, með skot af löngu færi hægra megin við D-ið og Allison þurfti að taka á honum stóra sínum og slá í horn. Og upp úr horninu kom svo annað mark Everton! McNeil tók hornið frá hægri hornfána, setti háan bolta á fjærstöng og þar stökk Calvert-Lewin upp óvaldaður og skallaði inn. Leikmenn Liverpool algjörlega sofandi í vörninni, allir sem einn, en sérstaklega Trent nokkur Alexander og líka Arnold, sem var eins og hauslaus hæna í dekkuninni. Við tökum markið og það varð allt brjálað á pöllunum! Ef einhver kvíði var hjá stuðningsmönnum Everton fyrir þennan leik (eftir þetta tímabil) þá hvarf hann eins og dögg fyrir sólu! Þetta lið getur unnið hvaða lið sem er á sínum degi, þrátt fyrir afföll og áföll. Oh, hvað mig langaði að vera á pöllunum á þessum tímapunkti.

Þreföld skipting hjá Liverpool: Elliot, Quansah og Endo skipt inn á og sá síðastnefndi var alls ekki tilbúinn í leikinn því sofandaháttur hans og fyrsta snerting í vörninni gaf Everton fínt færi. En sú sókn endaði með skoti frá McNeil (?) sem Liverpool menn rétt náðu að komast fyrir og blokkera.

Á 70. mínútu komst Diaz ansi nálægt því að skora fyrir Liverpool þegar hann náði skoti innan teigs upp í Samúelinn og út aftur. Líklega næst því sem þeir höfðu komist að skora fram að því og var í raun lýsandi fyrir þeirra kvöld. Stöngin út leikur. Nei, þeir mættu bara ofjarli sínum í kvöld — eða eins og þulurinn orðaði það: „It’s magic versus misery“. 

Onana kom inn á fyrir Gana á 75. mínútu. Gana búinn að vera út um allt á velli og orðinn þreyttur en stóð sig mjög vel.

Á 78. mínútu reyndi Mac Alli Ster að fiska Doucouré út af. Frekar aumkunarvert. Lá á jörðinni og læsti leggjunum utan um Doucouré og vældi svo eins og stunginn grís þegar hann fann minnstu snertingu í bakið á sér — en dómarinn sá í gegnum þetta. Liverpool liðið farið að blása sig máttlausa og minna á úlfinn í bókinni um grísina þrjá.  

Tvær skiptingar komu frá Liverpool í kjölfarið. Blásið til sóknar? Nei — tveir varnarmenn inn á. Kannski til að passa upp á að tapið yrði ekki stærra en 2-0? Gomes, sem lítur alltaf út fyrir að vera í dulargervi og Tsimikas, sem lítur aldrei út fyrir að vera varnarmaður, komu inn á fyrir Alexander-Arnold og Robertson, sem höfðu verið afleitir í leiknum.

Elliot átti svo fínt langskot á mark á 90. mínútu fyrir Liverpool en Pickford varði yfir slána í horn — sem ekkert kom úr. 

5 mínútum bætt við. Calvert-Lewin valinn maður leiksins að mati þulanna. Og undir lok leiks náði Salah loksins skot að marki. Fyrsta skipti í leiknum sem hann hitti boltann almennilega. 

2-0 sigur Everton hins vegar staðreynd og ekkert minna en þeir áttu skilið. Það var í raun ekki nema kafli eftir fyrsta markið fram að hálfleik þar sem maður hafði áhyggjur en svo leið það hjá.

Þetta gerist varla mikið sætara — þrjú stig í höfn, sem gulltryggja líklega veru Everton í úrvalsdeildinni að ári og titilvonir Liverpool að engu orðnar. Ágætis kveðjugjöf til Klopp og hans manna, sem hafa virkað hálf bensínlausir undanfarnar vikur.

I’ve never felt more like singing the Blues!

When Everton win, and Liverpool lose,

Oh, Everton — you got me singing the Blues!

Einkunnir Sky Sports: Pickford (9), Godfrey (8), Tarkowski (8), Branthwaite (8), Mykolenko (7), Gueye (8), Garner (7), Doucoure (7), Harrison (8), McNeil (8), Calvert-Lewin (9). Varamenn: Young (7), Onana (6).

Maður leiksins að mati Sky Sports var Dominic Calvert-Lewin.

Ég held að það sé líka alveg þess virði að staldra aðeins við einkunnir Liverpool í leiknum, því að allir leikmenn í byrjunarliðinu hjá Everton enduðu með 6 eða hærra í einkunn. Til samanburðar þá var enginn í byrjunarliði Liverpool sem náði yfir 6 í einkunn:

Alisson (6), Alexander-Arnold (6), Van Dijk (5), Konate (4), Robertson (6), Szoboszlai (5), Jones (5), Mac Allister (6), Diaz (6), Nunez (4), Salah (4). Varamenn: Endo (6), Elliott (6), Quansah (6), Tsimikas (6), Gomez (6).

14 Athugasemdir

  1. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Vonandi verður þetta ekki hræðilegt.

  2. Eirikur skrifar:

    Vona að við föllum ekki of aftarlega og að við notum allar skiptingarnar tímanlega.

  3. Eirikur skrifar:

    Ef að við ætlum að liggja eins aftarlega og í restina á fyrri hálfleik er ekki spurnig hvort heldur hvenær Liverpool skorar.

  4. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Já já já já já já
    Þvílík frammistaða hjá liðinu.
    Frábær sigur.

  5. Jón Ingi Einarsson skrifar:

    Frábær leikur hjá okkar mönnum í kvöld, trúlega búnir að yfirgefa falldrauginn.

  6. Eirikur skrifar:

    Geggjað. Verður gaman að vera í Liverpool næstu daga og á pöllunum næst laugardag.😀

  7. ARIG skrifar:

    Stórkostlegur leikur Everton. Sá besti á tímabilinu. Vörnin stórkostleg. Pickford stórkostlegur og fengu fullt af færum líka.

  8. Gestur skrifar:

    Þetta var alvöru frammistaða og upplegg

  9. Þór skrifar:

    Stórkostlegt!!!

  10. Orri skrifar:

    Þessi sigur er sá sætasti ì vetur.

    • Þór skrifar:

      Sá sætasti í nokkur ár – fullkomin framnistaða hjá liðinu og hjá áhorfendum.

    • Ari S skrifar:

      Já satt segir þú, sætasti sigurinn og kannski sá mikilvægasti? Allavega yndislegur!