Mynd: Everton FC.
Þá var komið að 20. umferð ensku úrvalsdeildarinnar en Everton átti leik við Wolves á þeirra heimavelli í dag.
Uppstillingin: Pickford, Mykolenko, Branthwaite, Tarkowski (fyrirliði), Keane, Patterson, Onana, Garner, McNeil, Harrison, Calvert-Lewin.
Varamenn: Virginía, Godfrey, Coleman, Gomes, Hunt, Dobbin, Chermiti, Danjuma, Beto.
Sem sagt, Beto og Gomes fóru aftur á bekkinn en Calvert-Lewin og Michael Keane komu inn í byrjunarliðið fyrir þá. Þar með þrír miðverðir í byrjunarliðinu, þannig að líkast til myndu Mykolenko og Patterson taka virkan þátt í sóknarleiknum. Hins vegar var Doucouré enn ekki í hóp, en það er það nafn sem maður er farinn að leita fyrst að á leikskýrslunni þegar hún birtist.
Úlfarnir náðu skyndisókn á 6. mínútu eftir smá mistök frá einum af aftasta manni Everton djúpt inni í vallarhelmingi Úlfanna, og Úlfarnir komust þar af leiðandi þrír á einn inn í teig Everton. En Onana gerði gríðarlega vel að taka sprett til baka til að geta lokað á Hwang, sem komst framhjá Pickford og þar með í dauðafæri, en Onana náði að þvinga hann í of þrönga stöðu til að hann vildi skjóta og tók því snúning í staðinn, til að reyna að leika á Onana, sem sá við honum og blokkera skotið. Þar hefði staðan verið 1-0 ef ekki væri fyrir Onana.
Úlfarnir reyndu svo skot af löngu færi fyrir framan mitt markið, en boltinn fór rétt framhjá hægri stöng. Pickford hafði nægar áhyggjur til að kasta sér til að reyna að verja en það verður að þykja ólíklegt að hann hefði ekki verið með þetta ef boltinn hefði ratað á markið.
Á 25. mínútu skoruðu Úlfarnir eftir einhvern darraðadans inni í teig Everton. Sá ekki almennilega hvað gerðist, sýndist Pickford ná að blokkera eitt skot og hvort hann náði öðru líka eða hvort varnarmaður gerði það, en þeir náðu að lokum að pota boltanum inn. Staðan orðin 1-0 fyrir Úlfana.
Calvert-Lewin komst í færi strax hinum megin á 26. mínútu, komst inn í teig, aftur fyrir varnarlínuna, eftir fína sendingu frá McNeil, og Calvert-Lewin komst þar með nálægt marki við hægri stöng. Markvörður kom út á móti en Calvert-Lewin náði að koma boltanum yfir hann en boltinn skoppaði því miður fram hjá fjærstönginni og enginn þar til að pota inn í autt netið.
Á 37. mínútu virtist Onana vera að fara út af vegna meiðsla. Hann hafði náð að harka af sér tæklingu frá leikmanni Úlfanna en lagðist í grasið nokkru síðar. Gomes byrjaði að hita upp en Onana kom sem betur fer aftur inn á.
Úlfarnir beittari í fyrri hálfleik og hlutirnir alls ekki að smella í framlínu Everton í öllum fyrri hálfleiknum. Of margar feilsendingar þegar menn voru að komast í ákjósanlegar stöður eða þá að tímasetningar á sendingum voru aðeins eftir á, þannig að rangstaða reyndist niðurstaðan.
1-0 í hálfleik.
Smá lífsmark með Everton í upphafi seinni hálfleiks, en svo fjaraði það út og færin létu á sér standa. Eitt kom þó á 48. mínútu þegar McNeil (?) fékk skotfæri utan teigs — en skotið lélegt. Boltinn barst þó inn í teig til Branthwaite, sem einnig átti slakt skot að marki, en boltinn barst þá til Tarkowski, sem náði einnig skoti, en það var blokkerað að andliti varnarmanns.
En Úlfarnir skoruðu hinum megin. Komust inn fyrir varnarlínuna hægra megin og sendu frábæran bolta meðfram jörðinni, fyrir markið. Þar missti Tarkowski manninn frá sér, og sá þurfti bara að pota í autt netið. 2-0 fyrir Úlfana og þetta reyndist aðeins annað skot Úlfanna sem hafði ratað á rammann og bæði enduðu þau í netinu. Everton með einhverjar tilraunir, en ekkert sem rataði á rammann.
Pickford kom okkar mönnum til bjargar á 60. mínútu þegar Hwang komst einn inn fyrir eftir varnarmistök miðvarða okkar, en Pickford varði skotið í horn þegar það leit út fyrir að vera auðveldara að skora. Geggjuð varsla, en það framlengdi þó bara eymdina, því Úlfarnir skoruðu aftur stuttu síðar. Boltinn inn í teig frá vinstri kanti (frá þeim séð) sem Dawson rétt svo náði að pota í til að breyta stefnunni og setja hann þannig í hornið niðri vinstra megin. 3-0 fyrir Úlfana.
Gomes og Coleman komu þá inn á fyrir Keane og Patterson. Breytt leikaðferð, en líklega allt of seint.
McNeil náði svo geggjuðu skoti langt utan teigs á 65. mínútu, þegar boltinn féll vel fyrir hann. Boltinn virtist ætla í sveig upp í samskeytin vinstra megin, en því miður í tréverkið og út. Hefði verið geggjað mark.
Gomes hjá Úlfunum komst í færi stuttu síðar, inni í teig hægra megin, en skaut beint á Pickford. Hefði getað gert mun betur þar.
Á 70. mínútu þurfti Pickford aftur að taka á honum stóra sínum, eftir að Everton hafði sett pressu á vörn Úlfanna en misst boltann. Ein löng sending fram á fremsta mann Úlfanna, sem komst inn fyrir vörnina og ætlaði að reyna að setja boltann í hliðarnetið vinstra megin, en Pickford sá við honum með geggjaðri vörlsu.
Þeir endurtóku leikinn stuttu síðar og náðu í þetta skiptið að koma boltanum framhjá Pickford, en sem betur fer dæmdir rangstæðir í aðdragandanum.
Tvöföld skipting hjá Everton á 74. mínútu, þegar Beto og Danjuma komu inn á fyrir Calvert-Lewin og McNeil.
Níu mínútum bætt við og maður stóð sig að því að andvarpa yfir því hvað það væri mikið, enda gaf frammistaða Everton í leiknum ekki tilefni til bjartsýni. Allt annað að sjá til liðsins en í undanförnum leikjum, gegn Tottenham og Man City.
Úlfarnir komu svo boltanum í netið í enn eitt skiptið á 95. mínútu en Hwang réttilega dæmdur rangstæður í aðdragandanum.
Einkunnir Sky Sports: Pickford (6), Patterson (6), Mykolenko (6), Tarkowski (4), Keane (4), Branthwaite (6), Onana (6), Garner (6), Harrison (6), McNeil (6), Calvert-Lewin (5). Varamenn: Gomes (6), Coleman (6).
Það þarf að gera breytingar ef að við eigum að fá eitthvað út úr þessum leik. Óþolandi að vera með dómara sem gefur aukaspynur þegar menn henda sér niður án snertingar. Og ég sé ekki DCL skora því miður.
Mér finnst leikmenn Everton vera hálf sofandi í leiknum. Og svo spilar Wolves ekki heldur neinn svaka sóknarbolta. Ég er að hugsa um að leggja mig í hálfleik og sjá hvort eitthvað breytist ekki.
Þessi fyrri hálfleikur var hreinasta hörmung. Ég vil sjá Gomes koma inn fyrir Keane í hálfleik og jafnvel Danjuma fyrri Harrison því við ráðum ekkert við þá eins og er.
Það lekur af mönnum drullan, meiri ósköpin
Eftir hverju er Dyche að bíða?
Veit það núna 0-3
Sorry 3-0 átti það að vera 😞
Ég er orðlaus. Hef ekkert meira að segja.
Þetta er mikið miðlungs lið og án Dacoure með nánast enga ógn fram á við.
Langur vetur í vændum…