Notice: Function _load_textdomain_just_in_time was called incorrectly. Translation loading for the html5reset domain was triggered too early. This is usually an indicator for some code in the plugin or theme running too early. Translations should be loaded at the init action or later. Vinsamlegast skoðaðu Aflúsun í WordPress fyrir frekari upplýsingar. (Þessum skilaboðum var bætt við í útgáfu 6.7.0.) in /var/www/virtual/everton.is/htdocs/wp-includes/functions.php on line 6114
Everton – Aston Villa 0-2 - Everton.is

Everton – Aston Villa 0-2

Mynd: Everton FC.

Þá er komið að 24. umferðinni í ensku Úrvalsdeildinni, en það er leikur við Aston Villa kl 15:00 á Goodison Park. Hvert stig er dýrmætt í þessari stöðu sem liðið er í og eftir tvo sigurleiki í röð á heimavelli (Arsenal og Leeds) fór maður að horfa pínu á leikjaplanið sem eftir er, og (verð ég að viðurkenna) örvænta smá, því að eftir Villa leikinn tekur við ansi strembið plan á heimavelli — allt leikir við lið í efri hluta deildar: Brentford (9. sæti), Tottenham (4.), Fulham (6.), Newcastle (5.), Man City (2.). Nema lokaleikurinn, reyndar, sem er við Bournemouth (17. sæti) og er líklega leikur upp á líf og dauða fyrir bæði lið. 

Það eru 15 leikir eftir og Everton er með 21 stig en þarf líklega 40 til að tryggja áframhaldandi veru í Úrvalsdeildinni. Það gerir 6 sigra og eitt jafntefli (eða 5 sigra og fjögur jafntefli). Það hefur reynst erfitt að treysta á útivallarformið, þannig að líklega þurfa meirihlutar þessara sigra að nást á heimavelli, með dyggum stuðningi áhorfenda. Villa, Brentford, Bournemouth eru líklega auðveldasta leiðin að því markmiði, en það er erfiðara að sjá hvaðan hin stigin eiga að koma, enda allt leikir við lið í bullandi baráttu um Meistaradeildarsæti. En það getur allt gerst á heimavelli, eins og við sáum gegn Arsenal og vonandi halda „Dyche áhrifin“ áfram sem lengst.  

Uppstillingin: Pickford, Mykolenko, Tarkowski, Coady, Coleman (fyrirliði), Gana, McNeil, Onana, Doucouré, Iwobi, Maupay.

Varamenn: Begovic, Vinagre, Holgate, Keane, Mina, Godfrey, Davies, Gray, Simms.

Sýnist þetta vera sama uppstilling og í síðasta leik. Því miður er Calvert-Lewin enn ekki í hóp, þannig að Maupay leiðir línuna. Þrír miðverðir á bekknum en einu framherjarnir á bekknum eru Gray og ungliðinn Simms, sem gefur ekki marga valkosti ef stokka þarf upp í sókninni. Sjáum hvað setur!

Opinn, hraður og skemmtilegur fyrri hálfleikur og boltinn svolítið að ganga endanna á milli. Gott flæði í leiknum.

Everton átti fyrsta færi leiksins, á 7. mínútu, þegar Maupay og McNeil náðu vel saman og sá síðarnefndi sendi lágan bolta fyrir mark frá vinstri. Þar var Iwobi mættur, en náði ekki almennilegu skoti og markvörður varði. 

Villa menn svöruðu á 9. mínútu með háum bolta yfir varnarlínuna þar sem Ollie Watkins var mættur í hlaupið og komst framhjá Coady. Náði þar með að komast einn á móti Pickford en Pickford sá við honum og varði glæsilega. Mjög mikilvæg varsla. Eina færi Villa í fyrri hálfleik.

Villa menn voru annars óþægilega sterkir á fyrsta korterinu og þulirnir notuðu tækifærið og bentu á hversu erfitt Everton hafi átt með að sigra Villa í undanförnum leikjum. 

En Everton náði ágætis tökum á leiknum í kjölfarið og fóru að skapa usla í vörn Villa. Everton fékk til dæmis horn vinstra megin á 29. mínútu, sem Iwobi tók. Hann sendi háan bolta fyrir mark sem Maupay skallaði rétt framhjá — Tarkowski ekki langt frá því að vera mættur til að pota á fjærstöng, en var aðeins of seinn.

Á 33. mínútu náði Mykolenko frábærri sendingu fyrir mark frá vinstri, beint á kollinn á Onana sem náði flottum skalla, rétt undir slána, en Martinez í marki Villa varði vel í horn.

Rétt fyrir lok fyrri hálfleiks sá Iwobi sprettinn hjá McNeil gegnum vörn Villa og sendi háan bolta á hann. Hann komst einn á móti markverði en varnarmenn náðu að hlaupa hann uppi á síðustu stundu og loka á skotið. McNeil sendi því á Maupay sem var í ágætis færi en hann skaut beint á markvörð. McNeil með flottan leik í fyrri hálfleik og var mjög líflegur.

0-0 í hálfleik.

Á 54. mínútu skall aldeilis hurð nærri hælum hjá marki Villa. Everton fékk aukaspyrnu sem leiddi til þess að Iwobi náði skoti á mark, utarlega hægra megin í teig. Skotið var fast en slakt og stefndi vel framhjá marki en vildi svo til að það fór í bakið á varnarmann Villa sem lá í grasinu og þaðan í sveig framhjá markverði. Maupay mættur til að reyna að böðla boltanum framhjá markverði og tókst það, en Mings náði að bjarga á línu. Þar hefði Everton átt að komast yfir. 

Villa menn svöruðu í sömu mynt strax í næstu sókn þegar Ollie Wattkins fékk frían skalla eftir fyrirgjöf frá vinstri. Skallaði í jörðina og í átt að nærstöng, en Pickford náði frábærri vörslu með fingurgómunum í innanverða stöng og út aftur. Tarkowski mættur til að hreinsa.

En á 62. mínútu fengu Villa menn víti þegar Idrissa Gueye felldi sóknarmann Villa inni í teig. Dómarinn ekki í neinum vafa. Ollie Watkins á punktinn og skoraði af miklu öryggi. Fimmti leikurinn í röð sem hann skorar í. 0-1 fyrir Aston Villa.

Iwobi fór út af fyrir Gray á 70. mínútu og Maupay út af fyrir Simms á 76. mínútu og Simms fékk færi innan við mínútu síðar þegar boltinn barst óvænt til hans inni í teig. Skotið hins vegar ónákvæmt, en hann hafði fengið lítinn tíma til að athafna sig. 

Everton jók pressuna eftir því sem leið á, eins og við var að búast, en alltaf hætta á skyndisóknum frá Villa. Í einni slíkri náðu Villa menn að komast þrír á þrjá, þegar Buendia fékk boltann vinstra megin í teig. Hann sigldi allt of auðveldlega framhjá Coady og komst nálægt stöng vinstra megin og skoraði með föstu skoti framhjá Pickford á nærstöng. 0-2. Game over.

Davies inn á fyrir Onana á 83. mínútu en Villa menn náðu að loka vel á þetta og Everton fékk ekki gott færi í lokin til að minnka muninn. 

Fyrsta tap Dyche með Everton á heimavelli staðreynd.

Einkunnir Sky Sports: Pickford (6), Coleman (5), Mina (5), Coady (6), Mykolenko (6), Doucoure (5), Gueye (5), Onana (6), Iwobi (6), Maupay (6), McNeil (6). Varamenn: Gray (6), Simms (6), Davies (n/a).

6 Athugasemdir

  1. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Þetta verður bölvað bras. Everton gengur yfirleitt illa á móti Aston Villa og ég býst alls ekki við að það breytist í dag. Þeir hafa líka þennann þurs Mings, sem kemst alltaf upp með allskonar skít á móti okkur og það breytist örugglega ekki heldur í dag.
    Miðað við hvernig okkar mönnum hefur gengið gegn Villa síðustu ár þá er jafntefli það besta sem við getum vonast eftir.
    Vonum bara það besta.

  2. Finnur skrifar:

    Fyrri hálfleikur lofar allavega góðu…

  3. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Game over

  4. Eirikur skrifar:

    Sóknartilburðir eru skelfilegir og enginn skapandi leikmaður til staðar. Sorry við föllum, 16 mörk í vetur eru bara ekki til útflutnings.

  5. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Djöfull hvað ég þoli ekki Aston Villa, þetta var fjórða tapið gegn þeim á Goodison í röð.
    Það sorglega er að Everton var búið að fá færi til að skora amk eitt mark áður en Gana fékk heilafretið og gaf víti, en því miður þá var það Maupay sem fékk færið og eins og allir vita þá skorar hann ekki. Ef við hefðum nú bara keypt framherja í janúar þá hefði þetta nú kannski gengið betur en við getum þakkað þessu fávitapakki sem rekur félagið, að ógleymdum Moshiri að það var ekki gert og nú er liðið aftur komið í fallsæti og tveir erfiðir útileikir framundan.
    Annars fannst mér Evertonliðið spila þokkalega,sérstaklega í fyrri hálfleik en sóknarleikurinn er náttúrulega bara sorglega lélegur og um leið og liðið lendir undir þá er jafntefli það besta sem hægt er að búast við, og það gekk bara ekki eftir í dag.