Mynd: Everton FC.
Uppstillingin á liðinu í síðasta leik olli mér nokkrum heilabrotum, enda var þar að finna hvorki fleiri né færri en 6 varnarmenn í byrjunarliðinu, á móti liði í botnbaráttunni. Í einhverja leiki í röð höfum við jafnframt séð 6-8 ungliða á bekknum og í síðasta leik náðist ekki einu sinni að fylla varamannabekkinn.
Ég fór því á stúfana og kannaði málið og það er skemmst frá því að segja að skv. premierinjuries.com er Everton með 10 leikmenn á meiðslalistanum (!) í augnablikinu, en það mun vera lengsti meiðslalisti allra liða í Úrvalsdeildinni í augnablikinu. Lítum aðeins nánar á hvernig þessi meiðsli hafa dreifst yfir hópinn.
Skv. Everton síðunni eru 32 leikmenn taldir til hóps leikmanna aðal-liðsins (myndir af þeim hér að neðan), en þar af eru 8 leikmenn í langtímaláni annars staðar. Carlo Ancelotti hefur því yfir 24ra leikmannahópi að ráða, sem má telja nokkuð hefðbundin stærð á aðalliðshópi í Úrvalsdeildinni, allavega hjá flestum liðum. Lítum nánar á hópinn…
Í markvarða-deildinni hefur undanfarið verið aðeins einn heill „senior“ leikmaður (Olsen) sem Ancelotti hefur um að velja, en Olsen hefur verið að leysa af þar sem aðalmarkvörður liðsins (Pickford) er búinn að vera á meiðslalistanum um nokkurt skeið. Olsen var reyndar sjálfur frá um tíma líka og því var ungliðinn Virgínia á milli stanganna, til dæmis þegar Everton mætti City í (tap)leik í FA bikarnum á dögunum.
Þegar varnarlínan er skoðuð sést að ástandið er einna best þar, því aðeins einn varnarmaður er á meiðslalistanum (Mina) og því fimm „senior“ leikmenn sem eru heilir, plús einn ungliði. Ástandið á miðjunni er hins vegar algjörlega skelfilegt…
Þetta er náttúrulega svakalegt þegar maður hugsar um það. Báðir varnarsinnuðu miðjumennirnir (Allan og Gbamin) hafa verið lengi frá og að auki var Doucouré að meiðast til loka tímabils. Gomes meiddist nýlega og Delph (sem tæknilega séð er á jaðrinum) er meiddur einnig. Besic kom mér á óvart — ég vissi ekki að hann væri ennþá í aðalliðshópnum (hvað þá að hann væri heill) en ég veit ekki alveg hvort maður á að telja hann með, blessaðan kallinn. Hann hefur ekkert spilað með Everton síðustu þrjú tímabilin (farið út á láni eftir að hafa meiðst tvö undirbúningstímabil í röð, þar af síðara tímabilið mjög illa, en þá sleit hann ACL liðbönd). Hans samningur rennur út í sumar og væntanlega hefur hann ekki viljað fara annað á láni. Það má því segja að Ancelotti hafi aðeins tvo leikmenn að velja úr hér, Gylfa og Tom Davies. Skoðum þá framherjana…
Eins og sjá má er helmingur framherjanna á meiðslalistanum, þar af báðir eiginlegu framherjarnir í hópnum (Calvert-Lewin og King). Richarlison, þó segja megi að hann sé kannski kantmaður að upplagi, hefur því verið sjálfvalinn á toppinn undanfarið. James Rodriguez hefur jafnframt aðeins spilað 2/3 leikja Everton vegna meiðsla en er sem betur fer ekki á meiðslalistanum í augnablikinu.
Það má eiginlega ganga skrefinu lengar og segja að það sé ekki bara Richarlison sem sé sjálfvalinn, því það gildir eiginlega um allt liðið í augnablikinu. Það eru ekki nema 12 „senior“ leikmenn í aðalliðinu sem hafa verið listaðir heilir í vikunni — og þá er ég að telja Besic með.
Þetta er því skýringin á þessum undarlegum uppstillingum sem við höfum séð undanfarið. Það er ekkert skrýtið þó að sveigjanleikann, til að takast á við ólíka andstæðinga, vanti. Það er verið að keyra á akkúrat helmingi hópsins og eiginlega ekkert hægt að hvíla þá menn sem á þurfa að halda.
En, sem betur fer horfir nú aðeins til betri vegar, því Ancelotti tilkynnti fyrir stuttu að þó að Calvert-Lewin verði frá eitthvað lengur þá megi búast við að Pickford, Allan, Gomes og King ættu að geta tekið þátt í leiknum gegn Tottenham á morgun. Vonandi hefur það eitthvað að segja.
Þetta er langur listi en það sem mér finnst verst er að það eru bara þrír af þessum leikmönnum sem við söknum. Allan, Doucoure og DCL, hinir skipta okkur því miður ekki sérlega miklu máli.
Ingvar þú gleymir einum Yerri Mina frábær varnarmaður og Everton getur alltaf notað Holgate og jafnvel Dodfrey i stöðu varnarsinnaðan miðjumanns en Ingvar ég er sammála með hina sem allir mega fara nema ungu leikmennirnir. Samt hef ég miklar efasemdir um Allan alltaf meiddur en góður leikmaður. Núna er tækifærið að setja ungu leikmennina inná í síðustu leikjunum Everton er ekki líklegt að ná topp 6 eins og þeir eru spila undanfarið.