Notice: Function _load_textdomain_just_in_time was called incorrectly. Translation loading for the html5reset domain was triggered too early. This is usually an indicator for some code in the plugin or theme running too early. Translations should be loaded at the init action or later. Vinsamlegast skoðaðu Aflúsun í WordPress fyrir frekari upplýsingar. (Þessum skilaboðum var bætt við í útgáfu 6.7.0.) in /var/www/virtual/everton.is/htdocs/wp-includes/functions.php on line 6114
Everton – Sheffield Wednesday 3-0 (FA bikar) - Everton.is

Everton – Sheffield Wednesday 3-0 (FA bikar)

Mynd: Everton FC.

Mótherjar Everton í fjórðu umferð FA bikarsins voru hið fornfræga lið Sheffield Wednesday, sem um þessar mundir eru að berjast fyrir lífi sínu í ensku B deildinni (Championship deildinni svokölluðu). Þeir voru í því augnabliki í næstneðsta sæti, aðeins 6 stigum frá fallsæti — en með tvo leiki til góða og höfðu unnið þrjá af síðustu fjórum leikjum sínum. Þeir voru því sýnd veiði en ekki gefin.

Uppstillingin: Olsen, Godfrey, Holgate, Mina, Coleman (fyrirliði), Gomes, Doucouré, Gylfi, Rodriguez, Richarlison, Calvert-Lewin.

Varamenn: Pickford, Lössl, Kenny, Kean, Bernard, Gordon, Davies, Small, Onyango.

Sem sagt, Pickford hvíldur en annars stillti Ancelotti upp nokkuð sterku liði. Calvert-Lewin kom aftur inn í liðið eftir meiðsli (mjög kærkomið!!). Ekki kannski sterkasti bekkurinn sem maður hefur séð á tímabilinu: Tveir markverðir og tveir kjúklingar á bekknum (Small og Onyango). Held að Small sé vinstri bakvörður og Onyango sé miðjumaður.

Sheffield Wednesday menn mættu til leiks með skottið upprétt og eyrun spennt og uppskáru fyrsta færið — skot af löngu færi sem Olsen, í marki Everton, átti ekki í mjög miklum vandræðum með. Fyrri hálfleikur ansi mjög fjörugur og skemmtilegur og Sheffield menn ekki mikið að pressa, sem gaf Everton heilmikið pláss á miðjunni. Everton mikið meira með boltann (70% lungað úr fyrri hálfleik) og fengu mikið betri færi í fyrri hálfleik. 

Talandi um færi þá átti Everton skallafæri á 7. mínútu, eftir háa sendingu frá hægri frá Coleman. Boltinn fór beint á Richarlison sem náði skalla á mark en markvörður varði í slána og yfir markið. Stuttu síðar átti Richarlison flotta fyrirgjöf frá vinstri sem Calvert-Lewin var ekki langt frá því að náði til og setja í netið.

Richarlison skoraði svo mark á 12. mínútu eftir frábært hlaup upp völlinn og geggjaða stungusendingu frá James Rodriguez. En því miður var Richarlison dæmdur hárfínt rangstæður. Endursýning sýndi ekki nægilega vel hvort það væri rétt — ekkert VAR í gangi í kvöld. Hefði verið gaman að sjá niðurstöðuna úr því.

Sheffield Wednesday menn áttu skot á rammann á 14. mínútu, innan teigs vinstra megin (frá þeim séð) en af nokkru löngu færi og því ekkert vandamál fyrir Olsen.

Everton átti mjög flotta sókn á 17. mínútu. Þræddu sig í gegnum vörnina með flottum, stuttum og hröðum sendingum sem létu varnarmenn Sheffield Wednesday líta út eins og umferðarkeilur á vellinum. Allir þessir þríhyrningarnir enduðu svo með skoti frá Calvert-Lewin á mark en skotið varið.

Everton komst loks yfir á 30. mínútu eftir flottan undirbúning frá André Gomes, sem atti kappi við varnarmann inni í teig vinstra megin og komst upp að endalínu. Þaðan sendi hann lágan bolta fyrir mark þar sem Calvert-Lewin lúrði á fjærstöng og skriðtæklaði boltann upp í þakið á markinu. Staðan orðin 1-0 fyrir Everton!

Gylfi átti svo flotta sendingu frá hægri inn í teig á 33. mínútu en Calvert-Lewin, upp við mark, náði í þetta skiptið ekki að stýra boltanum í netið. Örskömmu síðar fékk Gylfi sjálfur skotfæri innan teigs, eftir stutta sendingu innan teigs frá James Rodriguez. Gylfi hótaði skoti/sendingu en tók svo í staðinn netta gabbhreyfingu á varnarmann og kom sér þar með í skotfæri en því miður framhjá marki.

Coleman átti flotta fyrirgjöf fyrir mark frá hægri, á Richarlison sem kom á hlaupinu en var aðeins of fljótur á sér og boltinn endaði fyrir aftan hann í ákjósanlegu færi alveg upp við mark.

Staðan 1-0 fyrir Everton í hálfleik — vel verðskulduð forysta.

Godfrey fékk ágætt skallafæri á upphafsmínútum seinni hálfleiks, eftir aukaspyrnu frá vinstri frá James Rodriguez, en Godfrey, á fjærstöng, náði ekki að stýra boltanum í netið. Örskömmu síðar setti Richarlison Calvert-Lewin inn fyrir hægra megin með fínni sendingu. Calvert-Levin gerði vel og náði fínu skoti á mark, upp við samskeytin hægra megin (á nærstöng) en markvörður varði í horn (sem ekkert kom svo úr).

Mark Everton lá í loftinu frá upphafi seinni hálfleiks. Gylfi komst í skotfæri innan teigs sem Sheffield Wednesday menn blokkeruðu í horn. Gylfi tók hornið sjálfur, beint á pönnuna á Richarlison sem fékk óáreittur að skalla inn. Staðan þar með orðin 2-0 fyrir Everton!

Markvörður Sheffield bjargaði þeim með glæsilegum hætti þegar Rodriguez og Richarlison náðu vel saman — Rodriguez setti Richarlison inn fyrir vinstra megin með stundusendingu og Richarlison hefði sett hann í innanvert hliðarnetið hægra megin, ef markvörður hefði ekki náð fingurgómum í boltann og varið í horn. Rodriguez tók hornið og sendi háan bolta fyrir þar sem Mina stökk manna hæst og skallaði inn. 3-0 fyrir Everton! Sheffield menn örugglega orðnir þreyttir á skallamörkum úr hornspyrnum á þeim tímapunkti.

Nokkrum mínútum síðar björguðu Sheffield Wednesday menn á línu eftir stungusendingu frá Rodriguez og vippu frá Calvert-Lewin yfir markvörð.

Everton með algjöra yfirburði í leiknum og Rodriguez að raða inn lykilsendingum sem hefðu auðveldlega geta breyst í stoðsendingar. Gylfi var svo sjálfur ekki langt frá því að ná annarri stoðsendinu á Calvert-Lewin á 65. mínútu en fyrirgjöfin frá vinstri of föst þar sem Calvert-Lewin var mættur aftur á fjærstöng.

Bernard kom svo inn á fyrir Calvert-Lewin á 67. mínútu. 

Sheffield menn áttu skotfæri úr aukaspyrnu á 72. mínútu en beint á Olsen. Þeir áttu svo skot innan teigs sem var vel blokkerað af Holgate. Ekki mikil hætta af framlínu þeirra í seinni hálfleik.

Richarlison og Godfrey var skipt út af fyrir Gordon og Jonjoe Kenny á 75. mínútu. Tíu mínútum síðar gerði Ancelotti svo aftur tvöfalda skiptingu — enda sigurinn í höfn og tími til að hvíla lykilmenn og leyfa ungliðum að spreyta sig. Hinn 16 ára gamli Thierry Small (vinstri bakvörður) og hinn 17 ára Tyler Onyango (og Fellaini look-a-like) komu því inn á fyrir Gomez og Rodriguez. Small þar með yngsti leikmaðurinn til að spila í aðalliði Everton (yngri en Jose Baxter var á sínum tíma). 

En engin færi litu dagsins ljós í lokin og Everton því komið í 5. umferð FA bikarsins og mæta Tottenham/Wycombe á heimavelli. Ekki er búið að staðfesta leiktíma (enda fer það eftir því hvaða liði Everton mætir), en líklegt er að það verði eftir kvöldmat á miðvikudegi 10. feb eins og restin af leikjunum í þeirri umferð.

Þulirnir völdu James Rodriguez mann leiksins og það er erfitt að vera ósammála því, þó fleiri hafi getað gert tilkall til þess heiðurs.

Drátturinn í heild sinni fyrir 5. umferð FA bikarsins er eftirfarandi (deild í sviga):

EVERTON – Tottenham(1)/Wycombe(2)
Barnsley (2) – Chelsea (1)
Burnley (1) –  Bournemouth (2)/Crawley Town (4)
Leicester City (1) – Brighton & Hove Albion (1)
Manchester United (1) – West Ham United (1)
Sheffield United (1) – Bristol City (2)
Swansea City (2) – Manchester City (1)
Wolverhampton Wanderers (1) – Southampton (1)

3 Athugasemdir

  1. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Miðað við fyrri hálfleik þá væri það algjör skandall ef Everton fer ekki áfram.

  2. Ari G skrifar:

    Flottur leikur hjá Everton allgjörir yfirburðir. Erfiður leikur næsta miðvikudag eins gott að standa sig þá gegn geysisterku liði Leicester.

  3. þorri skrifar:

    Sælir félagar þetta var algjörsnild þessi leikur.Hann var vel spilaður og bara frábær og æðislegur sigur,og bíð spentur eftir leiknum á móti Leste. Þeir voru allir góðir hjá okkar mönum