Mynd: Everton FC.
Fyrsti leikur Everton í Dresden Cup í kvöld, en það er fjögurra liða alþjóðlegt mót, sem er með svolítið óvenjulegu riðla-fyrirkomulagi því að eitt stig er gefið fyrir hvert mark (einnig í tapi) fyrir utan þessi hefðbundin þrjú stig fyrir sigur og eitt fyrir jafntefli. Leikið er til sigurs og tekur við vítaspyrnukeppni við ef framlenging nægir ekki til að skilja liðin að. Þess má geta að í hinum leiknum í dag mættust Real Betis og Werder Bremen og Real Betis vann þann leik 1-0 þannig að Real Betis er með fjögur stig og Werder Bremen ekkert.
Nokkuð hefðbundin uppstilling: Steckelenburg, Baines, Funes Mori, Stones og Coleman allir í sínum venjulegu stöðum. Mirallas og Lennon á köntunum á miðjunni sitt hvoru megin við Gibson og Davies á miðjunni. Barkley í holunni og Deulofeu frammi. Varamenn: Joel, Hewelt, Holgate, Galloway, Oviedo, Barry, McCarthy, Besic, Cleverley, Dowell, Kone, Lukaku.
Róleg byrjun á leiknum hvað færi varðar. Deulofeu átti það fyrsta á 10. mínútu þegar hann komst einn upp að marki en skaut í stöng úr þröngu færi. Hafði fengið boltann óvænt eftir mistök hjá varnarmanni sem virtist ætla að komast inn í sendingu Funes Mori fram á Deulofeu en mistókst.
Það kom í hlut Dresden á 14. mínútu að skora fyrst eftir stungusendingu inn fyrir vörnina. Coleman mat staðsetningu Stekelenburg vitlaust — hélt hann gæti bara látið hann fara en boltinn barst á vinstri kantmann Dresden sem gaf fyrir og Hauptmann potaði inn. 1-0 Dymamo.
Deulofeu var næstum búinn að jafna þegar hann lék á tvo varnarmenn Dresden og komst upp einn á móti markverði en markvörður varði glæsilega frá honum í horn. Stones var ekki langt frá því að skora með skalla úr horninu (boltinn rétt yfir) og stuttu síðar var Deulofeo næstum búinn að ná að blokkera hreinsun frá markverði Dynamo í netið hjá þeim.
Everton jafnaði þó úr glæsilegri aukaspyrnu frá Deulofeu sem hann sótti sjálfur. Boltinn í sveig yfir varnarmúrinn og í slána og niður og inn. Mjög vel gert hjá Deulofeu og afar gaman að sjá að Everton á greinilega fleiri aukaspyrnusérfræðinga en bara Baines og Mirallas. 🙂
1-1 í hálfleik.
Ein breyting í hálfleik á liði Everton: Besic skipt inn á fyrir Tom Davies.
Líkt og í fyrri hálfleik létu færin á sér standa til að byrja með — alveg þangað til á 58. mínútu þegar Barkley setti Deulofeu inn fyrir vörnina og Deulofeu reyndi að launa honum greiðann með því að senda háa fyrirgjöf til baka á hann og skapa þannig dauðafæri en Barkley náði ekki að afgreiða boltann í netið. Boltinn aðeins of langt frá honum.
Deulofeu komst í frábært færi á 63. mínútu þegar hann komst enn á ný upp að marki með aðeins markvörð fyrir framan sig en skaut rétt framhjá fjærstöng. Hefði átt að gera betur þar.
Enda refsuðu Dresden menn Everton og það með glæsimarki sem reyndar var smá heppnisstimpill á því sóknarmaður Dresden, Testroet, skoraði mark upp úr eiginlega engu eftir að boltinn breytti um stefnu af Stones (skv. þuli — erfitt að sjá). Testroet hafði fengið boltann á vinstri kanti, tók hann í átt að vítateig og náði alveg svaðalegu langskoti sem fór stöngina inn. 2-1 Dresden.
Barkley og Stones var svo skipt út af á 69. mínútu fyrir Kieran Dowell og Mason Holgate og Dowell var næstum búinn að jafna strax þegar hann fékk frábæra sendingu fyrir mark frá Coleman en skallaði framhjá fjærstöng.
Deulofeu hafði verið þyrnir í síðu markvarðar Dresden allan leik og var það enn einu sinni á 75. mínútu þegar hann var næstum búinn að stela boltanum af tánum á markverði og pota boltanum í netið þegar markvörður reyndi að hreinsa út úr teig. Spurning um nokkra cm og þetta hefði verið mark. Markvörður mjög heppinn.
Dresden voru líka mjög heppnir þegar Deulofeu komst enn einu sinni einn á móti markverði eftir að hafa farið illa með varnarmenn Dresden en skotið beint í markvörð.
Þetta var síðasta færi Everton í leiknum og niðurstaðan 2-1 sigur Dresden.
Comments are closed.