Mynd: Everton FC.
Everton á leik við West Brom á laugardaginn kl. 15:00 í 26. umferð ensku deildarinnar. Enn eru 13 leikir eftir og þar með 39 stig að spila fyrir og eftir þrjá sannfærandi sigurleiki í röð verður maður að viðurkenna að maður er aftur farinn að horfa upp töfluna. Europa League sæti er aftur að verða raunhæfur möguleiki og „aðeins“ 12 stig í fjórða sætið, sem verður reyndar að teljast heldur ólíklegra takmark — nema þetta haldi áfram að falla með okkar mönnum eins og verið hefur.
Það kemur vonandi til með að hjálpa okkar mönnum á laugardaginn að West Brom léku endurtekin FA bikarleik sinn í miðri viku (120 mínútur og vítaspyrnukeppni) en okkar menn á móti eru úthvíldir. West Brom tókst nefnilega ekki að afgreiða C-deildarlið Peterborough fyrr en í vítaspyrnukeppni í endurteknum leik og ef horft er framhjá FA bikarsigri á B-deildarliði Bristol City var það fyrsti sigur West Brom síðan 2. janúar.
Howard og Stones eru metnir tæpir fyrir leikinn en Besic er frá og ekki kæmi það mikið á óvart þó nýja leikmanni okkar, Oumar Niasse, verði skipt inn á undir lokin.
Líkleg uppstilling: Joel, Oviedo, Mori, Jagielka, Coleman, Barry, McCarthy, Cleverley, Barkley, Lennon, Lukaku.
Meiðslalistinn hjá West Brom var nokkuð langur og lengdist nýverið en McAuley fór af velli í bikarleiknum á 19. mínútu og þar með eru James Morrison, Colin McManaman, Craig Dawson, Jonny Evans, Chris Brunt og Callum McManaman hjá þeim allir metnir annaðhvort tæpir eða meiddir fyrir leikinn á laugardaginn.
Rétt er að nefna einnig að stuðningsmenn völdu mark hins níu ára stuðningsmanns Everton, George Shaw, mark janúarmánaðar og færði Martinez honum verðlaun í tilefni af því:
Af ungliðunum er það að frétta að Everton U21 lék í Premier League Cup í 16 liða úrslitum við Brighton and Hove Albion U21 og komust yfir 1-0 með marki frá Sam Byrne í fyrri hálfleik. Það var þó ekki fyrr en í blálokin sem Brighton liðið náði að jafna og þeir komust svo yfir 1-2 strax í byrjun framlengingar. Fyrirliðinn Joe Williams jafnaði (2-2) fyrir Everton og tryggði liðinu séns í vítaspyrnukeppni sem þeir náðu þó ekki að nýta sér og féllu því úr leik. Næsti leikur þeirra er í deild á mánudaginn gegn Southampton.
Af öðru má nefna að Michael Donohue var lánaður til AFC Barrow í einn mánuð.
Ég held að við vinnum 3-0 Niasse skorar sitt fyrsta mark.
Oviedo skrifaði yndir nýjan samning í dag, jibbý, og Besic sagður hafa samning á borðinu, það er verið að byggja upp stórveldi drengir mínir og það krefst þolinmæði 🙂
Diddi þú talar af viti. Everton er að byggja stórveldi eina sem vantar er meira fjármagn gæðin eru til staðar en Everton þarf fleiri snillinga til að komast á næsta stig. Spái 3:0 á morgun fyrir Everton.
spái 4-1 á morgun, get því miður ekki horft á leikinn, Við Addi Júl, mætum í Hríseyjarferjuna kl. 15:30 á morgun og spilum á þorrablótinu hjá þeim annað kvöld. Leiðinlegt að geta ekki verið með ykkur á árshátíðinni en þessi þorravertíð er nú á enda. Vildi að sett yrði í lög að árshátíð Everton klúbbsins yrði ekki fyrr en á Góunni. Set það í hendur stjórnar. Góða skemmtun allir á morgun 🙂
Gaman hvað allir eru bjartsýnir þessa dagana, enda ástæða til. Tökum við ekki bara fagnandi á móti 4. 3-0 sigrinum í röð? Það væri gaman fyrir stemmarann í kvöld. En góða skemmtun félagar.