Mynd: Everton FC.
Smá tilkynning áður en við fjöllum um deildarbikarleikinn annað kvöld: Skráning er hafin á árshátíð Everton á Íslandi sem haldin verður þann 13. febrúar. Ekki missa af því!
En þá að leiknum… Everton mætir á Etihad leikvanginn annað kvöld kl. 19:45 til að eigast við Man City í annað skipti í undanúrslitum deildarbikarsins en það lið sem hefur betur samanlagt yfir tvær umferðir mætir Liverpool í úrslitum bikarsins á Wembley.
Everton vann fyrri leikinn gegn City á Goodison Park 2-1, eins og kunnugt er, og þarf Everton því að minnsta kosti jafntefli til að komast áfram (í úrslit). Augljóst er að liðið sem sigrar með meira en tveimur mörkum kemst áfram en rétt að geta þess að þar sem útivallarmörk gilda tvöfalt að loknum 120 mínútum (en ekki fyrr) þá nægir City að vera 1-0 yfir til að tryggja sér framlengingu og ef staðan er enn 1-0 að loknum 120 mínútum fara City menn í úrslitin. Ef staðan er hins vegar 2-1 fyrir City eftir 120 mínútur þarf að útkljá leikinn í vítaspyrnukeppni og ef staðan er 3-2 fyrir City eftir 120 mínútur þá fer Everton áfram í úrslit. Everton nægir þó jafntefli, eins og áður sagði.
Everton liðið varð hins vegar fyrir mikilli blóðtöku í leiknum gegn Swansea þegar Mirallas og Besic meiddust en Mirallas var farinn að sýna sitt rétta andlit aftur og Besic hafði verið frábær frá því hann kom aftur úr meiðslum — sérstaklega í leiknum gegn City, þar sem hann hafði Toure í vasanum á þeirra eigin heimavelli. Þeirra verður sárt saknað annað kvöld. Ljóst er að Robles verður í markinu í leiknum og Jagielka kemur inn í liðið, líklega á kostnað Funes Mori eða jafnvel Stones. Coleman ætti að vera orðinn nógu góður en McCarthy verður metinn á leikdegi. Líkleg uppstilling: Robles, Baines, Jagielka, Stones, Coleman, Barry, Cleverley, Kone, Barkley, Deulofeu, Lukaku.
Hjá City eru Vincent Kompany, Eliaquim Mangala, Aleksandar Kolarov, Wilfried Bony og Samir Nasri meiddir og missa því af leiknum en jafnframt er búist við að City hliðri til sínum mannskap eitthvað, enda að berjast á fjórum vígstöðum. Til dæmis ætti Willy Caballero að taka við af Joe Hart í markinu.
Úrslitin um helgina gegn Swansea voru annars grátleg og liðið vill örugglega svara fyrir það með góðum leik á Etihad leikvanginum. Það er hughreystandi að liðið er taplaust í átta leikjum á útivelli í öllum keppnum og hefur unnið þrjá þeirra — fjóra í raun ef línuvörðurinn hefði ekki sofið á verðinum þegar Terry jafnaði kolrangstæður á brúnni þegar komið var langt fram yfir uppbótartíma. En það er í fortíðinni og glænýr leikur framundan. Everton hafði í fullu tré við Man City á þeirra heimavelli í deildinni á dögunum og nú er bara fyrir liðið að klára verkefnið og mæta á Wembley fullir sjálfstrausts.
Leikurinn er í beinni á Ölveri. Ekki missa af honum.
ég kemst því miður ekki á ðlver en er vissum að það verði skemmtileg og góð stemming.Séstlaglega hjá okkar mönnum.Því við fögnum að leiks lokum.
er hann örulega í kvöld félagar
eru menn ekkert spentir fyrir leiknum í kvöd.Ég er mjög spentur fyrir leiknum í kvöld. Þó að vanti nokkra sem eru meiddir ég hef samt trú á everton mínu liði.Og við förum á Vembley svona Áfram nú Hverjir eru bestir EVERTON.ekki sat.
Ef Everton er ekki að fara klára þetta í kvöld eftir vonbrigði síðustu helgar að þá skal ég heita hundur! Þeir hljóta að mæta í þennan leik vitlausari en dýr! Algert must að klára þetta, ekki síst fyrir Martines. ÁFRAM EVE!!!!
Ef að fyrir eitthvað kraftaverk við förum í úrslitaleikinn þá getum við gleymt því að vinna hann. Fa mun sjá til þess.