Mynd: Everton FC.
Landsleikjahlé stendur nú yfir fram að næstu helgi og fjórtán liðsmenn aðalliðs Everton eru með landsliðum sínum um þessar mundir. Hléið er væntanlega kærkomið fyrir þá sem eru að vinna sig aftur í aðalliðið, til dæmis Leighton Baines. Hann er búinn að jafna sig af sínum meiðslum og verið er að koma honum í leikform, til dæmis með vináttuleik gegn Preston sem leikinn var fyrir luktum dyrum og varalið Everton vann 4-3. Þess má geta að Baines skoraði í leiknum eitt mark og átti stoðsendingu úr aukaspyrnu.
Það er jafnframt mjög skemmtilegt að segja frá því að Deulofeo skoraði þrennu og átti tvær stoðsendingar með landsliði Spánar U21 sem mætti Georgíu U21 en Spánverjar fóru með sigur af hólmi, 5-0.
Af öðrum landsliðsmálum er það að frétta að Martinez sagði að nýta þyrfti Ross Barkley rétt með enska landsliðinu til þess að ná því besta úr honum. Roy Hodgson sagði jafnframt að Ross Barkley myndi fá stórt hlutverk í vináttuleikjum Englands við Spán og Frakkland, líkast til í holunni fyrir aftan fremsta mann.
Í öðrum fréttum er það helst að mark októbermánaðar (sjá vídeó) er frá Liam Walsh sem leikur með U18 ára liðinu, glæsilegt mark af löngu færi. Einnig tók Liverpool Echo saman hversu hliðhollir leikmenn eru sínum þegar litið er til hversu lengi liðin njóta þeirra starfkrafta en þar kom fram að Everton eru í efsta sæti af öllum liðum í Úrvalsdeildinni. Leikmenn Everton eru nefnilega að meðaltali 4,14 tímabil hjá Everton, sem er nokkuð hærra en liðið í öðru sæti, Arsenal, þar sem leikmenn endast 3,8 tímabil að meðaltali og ennþá lengra er í liðið í þriðja sæti, Chelsea, með 3,33). Á botninum eru svo Sunderland (2,24), West Ham (2,27) og Tottenham (2,28) og í „fallbaráttunni“ Aston Villa, Watford, Crystal Palace og Liverpool, öll með undir 2,55 tímabil að meðaltali).
Af ungliðunum er það að frétta að Everton U21 töpuðu 1-0 á útivelli fyrir Middlesbrough U21 þrátt fyrir að stjórna leiknum mestmegins. Everton liðið átti mjög góðar sóknir í leiknum, sérstaklega í fyrri hálfleik en nýttu sér ekki yfirburðina og var refsað af heimamönnum með sigurmarki þegar 11 mínútur voru eftir.
Everton U18, aftur á móti, unnu Manchester United U18 4-2 með þrennu frá afmælisdreng dagsins, Delial Brewster, og marki frá Nathan Broadhead. Þetta var sjötti sigurleikurinn í röð og liðið er í efsta sæti norðurriðils í ensku Úrvalsdeild U18 ára með +19 í markatölu og þriggja stiga forskot á liðið í öðru sæti (Man City) — og leik til góða á þá. Og sá árangur hefur ekki farið framhjá Martinez.
David Henen fór að láni til Fleetwood í einn mánuð, Calum Dyson til Chester í einn mánuð, Conor McAleny er kominn aftur úr sínu láni hjá Charlton. Brendan Galloway, aftur á móti, missir líklega af sínum fyrsta leik með enska U21 landsliðinu vegna meiðsla sem hann hlaut í leiknum gegn West Ham.
Comments are closed.