Man United – Everton 0-1

Mynd: Everton FC.

Lokaleikur 12. umferðar ensku úrvalsdeildarinnar er viðureign Manchester United og Everton á Old Trafford, en flautað verður til leiks kl. 20:00.

Með sigri kæmist Everton upp fyrir bæði Manchester United og Liverpool, og upp í efri helming deildarinnar. En það er meira en að segja það, því Everton hefur ekki unnið á útvelli í deildinni í síðustu þremur tilraunum — eða frá því að liðið lagði Wolves 2-3 við lok ágústmánaðar. Heimavöllur United hefur auk þess reynst þeim afar drjúgur á tímabilinu, en þeir hafa unnið alla leiki sína þar, fyrir utan upphafsleikinn gegn Arsenal, sem þeir töpuðu 0-1.

Þær fréttir bárust úr herbúðum Everton að Merlin Röhl hefði farið í uppskurð vegna kviðslits en myndi því vera einhverjar vikur frá. Að öðru leyti er meiðslalistinn óbreyttur: Branthwaite og Patterson eru enn frá vegna meiðsla. Hjá United eru Sesko og Cunha meiddir en Lisandro Martínez og Harry Maguire voru metnir tæpir ásamt mögulega Kobbie Mainoo.

Uppstillingin: Pickford, Mykolenko, Keane, Tarkowski, Coleman (fyrirliði), Garner, Gueye, Grealish, Dewsbury-Hall, Ndiaye, Barry.

Varamenn: Travers, King, Aznou, O’Brien, Iroegbunam, Alcaraz, McNeil, Dibling, Beto.

Coleman kemur inn í liðið eftir nokkra fjarveru, en hann lék tvo landsleiki á dögunum fyrir Íra í fræknum sigrum undir stjórn Heimis og þótti standa sig mjög vel. Garner hefur þar með verið færður aftur á miðsvæðið, við hlið Gueye, en Barry leiðir framlínuna, líkt og í sigurleiknum gegn Fulham.

Ágætis byrjun á leiknum. Everton með tvö hálffæri. 14-1 fyrir Everton í snertingum á síðasta þriðjungi. Lítið að frétta af United. Vægast sagt.

En svo skall ógæfan yfir því á 9. mínútu fór Coleman af velli, meiddur. O’Brien kom inn á fyrir hann. Og eins og það væri ekki nóg, heldur gerðist eitthvað undarlegt á 13. mínútu þegar United komst loks í sókn og náðu skoti á markið, sem Pickford varði. Áður en United náði að taka hornið voru Gana og Keane komnir í hár saman og Gana slær Keane í andlitið fyrir framan dómara. Rautt spjald. Lítið hægt að kvarta yfir spjaldinu en þetta var gjörsamlega galin ákvörðun hjá Gana Gueye. Kannski vildi hann bara jafna leikinn, enda hafði hallað svolítið á United.

En á 30. mínútu gerðist kraftaverk, þegar Dewsbury-Hall skoraði glæsimark. Garner fann hann fyrir framan vítateig og eftir smá dans með boltann endaði hann í skotfæri við D-ið og hlóð í skot. Markvörður náði að koma hendi á bolta, en stýrði honum nær samskeytum uppi hægra megin, en það gerði markið bara markið enn fallegra. 0-1 fyrir Everton!

Á 33. mínútu fékk Dorgu ágætis færi, vinstra megin í teig, eftir sendingu frá hægri kanti, en undir lítilli pressu, lúðraði hann boltanum langt yfir.

Smá lífsmark í United undir lok hálfleiks þegar Bruno Fernandes náði langskot á mark sem Pickford varði vel.

0-1 fyrir Everton í hálfleik. Nú er bara að halda þetta út.

Erfiður seinni hálfleikur. Ákefðin jókst með hverri mínútunni hjá United, en einhvern veginn ógnuðu þeir ekki marki nægilega vel (frá þeim séð). Á 60. mínútu fór svolítið um mann, sókn United að þyngjast enn frekar. Stórsókn United sem endaði í… ekki neinu.

En á 80. mínútu (20. mínútum síðar!!) þurfti Pickford aldeilis að taka á honum stóra sínum, þegar Zirkzee náði föstum skalla á mark en Pickford varði með algjörri landsliðsvörslu. England’s number one, eins og menn segja!

Beto og Iroegbunam komu inn á fyrir Barry og Ndiaye á 81. mínútu. Alcaraz og McNeil komu svo inn á fyrir Dewsbury-Hall og Grealish á 88. mínútu. Maður í manns stað. Varnarvinna Everton frábær í leiknum.

Zirkzee átti flottan skalla á mark á 89. mínútu, en aftur varði Pickford glæsilega, með því að slá boltann yfir slána. Það reyndist síðasta færi United í leiknum.

En, geggjaður sigur í kvöld! Old Trafford bölvuninni lyft, loksins, og þar með stæl. Everton manni færri lungað úr leiknum en ef ég á að vera hreinskilinn þá var þetta verðskuldað, þó að horft sé framhjá rauða spjaldinu. Everton einfaldlega betra liðið í kvöld.

Einkunnir Sky Sports ekki komnar. Uppfæri síðar!

8 Athugasemdir

  1. Diddi skrifar:

    hefur Moyes einhvern tímann unnið í músabælinu með Everton

    • Orri skrifar:

      Það lítur ekki illa út núna.

      • Diddi skrifar:

        hann er þá allavega búinn að því núna, þvílík barátta í kvöld, mér fannst frekar asnalegt að gana fengi rautt fyrir þetta en það á eftir að koma betur í ljós, vonandi hefur hann fengið að taka leigubíl heim

      • Orri skrifar:

        Diddi góðir hlutir gerast oft hægt.

  2. Gestur skrifar:

    Gana á ekki að fá að spila fyrir Everton aftur, þvílíkt ábyrðarleysi

  3. Jón Ingi Einarsson skrifar:

    Rosalega var þetta flott hjá 10 Evertonmönnum að halda út til loka. Þessu hefur maður beðið eftir lengi að ná útisigri á United. Flott þetta en líðan hjá Gana getur ekki verið góð.

  4. Kiddi skrifar:

    Vá, þetta var alvöru vinnu sigur.
    Komnir upp fyrir Liverpool í töflunni, er á meðan er og njótum. Gana ekki alveg rétt stilltur en var frábær þennan stutta tíma sem hann hékk inn á.
    Maður leiksins Pikford

  5. Finnur Thorarinsson skrifar:

    Þetta var algjörlega magnað!

    Þangað til Everton mætti hafði aðeins eitt lið unnið United á Old Trafford á tímabilinu og það var efsta liðið (Arsenal).

    … og þeir voru ekki manni færri nánast allan leikinn.

    Geggjuð umferð.

Leave a Reply to Diddi