
Mynd: Everton FC.
Everton og Roma áttust við í dag, í vináttuleik á nýjum heimavelli Everton, sem nefndur hefur verið Hill Dickinson leikvangurinn (eftir fyrirtækinu sem keypti nafnaréttinn). Afar glæsilegur völlur á bökkum Merseyside árinnar — klárlega stolt Liverpool borgar.
Uppstillingin: Pickford, Mykolenko, Branthwaite, Tarkowski (fyrirliði), O’Brien, Gana, Garner, Alcaraz, Ndiaye, Dewsbury-Hall, Barry.
Varamenn: Travert, Tyrer, Keane, Aznou, Coleman, Iroegbunam, Onyango, Heath, McNeil, Chermiti, Beto.
Sem sagt, fjögurra manna varnarlína og Branthwaite mættur aftur eftir smávægileg meiðsli. Mjög mikilvægt að fá hann aftur. Dewsbury-Hall fer beint í byrjunarliðið á kostnað Iroegbunam og Barry fær að leiða línuna í fyrsta skiptið með Everton, ef mér skjátlast ekki.
Ritari missti annars alveg af fyrri hálfleik, en gerir honum kannski skil hér ef upptaka næst af honum síðar (sem maður á kannski síður von á). En var 0-0 í hálfleik.
Everton fékk dauðafæri strax á 46. mínútu þegar Barry potaði inn fyrir vörn Roma á Ndiaye, sem kom á hlaupinu. Hefði verið frábær stoðsending, ef Ndiaye hefði bara hitt á markið af stuttu færi. En hann setti boltann rétt framhjá hægri stöng. Þar hefði staðan átt að vera 1-0.
Roma menn svöruðu strax í næstu sókn, með skoti af löngu færi, en engin hætta. Beint á Pickford.
Everton fékk annað færi á 50. mínútu, þegar boltinn barst óvænt á Gana, sem var óvaldaður vinstra megin utarlega í teignum. Hann reyndi viðstöðulaust skot sem fór rétt framhjá vinstri stöng.
Roma fengu skotfæri á 54. mínútu hægra megin í teig og náðu föstu skoti sem virtist ætla að fara langt framhjá en fór í lappirnar á sóknarmanni þeirra og boltinn endaði á að fara rétt framhjá vinstri stöng. Hefði getað endað hvar sem er.
Roma menn fengu færi á 58. mínútu, eftir mistök hjá Ndiaye í vörninni, þegar hann (af stuttu færi) reyndi of máttlausa sendingu á Pickford sem Roma maður komst inn í og sendi fyrir mark, framhjá Pickford. Tarkowski náði sem betur fer að hreinsa það en Roma menn héldu sókninni áfram og fengu tvö skotfæri innan teigs. Það fyrra blokkerað af varnarmanni og hitt glæsilega varið hjá Pickford.
Þreföld skipting hjá Everton á 61. mínútu þegar Barry fór út af fyrir Beto, Dewsbury-Hall út af fyrir McNeil og Gana út af fyrir Iroegbunam. Stuttu síðar (á 67. mínútu) náði Ndiaye fínu skoti á mark en markvörður varði vel.
Það voru hins vegar Roma sem komust yfir á 69. mínútu þegar sóknarmaður þeirra, Soulé, fékk boltann við horn teigsins, hægra megin. Hann lagði boltann fyrir vinstri fótinn á sér og þrumaði í hliðarnetið. 0-1 fyrir Roma.
Everton var næstum búið að svara með marki jafn harðan, þegar há sending barst inn í teig frá hægri, sem Alcaraz náði að skalla í áttina að hliðarnetinu vinstra megin, en markvörður varði glæsilega.
Roma menn fengu tvö frábær færi á 76. mínútu eftir tvær hornspyrnur í röð, bæði færin skallafæri af tiltölulega stuttu færi, það fyrra eftir að leikmaður Roma á fjærstöng náði að skalla boltann fyrir mark og samherji hans stökk upp og náði flottum skalla að marki, en Pickford varði algjörlega meistaralega. Það seinna var frír skalli inn í teig sem var varinn og skot í kjölfarið sem fór í bakið á Branthwaite, en hann hafði skriðtæklað fyrir skot sem kom af stuttu færi.
Önnur þreföld skipting kom hjá Everton á 80. mínútu þegar Aznou fór út af fyrir Coleman, Branthwaite fór út af fyrir Keane og Alcaraz fyrir Chermiti.
Roma menn fengu dauðafæri í uppbótartíma, komust þrír á einn en sá sem var með boltann neitaði að gefa á samherja og lúðraði skotinu langt framhjá.
Það reyndist síðasta færið í leiknum og Roma því 0-1 sigurvegarar í þessum síðasta æfingaleik tímabilsins. Úrvalsdeildin byrjar hjá Everton eftir 9 daga (18. ágúst).
Ég sá líka bara seinni hálfleik, passaði mig ekki á tímamismuninum. Everton átti flott tækifæri í byrjun seinni hálfleiks en það virðist hvíla á liðinu að eiga erfitt með að skora þó þeir komist í dauðafæri. Leiðinlegt að tapa fyrsta leiknum á nýjum velli, en það gengur bara betur næst. Vonandi eigum við gott tímabil framundan, það þýðir ekkert annað en að vera bjartsýnn.