Accrington Stanley – Everton 1-1 (vináttuleikur)

Mynd: Everton FC.

3875 áhorfendur voru mættir til að horfa á þennan vináttuleik, þar af 2330 stuðningsmenn Everton (eða um 60%). Vel gert. Hægt er að horfa á allan leikinn hér, fyrir þau okkar sem keyptu áskrift.

Uppstillingin: Tyrer, Mykolenko, Branthwaite (fyrirliði), Keane, Patterson, Garner, Alcaraz, Armstrong, Iroegbunam, McNeil, Chermiti.

Varamenn: Barnsley, O’Brien, Tamen, Metcalfe, Graham, Onyango, Samuels-Smith, Heath, Gomez, Clarke, Beto.

Mér sýndist þetta vera 4-1-4-1 uppstilling hjá Everton, gegn Accrington Stanley, sem voru að spila sinn þriðja leik á undirbúningstímabilinu. Everton að spila sinn fyrsta og því eðlilega nokkuð ryðgaðir.

Moyes hafði greinilega lagt línurnar þannig að bakverðir Everton fengu leyfi til að sækja framarlega á völlinn. Flestar stöður annars augljósar mannaðar, en rétt að minnast á að Garner var djúpur miðjumaður og Chermiti fremstur. Alcaraz á vinstri kanti, McNeil á hægri.

Fyrri hálfleikur var nokkuð fjörugur, gott tempó í leiknum og færi á báða bóga. Hvort lið hefði getað sett að minnsta kosti tvö mörk en markalaust reyndist sá hálfleikur.

Accrington menn byrjuðu hálfleikinn vel og náðu flottum skalla á mark áður en mínútu var liðin, en Tyrer varði vel í horn, sem ekkert kom úr. Stuttu síðar fékk Chermiti flott færi, eftir langa sendingu fram frá Mykolenko og ef Chermiti hefði tekið boltann betur á kassann hefði hann komist í dauðafæri einn á móti markverði, en hann „sýndi“ markverði of mikið af boltanum, eins og sagt er á Englandi og markverður náði því að kæfa þetta í fæðingu.

Patterson komst í ágætis færi eftir flottan þríhyrning við Harrison Armstrong á hægri kantinum á 13. mínútu, en skotið frá Patterson, sem var innan teigs, fór framhjá fjærstöng. Patterson hafði gert allt rétt fram að því, þar með talið að leika á varnarmann inni í teig og ná skoti. Óheppinn að skora ekki.

Chermiti fékk annan séns á 23. mínútu eftir flotta sendingu frá Mykolenko, þar sem Chermiti náði að taka boltann frábærlega á kassann (í þetta skiptið) og skapa sér dauðafæri, en skotið frá honum reyndist máttlaust og var auðveldlega varið. Accrington svöruðu með flottum skalla að marki á 27. mínútu en rétt framhjá marki.

Chermiti gerði hins vegar allt rétt á 28. mínútu og var óheppinn að skora ekki, þegar hann fékk frábæra sendingu fyrir mark frá Iroegbunam, náði skalla á mark en markvörður Accrington Stanley varði meistaralega. 

Armstrong var einnig óheppinn að skora ekki á 39. mínútu, þegar hann náði flottu skoti og sveig á bolta út við fjærstöng, en markvörður varði glæsilega.

Á 42. mínútu gerði Armstrong vel að elta, það sem leit út fyrir að vera vonlaus bolti fram, og rétt svo náði að halda honum inni á velli með sendingu fyrir mark í fyrstu snertingu vinstra megin í teig. Fann þar Chermiti, sem var ekki langt frá því að skora, en varnarmaður náði að komast fyrir skotið og gefa hornspyrnu, sem ekkert kom úr.

Staðan 0-0 í hálfleik. Þrjár skiptingar hjá Everton í hálfleik: Beto kom inn á fyrir Garner, O’Brien fyrir Branthwaite, og ungliðinn Tamen kom inn á fyrir Mykolenko. Sá fyrrnefndi fór þó ekki í vinstri bakvörðinn, því Patterson færði sig yfir á vinstri bakvörð og Tamen tók því við stöðu hægri bakvarðar. 

Þar með voru tveir í framlínunni fyrir Everton, Chermiti og Beto, í uppstillingunni 4-4-2.

Á 50. mínútu skoruðu Accrington Stanley mark, eftir hornspyrnu. Úr horninu kom há sending frá vinstri, yfir á fjærstöng, þar sem Everton var með nóg af mönnum að dekka skallamenn. En sendingin var lengri en búast mætti við og þar var maður á auðum sjó, utarlega í teig, sem skallaði undir markvörð Everton og í markið. Pínulítið gegn gangi leiksins en staðan orðin 1-0 fyrir Accrington og bjórsalan hjá þeim jókst skyndilega til muna. Vel gert.

Tvöföld skipting á 63. mínútu: Ungliðarnir Isaac Heath og Justin Clarke komu inn á fyrir Alacaraz og Chermiti, og tóku stöðu á köntunum.

McNeil átti ágætis tilraun á mark frá hægri á 66. mínútu en markvörður náði að slá boltann frá, áður en hann rataði inn við fjærstöng. Beto átti svo skot á mark utarlega í teig vinstra megin, en markvörður varði.

Accrington náðu flottu skoti á mark á 72. mínútu en Beto náði að blokka skotið sem endaði með hornspyrnum, sem ekkert kom úr.

Ungliðinn Metcalfe kom svo inn á fyrir Armstrong á 77. mínútu en aðeins örstuttu síðar fékk Everton verðskuldaða vítaspyrnu, þegar sókn Accrington fór forgörðum, og Tyrer (í marki Everton) var fljótur að hugsa og kastaði boltanum yfir á Isaac Heath á vinstri kanti og hann brunaði upp völlinn og inn í teig og var felldur. Augljós vítaspyrna.

Beto fór á punktinn og skoraði auðveldlega hátt uppi í hægra hornið. Ég ætla að leyfa mér að fullyrða að enginn markvörður hefði náð að verja þann bolta, því þetta var með betri vítum sem maður hefur séð — þetta var svo smurt í samskeytin uppi.

Staðan þar með orðin 1-1.

Eftir þetta snerist þetta eiginlega allt um færi Everton. Patterson hefði átt að skora á 83. mínútu þegar hann fékk boltann vinstra megin í teignum. Hann fór illa með hægri bakvörð Accrington og fékk frítt skot á mark, en setti boltann yfir slána.

Iroegbunam náði svo að skapa fínt færi fyrir sjálfan sig með flottu hlaupi upp völlinn á 90. mínútu, en skotið frá honum fór yfir markið.

Jafntefli því niðurstaðan. Ekki að úrslitin skipti máli, þetta var alltaf leikur til að sýna hvað ungliðarnir gætu gert, enda ekki fullskipað í aðalliðinu ennþá. Og þeir komust vel frá sínu, verð ég að segja.

Leave a Reply