
Mynd: Everton FC.
34. umferð ensku úrvalsdeildarinnar byrjar snemma með leik Everton við Chelsea á Brúnni, sem hefst kl. 11:30 að íslenskum tíma. Þetta er þriðji síðasti útileikur tímabilsins (aðeins leikir gegn Fulham og Newcastle eftir þennan).
Uppstillingin: Pickford (fyrirliði), Mykolenko, Branthwaite, O’Brien, Patterson, Gana, Garner, Ndiaye, Doucouré, Harrison, Beto.
Varamenn: Virginia, Begovic, Keane, Young, Coleman, Alcaraz, Iroegbunam, McNeil, Cermiti.
Tvær breytingar á byrjunarliði frá síðasta leik. PIckford er fyrirliði í leiknum þar sem Patterson kemur inn fyrir Tarkowski, sem verður frá til loka tímabils vegna meiðsla. Það er mikið skarð fyrir skildi þar, en nú fær O’Brien loks tækifæri í sinni náttúrulegu stöðu, í miðverðinum. Einnig kemur Beto inn fyrir Broja, sem er ekki í hóp í dag.
Heldur þunnskipaður bekkur — tveir markverðir og tveir hægri bakverðir og ekki mikið af framlínumönnum í leikformi. Þetta verður eitthvað.
Chelsea mun meira með boltann í fyrri hálfleik og hótuðu tvisvar-þrisvar, fyrstu 15 mínúturnar, að komast inn fyrir vörn Everton — yfirleitt með hlaupum og sendingum aftur fyrir bakverði Everton, en ekkert kom úr því. Cole Palmer fékk svo stungusendingu inn við D-ið og maður hélt hann væri kominn einn á móti Pickford, en Garner var mættur aftur til að hreinsa áður en Palmer gat gert nokkuð með boltann. Vel gert, Garner! Chelsea með fyrsta skotið á mark, stuttu síðar, fast og lágt skot af löngu færi sem Pickford varði í horn.
Lítið að frétta eftir það og Everton náð að loka á Chelsea, sem frústreraði Chelsea liðið, sem og áhangendur þeirra. En svo náðu Chelsea allt í einu að komast yfir. Beto fékk boltann við miðlínu og var eitthvað að dóla með hann, þannig að Chalobah náði að stela boltanum og gaf strax á Enzo sem var fljótur að hugsa og sendi fram á Jackson, sem var óvaldaður nálægt D-inu. Hann tók snúninginn og reyndi strax skot af löngu færi — og skoraði glæsimark, stöngina inn vinstra megin. Þetta gerðist leifturhratt (rétt um fimm sekúndur frá því að Beto missti boltann) var Chelsea allt í einu komið 1-0 yfir.
Doucouré fékk ágætis skallafæri á 46. mínútu eftir háa fyrirgjöf frá vinstri, en boltinn aðeins utan seilingar og skallinn því langt framhjá. Stuttu áður hafði Beto verið togaður niður inni í teig, en VAR ákvað að aðhafast ekkert.
1-0 í hálfleik. Chelsea liðið verið betra fram að hálfleik og lítil ógnun af Everton. Sjáum hvort Moyes nái að hrista þetta aðeins upp í seinni hálfleik.
Ein breyting á liði Everton í hálfleik. Alcaraz inn á fyrir Ndiaye. Everton meira í andlitinu á Chelsea heldur en í fyrri hálfleik, sem virkaði betur. Chelsea menn greinilega uppálagt að halda í sigurinn, frekar en að bæta við mörkum — og það stóð tæpt nokkrum sinnum.
Chelsea fengu reyndar horn strax í upphafi seinni hálfleiks og afgreiðslan var slök. Beint á nærstöng, lágur bolti, en Jackson náði að komast í boltann á undan Mykolenko og snúa og skjóta á markið, en Pickford varði með fæti í horn (sem ekkert kom úr).
Á 53. mín sendi Patterson of stutta sendingu á Pickford, sem Jackson komst inn í, komst einn á móti Pickford og reyndi að fara framhjá honum til að skora í autt markið, en Pickford sá við honum og stoppaði gegnumbrotið.
Á 62. mínútu náði Harrison að framlengja bolta á Beto, sem náði föstu skoti á mark, lágt skot sem Sanchez í marki Chelsea þurfti að hafa sig allan við að verja. Young, McNeil, og Chermiti komu svo inn á í kjölfarið fyrir Patterson, Harrison, og Beto.
Gana fékk ágætis skotfæri við D-ið á vítateignum á 67. mínútu þegar há hreinsun kom út úr teig Chelsea. Gana náði föstu viðstöðulausu skoti en það fór beint á Sanchez.
Það leit út fyrir að Chelsea menn væru komnir í reitabolta og farnir að tefja eftir þetta, en þeir áttu loks tilraun á markrammann frá Madueke á 74. mínútu sem Pickford varði glæsilega í horn.
Jackson skoraði svo fyrir Chelsea á 84. mínútu, þegar hann potaði inn frákasti eftir að Pickford hafði varið langskot, en Jackson var augljóslega langt fyrir innan varnarlínuna þegar skotið kom, þannig að það markið var réttilega dæmt af vegna rangstöðu.
Á 87. mínútu var Everton næstum búið að jafna leikinn. Alcaraz komst einn upp vinstri kantinn og fann McNeil fyrir framan mitt markið, með stuttri sendingu. McNeil náði að setja boltann á markið en Sanchez varði meistaralega. Chelsea menn heppnir þar.
Fjórum mínútum bætt við, en ekki tókst að jafna.
Einkunnir Sky Sports: Pickford (7), Patterson (7), O’Brien (6), Branthwaite (7), Mykolenko (7), Gueye (6), Garner (7), Harrison (6), Doucoure (6), Ndiaye (5), Beto (7). Varamenn: Alcaraz (7), McNeil (7), Young (6), Chermiti (6).
Everton reyndist með örlítið hærri meðaleinkunn (6.45) en Chelsea (6.36) en markvörður þeirra, Sanchez, var með einn tveggja í leiknum sem fékk 8 í einkunn.
31 ár síðan við unnum síðast á brúnni, mikið svakalega væri gaman að brjóta þau álög í dag. Því miður held ég að það sé ekki að fara að gerast en vonum það besta.
Hvaðan koma þessar gulu buxur sem okkar menn spila í í dag??
Nýr búningur fyrir næsta tímabil kannski??
Góð spurning. Sýnist þetta vera þriðji búningurinn, svarta treyjan allavega. Kannski svörtu stuttbuxurnar hafi selst upp? 😉
20 mínútur búnar og okkar menn eru bara ekki með, þetta gæti orðið langur og erfiður dagur.
Svakalega flatt og kraftlaust í dag. Patterson ekki að heilla
Þetta Chelsea lið er alls ekkert spes, og sérstaklega er markvörðurinn þeirra algert drasl. En því miður þá hefur Everton lítið sem ekkert fram á við og því fór sem fór.
Ég var á þeirri skoðun að við þyrftum að fá einn kannski tvo góða framherja í sumar, ég er nú á þeirri skoðun að við þurfum þrjá eða fjóra, þeir eru allir drasl.
Mér finnst Moyes frábær stjóri en þessi þráhyggja með Doucoure er óskiljanleg, hann er oftast vita gagnslaus.
Ég fæ heldur ekki skilið af hverju hann tekur alltaf Ndiaye út af fyrir Alcaraz. Það væri gaman að sjá þá tvo spila saman nokkra leiki.