Everton – Arsenal 1-1

Mynd: Everton FC.

Klukkan 11:30 verður flautað til leiks í viðureign Everton og Arsenal á Goodison Park, í 31. umferð ensku úrvalsdeildarinnar.

Uppstillingin: Pickford, Patterson, Branthwaite, Tarkowski (fyrirliði), O’Brien, Gana, Iroegbunam, Ndiaye, Doucouré, Harrison, Beto.

Varamenn: Virginia, Keane, Young, Coleman, Garner, Alcaraz, McNeil, Chermiti, Broja.

Sem sagt, þrjár breytingar á byrjunarliðinu frá síðasta leik: Iroegbunam kemur inn fyrir Garner, Ndiaye tekur sæti Alcaraz (og fer væntanlega á vinstri kantinn), og Mykolenko víkur fyrir Patterson, sem fór í vinstri bakvarðarstöðuna. Uppstillingin þessi (nokkuð) hefðbundna 4-2-3-1. En þá að leiknum…

Everton liðið virkaði hálf ryðgað til að byrja með og Arsenal voru beittari. Þeir komust í færi mjög snemma leiks, með því að komast upp að endalínu hægra megin við mark og senda lágan bolta á lausan mann fyrir framan mark en hann þrumaði boltanum sem betur fór bara beint í vömbina á Iroegbunam.

Stuttu síðar fann Ndiaye Beto með frábærri stungusendingunni gegnum vörn Arsenal en þeir náðu að hlaupa hann uppi og stoppa skotfærið.

En Everton var ekki langt frá því að skora á 16. mínútu eftir aukaspyrnu utan af kanti hægra megin. Boltinn endaði á að hrökkva til O’Brien sem var óvaldaður upp við fjærstöng og reyndi að setja hann á kassann og inn, en fékk boltann í upphandlegginn og þaðan hrökk boltinn til baka en ekki í átt að marki. Arsenal menn heppnir að hann fékk ekki nægilega góðan bolta til að ná skalla.

Ekki mikið um færi fyrr eftir það. Arsenal mun meira með boltann og náðu að forðast pressu Everton vel og láta boltann ganga. Og svo gerðist það á 34. mínútu að Everton setti mikla pressu á vörn Arsenal en fengu svo á sig skyndisókn. Gana, sem var einna besti leikmaður Everton í fyrri hálfleik, gerðist sekur um mistök þegar hann var einn af öftustu mönnum og skallaði bolta aftur fyrir sig á engan. Sterling komst í lausa boltann og Arsenal komust tveir á móti Tarkowski. Þrír varnarmenn Everton náðu að hlaupa þá uppi og maður hélt að þetta væri búið hjá þeim, þegar Trossard náði skoti af nokkuð löngu færi utarlega í teig vinstra megin, sem O’Brien náði ekki að stoppa og boltinn sigldi í fjærhornið, framhjá Pickford og í hliðarnetið. 1-0 fyrir Arsenal.

Trossard fékk annað dauðafæri í uppbótartíma fyrri hálfleiks, þegar þeir náðu langri stungusendingu á hann. Hann komst einn á móti Pickford, vinstra megin í teig, eftir að Tarkowski hafði náð aðeins að tækla í boltann en Pickford náði að loka á Trossard áður en hann náði skoti. Boltinn barst hins vegar til sóknarmanns Arsenal, svo að Tarkowski þurfti að vera snöggur að mæta til að loka á skotið, sem hann og gerði.

Ndiaye reyndi skot á mark utan teigs á 51. mínútu, en setti boltann of hátt yfir samskeytin hægra megin.

0-1 í hálfleik. Ekki nægileg ógnun af Everton í fyrri hálfleik.

Allt annað sjá til Everton í seinni hálfleik og miklu meira hungur í þeim, sem og pressunni, og þeir uppskáru vítaspyrnu strax á upphafsmínútu seinni hálfleiks, þegar Lewis-Skelly tók niður Harrison inni í teig. Togaði í hann fyrst og missti svo jafnvægið og lenti á fótunum á Harrison og felldi hann þegar þeir voru komnir inn í teig. Ndiaye fór á punktinn, sendi markvörðinn í vinstra hornið og skoraði auðveldlega hægra megin. Staðan því orðin 1-1!

Rice reyndi að svara á 64. mínútu með fastri aukaspyrnu rétt utan teigs, en beint á Pickford sem var vel á verði og sló boltann í burtu. Garner og Broja komu svo inn á fyrir Iroegbunam og Beto strax í kjölfarið.

Á 74. mínútu fóru Ndiaye og Patterson út af fyrir Alcaraz og Young. Líklega fyrirfram ákveðið að Ndiaye færi út af á þeim tíma, enda enn að koma sér í leikform eftir meiðsli.

Pickford sýndi svo aftur snilli sína þegar hann varði glæsilega skot frá Trossard á 76. mínútu — algjör landsliðsmarkvarsla rétt yfir slána, en mér heyrðist þulirnir segja að markið hefði hvort eð er ekki staðið. Missti af því af hverju (líklega rangstaða) — sá bara endursýninguna á skotinu.

Síðan var komið að Martinelli að reyna á Pickford á 85. mínútu, en hann var vandanum vaxinn sem fyrr og sló boltann yfir mark.

McNeil kom svo inn á fyrir Harrison á 87. mínútu og fékk mikið lófatak, enda var það fyrsti leikur McNeil síðan í desember. Mjög gott að sjá hann á velli aftur.

Fjórum mínútum var bætt við í lokin, en fleiri urðu færin ekki. Skondin uppákoma átti sér þó stað í lokin þegar dómarinn flautaði leikinn af í stað þess að gefa Everton aukaspyrnu á vallarhelmingi Arsenal. Leikmenn Everton bentu dómaranum á að vallarklukkan sýndi að allavega 10 sekúndur væru eftir af leiknum og dómarinn skipti um skoðun (!) og leyfði þeim að sjá hvað kæmi út úr aukaspyrnunni. Hún endaði hins vegar í fanginu á Raya og þar með var leikurinn búinn.

Jafntefli því niðurstaðan og Goodison Park þar með búið að gera sitt í að tryggja að Arsenal næðu ekki að komast í burtu með þrjú stig — sömu örlög og Liverpool hlutu. Titilvonir Arsenal líklega úr sögunni með þessu.

Einkunnir Sky Sports: Pickford (7), O’Brien (6), Tarkowski (7), Branthwaite (7), Patterson (6), Gueye (6), Iroegbunam (6), Doucoure (6), Harrison (7), Ndiaye (7), Beto (6). Varamenn: Garner (6), Broja (6), Young (6), Alcaraz (6).

5 Athugasemdir

  1. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Að vera með Doucoure og Harrison í liðinu er eins og að vera tveimur færri. Mér líst ekkert á þetta, held að við töpum þessu
    0-2.

  2. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Everton verið allt í lagi svo sem en það er sorglega lítið um gæði fram á við. Þurfum að fá Alcaraz inn á í staðinn fyrir Doucoure.

  3. Gunni D skrifar:

    Ég yrði brjálaður ef ef Arsenal fengi svona víti.

  4. Eirikur skrifar:

    Miðað við spilamennskuna þá var þetta gott stig.
    Verið að gefa mönnum sem eru að koma til baka úr meiðslum spilatíma. Nú er gott markmiðið að tapa ekki fleirri leikjum🏟🤗

Leave a Reply to Orri