
Mynd: Everton FC.
Þá var komið að 30. umferð ensku úrvalsdeildarinnar þegar Everton heimsótti nágrannana, Liverpool, á Anfield en flautað var til leiks kl. 19:00 (að íslenskum tíma) í kvöld.
Uppstillingin: Pickford, Mykolenko, Branthwaite, Tarkowski, O’Brien, Gana, Garner, Harrison, Doucouré, Alcatraz, Beto.
Varamenn: Virginia, Patterson, Keane, Young, Coleman, Iroegbunam, Ndiaye, Chermiti, Broja.
Ingvar Bærings bauðst til að sjá um skýrsluna í kvöld, í fjarveru ritara. Kunnum við honum bestu þakkir fyrir og gefum honum orðið:
Ekkert gerðist markvert fyrstu fimm mínúturnar annað en það að Liverpool átti hornspyrnu sem ekkert varð úr.
Á 10. mínútu fékk Tarkowski svo gult þegar hann tæklaði boltann ansi kröftuglega af Mac Allister, sem samstundis henti sér niður veinandi eins og stunginn grís. Tarkowski var kannski heppinn að hanga inn á áfram eftir þetta, þetta var soldið gróft.
Á 17. mínútu tók Garner langt innkast sem gerði smá usla í vörn Liverpool og barst boltinn til Alcaraz sem átti fínt skot en því miður í varnarmann.
Tveimur mínútum síðar slapp Beto í gegn og skoraði mark sem ég vil nú meina að hafi verið fullkomlega löglegt, en VAR sagði nei, hann var tánögl fyrir innan að mati VARmanna.
Á þessum tíma var Everton að komast betur í takt við leikinn eftir frekar slaka byrjun.
Beto slapp svo aftur í gegn á 33. mínútu en skaut í innanverða stöngina.
Hrikaleg óheppni.
Ekki gerðist meira markvert fyrr en á síðustu mínútu í uppbótartíma þegar Everton fékk aukaspyrnu sem Harrison tók og átti hann góða sendingu inn í teig en Alcaraz skallaði framhjá í ágætis færi.
Markalaust í hálfleik og í raun ekki mikið að gerast.
Liverpool meira með boltann en gerðu ekkert með hann. Everton varðist vel og reyndu að sækja hratt þegar færi gafst, og ef það væru bara aðeins meiri gæði í liðinu fram á við, hefðu okkar menn verið komnir amk marki yfir, því það virtist vera skjálfti í vörn Liverpool.
Engar breytingar í hálfleik.
Á 52. mínútu átti Gravenberch þrumuskot sem Pickford gerði vel í að verja, en boltinn hrökk út í vítateiginn þar sem Branthwaite rétt náði að verða á undan Salah í boltann og bjarga í horn.
Everton náði svo boltanum eftir hornspyrnuna og komust í lofandi skyndisókn, þar sem Harrison bar upp boltann og var með þrjá eða fjóra menn með sér, en það vita svo sem allir hvað gerist ef Harrison er með boltann, er það ekki? Hann finnur ekki samherja og það var einmitt það sem gerðist.
Fimm mínútum síðar skoraði Jota svo fyrir Liverpool það sem reyndist vera sigurmarkið.
Það gerðist lítið markvert eftir þetta mark. Liverpool var áfram meira með boltann og Everton varðist vel og reyndi að beita skyndisóknum, en það vantar sárlega meiri gæði fram á við.
Á 69. mínútu kom svo Ndiaye inn á fyrir Harrison, sem var búinn að vera jafn hræðilegur og venjulega, þrátt fyrir nýja hárgreiðslu. Gaman að sjá Ndiaye aftur.
Moyes gerði svo þrefalda skiptingu, annan leikinn í röð, óvenjulegt fyrir hann, á 77. mínútu þegar Iroegbunam, Broja og Young komu inn á í staðinn fyrir Beto, Garner og Alcaraz. Þeir voru allir búnir að standa sig nokkuð vel að mínu mati en farnir að þreytast.
Chermiti kom svo inn á fyrir Docoure stuttu síðar, sem var búinn að hlaupa mikið og vera rosa duglegur.
Sex mínútur í uppbótartíma þar sem ekkert gerðist.
1-0 tap því miður niðurstaðan.
Vonandi gengur bara betur gegn Arsenal á laugardaginn.
Ég vona að þetta hafi verið í síðasta sinn sem Moyes setur Alcaraz út á kant, hann er ekki kantmaður og á að spila í sömu stöðu og Docoure. Hann gerir miklu meira gagn þar.
Ég vona líka að Harrison klári tímabilið á bekknum, helst alltaf sem ónotaður varamaður.
Svo mörg voru þau orð. Við þökkum Ingvari kærlega fyrir að sjá um skýrsluna.
Einkunnir Sky Sports: Pickford (6), O’Brien (6), Tarkowski (5), Branthwaite (6), Mykolenko (7), Gana (7), Garner (6), Doucoure (6), Harrison (6), Alcaraz (6), Beto (7). Varamenn: Ndiaye (6), Young.
Lýst vel á að fá Ingvar til að skrifa skýrlsluna, þá vinnum við…
Ég spái 0-2. Leyfi mér að vera bjartsýnn í þetta skiptið.
David Moyes hefur aldrei unnið Liverpool sem stjóri Everton, allavega ekki á Anfield.
Ég held að þetta sé fjórða skýrslan sem ég skrifa og Everton hefur alltaf tapað. Kannski er betra að ég komi ekki nálægt skýrslugerð.
Höddi Magg á ekki að fá að lýsa liverpool leikjum
Þegar að við nýtum ekki færin okkar fáum við ekkert út úr leiknum.
Jack Harrison og Dacoure skipta takk.Geta ekkikomið boltanum skammlaust frá sér.