
Mynd: Everton FC.
David Moyes og félagar fá West Ham, sem David Moyes stýrði áður, í heimsókn í 29. umferð ensku úrvalsdeildarinnar í dag en flautað verður til leiks kl. 15:00.
Uppstillingin: Pickford, Mykolenko, Branthwaite, Tarkowski (fyrirliði), O’Brien, Gana, Garner, Alcaraz, Harrison, Doucouré, Beto.
Varamenn: Virginia, Keane, Patterson, Young, Coleman, Iroegbunam, Lindström, Chermiti, Broja.
Sem sagt, engin breyting í vörn Everton og val á Gana og Garner hefur verið með hefðbundnu sniði undanfarið, en það mun líklega vera einhver breyting á framlínunni, þar sem aðeins einn náttúrulegur kantmaður er í byrjunarliðinu (Harrison, sem skoraði í síðasta leik) en Lindström byrjar á bekknum.
Það er gott að sjá að aðeins einn markvörður er á bekknum í þetta skiptið og að ekki þurfti að manna bekkinn með kjúklingum. En á móti kemur að það eru þrír hægri bakverðir á bekknum og vonandi að meira jafnvægi verði á þessu þegar Iliman Ndiaye, Dominic Calvert-Lewin og Dwight McNeil ná að stíga upp úr sínum meiðslum (og náttúrulega Orel Mangala, en það er langt í hann).
Mikið hungur og ákefð í pressunni hjá Everton alveg frá upphafi leiks og þeir gáfu West Ham engan frið. Harrison átti fyrstu tilraun á mark, með skoti nálægt D-inu á vítateignum, en það var blokkerað af varnarmanni.
Everton átti einnig næstu tilraun á mark á 13. mínútu, en það var reyndar hinum megin vallar, þegar Branthwaite reyndi skalla á eigið mark eftir hornspyrnu frá West Ham en Pickford varði glæsilega.
Alcaraz var með næstu tilraun á mark — skalla hjá fjærstöng vinstra megin eftir háa sendingu frá Harrison á 19. mínútu, en auðvelt fyrir markvörð West Ham. Tveimur mínútum síðar fann Harrison Doucouré upp við mark með annarri svipaðri hárri fyrirgjöf en aftur var niðurstaðan sú sama. Beto fékk svo tvö skallafæri í kjölfarið (í tveimur sóknum) en lítil hætta. Everton að takast, trekk í trekk, að ná að koma háum boltum fyrir mark en afgreiðslan á þeim sendingum mætti vera betri.
Lítið að gerast í sóknarleik West Ham en þeir náðu loks á 27. mínútu sínu fyrsta — og eina — skoti á rammann í fyrri hálfleik þegar Bowen reyndi skot af löngu færi sem Pickford varði yfir slána. O’Brien svaraði með langskoti hinum megin á 32. mínútu — sem markvörður West Ham náði að verja með því að slá boltann í átt að hliðarlínu.
Rétt fyrir hálfleik fékk fékk Beto víti. En VAR sendi dómarann í skjáinn og hann sneri við sinni ákvörðun — ekkert víti, sem er réttur dómur, því það var ekkert brot í þessu. Beto einfaldlega sparkaði í jörðina.
0-0 í hálfleik.
Everton tóku fótinn af bensíngjöfinni í seinni hálfleik en West Ham menn spýttu hins vegar í lófana. Lítið að frétta af framan af, samt.
Á 61. mínútu náðu West Ham menn sínu öðru skoti á rammann. Aftur var Bowen að verki, aftur svolítið vongóður, í þetta skipti innan teigs vinstra megin (frá þeim séð) en skotið beint á Pickford.
En á 69. mínútu náðu West Ham menn loks almennilegu skoti á markið, þegar Bowen dró að sér fimm varnarmenn Everton og fann Soucek inni í teig. Hann tók snúning og setti boltann alveg út við stöng hægra megin og í netið. 0-1 fyrir West Ham. Lindström inn á fyrir Doucouré strax í kjölfarið.
Broja, Chermiti og Iroegbunam inn á fyrir Beto, Harrison og Garner á 79. mínútu.
Everton jók á pressuna eftir því sem á leið en á 91. mínútu náðu þeir loks að jafna. Alcaraz fann Gana, með löngum bolta, á auðum sjó hægra megin inn í teig og hann sendi boltann fyrir mark í fyrstu snertingu, þar sem O’Brien var mættur fremstur og skallaði inn. Staðan jöfn, 1-1!
Á lokasekúndunum fékk Alcaraz tækifæri til að setja sigurmarkið þegar boltinn datt vel fyrir hann inni í teig eftir langan skalla fram völlinn frá Tarkowski. Miðvörður West Ham hrasaði og Alcaraz þurfti bara að setja hann í hliðarnetið en setti hann rétt framhjá stöng.
1-1 jafntefli því niðurstaðan. Löng taplaus hrina Everton heldur því áfram og er það vel.
Einkunnir Sky Sports: Pickford (6), O’Brien (7), Tarkowski (6), Branthwaite (6), Mykolenko (6), Gueye (6), Garner (6), Doucoure (5), Harrison (5), Alcaraz (6), Beto (5). Varamenn: Lindstrom (6), Iroegbunam (6).
Maður leiksins að mati Sky Sports var Jake O’Brien.
Mér þykir það leitt en ég var tilneyddur að fara ferð í Bónus og af fenginni reynslu þá tapar Everton alltaf ef ég þarf að gera það á leikdegi. Sorry.
Bónus-bölvuninni greinilega aflétt hér með… 🙂
Vonandi 😉😆
Þessi dómari er búinn að vera besti maður West Ham í fyrri hálfleik, nema í þetta eina skipti sem hann ætlaði að gefa okkur víti sem var aldrei víti. Sennilega er hann bara eins og allir hinir dómararnir í deildinni, algjört rusl.
O’Brien í liði vikunnar að mati BBC:
https://www.bbc.com/sport/football/articles/clyr05ker3mo