Crystal Palace – Everton 1-2

Mynd: Everton FC.

Þá var komið að 25. umferð ensku úrvalsdeildarinnar með viðureign Crystal Palace og Everton á heimavelli þeirra fyrrnefndu. Crystal Palace höfðu ekki unnið Everton nema einu sinni í síðustu 20 tilraunum í úrvalsdeildinni, skv. lýsanda leiksins, og ekki höfðu þeir erindi sem erfiði í kvöld.

Uppstillingin: Pickford, Mykolenko, Branthwaite, Tarkowski (fyrirliði), O’Brien, Gana, Garner, Harrison, Alcaraz, Lindström, Beto.

Varamenn: Virginia, Begovic, Keane, Young, Iroegbunam, Dixon, Heath, Ebere, Sherif.

Bekkurinn var svo næfurþunnur að það var eins og liðið hafi valið sig sjálft. Á bekknum voru tveir markverðir, tveir varnarmenn, hvorki fleiri né færri en FJÓRIR kjúklingar (þar af þrír sem hafa aldrei spilað keppnisleik fyrir aðalliðið) og einn miðjumaður. En nýi maðurinn Alcaraz var í byrjunarliðinu í fyrsta skipti.

Meiðslalistinn er langur: Nathan Patterson, Seamus Coleman, Dwight McNeil, Dominic Calvert-Lewin, Armando Broja, Youssef Chermiti og Iliman NDiaye. Auk þess er Doucouré í leikbanni eftir derby leikinn.

Okkar menn voru mistækir í byrjun og það voru Crystal Palace sem áttu fyrsta færi leiksins, eftir smá vandræðagang í vörn Everton hjá miðvarðarparinu okkar, þannig að Mateta komst í skotfæri gegn Pickford. Sem betur fer ákvað Mateta að láta reyna á markvörð, í stað þess að renna boltanum á Sarr, sem var í dauðafæri, því Pickford varði nokkuð örugglega frá honum. 

Palace færðu sig upp á skaftið og náðu skalla í utanverða stöng á 16. mínútu og náðu svo að koma tuðrunni í netið á 18. mínútu eftir horn, en hornið var ekki rétt tekið (boltinn fór í sveig út af velli og svo inn á aftur) þannig að markið var dæmt af.

Eftir það tók við góður kafli hjá Everton, þar sem þeir héldu bolta vel og létu hann ganga manna á milli. Gerðu harða hríð að marki Palace, án þess að ná að skapa dauðafæri.

Á 41. mínútu voru Palace menn svo næstum búnir að skora. Miðjumaður þeirra náði einhvern veginn að böðla boltanum framhjá hverjum Everton manninum á fætur öðrum með ótrúlegum (og eiginlega kómískum hætti) en svo barst boltinn til Mateta sem framlengdi á Sarr, sem var skyndilega kominn einn á móti Pickford en setti boltann í neðanverða slána og út aftur.

Þetta reyndist vendipunktur í leiknum, því að, í stað þess að skora, fengu Palace menn innkast, og Mitchell (sá sem tók innkastið fyrir Palace) sendi boltann beint á okkar mann Alcaraz, sem þakkaði pent fyrir sig og brunaði í sókn. Dró að sér Palace menn og sendi á Beto sem var kominn í skotfæri og náði að lauma boltanum milli markvarðar og varnarmanns og skora! 0-1 fyrir Everton!

Og þannig var það í hálfleik!

Tvöföld skipting hjá Palace í hálfleik (Eze og Wharton inn á) og þeir byrjuðu seinni hálfleik með látum og skoruðu strax á fyrstu mínútu eftir hornspyrnu. VAR tók sér dágóðan tíma í að meta hvort þetta væri rangstaða, og þulirnir sögðu að þetta væri tæpt en markið stóð.

Eze reyndi svo skot stutt síðar en engin hætta.

Á 53. mínútu komst Everton í bullandi skyndisókn þar sem Alcaraz sendi á Lindström hægra megin í teig. Hann reyndi að setja boltann í sveig í hliðarnetið fjær en Henderson í markinu varði glæsilega. 

Hinum megin reyndi Eze aftur skot en aftur engin hætta.

Á 56. mínútu komst Everton aftur í skyndisókn og enn á ný fundu þeir Lindström frammi hægra megin. Hann sendi á Beto fyrir framan mark, alveg upp við mark, sem stýrði boltanum á rammann, en aftur varði Henderson.

Á 78. mínútu komst Everton svo óvænt í góða stöðu þegar Gueye stal boltanum af varnarmanni Palace, alveg við vítateiginn og sendi á Beto sem var ofarlega á vellinum. Alcaraz kom aðvífandi inn í teig og hefði bara þurft að pota boltanum í netið, ef sendingin hefði komið á réttum tíma, en Beto var of fljótur á sér með að senda boltann og Palace menn sluppu með skrekkinn þar.

Young kom inn á fyrir Lindström á 79. mínútu og Everton skoraði strax í kjölfarið. Aukaspyrna inn í teig Palace var hreinsuð frá, en Harrison hélt sókninni á lífi og sendi háan bolta fyrir mark frá vinstri kanti, á fjærstöng, þar sem O’Brien skallaði að marki. Boltinn fór í höndina á varnarmanni og út í teig en leikurinn hélt áfram. Young náði frákastinu og reyndi skot að marki sem var blokkerað. En boltinn fór þá til Alcaraz, sem var í enn betri stöðu inni í teig og hann þrumaði inn! Everton komið aftur yfir í leiknum! Staðan orðin 1-2!

Moyes gerði eina skiptingu í lokin þegar Iroegbunam kom inn á fyrir markaskorarann Alcaraz á 86 mínútu. 6 taugatrekkjandi mínútum var bætt við, en þó að Palace menn reyndu allt hvað þeir gátu tókst þeim ekki að jafna. 

Lokaniðurstaða: Crystal Palace eitt Everton tvö.

Þetta var miklu meira en maður gat í raun beðið um, með örþunnan hóp sem þar að auki lék í erfiðum derby leik í miðri viku á meðan Palace hvíldu. Everton er nú taplaust í fimm leikjum, þar af fjórir sigrar (13 stig af 15 mögulegum). Þetta er farið að líta vel út. Ef Everton hefði skorað eitt í viðbót hefði liðið tekið 12. sætið af Crystal Palace.

Einkunnir Sky Sport: Pickford (8), O’Brien (6), Tarkowski (6), Branthwaite (6), Mykolenko (6), Gueye (7), Garner (6), Alcaraz (8), Lindstrom (6), Harrison (6), Beto (9). Varamenn: Young (6), Iroegbunam (6).

Hjá Crystal Palace fékk Mateta 8 og Guehi 7 en restin var öll í fimmum og sexum.

Maður leiksins, að mati Sky Sports var Beto.

10 Athugasemdir

  1. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Mér sýnist okkar menn frekar þreyttir og andlausir í dag, sem er kannski ekki skrýtið miðað við leikinn á miðvikudaginn. Held að það væri fínt ef við næðum að hanga á jafnteflinu.

  2. Gunni D skrifar:

    Eitt mark í viðbót og við komnir í 12.sætið.

  3. Eirikur skrifar:

    Ótrúlega góð úrslit. Og Beto heldur áfram að skora🤗

  4. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Hvernig í ósköpunum unnum við þennan leik???
    Æ, mér er alveg sama, frábær sigur.

  5. Einar Gunnar skrifar:

    Algjörlega frábært – vinningshlutfallið eftir að Moyes tók við liðinu lofar góðu!

  6. AriG skrifar:

    Frábær barátta í liðinu. Alcaraz besti maður vallarins. Beto líka mjög góður. Ótrúlegur viðsnúningur vantar 8 í þessum leik. Stefnum á 10 sætið í vor.

  7. Finnur Thorarinsson skrifar:

    Óskabyrjun hjá Moyesiah! 🙂

    Næstu leikir gætu orðið strembnir, þar sem meiðslalistinn er langur, en á meðan liðið rakar inn stigum þá er ekki hægt að kvarta. 🙂

  8. Finnur Thorarinsson skrifar:

    Rétt að benda á það líka að Arsenal er *eina* liðið í úrvalsdeildinni sem er með betri árangur í síðustu fimm leikjum en Everton, og það er eingöngu vegna þess að þeir eru með +1 í markatölu á Everton. Restin af deildinni er með verri stigasöfnun en þessi tvö lið.

  9. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Liðið var frekar slappt í dag, fannst mér allavega, sem gerir þennan sigur enn betri. Er ekki annars sagt að góð lið finni leið til að vinna leiki jafnvel þó þau séu ekki að eiga góðan dag?
    Það versta við leiki Everton eftir að Moyes kom aftur heim, er að það er nánast ómögulegt að velja einhvern einn sem mann leiksins. Ég held samt að Beto eigi skilinn þann heiður í dag.
    Ég held að ég hafi kannski einhvern tíma sagt að hann væri ekki nógu góður fyrir Everton, eða að hann væri gagnslaus tréhestur sem ekkert erindi ætti á fótboltavöll, ég ét það með glöðu geði ofan í mig aftur.
    Beto hefur heldur betur gripið þetta tækifæri sem meiðsli DCL færðu honum til að sýna að hann á fullt erindi í lið í þessari deild. Það er líka nokkuð ljóst að Moyes og þjálfarateymi hans er að vinna í því að bæta leik hans. Mér finnst hann vera farinn að vera miklu betri í að halda boltanum með bakið í markið og skila honum frá sér á samherja og hjálpa þannig liðinu að færa sig fram völlinn. Ef hann heldur svona áfram þá er nú líklegt að hann verði áfram í herbúðum okkar manna á næsta tímabili, hann er amk að hækka í verði með hverju marki sem hann skorar, sem er bara gott.

  10. Finnur Thorarinsson skrifar:

    Talandi um það… Beto var valinn í lið vikunnar að mati BBC:
    https://www.bbc.com/sport/football/articles/cdryrd77n0mo

Leave a Reply