Mynd: Everton FC.
Í dag mætir Everton í heimsókn til Englandsmeistara Manchester City í hádegisleik ensku úrvalsdeildarinnar, en flautað verður til leiks klukkan 12:30.
Uppstilingin: Pickford, Mykolenko, Branthwaite, Tarkowski, Coleman (fyrirliði), Gana, Mangala, Ndiaye, Doucouré, Harrison, Calvert-Lewin.
Varamenn: Virginia, O’Brien, Patterson, Keane, Armstrong, Chermiti, Lindström, Beto, Broja.
Sem sagt, McNeil hvergi sjáanlegur, hvorki í byrjunarliðinu, né á bekknum, þannig að hann er meiddur áfram, leyfi ég mér að fullyrða. Sömu sögu er að segja af Young, en ástæðan er önnur: leikbann (of mörg gul spjöld). En þá að leiknum.
City menn byrjuðu leikinn líflega. Unnu horn (með vafasömum hætti) á þriðju mínútu, þegar þeir brutu á Coleman innan teigs, sem olli því að hann sparkaði aftur fyrir endalínu. Gvardiol náði svo að skalla fyrirgjöf eftir hornið í stöngina og út.
City menn mun meira með boltann í fyrri hálfleik, eins og við var að búast. Og þeim tókst að skora á 13. mínútu eftir vel útfærða sókn. Náðu stungu inn fyrir á Bernardo sem kom á hlaupinu og komst upp að marklínu vinstra megin og reyndi sendingu fyrir mark. Branthwaithe gerði vel að ná að skriðtækla fyrir sendinguna, en var óheppinn og breytti því miður stefnu boltans, sem fór í sveig yfir Pickford í markinu og inn alveg út við fjærstöng. Sjálfsmark og staðan því orðin 1-0 fyrir City. City menn stálheppnir þar.
Þetta þýddi að Everton þurfti að færa varnarlínuna framar á völlinn og taka meiri sénsa — og veita þar með City færi á löngum sendingum fram á norska þursinn. Honum tókst að komast í eitt svoleiðis dauðafæri í fyrri hálfleik, en Pickford sá við honum og lokaði á það.
Fyrsta skot að mark frá Everton kom frá Mangala á 20. mínútu, af löngu færi en boltinn hvergi nærri marki. Gana átti öllu betra skot á 27. mínútu, eftir horn. Var við D-ið og náði að koma boltanum á rammann, en boltinn barst í þægilegri hæð fyrir markvörð sem náði að stoppa það.
Bernardo fékk svo dauðafæri á 33. mínútu þegar hann fékk frítt skot á mark rétt kominn inn fyrir vítateigslínu og ætlaði að reyna utanfótar snuddu út við hægri stöng en setti réttu megin við stöngina, frá okkur séð.
Þar hefði staðan átt að vera 2-0 fyrir City en í staðinn náði Everton að jafna í næstu sókn. Komust upp hægri kantinn þar sem, eftir smá stutt samspil náði Doucouré fínni fyrirgjöf fyrir mark. Boltinn stefndi á Calvert-Lewin fyrir framan mark, en varnarmaður City breytti stefnu boltans örlítið, þannig að boltinn fór örlítið utar og til Ndiaye. Og sá var aldeilis fljótur að hugsa — lagði boltann vel fyrir sig með frábærri fyrstu snertingu og tók strax utanfótarskot í hliðarnetið út við fjærstöng, hægra megin. Óverjandi skot og staðan orðin 1-1.
Og þannig var það í hálfleik.
Engar breytingar á liðunum í hálfleik og seinni hálfleikur byrjaði með svipuðum hætti og sá fyrri — City líflegir með tvö skot á mark strax í blábyrjun. Það fyrra varið og það seinna rétt framhjá.
Ekki hjálpaði svo þegar Mykolenko gaf þeim víti á 51. mínútu, þegar hann sparkaði niður Savinho inni í teig.
En Pickford kom honum til bjargar með því að verja vítið með glæsilegum hætti. Haaland fór á punktinn og reyndi að setja boltann vinstra megin við Pickford, en Pickford var búinn að lesa hann. Frákastið fór þó til City manns sem skallaði boltann aftur á Haaland, sem skoraði með skalla — en var kolrangstæður.
Everton fékk fínt færi eftir skyndisókn á 68. mínútu. Hár bolti (fyrir mark frá hægri) fann Doucouré á auðum sjó vinstra megin í teig og hann reyndi skot á mark sem var blokkerað af varnarmanni í horn, sem ekkert kom úr.
Calvert-Lewin fór svo út af og Broja kom inn á 70. mínútu. Guardiola ákvað að breyta engu hjá sér fyrr en á 75. mínútu. Kannski vegna þess að City bekkurinn leit óvenju veikburða út — miðað við venjulega. Oftast er hann stjörnum skipaður og jafnvel 100+M punda menn þar að finna. Í dag voru þó Gundogan og Kevin De Bruyne einu nöfnin sem maður þekkti, restin ungliðar. En á 75. mínútu var það De Bruyne sem kom inn á, líklega til að reyna að sprengja upp vörn Everton sem hafði haft góð tök á leiknum. Ekki tókst honum það í dag.
Ndiaye fór svo út af fyrir Lindström á 81. mínútu, en Ndiaye eitthvað verið að kveinka sér. Sem var slæmt því hann hafði verið bjartasta von Everton í leiknum.
Mangala átti flott fast skot á 83. mínútu en í varnarmann og í horn. Sá bolti hefði getað endað hvar sem er. Everton lágu svo djúpt síðustu mínúturnar, oft í 5-4-1 uppstillingu — eða jafnvel 6-3-1 — og biðu færis — sem átti aldeilis eftir að koma.
En fyrst kom Patterson inn á fyrir Coleman á 90. mínútu og svo var 6 mínútum bætt við.
Undir lok uppbótartíma komst Everton í sókn á tveggja manna yfirtölu (með fjóra á móti tveimur varnarmönnum City) og náðu að láta boltann ganga vel. En boltinn endaði hjá Harrison inni í teig hægra megin og hann lét verja frá sér skot utarlega í teignum. Mjög illa farið með gott færi og þar hefðu City menn átt skilið að lenda undir.
Þetta reyndist síðasta færi leiksins og því fer Everton með stig af heimavelli Englandsmeistaranna — sem er svo sem ekki slæm niðurstaða, þó maður hefði viljað sjá fleiri stig.
Flott frammistaða annars í dag, sérstaklega hjá Ndiaye. Þetta er ekki að smella hjá City mönnum þessa dagana, virkuðu hugmyndasnauðir og rúnir sjálfstrausti — tvístígandi í aðgerðum oft og virðist mikið til fyrirmunað að svo mikið sem hitta markið. Mjög spes.
1-1 niðurstaðan.
Einkunnir Sky Sports: Pickford (8), Coleman (8), Tarkowski (8), Branthwaite (8), Mykolenko (6), Mangala (9), Gueye (8), Doucoure (8), Harrison (8), Ndiaye (8), Calvert-Lewin (7). Varamenn: Patterson (6), Broja (7), Lindström(6).
Maður leiksins að mati Sky Sports var Orel Mangala.
Everton var með yfirburðastöðu í einkunnagjöf Sky Sports, því Manchester City voru í meðalmennskunni. Tæpur meirihluti byrjunarliðs þeirra með 6 í einkunn, restin með 7 — fyrir utan eina áttu.
Og það segir ákveðna sögu…
Ég fór í pílagrímsferð á Goodison Park ásamt fögru fylgdarliði og sá okkar menn halda Chelski í skefjum og krækja í mikilvægt stig. Til gamans má geta að þetta var sjötta ferð mín á Goodison og ég hef aldrei séð mína tapa þar. Rúsínan í pylsuendanum var svo þegar ég fékk jólagjöf frá fylgdarliðinu sem innihélt “Everton way” sem eru steinar sem eru merktir viðkomandi og lagðir verða í stétt við nýja völlinn! Á mínum stendur DIDDI SIG BLUE FOR 60 YRS. Einnig þakka ég fyrir gjöf klúbbsins og óska ykkur gleðilegra jóla
Geggjað! Gaman að því!
Gleðileg jól sömuleiðis.
City hefur verið í tómu brasi í síðustu leikjum og þá mætir Everton á svæðið til að redda málunum fyrir þá, enda lentir undir þegar þetta er skrifað eftir grísamark. Ég reikna með að þeir bæti svona tveimur eða þremur mörkum við þetta fyrsta….en það er kannski bjartsýni.
Gleðilega hátíð félagar. Takk fyrir jólagjöfina.
Held að okkar möguleikar felist í því að vera með þessa stöðu þar til að lítið er eftir og ná að pota inn marki á móti stressuð City liði.
Þú varst alls ekki langt frá því að giska hárrétt á það… 🙂
Flott mark hjá Ndiaye og kemur líklega í veg fyrir að Craig Dawson eigi mark mánaðarins í desember 😉
Útaf með DCL þvílík skita sem þessi gæi er
Jack Harrison er svo mikið drasl.
Flott barátta Everton í leiknum. Áttu samt að skora í restina í leiknum ótrúlegt að klúðra því. Ætla að velja Pickford mann leiksins aðrir líka mjög góðir sérstaklega vörnin og markaskorarinn geggjað mark.
Þrjú stig á móti Arsenal, Chelsea og Man City ef bara flott úrslit. Enn við verðum að geta nýtt góðar stöður betur eins og í lok leiks í dag. Nú er bara seinasti leikur ársins á sunnudaginn og við þiggjum 3 stig takk😊