Mynd: Everton FC.
Þá er komið að 2. umferð í enska deildarbikarnum en Everton á leik kl. 18:45 við Doncaster á Goodison Park. Doncaster menn eru þessa stundina í umspilssæti í League Two (ensku D deildinni) eftir tvo sigra og eitt tap (plús einn sigur í fyrstu umferð deildarbikarsins).
Þess má til gamans geta að Everton spilaði einnig við Doncaster í fyrsta deildarbikarleik tímabilsins 2023/24 (reyndar á útivelli þá) og unnu þann leik 1-2. Doncaster komust að vísu yfir í leiknum í fyrri hálfleik (með ólöglegu marki), en Everton skoraði tvö á móti (Beto og Danjuma). Held að það sé eini leikur Everton við Doncaster í seinni tíma.
Uppstillingin: Pickford, Mykolenko, Keane, O’Brien, Coleman (fyrirliði), Garner, Iroegbunam, McNeil, Lindström, Ndiaye, Beto.
Varamenn: Virginia, Holgate, Dixon, Young, Gana, Armstrong, Harrison, Doucouré, Calvert-Lewin.
Doncaster menn byrjuðu leikinn, voru í rauðum og hvít-röndóttum-treyjum og sóttu í áttina að Gwladys Street stúkunni, þar sem hörðustu stuðningsmenn Everton sitja jafnan. En leikmenn Everton voru fljótir að ná boltanum af þeim og ná undirtökum í leiknum. Augljós (og skiljanlegur) gæðamunur á liðunum þar sem liðsmenn Everton voru duglegir að halda bolta og láta hann ganga hratt og vel sín á milli og áttu beittar sendingar inn fyrir vörn Doncaster. Það var meiri ákefð í leik Everton, sem nýttu aðstæðurnar vel til að láta boltann ganga, enda völlurinn vel blautur í rigningunni í Everton City.
Ein áðurnefnd beitt sending skapaði dauðafæri fyrir Everton strax á 8. mínútu þegar Mykolenko sendi inn í teig á McNeil, sem kom á hlaupinu inn í teig vinstra megin og sendi flottan lágan bolta fyrir mark sem sigldi framhjá markverði. Beto var hársbreidd frá því að renna sér á boltann og setja hann í autt netið en var örlítið of aftarlega til að ná því. Ndiaye náði boltanum við fjærstöng en varnarmaður náði að blokkera sendingu yfir á Everton mann í dauðafæri fyrir framan mark. Doncaster menn sluppu með skrekkinn þar.
Sömuleiðis þegar þeir voru næstum búnir að skora sjálfsmark á 12. mínútu, þegar miðvörður þeirra reyndi sendingu aftur á markvörð, sem var á leið í aðra átt, og þurfti því að spretta til baka áður en boltinn lak yfir línu og sparka boltanum út fyrir hliðarlínu.
Fyrsta skot Doncaster á mark var ekki af verri endanum — við vítateigslínuna örlítið hægra megin við D-ið. Flott skot sem stefndi í átt að hliðarnetinu vinstra megin, en Pickford var vandanum vaxinn og sló boltann frá. Everton svaraði með hraðri skyndisókn sem endaði með hárri — en ónákvæmri — sendingu frá Lindström, frá hægri inn fyrir mark, en of utarlega og út fyrir hliðarlínu.
Rétt fyrir lok venjulegs leiktíma í fyrri hálfleik gerði Ndiaye mjög vel þegar hann vann einvígi við bakvörð Doncaster (skildi hann eftir í grasinu) og komst framhjá honum upp hægri kant og fann Garner sem kom á hlaupinu inn að teig. Garner náði fínu skoti sem virtist vera á leið inn við stöngina vinstra megin, en varnarmaður — rétt svo, og úr jafnvægi — náði að slengja fæti í boltann og breyta stefnu boltans í horn.
Everton var svo hársbreidd frá því að skora upp úr horninu. Fyrirgjöfin (sem kom frá hægri) var reyndar pínu erfið, og stefndi aftur fyrir mark en Keane (vel utan við fjærstöng) gerði vel í að forða markspyrnu og sendi boltann beint á Garner sem var utarlega fyrir miðju marki. Garner var fljótur að hugsa og reyndi skot, sem fór í innanverða stöng og út í teig aftur en það var svo hreinsað frá. Aftur voru Doncaster menn stálheppnir.
0-0 í nokkuð fjörugum hálfleik.
Engin breyting á liði Everton í hálfleik, en mér sýndist Doncaster skipta einum af sínum út af, líklega vegna meiðsla.
Á 53. mínútu náði Everton loks að komast yfir í leiknum. Lindström gerði vel að pressa á hægri bakvörð Doncaster og finna Iroegbunam, sem kom á hlaupinu í átt að teignum. Iroegbunam náði fínu skoti í fyrstu snertingu, við vítateigsjaðarinn, sem endaði í sveig í netinu, með smá viðkomu í McNeil sem stal af honum markinu. Staðan orðin 1-0 fyrir Everton! Ekki viss hver skoraði, en frá okkur stuðningsmönnum séð er markið það eina sem skiptir máli.
Everton náði flottri skyndisókn á 63. mínútu þegar Coleman fann Garner, sem hafði fullt af plássi ekki langt frá miðjusvæðinu hægra megin — ef hann myndi bara ná að snúa sér og sjá það. Sem hann og gerði, brunaði upp völlinn hægra meginn, alla leið inn í teig en skaut framhjá stöng vinstra megin.
Á 66. mínútu skapaði Ndiaye algjört dauðafæri fyrir Everton þegar hann tók snúning og bakvörð Doncaster lá í grasinu klórandi sér í hausnum. Ndiaye komst þar með upp hægri kant óáreittur og náði frábærri hárri sendingu fyrir mark — fullkomið skallafæri fyrir Beto, sem skallaði boltann framhjá marki. Þar hefði staðan átt að vera 2-0.
Þreföld skipting fylgdi í kjölfarið hjá Everton: Harrison kom inn á fyrir Lindström, Young inn á fyrir Coleman og Gueye inn á fyrir Garner. Doncaster menn náðu sókn strax í kjölfarið sem endaði með skoti beint á Pickford, sem þurfti samt að kasta sér niður á boltann. Ekki mikil hætta.
Á 73. mínútu gerði Ndiaye svo endanlega út um leikinn með frábæru einstaklingsframtaki. Hann sneri af sér miðjumann Doncaster, brunaði inn í teig, lék auðveldlega á miðvörð þeirra og lagði boltann auðveldlega framhjá markverði. Staðan þar með orðin 2-0 fyrir Everton! McNeil var svo ekki langt frá því að skora úr skyndisókn strax á eftir, en markvörður Doncaster varði skotið yfir slána.
Roman Dixon kom inn á fyrir Ndiaye á 78. mínútu og Dixon þar með settur í hægri bakvörð og Young færður aðeins fram á völl (í vængbakvarðarstöðuna).
Eitt hálffæri á 81. mínútu (skot yfir frá Harrison) en þriðja mark Everton kom svo á 83. mínútu. McNeil náði þá sendingu inn fyrir bakvörð Doncaster, beint á Mykolenko, sem sendi fyrir markið, beint á Beto. Hann lagði boltann vel fyrir sig með fyrstu snertingu, sem setti markvörð Doncaster alveg úr jafnvægi og Beto þurfti ekki að hafa mikið fyrir því að leggja boltann framhjá markverðinum. 3-0 fyrir Everton! Iroegbunam fór svo út af fyrir Armstrong í kjölfarið.
Doncaster menn áttu eitt hálffæri undir lokin — skalli nokkuð yfir mark, sem Pickford var hvort eð er með og McNeil átti einnig skot vel yfir mark hinum megin.
En þetta reyndist niðurstaðan – Everton auðveldlega áfram í deildarbikarnum!
Sky Sports gefa ekki út einkunnir fyrir deildarbikarinn. Hver var maður leiksins að ykkar mati?
Er að horfa á V Sport 3. Norsk stöð sem er að sýna leikinn.
Hann er náttúrulega einnig á Viaplay Iceland.
Ef Everton hefði leikmenn sem gætu af og til rambað á að senda boltann á samherja, og kannski hlaupið þokkalega hratt, og klárað færin sín, þá værum við að vinna þennan leik. En af því að Everton hefur ekki svona leikmenn, þá eigum við örugglega eftir að klúðra þessu. Everton er búið að fá nóg af tækifærum til að gera út um þennan leik en alltaf hefur síðasta sendingin klikkað eða menn skotið í mótherja eða tréverkið.
Ingvar minn, alltaf gaman þegar þú hefur rangt fyrir þér…hjúkk 🙂 Við unnum3-0
Já, og enginn sem verður glaðari en ég þegar það gerist 🙂
Big „like“ á þetta svar 🙂
Ingvar, ég held að leikmennirnir geti það alveg en held að dyche sé ekki að leyfa þeim að æfa með bolta. Það er með ólíkindum hvað sendingargeta sumra leikmanna er lítil og svo grenja menn og vilja henda DCL en tölfræðin sýnir að þegar hann er hjá stjóra sem lætur lið spila fótbolta þá skorar hann. Ef hann fer til Newcastle eða Arsenal þá efast ég ekki um að hann verði með markahærri mönnum. Þ.e.a.s. ef hann verður striker. Svo gerist lítið þegar stjórar eiga uppáhaldsleikmenn sem eru alltaf valdir í byrjunarliðið þó þeir geti ekki blautan skít
Diddi, DCL er búinn að vera sem leikmaður, þarf endurnýjun og nýja hvatningu. Leyfum honum að fá stóran samning……….annars staðar. Hann er hættur að skora, Beto er miklu duglegri sem leikmaður og hentar leikstíl Dyche vel.
Fín fyrstu mörkin hjá Ndiyaje og Iroegbunam og gott fyrir Beto að skora… hef það á tilfinningunni að hann muni skora meira á þessu tímabili heldur en Dominic Calvert-Lewin skoraði á síðasta tímabili.
Pínu klassastíll á markinu hjá Ndiayje og vonandi sýnir hann eitthvað svona í framtíð. Doncaster nokkuð gott lið (held ég) miðað við stöðu liðsins í ensku deildaliðakeppninni.
Áfram Everton!
Næsta (þriðja) umferð deildarbikarsins:
Liverpool v West Ham
Man City v Watford
Arsenal v Bolton Wanderers
Man United v Barnsley
Wycombe Wanderers v Aston Villa
Coventry City v Tottenham
Walsall v Leicester City
Brentford v Leyton Orient
Blackpool v Sheffield Wednesday
Preston v Fulham
Everton v Southampton
QPR v Crystal Palace
Stoke City v Fleetwood Town
Brighton v Wolves
Wimbledon v Newcastle
Chelsea v Barrow
Það hjálpar vonandi upp á sjálfstraustið í leikmönnum að hafa unnið þennan leik en það var erfið fæðing og í fyrri hálfleik mátti varla á milli sjá hvort liðið var í úrvalsdeildinni. Seinni hálfleikur mun betri og þetta var eiginlega game over fyrir Doncaster eftir fyrsta markið.
Ég vona að Dyche haldi Ndiaye í byrjunarliðinu gegn Bournemouth á laugardaginn í tíunni, en ekki á vinstri kantinum, hann er betri þar heldur en Doucoure. Dyche er hins vegar vís með að henda honum á bekkinn eða kantinn, hann sagði amk eitthvað á þá leið eftir leikinn að hann væri góður þar.
Ég held samt að McNeil verði á vinstri kantinum og Doucoure komi aftur í byrjunarliðið og Ndiaye verði settur á bekkinn.
Svona spái ég að liðið verði.
Pickford, Young, Tarkowski, Keane, Mykolenko, Gana, Iroegbunam, Harrison, McNeil, Doucoure og Beto.
Nú jæja þar sem DCL er ekki farinn þá byrjar hann auðvitað en ekki Beto.