Doncaster Rovers – Everton 1-2 (deildarbikar)

Mynd: Everton FC.

Þá er komið að fyrsta bikarleik tímabilsins, þegar Doncaster Rovers tekur á móti Everton í 2. umferð enska Deildarbikarsins kl. 19.00 í kvöld. Það eru 48 lið sem taka þátt í þessari umferð, 24 sem komast áfram með sigri og svo bætast við 8 lið úr efri hluta Úrvalsdeildarinnar fyrir næstu umferð.

Það er líklega enginn í okkar stuðningsmannahópi sem þekkir vel til Doncaster Rovers (en væri gaman að heyra í kommentakerfinu ef ég hef rangt fyrir mér þar). Það má samt læra ýmislegt um þá með því að lesa sér til á netinu, því mótherjar kvöldsins leika í ensku D-deildinni (eða „League Two“ eins og fjórða efsta deildin í ensku er kölluð). Þeirra tímabil hefur nú þegar náð yfir fimm leiki og þeir sitja nú á botni deildarinnar með eitt jafntefli og markatöluna 4-12. Þetta er nokkuð lakari árangur en síðasta tímabil, þar sem þeir enduðu í 18. sæti (af tuttugu og fjórum) og voru þá tólf stigum frá fallsæti.

Miðað við það sem ég hef lesið er ákveðið umbreytingarskeið hjá þeim í gangi. Hópurinn þeirra er töluvert breyttur frá síðasta tímabili, en skv. tilkynningu á vefsíðu þeirra (frá því í maí) voru átta leikmenn með lausa samninga eftir tímabilið — þar af helmingur sem fékk tilboð um nýjan samning. Ekki fylgdi sögunni hverjir af þeim hefðu skrifað undir Aðeins tveir þeirra voru hins vegar á bekknum hjá þeim í síðasta leik. En, á móti kemur að þeir fengu til sín sjö leikmenn á frjálsri sölu í staðinn, þar af tvo markverði, tvo miðverði, vinstri og hægri bakvörð og einn framherja en að auki keyptu þeir miðjumann, George Broadbent, fyrir ótilgreinda upphæð frá Sheffield United.

Ég skimaði skýrslur BBC sem og einkunnir stuðningsmanna Rovers um leiki þeirra á tímabilinu og get ekki sagt að það hafi sagt mér neitt um þennan leik í kvöld, því þeir virðast enn vera að leita að réttu uppstillingunni og spila eiginlega aldrei með sömu uppstillinguna tvo leiki í röð (frá 4-4-2 eða 4-3-3 eða 4-2-3-1 og svo 5-3-2 síðasta laugardag). Jafnframt var ekki hægt að sjá að neinn stæðu upp úr í einkunnagjöf, því í fimm leikjum voru fimm mismunandi tilnefningar á manni leiksins hjá þeim (Molyneux, Sotona, Ironside, Faal, Miller, Lawlor) og þessi fjögur mörk sem þeir hafa skorað dreifast á fjóra mismunandi menn. Til gamans er hér þeirra greining á Everton fyrir leikinn í kvöld — alltaf gaman að viðhorfa mótherjanna.

Hvað okkar menn varðar held ég að nýi sóknarmaðurinn okkar, Beto, sé ekki gjaldgengur í þennan leik (uppfært: hann er gjaldgengur og er á bekknum). Meiðslalistinn er hins vegar örugglega svipaður og í síðasta leik: Coleman, Dele Alli, Iwobi, Harrison og Calvert-Lewin. Það verður fróðlegt að sjá hvort einhver á jaðrinum fái séns í þessum leik því ég á alls ekki von á sterkustu uppstillingu Everton.

Uppstillingin: Pickford (fyrirliði), Mykolenko, Keane, Godfrey, Patterson, Garner, Onana, Doucoure, Dobbin, Danjuma, Chermiti.

Varamenn: Virginia, Lonergan, Tarkowski, Branthwaite, Young, Gana, Onyango, Maupay, Beto.

Gaman að sjá Beto á bekknum — vonandi fáum við að sjá hann koma inn á. Annars er þetta bara merkilega sterkt lið – svolítið hrókerað í vörninni, en nokkuð af lykilmönnum í byrjunarliðinu þegar horft er yfir aðrar stöður. Ný er að sjá hvort Dyche spili með tvo frammi (Danjuma og Chermiti), eða hvort hann haldi sig við einn, væntanlega Chermiti…

En þá að leiknum:

Everton byrjaði leikinn með taugaveikluðum hætti þegar Keane sendi aftur á Pickford, strax á upphafsmínútunum, og fyrsta snerting markvörðs okkar var afar slæm, sem gerði það að verkum að Doncaster menn náðu að stela boltanum af honum. Sem betur fer náðist að redda því í horn áður en dauðafæri skapaðist en óþarfi að hleypa upp sjálfstrausti andstæðingsins með þessum hætti.

En það var ekki mikið að frétta fyrr en á 23. mínútu, þegar Doncaster menn fengu horn og boltinn barst til manns á auðum sjó inni í teig hægra megin, sem fékk þar ákjósanlegt færi, en skaut vel yfir.

Besta færi leiksins, fram að því, kom í skaut Everton á 41. mínútu þegar Danjuma komst inn fyrir vörn Doncaster og reyndi skot á fjærstöng, en skotið framhjá.

En Doncaster menn skoruðu svo kolólöglegt mark á 44. mínútu, eftir hornspyrnu. Hár bolti barst inn í teig (í annarri tilraun) og þar fékk sóknarmaður þeirra frían skalla – enda vel rangstæður þegar sendingin kom. VAR hefði tekið þetta af þeim en það var ekkert VAR í þessum leik.

Bæði lið fengu eitt hálffæri áður en dómarinn flautaði fyrri hálfleik af, en markvörður varði í bæði skiptin.

1-0 í hálfleik. Ólöglegt mark en ekki hægt að segja að Everton hafi átt mikið skilið eftir fyrri hálfleik.

Dyche gerði þrjár breytingar í hálfleik. Patterson, Chermiti og Dobbin fóru út af fyrir Young, Gana og Beto. Þetta gerði gæfumuninn, því leikur Everton batnaði töluvert við þetta. 

Á 69. mínútu tók Beto frábæran sprett upp hægri kantinn, rétt náði að halda boltanum inn á vellinum og senda frábæra sendingu fyrir markið, beint á Danjuma sem var mættur fremstur og þurfti bara að koma boltanum framhjá markverði, en línuvörðurinn (sá sami og sá ekki rangstöðuna í fyrri hálfleik), sá ekki að boltinn var ennþá inni á vellinum og dæmdi innkast. Ekki hans besti dagur. Líklega gleymt linsunum heima.

En mark Everton kom loks á 73. mínútu þegar Onana sá hlaup Beto upp völlinn, þar sem hann losaði sig auðveldlega við miðvörðinn og komst í dauðafæri gegn markverði. Mjög vel gert og hann þurfti bara eina snertingu til að leggja boltann framhjá markverði, sem kom hlaupandi á móti, og skora. Staðan loksins… LOKSINS… orðin 1-1. Þetta var farið að verða mjög vandræðalegt. Og í þetta skiptið var ekkert sem línuvörðurinn gat gert við jöfnunarmarkinu.

Mykolenko var skipt út af stuttu síðar vegna meiðsla og Tarkowski kom inn á fyrir hann. Vonandi ekki alvarleg meiðsli.

Beto fékk svo annað geggjað færi á 81. mínútu eftir háa sendingu inn í teig en hann svoleiðis hamraði boltann með enninu í stöngina og út aftur að maður hrökk við. Mjög óheppin að skora ekki þar. Stuttu síðar átti Danjuma svo skot utan teigs en boltinn í slána og það virtist sem Everton væri loksins að vakna almennilega til lífsins. Maupay kom svo inn á fyrir Doucouré í kjölfarið.

Rétt fyrir lok venjulegs leiktíma náði Danjuma hins vegar að klára þennan leik með flottu marki á 89. mínútu, þegar hann tók smá þríhyrning við Maupay við horn vítateigs vinstra megin (frá Everton séð), hljóp svo eftir jaðrinum að D-inu og þrumaði í netið nálægt stöng. Óverjandi fyrir markvörð. 1-2 fyrir Everton. 0-2 ef við teljum bara lögleg mörk.

Everton kom svo aftur boltanum í netið rétt fyrir lok leiks og aftur var Beto að verki, en í þetta skiptið var línuvörðurinn vandanum vaxinn og dæmdi hann rangstæðan. Flottur leikur hjá Beto í kvöld.

Everton fer því áfram í næstu umferð í deildarbikarnum og mæta Aston Villa á útivelli. Heh…

6 Athugasemdir

 1. Ari S skrifar:

  Fyrstu 25 liðnar og Doncaster verið betra. Ekkert meira um það að segja í bili.

 2. Ari S skrifar:

  Ég ætla að vera á undan Ingvari með spá. Doncaster vinnur í kvöld 1-0.

 3. Ingvar Bæringsson skrifar:

  Þvílík djöfulsins hörmung þessi fyrri hálfleikur og það er engin hætta á að sá seinni verði neitt skárri. Þetta lið er algjört rusl og bara spurning um hvað Doncaster skorar mörg mörk í viðbót. Ég giska á þrjú og þetta fer 4-0.

 4. Finnur skrifar:

  Þetta skánaði töluvert í seinni. Frábært að fá ekki bara mark frá Danjuma, heldur mark frá Beto í sínum fyrsta leik fyrir Everton. Það léttir pressuna af þeim og gerir þá hungraða fyrir næstu leiki. Allt gott um það að segja. Þessi Beto drengur er hálfgert naut og þessi skalli — vá! Það var smá Duncan Ferguson í drengnum í þessum leik…

 5. AriG skrifar:

  Everton voru algjörlega yfirspilaðir fyrstu 60 mín. Ég tel að kaup Everton á Beto séu snilldarkaup algjör snillingur. Þetta gjörbreytir stöðu Everton að vera loksins komnir með annan alvöru sóknarmann til að létta af Calvert Lewin. Danjuma flottur. Svakalega er Patterson orðinn lélegur vonandi nær hann sig á strik aftur. Everton er með marga veikleika sérstaklega öll vörnin finnst bakverðirnir alls ekki nógu góðir. Þurfum betri bakverði og annan miðherja og auðvitað hægri vængmann allir eru vinstri vængmenn aðalstaða þeirra. Finnst óþolandi að spila leikmönnum í öðrum stöðum en sem þeir eru bestir í. Þetta þarf að breytast strax annars fer illa í vor Beto er samt ljósið í myrkrinu núna.

  • Ingvar Bæringsson skrifar:

   Alveg sammála þér Ari en ég vil líka meina að okkur vanti agaðan DM. Einhvern sem situr bara fyrir framan vörnina og verndar hana. Calvin Philips væri flottur ef hægt væri að fá hann á láni. Hann fær ekki mörg tækifæri hjá City og vill örugglega spila sig inn í enska landsliðið fyrir EM á næsta ári.