Everton – Roma 1-1 (æfingaleikur)

Mynd: Everton FC.

Þá er komið að síðasta æfingaleiknum fyrir nýtt tímabil í ensku sem er að hefjast eftir um viku, en í dag mætir ítalska liðið Roma í heimsókn á Goodison Park.

Roma þarf vart að kynna, enda sögufrægt og sterkt ítalskt lið. Þeir eru þrefaldir Ítalíumeistarar og nífaldir bikarmeistarar sem unnu UEFA Conference deildina á dögunum (’20-’21) og komust alla leið í úrslit í UEFA League en töpuðu fyrir Sevilla

Uppstillingin: Pickford, Mykolenko, O’Brien, Tarkowski, Coleman (fyrirliði), Gana, Iroegbunam, McNeil, Doucoure, Harrison, Calvert-Lewin.

Varamenn: Virginia, Crellin, Lindström, Holgate, Young, Ndiaye, Dixon, Armstrong, Maupay, Beto.

Sýnist á hópnum að Branthwaite sé enn meiddur og O’Brien tekur stöðu hans, en Tarkowski hefur jafnað sig af sínum meiðslum.

En það að leiknum…

Roma fengu frábært færi á 5. mínútu þegar þeir náðu að létta á pressu Everton með skyndisókn og náðu frábærum löngum bolta á framherjann, sem komst aftur fyrir O’Brien og einn inn í teig gegn Pickford en einhvern veginn tókst honum að enda of langt til hægri í teignum, svo að færið varð þröngt og Pickford gat lokað á hann. Hann náði samt skoti vinstra megin við Pickford, en framhjá marki.

Everton sýndi fína takta í sóknaruppbyggingu sinni í kjölfarið, sérstaklega ungliðinn Iroegbunam, en herslumuninn vantaði í framlínunni til að skapa dauðafæri.

Roma voru hins vegar ekki langt frá því að skora þegar þeir komust upp vinstri kant, náðu sendingu fyrir mark en mér sýndist boltinn fara í sköflunginn á framherja þeirra og skoppa rétt framhjá stönginni utanverðri hægra megin. Boltinn hefði vel getað endað í netinu þar.

Harrison svaraði með hárri fyrirgjöf fyrir mark og Calvert-Lewin var hársbreidd frá því að ná til boltans og skalla á markið.

Á 32. mínútu skokkaði Coleman svo út af meiddur. Leit út fyrir að vera eitthvað minniháttar — vonandi bara til öryggis. Ashley Young kom inn á fyrir hann.

Leikurinn varð pínu flatur í kjölfarið og en skyndilega náðu Roma að skora og markið var af einfaldara taginu. Roma voru með boltann milli teigs og miðu, utarlega hægra megin (frá þeim séð) og svo kom einfaldur hár bolti yfir varnarlínuna, beint á mann sem kom á hlaupinu inn fyrir og hann þurfti ekki að hafa mikið fyrir því að leggja boltann framhjá Pickford. Staðan orðin 0-1 fyrir Roma.

Og þannig var það í hálfleik.

Engin breyting á liði Everton í hálfleik sem voru sterkara liðið frá upphafi seinni hálfleiks og náðu að pressa vel á lið Roma. Svo vel að þeir uppskáru mark á 61. mínútu þegar McNeil sá hlaup Calvert-Lewin fram á við og sendi flottan, háan og langan bolta fram á við á hann. Calvert-Lewin gerði gríðarlega vel, utarlega vinstra megin í teig Roma, náði góðri fyrstu snertingu á bolta og lagði hann fyrir sig frábærlega með snöggri hreyfingu til hliðar, sem plataði miðvörð Roma upp úr skónum og lagði um leið upp frábært skotfæri. Og honum brást ekki bogalistinn heldur setti boltann fram hjá markverði Roma. Staðan orðin 1-1!

Tvöföld skipting hjá Everton á 63. mínútu: Lindström og Ndiaye komu inn á fyrir McNeil and Doucouré og þá færðist svolítið líf í leikinn! Everton átti nokkrar flottar skyndisóknir, sem Ndiaye stóð fyrir, og í einni slíkri náði hann að leika á varnarmann Roma við D-ið í vítateignum og skjóta föstu lágu skoti á mark, alveg út við stöng en markvörður rétt náði að vera með útréttum höndum, á síðustu stundu. Á 65. mínútu náði Calvert-Lewin svo, við vítateigslínu, að stela boltanum af miðverði Roma (sama miðverði og hann fíflaði í markinu) en markvörður Roma gerði gríðarlega vel í að ná að koma út og loka á hann og koma þannig í veg fyrir það sem leit út fyrir að vera borðleggjandi. Roma menn heppnir þar.

Jack Harrison átti svo skot af löngu færi á 73. mínútu sem markvörður náði að verja í horn.

Roma menn svöruðu á 78. mínútu með frábæru þreföldu (fjórföldu?) fyrstu-snertingar-þríhyrningaspili við jaðar vítateigs, sem lagði upp skotfæri fyrir þá en Pickford vel á verði og náði að slá það frá.

Á 80. mínútu kom svo önnur tvöföld skipting frá Everton: Armstrong og Beto inn á fyrir Iroegbunam og Calvert-Lewin.

En fleiri urðu færin, og þar af leiðandi mörkin, ekki. 1-1 jafntefli í lokaleik æfingatímabilsins. Ágætis leikur og ágætis lokaæfing fyrir tímabilið sem er framundan.

Leave a Reply