Arsenal – Everton 2-1

Mynd: Everton FC.

Þá er komið að síðasta leik tímabilsins, sem er útileikur gegn Arsenal. Vitað er fyrir leik að í versta falli geti Everton bara farið niður um eitt sæti (með tapi og sigri Brentford í), en sigur nægir Everton ekki til að hoppa upp um eitt sæti. Einnig er ljóst að Arsenal munu leggja allt í sölurnar til að vinna þennan leik, því þeir eiga (veika) von um Englandsmeistaratitilinn, ef Man City ná ekki að vinna West Ham á heimavelli. Arsenal verður að sigra, jafntefli nægir þeim ekki þó að City tapi.

Ritari er á ferðalagi en ætlar að reyna að finna stað til að horfa á leikinn.

Uppstillingin: Pickford, Young, Branthwaite, Tarkowski, Coleman (fyrirliði), Gana, McNeil, Onana, Garner, Doucouré, Calvert-Lewin.

Varamenn: Virginia, Crellin, Godfrey, Keane, Warrington, Hunt, Dobbin, Chermiti, Beto.

Missti af fyrri hálfleik við að leita að einhverjum stað sem sýnir leikinn. Sá mörkin í endursýningu – Everton komst yfir með fínni aukaspyrnu utan teigs, sem Gueye skoraði úr á 40. mínútu. Boltinn breytti reyndar stefnu af veggnun, en við grátum það ekki.

Jöfnunarmark Arsenal kom einhverjum mínútum síðar – einn þeirra komst upp að endalínu hægra megin og sendi lágan bolta út í teig, á seinni bylgju Arsenal inn í teig, beint á varnarmann þeirra, Tomiyasu, sem þrumaði inn.

1-1 í hálfleik.

Lítið að frétta úr seinni hálfleik, Arsenal meira með boltann og rembdust eins og rjúpan við staurinn, en náðu lítið að skapa.

Calvert-Lewin með fyrsta almennilega skot hálfleiksins á mark á 63. mínútu, kom sér inn í teig vinstra megin og átti fast skot en ekki nægilega utarlega og markvörður varði.

Arsenal menn svöruðu með skalla í utanverð samskeyti.

Þeir áttu annað skot í utanverða slána og út af en annars var þetta mest allt vel yfir eða framhjá. Fyrir utan eitt færi, þar sem þeir komust í dauðafæri en Pickford varði glæsilega.

En svo rétt fyrir lok venjulegs leiktíma skoruðu þeir loks mark, sem mér sýndist vera ólöglegt, vegna hendi, en dómari og VAR slepptu í gegn.

Og það reyndist sigurmarkið. 2-1 niðurstaðan, en Arsenal menn gengu niðurlútir til búningsklefa, enda ljóst að titillinn væri genginn þeim úr greipum.

Til hamingju, Manchester City.

Einkunnir Sky Sports: Pickford (7), Coleman (7), Tarkowski (7), Branthwaite (6), Young (5), Gueye (8), Onana (7), Doucoure (7), Garner (6), McNeil (6), Calvert-Lewin (7). Varamenn: Chermiti (6).

11 Athugasemdir

  1. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Vonandi verður þetta ekki hræðilegt.

  2. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Gaman að sjá að Everton er mætt til að vera með vesen en ekki til að leggjast upp í loft og láta valta yfir sig. Vonandi heldur það bara áfram í seinni hálfleik.

  3. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Helvítis Drasley Young með fíflalæti kostaði okkur stig einu sinni enn. Svo sem leiðinlegt fyrir hann, hann var búinn að vera ágætur eins og reyndar allt liðið í dag. Það skipti svo sem engu máli fyrir okkur hvort við töpuðum eða ekki, ég bara gjörsamlega hata Arsenal og er orðinn dauðleiður á að tapa alltaf fyrir þeim.

  4. Finnur skrifar:

    Pickford í liði tímabilsins að mati BBC:
    https://www.bbc.com/sport/football/articles/cp00nzrg81ro

  5. Orri skrifar:

    Það virðist enginn vilja okkur.

  6. Orri skrifar:

    Erum við ekki að spila æfingaleik ì dag við Preston ?