Mynd: Everton FC.
Þá er komið að fjórðu umferð tímabilsins í ensku Úrvalsdeildinni og í þetta skiptið fer Everton í heimsókn til nýliða Sheffield United, en þeir komust upp úr Championship deildinni með því að enda í öðru sæti (á eftir Burnley) — og þurftu því ekki umspil.
Góðar fréttir bárust af því að McNeil og Calvert-Lewin væru byrjaðir af æfa aftur eftir meiðsli en erfitt er að segja hvort Dyche taki sénsinn á þeim svona snemma. Spurning líka hvort Gray detti ekki bara inn í hópinn aftur þar sem það virðist sem samningaviðræður hans við liðið frá Saudi-Arabíu hafi fallið niður.
Uppstilling: Pickford, Young, Branthwaite, Tarkowski (fyrirliði), Patterson, Gana, Danjuma, Onana, Doucouré, Garner, Beto.
Varamenn: Virginia, Lonergan, Mykolenko, Godfrey, Onyango, McNeil, Chermiti.
Uppstillingin var eins og ég spáði fyrir leik og varamannabekkurinn nákvæmlega eins líka, fyrir utan það að í færslu Everton kom fram að eingöngu 7 verma varamannabekkinn en ekki þessir hefðbundnu 9, sem er áhyggjuefni. Ætli það þýði að Keane og Dobbin séu meiddir?
4-1-4-1 uppstilling með Danjuma á vinstri kanti, Garner á hægri og Beto frammi, að sjálfsögðu.
Það var ákefð og einbeiting í leik Everton frá upphafi og þeir settu góða pressu á vörn Sheffield United. Fyrsta færið var þó Sheffield United megin — skalli á mark eftir aukaspyrnu en beint á Pickford. Lítil hætta.
Beto fékk fyrsta færi Everton á 14. mínútu, skotfæri við D-ið en boltinn breytti stefnu af öxl varnarmanns og fór því rétt framhjá stöng og í horn. Upp úr horninu náði Onana flottum skalla á mark sem Doucouré náði að breyta stefnu á. Markvörður Sheffield United náði að kasta sér á það og rétt svo að slengja hendi í boltann, með undraverðum hætti, en það lagði bara boltann aftur fyrir Doucouré sem skoraði auðveldlega af stuttu færi. 0-1 fyrir Everton. Endursýning sýndi líka að víti var gulltryggt ef Doucouré hefði ekki skorað, því varnarmaður Sheffield var í glímubrögðum við hann og togaði í treyjuna þegar hann missti af Doucouré inni í teig.
Sheffield United menn færðu sig ofar á völlinn við markið og það opnaði á skyndisókn Everton á 17. mínútu, þar sem þeir komust fjórir á móti tveimur. Danjuma brunaði með boltann inn í vítateig og reyndi að leika á varnarmann og skjóta en varnarmaður sá við honum, skriðtæklaði fyrir skotið og reddaði Sheffield United. Þarna hefði staðan átt að vera 0-2. Það á ekki að vera hægt að klúðra fjórum á tvo stöðunni svona auðveldlega.
Sheffield United menn komust inn í sendingu frá Gueye á 19. mínútu og sóknarmaður þeirra náði að bruna inn í teig en skotið slakt. Engin hætta. Þeir gerðu hins vegar betur á 20. mínútu þegar þeir reyndu skot af löngu færi, alveg niðri hægra megin (frá þeim séð) út við stöng en Pickford gerði vel, kastaði sér niður og varði glæsilega í horn.
Everton fékk hins vegar að gjalda fyrir það að hafa ekki bætt við mörkum (ekkert nýtt þar) þegar Sheffield United jöfnuðu á 33. mínútu. Hár bolti frá hægri á þeirra fremsta mann, sem var með tvo í sér, en lagði hann upp fyrir sóknarmanninn Archer sem var utar í teignum, óvaldaður, og hann þrumaði inn út við hægri stöngina. Staðan orðin 1-1. Þess má geta að þetta var fyrsti leikur Archer með Sheffield United eftir að hafa komið til þeirra frá Aston Villa.
Everton komst oft í ákjósanlega stöðu í sóknarleik sínum, til dæmis vinstra megin á 44. mínútu þegar Danjuma komst einn inn í teig og upp að marki, en missti boltann aðeins of langt frá sér og markvörður náði að kasta sér á boltann.
En þetta er búið að vera sagan á þessu tímabili, Everton veður í færum en á erfitt með að nýta sér það. Og ógæfan skall yfir — enn á ný — hinum megin vallar, rétt fyrir lok venjulegs leiktíma í fyrri hálfleik. Aftur var nýi maður þeirra, Archer, að verki þegar hann reyndi skot af löngu færi sem fór í innanverða hægri stöngina og út aftur, í bakið á Pickford, sem lá í grasinu. Boltinn hrökk af honum og þaðan í netið, að sjálfsögðu. Ótrúlegur grís. Everton búið að vera mikið betra sóknarlega og áttu að vera tveimur til þremur mörkum yfir á þeim tímapunkti, en í staðinn lenda þeir einu marki undir.
2-1 í hálfleik.
Dyche hefur aldeilis lesið yfir hausamótunum á sínum leikmönnum, því Everton byrjaði seinni hálfleik af miklum krafti og ákefð. Þulirnir töldu fimm tilraunir á mark frá Everton fyrsta korterið — ekki viss, en færin voru allavega ekki dauðafæri.
Beto setti Danjuma inn fyrir vörnina strax í upphafi hálfleiksins, með flottri hælspyrnu fyrir hlaupaleiðina hjá Danjuma. Varnarmaður Sheffield var heppinn að gefa ekki víti þegar hann togaði Danjuma niður — gult spjald og aukaspyrna dæmd rétt utan teigs. Ekkert kom úr henni, hins vegar.
Jöfnunarmark Everton kom hins vegar á 54. mínútu, og það var einfaldlega ekkert minna en Everton átti skilið. Beto fann Patterson sem kom hlaupandi upp hægri kant og Patterson setti geggjaðan bolta fyrir á fjærstöng, þar sem Danjuma var mættur og þrumaði inn. 2-2. Game on!
Það kom smá skrekkur á 58. mínútu þegar Patterson náði ekki að hreinsa út úr teig og boltinn fór beint á leikmann Sheffield, en sóknarmaður Sheffield hitti boltann illa í skotinu utarlega í teig vinstra megin, og boltinn fór hátt yfir markið.
Everton hélt áfram að leika sér að eldinum á 70. mínútu þegar bakvörður Sheffield United komst á sprettinn upp vinstra megin inn í teig, fékk háa sendingu og þrumaði á mark en Pickford náði að koma út á móti honum,loka markinu og varði glæsilega.
McNeil kom inn á fyrir Garner á 75. mínútu. Fyrsti leikur McNeil á tímabilinu — gott að fá hann til baka, enda mikilvægur hlekkur í liðinu.
Varnarmaður Sheffield United sparkaði niður Onana, rétt utan teigs á 78. mínútu. Young tók aukaspyrnuna en beint á markvörð. Engin hætta.
Hvorugt lið var hins vegar sátt við stigið og börðust til loka. Andrúmsloftið var mjög taugaveiklað á vellinum þar sem eitt mark, öðru hvoru megin, myndi líklega tryggja þrjú stig. En ekki gerðist það í dag og liðin þurftu því að sætta sig við jafntefli.
Godfrey kom inn á fyrir Tarkowski rétt eftir lok leiks. McNeil reyndi skot af löngu færi. Ekkert annað markvert þar. Jú, reyndar — 6 mínútum var bætt við leikinn og þegar komið var _þremur_ mínútum fram yfir það (!) fengu Sheffield United hornspyrnu. Pickford kom Everton þar aldeilis til bjargar þar með geggjaðri tvöfaldri vörslu. Varði skalla upp í neðanverða slána og út og tók svo seinni tilraunina sem var af mjög stuttu færi með því að verja í stöngina (fékk líklega boltann frekar í andlitið en nokkuð annað, en það gildir alveg jafn mikið).
2-2 niðurstaðan.
Einkunnir Sky Sports: Pickford (7); Patterson (7), Tarkowski (6), Branthwaite (5), Young (6); Gueye (6), Doucoure (7), Onana (7); Garner (7), Beto (8), Danjuma (7). Varamenn: McNeil (6).
Þetta lið….
….er frábært.
Ansi góður leikur á köflum hjá okkar mönnum. Beto er frábær leikmaður minnir sannarlega á Lukaku. Tökum þennan leik 2-3.
Ég held að Dyche sé búinn og nær ekki til leikmanna. Vörnin er orðin alveg hörmung og við vinnum ekki leiki meðan allt fer í gegnum hana.
Pickford í liði vikunnar að mati BBC:
https://www.bbc.com/sport/football/66703155?at_medium=RSS&at_campaign=KARANGA
sælir feagar
er einhver áhugi fyrir podcast til að ræða okkar klubb
eg væri til i það
er ekki goður penni en gæti mogulega komið einhverju gafulega frá mer i stafrænu formi
ef það er einhver +ahugi fyrir sliku
væri gaman að ræða við mismunandi felagsmenn
heyra þeira syn á klubbinn og afhverju Everton
Góð hugmynd.
Jæja, ég lét þau orð falla þegar við vorum búnir að klófesta Iwobi að hann væri hálfviti og þegar við bættust Gray og Townsend(guð hjálpi okkur) þá værum við með þrjá heimskustu attacking midfielders (skapandi framherja) í heimi. Takið eftir því hvað markaskorun fór niður á við þegar þessir gaurar komu. Skítseyðið beneathus henti mest skapandi manni(james) sem hefur leikið í bláu treyjunni í árafjöld vegna persónilegs ágeinings og Digne fór sömu leið. Að marco silva skuli kaupa iwobinho í annað sinn segir allt um þann stjóra! En nú eru bjartari tímar framundan. Við skorum 15-20 mörkum meira á þessu tímabili en því síðasta og endum ofan við miðju. Það er snilld. Það er nefnilega ekki nóg a
Hlaupa, það þarf líka að tækla og hoppa upp í skallabolta en ekki bara við hliðina á mönnum eins og iwobinho gerði, vona að þessu verði skeytt saman en það er brotinn skjárinn á símanum mínum eins og hjá mörgum Everton stuðningsmönnum!!! Áfram Everton
Það má líka geta þess að gray skorar 1-2 wonder goals fyrir þá klúbba sem hann leikur fyrir og það hefur hann gert fyrir okkar klúbb en þegar hann eyðileggir 27 sóknir vegna þess að hann ætlar að smyrja boltann í skeytir fjær þá eru ekki margar sóknir eftir og hann er einn latasti og leiðinlegasti kantmaður sem sögur fara af og ég er glaður Everton maður og skála í wiský, skál vinir