Notice: Function _load_textdomain_just_in_time was called incorrectly. Translation loading for the html5reset domain was triggered too early. This is usually an indicator for some code in the plugin or theme running too early. Translations should be loaded at the init action or later. Vinsamlegast skoðaðu Aflúsun í WordPress fyrir frekari upplýsingar. (Þessum skilaboðum var bætt við í útgáfu 6.7.0.) in /var/www/virtual/everton.is/htdocs/wp-includes/functions.php on line 6114
Nýtt tímabil að hefjast! - Everton.is

Nýtt tímabil að hefjast!

Mynd: Everton FC.

Fyrsti leikur Everton á nýju tímabili er á morgun, kl. 14:00 að íslenskum tíma, gegn Fulham á heimavelli. Rennum aðeins yfir hópinn eins og hann lítur út fyrir leik. Þetta gæti náttúrulega breyst eitthvað þegar líður að lokum gluggans, en þetta er staðan eins og hún er núna…

Vörnin

Markverðir (4): Pickford, Virginia, Lonergan, Crellin.
Bakverðir (4): Mykolenko (v), Patterson (h), Coleman (h), Young (h/v).
Miðverðir (5): Tarkowski, Keane, Branthwaite, Godfrey, Holgate.

Pickford er augljóslega að fara að halda markmannsstöðunni áfram og ég myndi segja að (miðað við síðasta tímabil) sé liðið í örlítið betri stöðu hvað bakverðina varðar, því Ashley Young getur leyst af í bæði vinstri og hægri bakverði og það ætti enginn (eftir undanfarna mánuði) að efast um getu Garners til að leysa af í vinstri bakverði (bæði fyrir Everton og U21 árs landslið Englands). Tarkowski er fyrsti maður inn í miðvörðinn og það vantar svo sem ekki samkeppni í þá stöðu, því það eru fjórir aðrir að keppast um stöðuna við hlið hans. Mig grunar (og hálfpartinn vona) að Branthwaite eigi eftir að skáka þar Keane á tímabilinu — en kannski ekki frá upphafi samt. Það væri líka fróðlegt að sjá hvernig Godfrey myndi reynast ef hann fengi nokkra leiki þar í röð (og ekki verið að spila honum úr stöðu alltaf). Holgate er fimmti maður inn í miðvörðinn, þannig að ef gott tilboð fæst í Holgate er líklega rétt að taka því, enda er hann á 27. aldursári þannig að hann á að vera á hápunkti ferils síns.

Það má deila endalaust um gæði (og við myndum ekki fúlsa við uppfærslum), en mér sýnist af tölunum allavega sem að það sé ágætis jafnvægi í þessu — fjórir að berjast um markvarðarstöðuna, fjórir að berjast um tvær bakvarðarstöður, og fimm að berjast um tvær miðvarðarstöður.

Miðjan

Miðjumenn (8): Gueye, Gbamin, Doucouré, Onana, Gomes, Iwobi, Garner, Dele Alli

Gueye er fyrsti maður á blað í stöðu djúps miðjumanns en Gbamin er væntanlega á leið frá félaginu (sem reyndar er orðin gömul tugga). Doucouré, Onana, Garner og jafnvel Gomes (sem væntanlega er á leið burt líka — jafn gömul tugga) geta leyst hann af, þó að þeir séu kannski hentugri örlítið framar. Aðalmálið er þó að Everton hefur ekki spilað með tvo djúpa miðjumenn í einhver ár (að mig minnir), þannig að það er líklega feykinóg af samkeppni um þá stöðu (þrír til fjórir afleysingarmenn á eftir fyrsta valkosti). Framar á vellinum er hins vegar spurning hvernig Iwobi sér sig fitta inn í liðið — því mig grunar að hann muni spila minna á miðju vallar og meira á kantinum, sem er ekki hans uppáhaldsstaða. Svo er Deli Alli náttúrulega bara eitt stórt spurningarmerki. Á miðri miðjunni eru þó tvær stöður í boði og vill maður sjá helst allavega 5 leikmenn þar, upp á samkeppni og sveigjanleika. Onana og Doucouré eru að öllum líkindum fyrstu menn á blað og svo líklega róterað á milli Iwobi, Garner, Gomes (?) og Deli Alli (?). Gomes mun líklega ekki reynast nógu sterkur lengur fyrir erfiðari andstæðinga Úrvalsdeildarinnar og fær því minni spilatíma. Og hver veit hvenær/hvort við sjáum Delli Alli aftur á velli. En maður hefur smá áhyggjur af því að þetta verði fljótt þunnskipað þegar meiðslin fara að bíta — eins og á síðasta tímabili. Og talandi um meiðsli…

Sóknin

Kantmenn (3) : McNeil, Gray, Danjuma, (Young, Iwobi)
Framherjar (5): Calvert-Lewin, Chermiti, Maupay, Lewis Dobbin, Thomas Cannon

Náttúrulegir kantmenn í hóp eru bara þrír og enginn af þeim er í leikformi. McNeil er meiddur og missir því af upphafi tímabils. Gray hefur verið orðaður frá félaginu og hefur ekki spilað eina einustu mínútu á undirbúningstímabilinu, svo ég viti. Danjuma kom tiltölulega seint í hóp og er ekki í leikformi. Maður hefði viljað sjá fjóra náttúrulega kantmenn í hópnum þannig að þó allir þessir þrír væru heilir heilsu vantar hér meiri samkeppni — og böndin beinast því að Iwobi og Ashley Young, enda get ég get ekki séð annað en að þeir séu sjálfvaldir til að byrja á kantinum, nema Dyche ákveði að nota bakverðina sem wingbacks. Það er spurning líka hvernig Dyche sér Dobbin, en Calvert-Lewin byrjaði yfirleitt á kantinum með Everton í upphafi síns ferils. Spurning einnig hvort Dobbin fari sömu leið?

Hvað framherjastöðuna varðar spilar Everton yfirleitt bara með einn framherja og Calvert-Lewin hlýtur að vera fyrsti maður á blað, þegar hann er heill. Hann er hins vegar ekki í leikformi og kemur því í besta falli inn á í seinni hálfleik, þeas. ef hann meiðist ekki við að teygja sig eftir fjarstýringunni í kvöld. Vonandi er Chermiti (sem Everton var að kaupa) öflugur kostur til að leysa hann af og svo hefur Everton einnig verið orðað við framherjann Hugo Ekitike hjá PSG, sem (líkt og Chermiti) er ungur og algerlega óskrifað blað í ensku Úrvalsdeildinni. Mig grunar hins vegar að Maupay verði seldur fyrir lok gluggans — sérstaklega ef Ekitike bætist við, enda líklega mikilvægara að gefa Dobbin og Cannon reynslu af ensku Úrvalsdeildinni, frekar en að halda áfram að berja hausnum við steininn.

Líklegt byrjunarlið í fyrsta leik (að teknu tilliti til meiðsla) er því svona:

Pickford, Mykolenko, Tarkowski, Keane, Patterson, Gueye, Iwobi, Onana, Doucouré, Young, Chermiti.

Uppfært: Reyndar, þegar ég hugsa um það, er Mykolenko líklega ekki í leikformi heldur, þannig að Ashley Young gæti tekið hans stöðu, ef það verður metið sem svo að Danjuma sé lengra kominn á sinni vegferð.

Hvað segið þið annars um þetta — einhverjar athugasemdir? Hvaða leikmenn mynduð þið síst vilja missa úr hópnum og helst selja?

2 Athugasemdir

  1. Finnur skrifar:

    Myndi síst vilja missa: Pickford, Tarkowski, Gueye, Onana, McNeil, Calvert-Lewin.

    Helst selja: Holgate, Gbamin, Gomes, Maupay.

  2. Finnur skrifar:

    Mín spá varðandi hvaða lið falla…

    Wolves, Sheffield United, Luton