Bolton – Everton 0-0 (undirbúningstímabil)

Mynd: Everton FC.

Í kvöld spilar Everton æfingaleik við Bolton á þeirra heimavelli en flautað verður til leiks kl. 18:45.

Uppstillingin: Virginia, Young, Tarkowski, Keane, Patterson, Onana, Iwobi, Gomes, McNeil, Dobbin, Maupay.

Varamenn: Lonergan (mark), Welch (miðvörður), Astley (vörn), Warrington (miðja), Hunt (miðja), Onyango (miðja), Higgins (kantmaður), Mills (framsækinn miðjumaður).

Sem sagt, sæmilega sterkt lið, líklega 4-4-2 með Dobbin og Maupay frammi en enginn Pickford sjáanlegur í hóp og heldur ekki Godfrey (uppfært: jú, hann var ekki á skýrslu en lét sjá sig), Holgate, Gana, Garner, Doucouré… og náttúrulega Calvert-Lewin. Gomes á miðjunni — það hefur ekki gerst lengi, ef ég man rétt… En þá að leiknum:

Everton átti geggjaða skyndisókn á 5. mínútu leiks, létu boltann ganga hratt á milli manna þar sem Young, á vinstri kanti, fann Dobbin, sem sá hlaup frá Iwobi upp hægri kant og sendi langa frábæra sendingu á hann. Þetta kom Iwobi í dauðafæri og hann þóttist ætla að skjóta, inni í teig, en plataði með því varnarmann og fékk frítt skot á mark en markvörður varði vel. Þar hefði Everton átt að skora mark eftir mjög svo glæsilega sókn.

Bæði lið með hálffæri í kjölfarið, Everton kannski með öllu fleiri en enginn þeirra kannski þess virði að eyða mörgum orðum á — læt nægja að minnast á að Dobbin var oft mjög duglegur að finna Iwobi á auðum sjó á kantinum. Spennandi framtíðarleikmaður þar á ferð, Dobbin.

Ashley Young átti svo fast skot utan teigs á 34. mínútu en rétt yfir markið. Aðeins tveimur mínútum síðar þræddi Dwight McNeil sig í gegnum vörn Bolton og komst í mjög gott skotfæri en markvörður gerði vel og kastaði sér á boltann. 

Bolton menn fengu svo gott skotfæri við vítateigs-jaðarinn á 39. mínútu, en sóknarmaður þeirra hitti boltann illa sem fór hátt yfir. Sem betur fer.

Lewis Dobbin var ekki langt frá því að skora á 45. mínútu þegar hann fékk stungusendingu inn fyrir vörn Bolton vinstra megin frá McNeil og komst einn á móti markverði, sem kom hlaupandi á móti honum hægra megin í teig utarlega og náði að loka á skotið. Óheppinn að skora ekki.

Bolton fengu einnig frábært færi á 2. mínútu uppbótartíma þegar Tarkowski skallaði of stutt aftur á Virginia markvörð og sóknarmaður þeirra náði skoti en Virginia varði meistaralega. Virginia þurfti svo aftur að taka á honum stóra sínum örskömmu síðar til að verja lúmskt langskot. 

0-0 eftir fjörugan fyrri hálfleik, þar sem staðan hefði alveg getað verið 3-3.

Átta leikmönnum úr liðinu, sem spiluðu fyrri hálfleik, var sagt að hlaupa aðeins meira í hálfleik til að fá aðeins meiri æfingu út úr þessu, en til stóð að skipta þeim út af fyrir 8 aðra af varamannabekknum strax í hálfleik. Það var því unglegt um að litast í liði Everton í seinni hálfleik.

Og það varð raunin. Eiginlega næstum alveg nýtt lið mætti í seinni hálfleik, og stillti upp í 4-4-1-1 sýndist mér. Inn á komu Godfrey, Warrington, Mills, Hunt, Higgins, Onyango, Okoronkwo og Kouyate fyrir þá Maupay, Gomes, Tarkowski, Patterson, Iwobi, Young, Onana og McNeil. Þar með voru bara þrír (Virginia, Keane og Dobbin) sem fengu að halda áfram í seinni hálfleik. 

Virginia var í markinu, eins og búast mátti við, en vörnin frá vinstri til hægri var: Hunt, Keane, Godfrey, Higgins. Miðjan: Mills, Warrington, Kouyate, Onyango. Dobbin í holunni og Okoronkwo fremstur.

Mills átti fyrsta almennilega færið á 50. mínútu þegar hann fékk boltann utan teigs og náði skoti við D-ið sem fór í legginn á varnarmanni og rétt yfir markið. Hefði viljað sjá hvar boltinn hefði endað ef hann hefði ekki breytt um stefnu!

Bolton menn svöruðu með stórhættulegu færi á 60. mínútu, komust upp kantinn vinstra megin og sendu flottan bolta fyrir en sóknarmaður þeirra á nærstöng setti boltann í utanverða stöng og í hliðarnetið. Heppnin með Everton þar.  

Onynago átti skot á 63. mínútu, náði að snúa á varnarmann rétt utan teig og reyndi að vippa yfir markvörð en rétt yfir slána. Ekki vitlaus tilraun. Keane fór svo út af fyrir Astley á 68. mínútu. 

Everton fékk dauðafæri upp við mark eftir aukaspyrnu á 74. mínútu frá hægri kanti. Frábær bolti úr aukspyrnunni inn að fjærstöng, sem Okoronkwo náði að tengja við og hann hefði sett boltann í netið ef hann hefði náð að halda boltanum neðar, en boltinn fór rétt yfir slána. Dobbin fór svo út af Sheriff.

Bolton menn voru að dóla með boltann á 82. mínútu og Okoronkwo náði að stela honum af þeim og komast í skyndisókn. Komst að vítateignum og náði þrumuskoti á mark sem markvörður rétt svo náði að slá til hliðar og þar var sóknarmaður Everton mættur (sá ekki hver) til að pota inn en markvörður náði aftur að komast fyrir. Ótrúleg heppni hjá þeim. 

Bolton menn áttu svo flott skot rétt innan teigs á 86. mínútu — utanfótarsnudda sem fór rétt framhjá samskeytunum. 

0-0 niðurstaðan í dag og meirihluti leikmanna sem eftir voru fengu smá auka-hlaup eftir leik, sem segir ákveðna sögu um þjálfunaraðferðir Dyche. 🙂

2 Athugasemdir

  1. Finnur skrifar:

    Smá bras búið að vera á everton.is síðunni frá því upp úr klukkan 18, en vonandi er það að baki núna…