Mynd: Everton FC.
Everton átti leik í dag við Úlfana á útivelli, í næstsíðustu umferð Úrvalsdeildarinnar. Það var mikil spenna og eftirvænting fyrir þessum leik — allavega Everton megin, en tímabil Úlfanna var búið. Þeir sigldu lygnan sjó í 13. sæti, með ekki neitt sem þeir höfðu til að keppa að og maður óskaði sér að leikmenn þeirra væru vonandi bara með hugann við það að komast brátt í sumarfrí.
Tölfræðin fyrir leik leit svona út:
Maður óskaði sér að Everton næðu upp sömu stemningu og í Brighton leiknum, því sigur hefði farið langleiðina með að klára dæmið og bjarga Everton frá falli. Jafntefli hins vegar í dag þýddi að bæði Leeds og Leicester gátu komist yfir Everton með sigri um helgina og þá væri komin svaka pressa á Everton að sigra Bournemouth í lokaumferðinni og treysta á hagstæð úrslit.
Þetta voru leikirnir sem eftir voru þegar leikurinn var spilaður:
Uppstillingin: Pickford (fyrirliði), Tarkoswki, Mina, Patterson, Gana, McNeil, Doucouré, Onana, Garner, Iwobi, Calvert-Lewin.
Varamenn: Begovic, Lonergan, Holgate, Keane, Welch, McAllister, Gray, Maupay, Simms.
Ég get ekki lýst því hvað það var mikill léttir að sjá Calvert-Lewin í byrjunarliðinu en það er athyglisvert að sjá að það er enginn náttúrulegur vinstri bakvörður í liðinu — en heilir 6 miðjumenn í byrjunarliðinu, þannig að Dwight McNeil fékk það hlutverk að spila í vinstri bakverði í dag, í fjarveru Mykolenko.
Úlfarnir byrjuðu með hættulegri sendingu fyrir mark á fyrstu mínútum, frá hægri kanti sem sigldi framhjá öllum. Hinum megin fékk Calvert-Lewin skotfæri en setti boltann í utanvert hliðarnetið.
Skemmtilegur og spennandi fyrri hálfleikur annars. Everton í góðum gír og voru betri aðilinn fyrstu 20 mínúturnar. Eina hættan sem Wolves sköpuðu var þessi áðurnefnd sending fyrir mark.
Á 10. mínútu komst Calvert-Lewin í ákjósanlega stöðu nálægt marki en há og stutt sending frá Doucouré, sem var mættur vinstra megin, var eiginlega fyrir aftan hann, þannig að Calvert-Lewin náði ekki góðum skalla. Svipað uppi á teningnum stuttu síðar, þegar Iwobi reyndi háa sendingu utan af velli vinstra megin, en ekki í réttri hæð fyrir Calvert-Lewin til að ná góðum skalla.
Everton fékk dauðafæri eftir hornspyrnu á 27. mínútu. Dwight McNeil sendi háan bolta fyrir og Mina náði skalla, en yfir markið. Hefði viljað sjá Calvert-Lewin ná til boltans, þar sem hann var fyrir aftan Mina og í raun í betra skallafæri.
Á 29. mínútu fór Patterson svo út af vegna meiðsla, því miður. Keane inn á fyrir hann. Þetta sló Everton svolítið úr takti, sem hentaði Wolves vel.
Tölfræðin sýndi 6 skot frá Everton fram að því, ekkert skot frá Wolves.
En svo kom suckerpunch mark alveg þvert gegn gangi leiksins, þegar Everton, í bullandi sókn, misstu boltann. Onana átti slæma sendingu á Gana og Traore hjá Wolves brunaði fram með boltann. Hvorki Gana né Onana kusu gula spjaldið til að stoppa Traore og hann komst því alla leið inn í teig og náði skoti. Pickford varði vel, en boltinn fór til Hee Chan sem var óvaldaður og setti boltann í autt netið. 1-0 fyrir Wolves.
Traore komst aftur í hættulegt færi, þegar hann tók sprettinn framhjá Keane í hægri bakverði og komst inn í teig en sú sókn fuðraði upp einhvern veginn.
Rétt fyrir lok hálfleiks fór Calvert-Lewin út af vegna meiðsla. Svakalega slæmar fréttir fyrir Everton. Gray kom inn á fyrir hann.
Fjórum mínútum bætt við en fyrri hálfleikur endaði 1-0.
Iwobi átti fínt skot utan teigs hægra megin, stefndi í átt í hornið uppi vinstra megin, en markvörður náði að grípa.
Wolves fengu gott skotfæri á 60. mínútu, reyndu skot upp í vinkilinn vinstra megin en nokkuð vel framhjá markinu. Stuttu síðar reyndu þeir reyndu sama leikinn aftur, en í hægri vinkilinn í þetta skiptið en aftur vel framhjá. Pickford líklega með það samt í bæði skiptin. Wolves höfðu náð að vinna sig inn í leikinn á þeim tímapunkti og voru sterkara liðið, sem var ekki gott, en það lifnaði aðeins yfir Everton síðar.
Gray átti fast skot rétt utan teigs sem rataði á mark en markvörður varði í horn.
Holgate og Maupay komu svo inn á fyrir Onana og Gana á 81. mínútu og Dyche skipti þá yfir í 4-4-2. Everton lágu á pressunni í stöðugri sókn nánast allar síðustu mínúturnar, en Wolves alltaf stórhættulegir í skyndisóknum.
Í einni slíkri á 92. mínútu komust þeir í skotfæri á móti Pickford, sem varði glæsilega. Hrikalega mikilvæg varsla.
Hinum megin var Michael Keane farinn að spila sem fremsti maður. Pínu spes, en segir kannski allt sem segja þarf um stöðuna sem var eftir á varamannabekknum því það voru bara tveir markverðir og þrír kjúklingar eftir á bekknum í lokin. Enginn eftir til að koma inn og breyta leiknum.
9 mínútum hafði verið bætt við og Everton hélt áfram að pressa stöðugt. Fengu hverja hornspyrnuna á fætur annarri. Pickford mættur í teigin líka undir lokin — öllu flaggað, þar með talið eldhúsvaskinum, eins og Bretinn orðar það.
Á 99. mínútu var maður búinn að tapa voninni algjörlega en þá gerðist hins vegar hið ótrúlega þegar Wolves stíflan brast loksins. Tarkowski náði að vinna einvígi við markvörð Wolves, boltinn barst til Keane sem sendi stutta lága sendingu fyrir mark frá hægri, beint á Yerry Mina, fyrir framan mitt mark, sem þrumaði framhjá varnarmönnum og Maupay sem kastaði sér frá. Staðan allt í einu
Mark á ögurstundu, sem gæti skipt gríðarlega miklu máli þegar öllu er á botninn hvolft!
Tölfræðin lítur núna svona út:
Einkunnir Sky Sports: Pickford (7), Patterson (6), Tarkowski (7), Mina (7), Iwobi (7), Gueye (7), Onana (6), Garner (7), McNeil (7), Doucoure (7), Calvert-Lewin (7). Varamenn: Keane (7), Gray (7).
Maður leiksins, að mati Sky Sports, var Yerry Mina.
Enn og aftur slakar sendingar á miðsvæðinu undir engri pressu sem verða okkur að falli. Doucure er mjög slakur í dag. Ekki mikil hjálp að fá Keane í bakvörðinn. Þetta verður erfitt.
Vonandi verður þetta ekki verra.
Everton er búið að vera mjög slappt í fyrri hálfleik og bara DCL sem getur borið höfuðið hátt eftir hann. Verst að hann er núna úr leik og þar með öll von um að fá eitthvað út úr þessum leik. Við verðum bara að treysta á að Leeds og Leicester vinni ekki fleiri leiki, það er sorglegt að þurfa að treysta á hjálp frá öðrum liðum en það verður bara að vera þannig. Everton getur ekki hjálpað sér sjálft.
Og meðan ég man, Leeds má ekki fá stig í viðbót því þeir hafa skorað fleiri mörk en Everton og það telur ef lið eru jöfn að stigum og markatalan sú sama.
Jæja. Hálftími eftir og mér sýnist seinni hálfleikur bara ætla að malla áfram án þess að okkar menn svo mikið sem reyni að gera eitthvað af viti. Býst við að Wolves bæti einu marki við og þetta endi 2-0.
Jæja það kom þótt seinnt væri. Kannski bara best að hafa Keane framar á vellinum, hann er þá ekki að kosta okkur mörk 🙂
Nú gæti jafnvel 1 stig í lokaleiknum dugað, sjáum til.
Everton mjög slappir fram á við. Allir bakverðirnir meiddir ekki boða það gott. Gott að ná einu stigi í þessum leik. Vonan bara að Leeda eða Leicester vinni ekki sína leiki um helgina annars er voðinn vís. Jafntefli getur bjargað miklu kemur í ljós. Hræðilegt að missa Calvert Lewin í meiðsli aftur. Vonandi getur hann spilað í seinni hálfleik gegn Bournemouth. Mina maður leiksins og vörnin ok.
Eitt stig gerir ósköp lítið fyrir okkur held ég.
Leeds er að fara að vinna West Ham á morgun og Tottenham í lokaleiknum, Leicester er líklega fallið nema þeir vinni skunkana á mánudaginn en það verður að teljast ólíklegt.
Við verðum því að vinna Bournemouth í lokaleiknum og miðað við frammistöðuna í dag og í undanförnum heimaleikjum, og miðað við að DCL er meiddur og allir bakverðirnir líka, þá eru nú ekki miklar líkur á því.
4 stig úr síðustu 2 leikjum gæti bjargað okkur 1 stig í dag og áfram gakk. Áfram Everton
West Ham og David Moyes stóðu fyrir sínu. Nú þarf bara Newcastle að gera sitt. Verst hvað Arsenal gerði upp á bak.
Nákvæmlega. Vel gert Moyes og West Ham!
3 stig fyrir Everton gegn Bournemouth á Goodison þýðir núna fall hjá Leeds (og Leicester).
1 stig gegn Bournemouth fellir líka Leeds, nema þeir vinni Tottenham með þremur mörkum, sem er ekkert sérstaklega líklegt fyrir lið sem vann síðast fyrir níu leikjum síðan (og það var gegn Forest).
Nú þarf Newcastle að sækja sigur hjá Leicester, sem myndi tryggja þeim Meistaradeildarsæti og Leicester fallsæti ef Everton gerir jafntefli.
Eini gallinn er að sá að jafntefli er líka nóg fyrir Newcastle til að tryggja sér Meistaradeildarsæti, en stigið sem færi til Leicester myndi gera helling fyrir þá. Everton mætti því ekki gera jafntefli við Bournemouth, því þá hoppar Leicester yfir Everton með svo mikið sem 1-0 sigri á West Ham í lokaumferðinni.
Þetta verður spennandi! 🙂
O shit! Ég var einhvern veginn búinn að gleyma þeim möguleika að Leicester gæti komist upp fyrir Everton á markamun.
Það væri alveg ekta „Everton that“ moment að falla á því.
Vonandi vinnur Newcastle þá í kvöld svona 7 eða 8-0.
Mér finnst pínu geggjað líka að miðvörður Everton (Tarkowski) hafi unnið einvígi við markvörð Wolves inni í teig, boltinn borist til miðvarðar Everton (Keane) sem átti stoðsendingu á (aftur) miðvörð Everton (Mina), fyrir framan mark, og hann þrumaði inn! 🙂
Þetta var ljóta skitan hjá Newcastle, enn það má skrifa þetta á drullu Liverpool að ná ekki að halda pressu á Newcastle. Skrifað í skýin að við náum bara 1 stigi á Sunnudaginn og Leicester vinnur Hamrana.
Jæja, þá er þetta ljóst, eftir jafntefli Newcastle og Leicester í kvöld.
Everton verður áfram í Úrvalsdeildinni ef þeir sigra Bournemouth í lokaleiknum á Goodison Park.
Jafntefli gæti verið nóg líka, en það þýðir að Leicester mega ekki vinna sinn leik gegn West Ham á heimavelli — ekki einu sinni með minnsta mun. Leeds væru líka (og eru) í mjög slæmum málum á heimavelli því þeir myndu þá þurfa að minnsta kosti þriggja marka sigur gegn Tottenham.
Á móti kemur að hvorki Leeds né Leicester mega gera svo mikið sem jafntefli í lokaleiknum, því það þýðir fall úr Úrvalsdeildinni fyrir þá. En þó bæði lið sigri þá myndi það skipta litlu ef Everton sigrar Bournemouth, eins og fram hefur komið.
Og, ekki má gleyma…
Yerry Mina valinn í lið vikunnar að mati BBC:
https://www.bbc.co.uk/sport/football/65666206?at_medium=RSS&at_campaign=KARANGA
Jæja þetta er þá í okkar höndum í lokaleiknum……og það skelfir mig ósegjanlega mikið.
Bournemouth er búið að rassskella Everton tvisvar á tímabilinu og hafa styrkt sig síðan þá.
Everton hefur heldur ekki beinlínis verið að gera það gott í undanförnum heimaleikjum og útlitið ekki sérlega gott með alla bakverðina meidda og DCL trúlega líka.
Ef Everton verður ennþá úrvalsdeildarfélag þegar flautað verður til leiksloka á sunnudaginn, þá held ég að það verði frekar West Ham og Tottenham að þakka heldur en því að Everton hafi unnið Bournemouth.
O jæja, bara sex svefnlausar nætur í viðbót og svo er þetta búið.
Ég óska þess, ef svo fer sem horfir að leikir manutd-fulham og southamt-liverp og arsenal- wolves verða sýndir í stað einhverra þriggja fallbaráttuslaga á sunnud. , að klúbburinn sendi kvörtun til sjónvarps símans
Okkar leikur er víst á aðalrásinni í dag.
Já það er víst. Var ekki þannig í appinu í vikunni samt
Jæja þá er dómsdagur loksins runninn upp, hvernig líður ykkur?
Sjálfur er ég ein taugahrúga sem engu kemur í verk, með kvíðaskitu og get ekki hugsað um neitt annað en þennan bévítans leik.
Við tökum þetta 2-1