Everton – Brentford 1-0

Næsti leikur Everton er gegn Brentford á heimavelli og verður flautað til leiks kl. 15:00. Þetta er risaleikur — þeir eru taplausir í 12 leikjum í röð, en svoleiðis lotur enda alltaf. Vonandi í dag, því Everton þarf sárlega á stigunum að halda og það er mjög erfið törn framundan. Bournemouth eru að vinna Liverpool, þegar þetta er skrifað, þannig að Bournemouth fara upp fyrir Everton ef það heldur. Það er nauðsynlegt að hoppa yfir þá strax aftur.

Uppstillingin: Pickford, Godfrey, Tarkowski, Kean, Coleman (fyrirliði), Gana, McNeil, Onana, Doucouré, Iwobi, Gray.

Varamenn: Begovic, Mykolenko, Coady, Holgate, Mina, Garner, Davies, Maupay, Simms.

Sem sagt, óbreytt lið frá leiknum við Nottingham Forest. Enginn Calvert-Lewin í hóp þrátt fyrir að vera farinn að æfa, og þar er aldeilis skarð fyrir skildi. Gray áfram í framlínunni og vonandi skorar hann annan leikinn í röð.

Geggjuð byrjun á leiknum þar sem Everton náði að skora úr sinni fyrstu sókn. Coleman bombaði boltanum fram á hægri kant þar sem Gray fór í skallaeinvígi við vinstri bakvörð Brentford. Laus bolti til Iwobi, sem var fljótur að finna Doucouré fyrir framan D-ið á vítateig og hann framlengdi á McNeil, sem var vinstra megin í teig utarlega, tók skref til vinstri og þrumaði hægra megin við varnarmann og beint í hliðarnetið hægra megin! 1-0 fyrir Everton eftir aðeins 40 sekúndur!!!

Næsta færi leiksins fékk Everton á 15. mínútu eftir aukaspyrnu utan af velli. Hár bolti inn í teig sem Keane setti of mikinn kraft í að skalla. Ef hann hefði náð að rétt snerta boltann hefði hann líklega farið í netið, því markvörður var kominn langt út. En í staðinn fór boltinn vel framhjá marki.

Þriðja færið var einnig hjá Everton þegar Iwobi sendi háan bolta inn í teig frá hægri. Markvörður náði að slá boltann frá en beint til Onana, sem var ekki í jafnvægi og náði því ekki að stýra honum í opið markið í fyrstu snertingu. Skotið rétt framhjá marki og voru Brentford menn stálheppnir þar. 

Næstu þrjú færi komu hins vegar frá Brentford, það fyrsta á 24. mínútu, skot utan teigs en beint á Pickford. En aðeins mínútu síðar fengu þeir enn betra færi — há fyrirgjöf, beint á kollinn á Toney, upp við mark, en hann skallaði framhjá. Þeir reyndu svo skot á 30. mínútu, en skotið slakt.

Og þá var komið að Everton aftur. Skyndisókn frá Gray á 33. mínútu endaði með skoti nálægt marki vinstra megin, sem markvörður varði í horn. Úr horninu kom skalli á mark sem var einnig varinn en Iwobi var fljótur að hugsa og náði að setja boltann á markið af mjög stuttu færi en varið á ótrúlegan hátt. Þar ætti Everton að vera komið tveimur til þremur mörkum yfir.

Á 43. mínútu tók Pickford aukaspyrnu, sendi háan bolta inn í teig sem var skallaður fyrir mark. Varnarmaður Brentford reyndi hreinsun, beint í kassann á Gray og þaðan í netið. VAR tók sér langan tíma til skoða hvort þetta hafði farið í vinstri höndina og svo í langan tíma til að skoða hvort þetta hefði farið í hægri höndina og þar féll þetta um sjálft sig. Hendi — ekkert mark.

Everton með verðskuldaða forystu í hálfleik, en því miður bara 1-0. Eins og staðan var á þeim tímapunkti myndi Everton fara upp í 15. sæti, upp um fjögur og setja West Ham og Leeds í fallsæti. En Brentford liðið er mjög hættulegt og það þarf helst að bæta við til að missa þetta ekki niður í jafntefli eins og síðasta leik.

Brentford menn minntu á sig strax í upphafi seinni hálfleiks, komust í mjög gott færi eftir háa sendingu frá hægri yfir á fjærstöng þar sem þeir náðu skoti af stuttu færi en Pickford varði glæsilega.

Ekki mikið um færi framan eftir það, þó Brentford væru mun meira með boltann og það var erfitt og taugatrekkjandi að fylgjast með þessu. Myndu Everton ná að hanga á þessu? Á 70. mínútu fengu Brentford hornspyrnu sem Pickford náði ekki til. Boltinn beint á Brentford mann, rétt fyrir utan mark — en McNeil hreinsaði á marklínu. Ótrúlegt! Allt vitlaust af fögnuði á pöllunum!

Onana fór út af fyrir Davies á 80. mínútu en sá fyrrnefndi hafði átt mjög flottan leik og þurfti að fara út af vegna meiðsla á augnloki (lenti í samstuði í fyrri og var hættur að sjá, þar sem augnlokið var orðið svo bólgið að hann leit út eins og boxari). Gray fór svo út af fyrir Maupay aðeins 6 mínútum síðar.

Mínúturnar tikkuðu lööööturhægt. Brentford héldu uppi stöðugri pressu á Everton og gáfu lítið sem ekkert rými til að slaka á. Fimm mínútum bætt við, sagði spjaldið, og Mykolenko kom þá inn á fyrir Iwobi á 92. mínútu.

„Here come Brentford once more“, sagði þulurinn. Þeir brunuðu í sókn og fengu horn og þá náttúrulega mætti markvörður þeirra í teiginn (hentu öllu í að jafna) en skalli frá samherja hans var framhjá. Þetta reyndist síðasta færi þeirra í leiknum, þrátt fyrir ákafa pressu. Everton liðið frábært í að loka á þá og nýta tímann rétt. 

En loksins, loksins, loksins… flautaði dómarinn þetta af á 96. mínútu og taplausa lota Brentford endaði á Goodison Park! 1-0 sigur staðreynd!

Þessi sigur þýddi að Everton hoppaði upp fyrir Leeds (sem gerðu jafntefli á heimavelli), West Ham (sem spiluðu ekki í dag), Bournemouth (sem hoppuðu bara tímabundið yfir Everton), og Leicester (sem töpuðu á heimavelli gegn Chelsea). 15. sæti því tryggt um sinn (aðeins West Ham geta (ef þeir sigra á morgun) komist yfir Everton.

Einkunnir Sky Sports: Pickford (8), Coleman (7), Tarkowski (6), Keane (7), Godfrey (6), McNeil (8), Gueye (7), Onana (7), Doucoure (9), Iwobi (8), Gray (7). Varamenn: Mykolenko (6), Maupay (6), Davies (6).

Maður leiksins, að mati Sky Sports, var Abdoulaye Doucoure.

8 Athugasemdir

  1. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Það er að duga eða drepast. Vonandi verður þetta ekki hræðilegt.

  2. Finnur skrifar:

    Flottur fyrri hálfleikur en það má ekkert út af bera, þeir eru flugbeittir fram á við.

  3. Halli skrifar:

    Við erum með 2 grjótharða menn á pöllunum í dag í það minnsta. Halli Gísla með son sinn þarna

  4. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Toney hlýtur að hafa veðjað á þessi úrslit 😉

  5. Finnur skrifar:

    Geggjaður sigur og úrslitin í hinum leikjunum aldeilis að falla með okkar liði.

  6. Finnur skrifar:

    Yfirleitt er miðað við að 40 stig tryggi veru liðs í Úrvalsdeildinni, en það er í raun alls ekki svo. Tölfræðin frá því að liðum var fækkað í 20 (tímabilið ’96-97) er eftirfarandi:

    Lið sem falla eru yfirleitt með um 35 stig eða lægra, sem gefur til kynna að 36 er yfirleitt nóg. Enda hafa (á sumum tímabilum) allt að fjögur lið á einu tímabili sloppið við fall, þrátt fyrir að hafa ekki náð 40 stigum. Það hefur meira að segja gerst tvisvar: tímabilið 2009-10 en þá sluppu West Ham (35 stig), Wigan (36), Wolves (38) og Bolton (39) og aftur tímabilið 2013-14 (West Brom 36, Hull 37, Villa 38, Sunderland 38).

    Og það sem meira er, þrisvar hefur lið meira að segja fallið með 40 stig eða meira, þannig að þetta 40 stiga dæmi virkar ekki heldur í hina áttina (fall-lið var með 40 stig tímabilið ’96-97 og ’97-98 og 42 stig ’03-04.

    En næsti leikur er útileikur gegn Chelsea, sem hafa verið brokkgengir. Alvöru leikur þar á ferð.

  7. AriG skrifar:

    Flottur baráttusigur Everton. Gray er miklu betri en Maupay. Keane valinn í liði vikunnar kom mér óvörum en hann virðist hafa náð sínu besta aftur sem er bara gott mál. Samt fannst mér McNeil maður leiksins glæsilegt mark og hefur risið upp af dugnaði síðan Sean Dyche tók við. Miklu meiri barátta í liðinu en áður. Vonandi fer Calvert Lewin að spila aftur þá er hægt að setja Gray hægra meginn og McNeil vinstra meginn við hann. Þá þarf einn af miðjumönnunum að víkja fyrir Iwobi mundi veðja á Gana gott að hafa hann á bekknum og hvíla hann aðeins nema Onana sé ekki búinn að ná sér af meiðslunum í augabrún. Finnst Ben Godfrey betri í hægri bakverðinum mín skoðun. Allt í lagi að hvíla Coleman þótt hann hafi verið mjög góður. Gott að dreifa álaginu aðeins á hann enda kominn á síðustu ár í fótboltanum.