Mynd: Everton FC.
Gleðilegt nýtt ár kæru lesendur! Fyrsti leikur ársins 2023 var gegn Brighton á Goodison Park í kvöld kl. 19:45. Maður óskaði sér að liðið okkar hæfi nýja árið á sömu nótum og í síðasta leik ársins og taki hressilega á móti leikmönnum Brighton, eftir fína frammistöðu gegn Manchester City á þeirra heimavelli. Svo reyndist þó ekki vera.
Lampard gerði nokkrar breytingar á liðinu milli leikja en Godfrey fór á bekkinn og McNeil kom inn í hans stað, og breyttist þar með uppstillingin í 4-3-3 eftir að hafa verið nær 5-4-1 og 5-3-2 á köflum í síðasta leik. Onana er einnig ekki í hóp í þetta skipti, enda í eins leikja banni eftir að hafa fengið 5. gula spjaldið á tímabilinu í síðasta leik og kom því Davies inn á fyrir hann. Þannig leit þetta því út…
Uppstillingin: Pickford (fyrirliði), Mykolenko, Coady, Tarkowski, Patterson, Gana, Davies, Iwobi, McNeil, Gray, Calvert-Lewin.
Varamenn: Begovic, Vinagre, Mina, Godfrey, Coleman, Doucouré, Price, Maupay, Simms.
Everton hóf leikinn á sterkri pressu og tvisvar snemma leiks náðu þeir að þvinga fram mistök frá leikmönnum Brighton og vinna boltann og skapa usla. En Brighton menn náðu í hvert skipti að vinna sig úr því.
Strax á fimmtu mínútu hefði Everton hins vegar getað fengið víti þegar Davies skallaði í útréttahendina á varnarmanni Brighton en dómarinn, Andre Marriner, áhugalaus. Brighton menn komust varla út úr eigin vallarhelmingi til að byrja með.
Það var því eins og skrifað í skýin að Brighton menn myndu ná að setja suckerpunch mark á 15. mínútu. Sending þvert á völlinn yfir á hægri kant Everton og Patterson var hársbreidd frá því að komast inn í sendinguna en náði ekki og þar með kominn langt úr stöðu og sóknarmaður Brighton náði að nýta sér það. 0-1 fyrir Brighton. Ætti svo sem ekki að koma á óvart, því Brighton liðið hefur svolítið haft það að venju að skora snemma í sínum leikjum.
Everton hélt uppteknum hætti, með þunga pressu á Brighton og enn að ná að þvinga fram mistök frá Brighton, en þeir voru ekki langt frá því að endurtaka sömu uppskrift og skora aftur en skotið frá þeim sem betur fer í stöngina. Enn á ný setti Everton pressu á Brighton sem brutu á McNeil (að ég held?) og brunuðu í skyndisókn og skutu rétt yfir. Allt of auðvelt fyrir Brighton að skapa sér færi og öll vafaatriði í brotum að falla með þeim.
Á um tíu mínútna kafla sem fylgdi í kjölfarið virkuðu leikmenn Everton hálf ráðalausir en svo lifnaði aftur aðeins yfir þeim. Tarkowski fékk ágætis skallafæri eftir horn en skallaði framhjá. Á 35. mínútu sendi Patterson inn háan bolta frá hægri á þvögu af leikmönnum, þar af nokkrum frá Everton, en skalli frá Calvert-Lewin einnig framhjá. Leikmenn Everton reyndu hvað þeir gátu til að skapa færi en Calvert-Lewin í strangri gæslu og ekki nægileg ógnun frá öðrum leikmönnum.
0-1 í hálfleik. Everton aðeins meira með boltann í fyrri hálfleik og þrjú á rammann. Brighton með eitt skot á rammann og eitt mark.
Seinni hálfleikur svipaður og sá fyrri, bara verri. Everton hélt áfram að pressa á Brighton og öðru hverju þvinga fram mistök frá þeim en svo bara tóku þeir sig til, þræddu sig í gegnum vörn Everton og skoruðu aftur. 0-2 fyrir Brighton eftir 51. mínútu. Við þetta hrundi leikur Everton algjörlega og aðeins þremur mínútum síðar kom þriðja mark Brighton. Þrjú skot á rammann, þrjú mörk. Allt of auðvelt.
Á 56. mínútu fékk Everton aukaspyrnu langt úti á vinstri kanti. Aukaspyrnan var arfaslök frá McNeil, allt of há og yfir alla og út að hliðarlínu þar sem varnarmaður Brighton hreinsaði fram. Boltinn beint á Idrissa Gueye út við kant og hann gaf sóknarmanni Brighton mark á silfurfati með arfaslakri sendingu á Pickford. Það leit eiginlega meira út eins og hann hefði ruglast á liðsfélaga og reynt stoðsendingu á sóknarmanninn frekar en sendingu á Pickford og sóknarmaður þeirra þakkaði fyrir sig með því að bruna inn í teig óvaldaður og renna boltanum framhjá Pickford. 0-4. Fjórða skot þeirra á rammann. Fjögur mörk.
Tvöföld skipting fylgdi í kjölfarið frá Lampard: Davies og McNeil skipt út af fyrir Price og Doucouré, en stuttu síðar meiddist Patterson lítillega og Coleman kom inn á fyrir hann. Lampard notaði tækifærið og setti Maupay inn á fyrir Idrissa Gueye á sama tíma. Í millitíðinni höfðu Brighton menn skipt inn á nýbökuðum heimsmeistara með Argentínu (MacAllister). Aðeins betri möguleikar til að hafa áhrif á leikinn en voru á bekk Everton, en þess má geta að þeir voru líka með Troussard á bekknum.
Á 65. mínútu náðu Brighton menn fimmta skoti á rammann og í þetta skiptið tókst þeim, ótrúilegt en satt, ekki að skora. Hefði líklega hjálpað þeim að setja boltann ekki beint á Pickford.
Everton liðið virtist fyrirmunað að skapa sér almennileg færi í leiknum en fram að 70. mínútu hafði liðið líklega verið líklegast til að skora þegar Tarkowski sendi hálf slaka sendingu á Pickford, sem þurfti aðeins að spretta til að sækja boltann sem stefndi á eigið mark. En almennilegt færi kom loks á 70. mínútu þegar Gray fékk algjört dauðafæri. Besta færi Everton í leiknum þegar boltinn barst óvænt til hans inni í teig eftir að ca. þrír leikmenn úr hvoru liði höfðu leyft boltanum að sigla framhjá sér. Enginn að dekka Gray sem var við miðjan teiginn utarlega með aðeins markvörðinn fyrir framan sig — miklu betra færi en hann skoraði úr gegn Manchester City í síðasta leik, en skot hans náttúrulega yfir markið. Týpískt.
Calvert-Lewin reyndi hálf vonlaust skot vel utan teigs á 79. mínútu en langt framhjá. Lampard brást við með því að skipta Simms inn á fyrir Calvert-Lewin.
Á 90. mínútu fékk Everton smá sárabætur þegar markvörður Brighton, Sanchez, klippti niður Iwobi inni í teig. Afar klaufalegt hjá honum þar sem Iwobi náði að stýra boltanum framhjá honum eftir langa sendingu inn í teig. Gray skoraði auðveldlega úr vítinu, en það hafði lítið að segja þar sem Brighton menn voru enn þremur mörkum yfir og lítið eftir.
1-4 niðurstaðan í dag.
Einkunnir Sky Sports: Pickford (4), Patterson (4), Coady (4), Tarkowski (4), Mykolenko (4), Iwobi (5), Gueye (4), Davies (4), McNeil (4), Calvert-Lewin (5), Gray (6). Varamenn: Doucoure (5), Price (5), Coleman (5), Maupay (5).
Held að þetta séu lélegustu einkunnir sem ég hef séð Everton fá í mjög langan tíma og ég get ekki sagt að þær séu ósanngjarnar.
Við fáum ekkert út úr þessum leik annað en pirring og vonbrigði. Leikur sem má alls ekki tapast, þá er það jafn öruggt og amen í kirkju að hann tapast.
Staðan er 0-1 í hálfleik, ég spái 0-3 og Lampard fær að fjúka.
Það er vonandi
Það verður að gera taktískar breytingar í hálfleik ef ekki á illa að fara. Hægri vængurinn mjög slakur og DCL mjög slakur.
Þetta er bara hræðilegt, það þarf ekki mikinn reikningsmann til að sjá það. Vantar allt hungur í dæmið.
Eini ljósi punkturinn í þessu er að liðin í kring eru líka með allt niður um sig. Vonandi er svigrúm til að styrkja liðið í janúarglugganum — bara verst hvað sóknarmenn eru dýrir og þar er þörfin mest.
Önnur lið í kringum Everton eru bara að gera það gott í þessari umferð. Everton alla vega dottið niður í næst neðsta sætið. Það vantar líka frambærilega miðjumenn en þeir vilja bara ekki koma sýnist manni
sælir er ekki kátur eitt orð yfir þetta ömurlegt. eru menn sammála að láta lambart fara
Nei, ekki ég. Allavega ekki strax. Eini fasti punkturinn er stjórnin undanfarin fimm ár. Þeir eru alltaf búnir að koma sökinn frá sér með því að reka stjórann og byrja upp á nýtt. Hvers vegna í ósköpunum hefur engum stjóra undanfarin ár gengið vel? Þarna er eitthvað að. ÉG er ekkert endilega að verja Lampard en það er hægt að „semja“ við nýjan stjóra áður en honum er sagt upp. Alls ekki reka hann og ráða svo Dyche eða Allardyce. Samt finnst mér soldið eins og ég viti ekkert hvað ég er að segja en er þó bara að segja það sem mér finnst. Ekki reka hann strax.
Kær kveðja og gleðilegt nýtt ár! (við þurfum á því að halda)
Ari S.
https://www.mbl.is/sport/enski/2023/01/05/gengur_hvorki_ne_rekur_hja_nyja_stjoranum/
Þá vitum við hvað gerist 14. janúar.
Sæll Ingvar og gleðilegt nýtt ár. Það má bæta við að Southampton hefur ekki unnið á Goodison Park síðan 1997 og hugsanlega er þetta síðasti leikur Southampton á þessum velli. Þá náttúrulega vitum við hvað gerist.
Já Ari, þetta er skrifað í skýin.
Hæ vill bara óska öllum hér gleðilegs nýs ár. Takk fyrir gömlu árin . Ég hef ákveðið að skrifa ekkert um Everton fyrr en þeir vinna næsta leik.
Gleðilegt nýtt ár og takk fyrir gömlu Everton árin hérna.