Everton – Newcastle 1-0

Mynd: Everton FC.

Það var risaleikur á dagskrá í kvöld, þegar Everton tók á móti Newcastle á Goodison Park. Það var bráðnauðsynlegt að ná hagstæðum úrslitum úr þessum leik og þetta var þvílíkur rússíbani að maður hefur varla séð annað eins. Óverðskuldað rautt spjald kveikti aldeilis neistann í mönnum undir lokin, sem kláruðu dæmið manni færri. Það er ekki hægt að biðja um meira. Maður er á adrenalínsjokki eftir að hafa horft á þennan leik.

Greiningin í aðdraganda leiks benti á að Brentford unnu Burnley á dögunum, sem létti pressunni pínulítið af bæði Everton og Brentford (sérstaklega þeim síðarnefndu) en svo tóku Leeds menn upp á því að skora sigurmark í uppbótartíma gegn Norwich, sem var pínu óheppilegt. En við getum alveg búið okkur undir tilfinningarússíbana alveg fram til loka tímabils og óvænt úrslit eiga eftir að líta dagsins ljós bæði hjá okkar liði sem og “nágrönnum” okkar í deild — hvort sem er gegn liðum ofarlega eða neðarlega.

Af fjarverum var það að frétta að Jonjoe Kenny var í eins leiks banni og spilaði því ekki með. Líklegt þótti að Mykolenko myndi vera í byrjunarliðinu, en svo reyndist þó ekki. Branthwaite og Calvert-Lewin höfðu verið að glíma við veikindi en Calvert-Lewin var bara skráður sem tæpur og var því mögulegur fyrir leik (en var á bekknum). Mina, Davies og Delph voru hins vegar alir frá vegna meiðsla.

Hjá Newcastle var Jonjo Shelvey að glíma við veikindi en varnarmennirnir Kieran Trippier, Jamal Lewis og Isaac Hayden voru meiddir, sem og framherji þeirra, Callum Wilson.

Við horfðum á leikinn á Snooker og Pool í Lágmúla 5.

Uppstillingin: Begovic, Godfrey, Keane, Holgate, Iwobi, Coleman, Allan, Gray, Doucouré, Gordon, Richarlison.

Varamenn: Lonergan, Tyrer, Mykolenko, Patterson, Gomes, Dele, Townsend, Rondon, Calvert-Lewin.

Fyrsta færi leiksins kom á upphafsmínútunum eftir hornspyrnu frá Gray, beint á kollinn á Godfrey sem náði ekki að stýra boltanum framhjá markverði Newcastle.

Hinum megin vallar fékk Wood skallafæri fyrir Newcastle eftir háa sendingu inn í teig á 10. mínútu en hann skallaði einnig beint á markvörð. Svipaði mjög til færis Everton.

Newcastle menn áttu eitt tækifæri í viðbót þar sem þeir náðu skoti á mark úr aukaspyrnu, mjög langt utan af velli, þar sem Begovic virtist illa staðsettur en náði að loka á það.

Það gefur samt ekki rétta mynd af framgangnum í fyrri hálfleik, því Newcastle menn voru mun líklegri og ógnandi og Everton náði aldrei góðum takti í fyrri hálfleik.

0-0 í hálfleik.

Ég skal alveg játa að ég kveið seinni hálfleiks pínulítið, eftir frammistöðuna í fyrri hálfleik, en þetta skánaði þó nokkuð í seinni og Everton liðið komst meira inn í leikinn. Meira jafnræði með liðum á boltanum og það var eins og Newcastle menn gæfu svolítið eftir. Eða kannski bara að Everton menn spýttu í lófana? Færin létu þó á sér standa.

Calvert-Lewin kom inn á fyrir Gray á 76. mínútu og með honum kom auka innspýting og lifnaði aftur yfir leik Everton í kjölfarið. Gordon átti hættulegt skot úr aukaspyrnu og stuttu síðar var Calvert-Lewin hársbreidd frá því að pota inn í autt netið eftir fyrirgjöf þvert á markið. Everton var greinilega að ná undirtökunum í leiknum. Markið lá í loftinu.

En á 83. mínútu átti sér stað smá slys. Coleman lenti í samstuði við varnarmann Newcastle inni í teig Newcastle og maður hélt að VAR væri að skoða það atvik. Maður hefur alveg séð dæmt víti fyrir minna. En svo var þó alls ekki því VAR var að skoða einhverja bölvaða vitleysu í kjölfarið — einhverja tæklingu þegar Allan stöðvaði skyndisókn, sem var nú þegar búið að afgreiða (réttilega) með gulu spjaldi á Allan. En dómarinn ákvað að reyna að eyðileggja leikinn með því að breyta réttri ákvörðun (gult) yfir í rautt spjald og maður veltir fyrir sér hvers vegna dómarinn hafi yfir höfuð verið sendur yfir í skjáinn til að skoða þetta, þar sem gult spjald var ekki augljóslega rangur dómur. Þetta virkaði svolítið eins og misnotkun á VAR tækninni, þó maður sé náttúrulega litaður í þessu atviki.

En svona atvik geta samt breytt öllu því í stað þess að fá víti er allt í einu komið rautt spald augnabliki síðar. Ekki alveg það sem maður þurfti eftir VAR skandalinn í City leiknum sem leiddi til þess að dómarinn baðst afsökunar eftir leikinn. Við höfum ekkert með afsakanir að gera — það er kominn tími á stig og dómaramistök hjálpa ekki til.

Á þessum tímapunkti var maður farinn að vonast eftir því að liðið næði þó ekki nema að pakka í vörn og halda í stigið en ekki hjálpaði til að fjórtán mínútum (FJÓRTÁN!) var bætt við út af einhverjum asna sem hlekkjaði sig við markstöng fyrr í leiknum. Dreptu mig ekki. 

En þrátt fyrir þunga pressu Newcastle gafst Everton liðið ekki upp og átti hættulegri færi. Gordon var keyrður niður inni í teig í skyndisókn en ekkert dæmt. Týpískt reyndar. 

En Everton á það til að koma manni svo skemmtilega á óvart þegar á móti blæs, líkt og á móti Chelsea á Brúnni með hálftóman bekk, lykilmenn heima með covid og lið hálf-fullt af  kjúklingum en náði samt fínum úrslitum.  

Því undir lokin náðu Iwobi og Calvert-Lewin frábærlega saman við D-ið, smá þríhyrningur Iwobi á Calvert-Lewin og strax aftur á Iwobi sem lagði hann framhjá markverði. Staðan orðin 1-0 fyrir Everton. Eitt… effing… núll og það manni færri. Menn hafa verið að býsnast yfir Iwobi og verðmiðanum á honum en þetta var ansi dýrmætt mark hjá honum, segi ég nú bara…

Einkunnir Sky Sports: Begovic (8), Coleman (7), Holgate (7), Keane (8), Godfrey (6), Allan (6), Doucoure (6), Iwobi (8), Gray (6), Gordon (7), Richarlison (6). Varamenn: Calvert-Lewin (7), Townsend (6), Gomes (6).

Maður leiksins, að mati Sky Sports, var Michael Keane.

11 Athugasemdir

  1. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Ágætar fyrstu 10 mínúturnar en svo fór allt í sama farið.
    Bara tímaspursmál hvenær Newcastle kemst yfir.

  2. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Það er alveg sama hvort það er sóknaleikur Everton eða víraklippur, hjá Everton er allt bitlaust.

  3. Ari S skrifar:

    Obossí obbossí þetta var svakalegt, til hamingju allir/öll. Liðið spilaði ekkert öðruvísi en maður átti von á, frekar illa. En barátta til enda gaf okkur þrújú stig í kvöld. Gríðarlega mikilvæg stig. Rauða spjaldið gerði sigurinn enn betri. Leyfi mér að segja það vegna þess að það var ekkert svo svakalega gróft brot hjá Allan. Frekar svona proffesional foul, sennilega hefði Maximin skorað … haha

  4. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Iwobi, ég elska þig…..í bili.
    Þvílíkur leikur, Þvílíkur sigur, þvílík barátta…. en hvar var þessi barátta á sunnudaginn?
    Það er svo pirrandi að vita hvað þessir menn geta lagt sig fram og barist eins og brjálæðingar en þeir gera það bara stundum.
    Þetta var frábær sigur í kvöld og allir spiluðu vel, en ég geri mér engar grillur um að liðið hafi nú snúið við blaðinu og fari að vinna leiki og klifra upp töfluna fyrr en liðið fer að spila af svona baráttu alltaf. Maður hefur svo oft séð þetta lið vinna svona leik og svo gerist ekkert í þeim næsta.
    Vonandi er þetta vendipunktur á gengi Everton á þessu tímabili, það kemur í ljós.

  5. AriG skrifar:

    Frábær barátta í Everton sérstaklega þegar Everton voru einum færri. En það vantaði mikið uppá gæði í liðinu framávið. Sköpuðu varla alvöru færi en vörnin var traust. Mér fannst að Everton ættu að fá allavega eitt víti ekki einu sinni skoðað þegar ýtt var við Anthony Gordan og líka aðeins við Seamus Coleman allavega bæði þessi tilvik voru á gráu svæði. Rauða spjaldið kannski strangur dómur alltaf matsatriði. Þessi sigur léttir aðeins á pressunni á Everton og næst er erfiður útileikur gegn Palace í bikarnum á sunnudaginn vonandi vinnst hann líka.

  6. þorri skrifar:

    sælir frábær sigur vonandi koma svona fleiri leikir þar sem baráttan er í lagi og frábær lið heild.En hana hefur vantað.Horfum nú fram á veigin

  7. Halldór skrifar:

    Geggjaður sigur og gaman að sjá allt liðið berjast svona. Mér fannst Coleman eiginlega vera maður leiksins, það var eins og hann hefði allt í einu yngst um 5 ár. Það var hann sem átti upphafið að aðdraganda marksins þegar hann vann boltann á miðsvæðinu með harðfylgi. Gordon var líka geggjaður og í svakalegum ham.

  8. Ari S skrifar:

    https://www.youtube.com/watch?v=KdVCPELM1iM&t=134s

    Þetta er mjög fallegt að horfa á. Markið sýnt frá öllum sjónarhornum.