Man United – Everton 1-1

Mynd: Everton FC.

Everton mætti á Old Trafford í dag með hálf laskað lið vegna meiðsla en náði þrátt fyrir það, með vinnusemi og elju, að tryggja sér eitt stig eftir að hafa lent undir í fyrri hálfleik. Everton þar með orðið það lið sem unnið hefur flest stig á tímabilinu eftir að hafa lent undir. Jafnframt var liðið hársbreidd frá því að taka öll stigin þrjú og taka þar með efsta sætið í Úrvalsdeildinni, um tíma allavega, en VAR kom United til bjargar í lokin þegar meta þurfti rangstöðu í marki sem Yerry Mina skoraði á lokamínútunum.

Ég viðurkenni það alveg að það var pínu kvíðablandið að fletta upp uppstillingu okkar manna fyrir leik, því maður vonaðist eftir því að sjá meiðslalistann styttast og þá sérstaklega í framlínunni. Svo var þó ekki, heldur þvert á móti, því möguleikunum fækkaði um þegar tilkynnt var um meiðsli Iwobi. Ungliðinn Gordon kom inn í byrjunarliðið í staðinn fyrir hann.

Uppstillingin: Pickford, Digne (fyrirliði), Mina, Keane, Godfrey, Allan, Doucouré, Townsend, Gordon, Gray, Rondon.

Varamenn: Begovic, Lonergan, Kenny, Holgate, Branthwaite, Gbamin, Davies, Whitaker, Dobbin.

Sem sagt, svipuð uppstilling og í síðasta leik, 4-4-2 með Rondon fremstan og Gray í holunni fyrir aftan. Ekki var um auðugan garð að gresja á bekknum því þar voru tveir markverðir og fimm kjúklingar (að Kenny meðtöldum). Aðeins Holgate og Davies sem höfðu eitthvað verið viðloðnir byrjunarliðið. Til samanburðar samanstendur bekkurinn hjá United af þeim Christiano Ronaldo, Paul Pogba, Jadon Sancho og Nemanja Majtić, svo nokkrir séu nefndir.

Það var ljóst að þetta var risastórt verkefni fyrir Benitez og félaga, líklega það stærsta hingað til á tímabilinu, en það getur allt gerst í fótbolta — við þekkjum það nú.

United byrjuðu leikinn fjörlega og náðu að setja pressu á vörn Everton frá upphafi. Fyrsta færið hálffæri, frá United, þegar hár bolti barst inn í teig frá hægri á fjærstöng en skallinn rataði ekki á mark.

Fyrsta færi Everton á 11. mínútu þegar Rondon komst einn inn fyrir en var of lengi að athafna sig með boltann sem gerði það að verkum að Varane náði að loka á hann þegar hann var að gera sig reiðubúinn til að skora.
Everton náði aðeins að sýna tennurnar í kjölfarið og fínt færi opnaðist á 15. mínútu þegar Townsend vann aukaspyrnu af hægri kanti. Sú sókn endaði með skalla á mark inni í teig frá Michael Keane, en boltinn rétt framhjá stöng.

United komust í dauðafæri á 20. mínútu þegar Cavanni fékk háan bolta inn í teig utan af vinstri kanti. Náði ágætum skalla á mark en Pickford kastaði sér niður og varði með frábærum hætti í horn.

Eftir um hálftíma leik fékk Everton ágætis færi eftir samleik Digne og Gordon upp vinstri kant sem endaði með lágri sendingu fyrir mark frá vinstri á Rondon en Luke Shaw náði að loka á hann upp við mark.

Örskömmu síðar bjó Gray sér til fínt skotfæri utan teigs þegar hann fékk boltann nokkuð inn fyrir miðlínu og brunaði fram og sigldi framhjá nokkrum United mönnum og þrumaði niðri í vinstra hornið en De Gea varði meistaralega. 

Stuttu síðar átti Doucouré skot innan teigs en í varnarmann. Fínn kafli frá Everton sem litu vel út á miðjusvæðinu, samhentir og unnu vel og voru að skapa sér færi fram á við.

Lítið að gerast hjá United þangað til allt í einu að þeir komust í færi vinstra megin. Bruno var nálægt teig þegar hann lagði boltann til vinstri á Martial sem tók skotið innan teigs og þrumaði framhjá Pickford. Smá heppnisstimpill á þessu, því boltinn breytti um stefnu af Mina/Godfrey á leiðinni eftir skriðtæklingu sem átti að koma í veg fyrir skotið. 1-0 fyrir United — pínu gegn gangi leiksins síðustu 10-15 mínúturnar.

Og þannig var það í hálfleik.

Leikmenn Everton voru svolítið mikið að flýta sér að komast í skyndisóknir í upphafi seinni hálfleiks, en löngu sendingarnar voru ekki að rata á fremstu menn. Fyrir vikið unnu United boltann alltaf hratt aftur og Everton átti erfitt með að létta á pressunni. Lítið um færi báðum megin, þó. 

United fengu hornspyrnu á 65. mínútu og í kjölfarið komst Everton í skyndisókn. Maður hélt að United hefðu náð að stoppa það í fæðingu þegar boltinn virtist vera að rúlla út af velli til móts við tæknisvæði stjóranna. En Gray gafst ekki upp og tók sprettinn á eftir boltanum, vann einvígi við Fred og hóf skyndisóknina upp á nýtt upp vinstri kant. Sendi á Doucouré, sem kom á hlaupinu upp miðjuna og lék á Lindelof og sendi til hliðar til hægri á Townsend, sem kom á sprettinum inn í teig, lagði hann fyrir sig og skaut framhjá De Gea. Fagnaði svo að hætti Ronaldo! Gaman að því! 1-1 og game on!

Pogba kom inn á fyrir Fred stuttu síðar og Davies inn á fyrir Gordon.
Ronaldo reyndi skot að marki í kjölfarið úr þröngu færi vinstra megin við mark, en skotið vel framhjá. Engin hætta — og merkilegt nokk var voðalega lítil hætta af honum í lokin, en varnarmenn Everton höfðu ágætis tök á honum og félögum hans í sókninni. Um tíma var Bruno Fernandes kominn í framlínuna með Ronaldo til að stokka þetta upp, sem manni fannst hálf undarlegt þar sem maður hefði haldið að hann nýtist alltaf betur fyrir aftan sóknarmennina sína að dæla boltum á þá. Hvað um það, við grátum það ekki, enda nýttist það þeim ekki neitt.

United liðið slapp svo aldeilis með skrekkinn á 86. mínútu þegar VAR kom þeim til bjargar. Tom Davies fékk boltann inni í teig hægra megin og var óvænt algjörlega á auðum sjó en í staðinn fyrir að reyna skot renndi hann boltanum á Yerry Mina, sem potaði í autt netið. Því miður, hins vegar, var Mina örlítið framar en Davies og því réttilega dæmdur rangstæður. Mikið hefði maður viljað sjá hvað myndi gerast ef Davies hefði hlaðið í skotið sjálfur.

Fjórum mínútum bætt við vegna tafa og Gray var skipt út af fyrir Dobbin stuttu síðar. En fleiri urðu færin ekki.

1-1 var niðurstaðan og frábært að ná að snúa þessu við í seinni hálfleik. United menn heppnir að taka eitt stig af erfiðum heimavelli sínum.

Einkunnir Sky Sports: Pickford (6), Godfrey (7), Mina (6), Keane (7), Digne (6), Townsend (8), Doucoure (8), Allan (6), Gordon (7), Gray (8), Rondon (6). Varamenn: Davies (6). Hjá United voru McTominay og Wan Bissaka með 7, restin með lægra.

Maður leiksins: Demarai Gray.

13 Athugasemdir

  1. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Það er erfitt að ímynda sér hvernig Everton nái stigi eða stigum út úr þessum leik. Ég vona bara að menn leggi sig fram og gefi allt í þetta og þá kannski náum við stigi. Ég held að við vinnum móralskan sigur og töpum 3-1 eftir mikla baráttu.

  2. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Vel gert Everton. Áttu þetta stig vel skilið og hefðu getað stolið öllum stigunum ef Davies hefði bara látið vaða sjálfur.

  3. Finnur skrifar:

    Já, frábær barátta alls staðar á vellinum og menn að ná mjög vel saman. Ef DCL eða Richarlison hefðu verið heilir (eða Davies skotið þarna í lokin) hefði Everton tekið þrjú stig úr þessum leik.

  4. AriG skrifar:

    Flottur leikur hjá Everton. Tom Davids átti auðvitað að skjóta sjálfur en vantar greinilega sjálfstraustið. Gray er snillingur bestu kaup sumarsins. Doucoure var frábær, Townsend flottur. Flott barátta í liðinu. Besti leikur Randon hann gerði það sem hann gat en hann er langt frá að fylla skarð Lewin heillar mig ekki ennþá en hann er samt aðeins á réttri leið. Vel Doucoure mann leiksins og Gray ekki síðri. Gordon er mjög duglegur alltaf að. Vörnin klikkaði illa 2 sinnum í markinu og dauðafæri Cavani annars var hún traust.

  5. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Dásamlega ósvífið fagnið hjá Townsend 😆

  6. þorri skrifar:

    frábært jafntefli og sangjart,Með heppni hefðu við geta unnið en frábært stig.

  7. þorri skrifar:

    Sælir félagar ég er að fara út á leik Everton watvord 23 okt fer 21 okt er einhver sem fer frá félaginu á þennan leik

  8. Finnur skrifar:

    Veit ekki.

    En BBC völdu Andros Townsend í lið vikunnar:
    https://www.bbc.com/sport/football/58781182
    🙂

  9. albert skrifar:

    Gaman að sjá hvernig spilað er inn á liðsheild, en ekki eitthvað stjörnu kaðrak. átti ekki von á að Rafa stæði sig svona vel, en það er bara gott mál.

  10. þorri skrifar:

    Þetta er stjóri sem Everton þurfti .Og mikið hlakka mig til þegar ég fer á Gudeson park þar sem EVERTON tekur á móti Watvord.

  11. þorri skrifar:

    á ég að trúa því að enginn sé að fara á LEIKINN Everton- Watford sem er laugardaginn 23 okt