Mynd: Everton FC.
Þá er það deildarbikarinn! Flautað var til leiks kl 18:45.
Uppstillingin: Begovic, Nkounkou, Holgate (fyrirliði), Kean, Branthwaite, Kenny, Davies, Gbamin, Iwobi, Townsend, Moise Kean.
Varamenn: Lonergan, Digne, Mina, Coleman, Doucouré, Gomes, Gray.
Níu breytingar frá síðasta deildarleik, en aðeins Iwobi og Michael Keane halda sæti sínu. Annars er þetta mestmegnis leikmenn á jaðri Everton liðsins sem stillt er upp.
Róleg byrjun á leiknum sýndist manni, en allt í einu gaf bakvörður Huddersfield beint á Moise Kean sem brunaði óáreittur fram í átt að teig og þegar hann var kominn að jaðrinum skaut hann framhjá miðverði Huddersfield, en einnig rétt framhjá marki. Þetta átti eftir að gerast nokkrum sinnum í viðbót (að varnarmarmaður gæfi miðju/sóknarmanni Everton boltann á silfurfati) en ekki tókst Everton að nýta sér það.
Á 4. mínútu náði Iwobi að bruna fram í átt að teig, gefa til hliðar til vinstri á Nkounkou, sem setti boltann fyrir mark í fyrstu snertingu, beint á Moise Kean en markvörður varði skotið frá honum vel.
Mark Everton kom hins vegar á 26. mínútu eftir flott hlaup Davies upp miðjan völlinn og að teignum. Þar gaf hann stoðsendingu á Iwobi sem renndi boltanum framhjá markverði. 0-1 fyrir Everton!
Örskömmu síðar átti Nkounkou flotta stungusendingu sem splundraði vörn Huddersfield. Moise Kean komst þar með einn á móti markverði og afgreiddi boltann snyrtilega í samskeytin uppi hægra megin. En hann var því miður dæmdur rangstæður, þó það liti út fyrir að vera rangur dómur. Engin VAR-sjá í gangi í deildarbikarnum.
Huddersfield menn fengu frábært færi inni í teig á 34. mínútu en skotið frá Sinani, af mjög stuttu færi, var arfaslakt. Begovic þurfti samt að taka á honum stóra sínum og það gerði hann. Frákastið barst hins vegar aftur til mannsins sem skaut en hann einfaldlega hitti ekki markið með Begovic í grasinu. Þar hefðu þeir átt að gera betur. Huddersfield menn sóttu af krafti undir lok hálfleiks og náðu að jafna rétt undir lok fyrri hálfleiks þegar þeir fengu horn og náðu að skalla fyrirgjöfina í netið.
1-1 í hálfleik.
Engin breyting á liðunum í hálfleik en Huddersfield menn byrjuðu seinni hálfleik af óþægilega miklum krafti. Náðu glæsilegu skoti rétt utan teigs og Begovic rétt náði að lyfta boltanum yfir slána. Upp úr horninu skoruðu Huddersfield menn en markið dæmt af fyrir eitthvað sem leit út fyrir að vera litlar sakir. Eftirlitsdómari sagði síðar að Frazer Campbell hefði brotið á Begovic í aðdragandanum.
Örskömmu síðar (59. mínútu) fékk Moise Kean svo rautt spjald fyrir að reka öxl í andstæðing, eftir að hafa verið eitthvað ósáttur við tæklingu sem hann fékk. Everton því orðnir manni færri og enginn hefðbundinn sóknarmaður á bekknum (Calvert-Lewin fékk frí frá þessum leik). Fannst þetta fullharður dómur — gult hefði alveg nægt. Benitez gerði tvöfalda skiptingu í kjölfarið: Gomes kom inn á fyrir Branthwaite og Digne inn á fyrir Davies. Iwobi þar með settur á toppinn.
Gray kom svo inn á fyrir Nkounkou á 75. mínútu og maður vonaði innilega að Everton myndi halda þetta út næsta korterið og merja þetta kannski á vítaspyrnukeppni. En svo léttist brúnin aldeilis þegar Andros Townsend kom Everton yfir með frábærri afgreiðslu úr þröngu færi þegar boltinn barst þvert á mark til hans nálægt marki. Staðan orðin 1-2 fyrir Everton, manni færri!
Huddersfield menn reyndu allt hvað þeir gátu til að jafna og geta verið stoltir af frammistöðu sinna manna en ekki tókst þeim ætlunarverkið og eru því úr leik í þessari bikarkeppni. Everton fer hins vegar áfram í næstu umferð.
Dermian Gray fékk eitt færi í lokin til að bæta við en markvörður varði í horn. Stuttu síðar flautaði dómarinn leikinn af.
Sky Sports gefur ekki út einkunnir fyrir bikarleiki umferðarinnar.
Jæja, er einhver að fara mæta á Ölver?
Markið hans Kean átti að standa. Ég er smeykur um að þetta klúðrist í tap 2-1.
Everton á ekkert skilið út úr þessum leik. Huddersfield líta út eins og Bayern München.
Jæja þetta hafðist þrátt fyrir allt en ekki leit það vel út á tímabili, hvað þá þegar Kean var rekinn útaf, ranglega að mínu mati.
Byrjunin lofar góðu hjá Everton. Finnst samt að það mætti ganga betur við að losna við óþarfa leikmenn. Allavega þarf að spýta í lófanna og láta alla óþarfa og lélega leikmenn fara sem fyrst. Ef James og Kean verða áfram þarf Everton bara einn hægri bakvörð það ætti að sleppa en samt alltaf hægt að kaupa unga efnilega leikmenn áfram.