Mynd: Everton FC.
Við tókum okkur langt og gott sumarfrí hér á everton.is, létum enska boltann alveg eiga sig og reyndum í staðinn að njóta blíðunnar sem gefist hefur í sumar.
Að hluta spilaði skortur á bjartsýni yfir nýja tímabilinu kannski sitt hlutverk og það virðist kannski vera svolítið þannig heilt yfir hjá Everton stuðningsmönnum almennt. Allavega ef marka má þessa könnun (athugið: linkurinn er bak við „paywall“) hjá The Athletic. Spurt var „ertu bjartsýn(n) eða svartsýn(n) á gengi þíns liðs fyrir komandi tímabil?“. Niðurstöður könnunarinnar voru eftirfarandi:
Nokkuð sláandi niðurstöður að þetta sé svona afgerandi en kannski ekki skrýtið þegar þetta er skoðað ofan í kjölinn.
Það virkar óralangt síðan Everton var viku eftir viku í efsta sæti Úrvalsdeildarinnar með margverðlaunaðan stjóra við stjórnvölinn. Það sem gerst hefur síðan hefur verið hálfgerð martröð.
Liðið haltraði yfir endalínuna í lok síðasta tímabils og endaði um miðja deild eftir 5-0 tap í síðasta leik tímabilsins (gegn City) og missti naumlega af Evrópusæti. Ancelotti sagði upp og við tók gamall erkifjandi stuðningsmanna Everton, Rafael nokkur Benitez. 4-0 tap gegn United í síðasta æfingaleiknum var ekki til að auka á bjartsýnina, en við gefum Benitez tíma.
Skelfilegar fréttir bárust af Gylfa, eins og væntanlega hefur ekki farið framhjá neinum landsmanni. Þær þýða að í besta falli missir hann líklega alveg af fyrri hluta tímabilsins með Everton, enda ekkert æft með liðinu á undirbúningstímabilinu (og ekki fyrirsjáanlegt hvort og þá hvenær það verður). Í versta falli, hins vegar… nei, það er ekki hægt að hugsa þá hugsun til enda.
Á meðan Everton missti eina af sínum stjörnum (tímabundið vonandi) hafa liðin fyrir ofan Everton fjárfest grimmt fyrir nýja tímabilið og eiga flest leikmann á lista yfir 20 dýrustu kaupin — og sum þeirra eru alls ekki hætt (City eru komnir með Grealish á 100M punda, Chelsea: Lukaku 95M, United: Sancho 70M, Arsenal: Ben White: 50M, Tottenham: Cristian Romero 47M, Leicester: Patson Daka 23M). Leicester (og reyndar líka Aston Villa), eru með hvorki fleiri né færri en þrjá leikmenn (!) á top 20 listanum yfir dýrustu kaupin.
Til samanburðar þá hefur Everton eytt samtals 2M punda í leikmannakaup (Gray, Townsend og Begovic).
Fyrir nokkuð löngu hugsaði maður sér gott til glóðarinnar því maður hélt að þetta yrði tímabilið þar sem Ancelotti fengi aðeins að láta til sín taka á leikmannamarkaðnum því að loksins væri búið að leiðrétta flest mistökin sem gerð voru í leikmannakaupum á tímum Walsh og Koeman, og búið að koma rekaviði á háum launum fyrir hjá öðrum liðum. En í staðinn berast nú fréttir úr viðtölum við Benitez þar sem fram kemur að Everton þurfi, út af financial fair play, enn að losa sig við leikmenn til að geta keypt.
Það skýrir náttúrulega kannski fréttirnar af James Rodriguez, sem er sagður vilja í burt og Fabian Delph og Moise Kean sömuleiðis. Félagaskipti hins síðastnefnda flæktust hins vegar örugglega töluvert þegar PSG, sem hann vildi fara til, fékk til sín Lionel nokkurn Messi. Ouch.
Þessi fyrsti leikur tímabilsins við Southampton er eini heimaleikur Everton fram til loka félagaskiptagluggans (lok ágúst) og því gæti sú skrýtna staða skapast, vegna fjarveru James Rodriguez í dag, að hann muni aldrei ná að leika fyrir framan áhorfendur á Goodison Park. Það er svolítið spes.
Er þetta þar með allt upptalið? Nei, ekki alveg. Fimm leikmenn Everton eru í sóttkví/einangrun vegna Covid19 og taka því ekki þátt í leiknum gegn Southampton. Eftir því sem við komumst næst eru þetta James Rodriguez, Andre Gomes, Jean-Phillipe Gbamin, Moise Kean og ónefndur leikmaður.
Góður fréttirnar eru þær, hins vegar, að ólympíugullhafinn okkar, hann Richarlison — sem og Calvert-Lewin — eru klárir í leikinn við Southampton á eftir.
Væntingar til leiksins eru litlar, svipað og til tímabilsins í heild, en það er svo sem ágætt líka, því það er alltaf hollt og gott að stilla væntingum í hóf og láta koma sér skemmtilega á óvart. Við skulum vona að það verði raunin í þetta skiptið.
Flautað verður til leiks gegn Southampton klukkan 14:00 að íslenskum tíma.
Jæja! Fyrsti leikur tímabilsins í dag og á þessum margumtöluðu pappírum er Everton með mun betra lið og þetta ætti að verða nokkuð þægilegt.
Southampton er líka búið að missa lykilmenn, eitthvað sem Everton hefur ekki gert…….ennþá. Hins vegar er það löngu sannað, og Everton eitt dæmi um það að þegar lykilmenn eru seldir þá þjappar það leikmannahópnum saman og þeir sem eftir eru leggja sig enn meira fram með góðum árangri.
Þar að auki er ekki snefill af baráttuvilja eða hugmyndaflugi eða öðrum hæfileikum sem þarf til að vinna fótboltaleiki hjá Everton og þar að auki er ekki einn einasti leikmaður í hópnum sem hægt er að kalla leiðtoga á velli. Það er enginn sem hvetur menn áfram eða skammast í mönnum ef þeir eru ekki að spila af fullri getu.
Ég held þess vegna að leikurinn í dag fari 1-2 fyrir Southampton.
Ekki ætla ég að byrja tímabilið á svartsýni, nóg er nú samt.
Vona að við byrjum á öruggum sigri þar sem að Rafa veit að liðið verður að byrja vel ef að hann á að ná stuðningsmönnum á sitt band. Spái 3-0 sigri og Richarlison með tvö 👍