Mynd: Everton FC.
Everton á leik á eftir við Burnley á Goodison Park en flautað verður til leiks kl. 17:30. Það er mikilvægt að komast aftur á beinu brautina eftir slök úrslit gegn Chelsea svo að Everton sýni af alvöru að þeir ætli að vera áfram með í baráttunni um Meistaradeildarsæti. Burnley menn eru hins vegar í bullandi fallbaráttu — aðeins fjórum stigum frá fallsæti — þannig að þeir koma einbeittir til leiks og eiga örugglega eftir að veita Everton harða mótspyrnu. Chelsea menn hins vegar misstigu sig á móti Leeds og töpuðu tveimur stigum, sem er hentugt fyrir okkar menn.
Þær slæmu fréttir bárust, hins vegar, á dögunum að Doucouré hefði bæst við meiðslalistann og verður frá í allt að 10 vikur var sagt. Maður vonaðist einnig eftir því að James Rodriguez væri búinn að jafna sig af sínum meiðslum en svo er þó ekki.
Uppstillingin: Pickford, Digne (fyrirliði), Keane, Holgate, Godfrey, Allan, Gomes, Davies, Iwobi, Richarlison, Calvert-Lewin.
Varamenn: Virginia og Tyrer (báðir markmenn), Broadhead, Mina, Coleman, Nkounkou, Onayango, Gylfi, King.
Enn á ný er erfitt að horfa upp á varamannabekk með aðeins fjóra leikmenn sem ekki eru úr unglingaliðinu, en þetta er allavega framför því gegn Chelsea voru þeir aðeins þrír. Jóhann Berg í byrjunarliði Burnley. En þá að leiknum…
Burnley menn skoruðu snemma leiks eftir að miðjumaður þeirra setti pressu á Tom Davies sem féll við og missti boltann. Burnley menn í bullandi skyndisókn og komust inn í teig vinstra megin og sendu fyrir. Pínu heppnir því boltinn fór í bakhlutann á Holgate og þaðan út í teig þar sem Wood lúrði og setti boltann í netið alveg við stöngina hægra megin.
Þeir bættu svo við marki á 24. mínútu upp úr engu þegar sóknarmaður þeirra lék á Allan nokkuð utan teigs og smellhitti boltann svo af löngu færi alveg upp í samskeytin vinstra megin. Enginn möguleiki á að verja. Burnley menn komnir í 0-2 forystu. Enginn breyting sjáanleg á slæmu heimavallar-gengi Everton undanfarið.
Jóhann Berg var ekki langt frá því að skora stuttu síðar með skoti utan teigs. Boltinn hins vegar í utanverða stöng og út aftur. Pickford virtist meiðast við að reyna að verja það en hélt áfram eftir aðhlynningu.
En Everton náði að minnka muninn. Iwobi var eiginlega upp við hornfána hægra megin með tvo að atast í sér en náði að senda á Tom Davies sem kom á hlaupinu, lagði boltann fyrir sig, leit upp og sendi háan bolta fyrir, beint á pönnuna á Calvert-Lewin skallaði inn upp við mark. Miðverðir Burnley virkuðu sofandi og óundirbúnir því að hár bolti væri á leiðinni. Við grátum það ekki. Staðan orðin 1-2.
Richarlison átti skot af löngu færi stuttu síðar en lítil hætta og auðveldlega varið. Burnley menn fengu tvö hálffæri í kjölfarið, það fyrra betra þegar þeir skutu rétt utan teigs en beint í Godfrey. Calvert-Lewin átti svo hættulegan skalla eftir aukaspyrnu en boltinn yfir mark.
Rétt fyrir hálfleik dró svo aftur til tíðinda þegar Pickford fór út af vegna meiðslanna sem hann hlaut fyrr í leiknum og Virgínia, markvörður úr U23 ára liði Everton, fékk þar með sinn fyrsta leik með aðalliðinu. Skömmu síðar setti Iwobi Calvert-Lewin inn fyrir vörn Burnley með stungusendingu, en Ben Mee náði að bjarga þeim.
1-2 í hálfleik.
Everton hóf seinni hálfleik af krafti og náði að skapa tvö færi — það fyrsta skot frá Andre Gomes, rétt utan teigs, líklega á leiðinni í mark inn við stöng en markvörður Burnley, Nick Pope, varði glæsilega í horn. Stuttu síðar náði Digne góðri fyrirgjöf frá hægri sem Calvert-Lewin skallaði framhjá í ákjósanlegu færi.
Tom Davies setti Calvert-Lewin inn fyrir með flottri langri sendingu fram völlinn, en þó fyrsta snerting Calvert-Lewin væri frábær rakst hann í boltann með hinum fætinum og færið fór því forgörðum.
Josh King kom svo inn á fyrir Tom Davies á 66. mínútu og Coleman fyrir Holgate á 73. mínútu.
Burnley menn voru lítið beittir fram á við í seinni hálfleik en vörðust þeim mun betur. Coleman átti flott skotfæri utan teigs en Burnley maður náði að skriðtækla fyrir skotið og boltinn í horn (sem ekkert kom út úr).
Ákefð Everton og pressan á vörn Burnley jókst eftir því sem leið á en dauðafæri frá Everton lét á sér standa. 1-2 sigur Burnley því staðreynd. Everton missti því að góðu tækifæri á að minnka muninn á Chelsea í fjórða sæti.
Einkunnir Sky Sports: Pickford (7), Godfrey (7), Keane (6), Holgate (6), Digne (6), Allan (6), Gomes (7), Iwobi (5), Davies (6), Richarlison (7), Calvert-Lewin (7). Varamenn: Virginia (6), King (6), Coleman (6).
Svakalega er þetta lélegt hjá Everton
Svona svona. Tökum þetta á seiglunni í seinni 😀
Nú sýnist mér Everton vera komnir í 4-4-2 eða 4-2-4 með Iwobi á hægri og King á vinstri kanti.
Virginia með flotta markvörslu á 71. mín.
Aftur á 82. Ég er bara að punkta þetta niður til gamans. Fyrsti leikurinn.
Everton á langt í land að fara spila evrópubolta, bara miðju moð framundan.
Þetta var frekar dapurt frá okkar mönnum. En svakalega finn ég til í eyrunum að hlusta á lýsandann. Er ekki Steingrímur J að losna ? Held svei mér þá að það væri skárra en þessi ósköp?
Veit ekki hvaða rás þú varst að horfa á (væntanlega með íslenskum þulum?) en fyrir mitt leyti verð ég að segja að ég er orðinn aaaaansi þreyttur á að hlusta alltaf á Jamie Carragher (á breskum rásum) lýsa leikjum Everton.
Síminn sport. Tómas Þór.
Þetta var nú ljóta ræpan, týpískt Everton. Getum þá líklega kvatt Evrópudrauminn endanlega og farið að hlakka til tíunda sætisins í vor. Sé ekki púllarana og tottarana klúðra mikið fleiri leikjum á tímabilinu, hvað þá hamrana. Held að það sé mest útlítandi hlutskipti í heimi að vera Evertonmaður.
Virgina stóð sig ágætlega í markinu, það var ekkert óöryggi eftir að hann kom inná. Allan er ekki að heilla mig eins og hann gerði í byrjun. Og Gomes, Davies og Iwobi eru bara ekki nógu góðir fyrir Everton. Þess vegna skil ég ekki að Everton hafi ekki styrkt sig í vetrarglugganum, sérstaklega vegna þess að í ár var mjög gott tækifæri til að komast í meistaradeildina. Nei, Everton datt ekki í hug að styrkja sig neitt, fékk bara einn gæja úr B-deildinni sem kemst ekki einusinni í liðið þó allir séu meiddir. Og eins í haust að leggja af stað í tímabilið með einn framherja, tækifærið sem Everton hafði var ekkert smá en það er nú horfið vegna lélegra úrslita við minni lið og þessi lélegi árangur á heimavelli, hvað er það. En eins og vinur minn Ingvar segir það er erfitt að vera Evertonmaður.
Ég er ennþá í sjokki yfir tapi Everton gegn Burnley. Núna sér maður hvað Gylfi er mikilvægur leikmaður þegar James getur ekki spilað. Fannst allur sóknarleikurinn algjörlega skipulagslaus. Smá von að vinna City á laugardaginn í bikaranum ef þeir tapa þeim leik er tímabilið búið og sennilega bíður 8-10 sætið í vor í deildinni. Allavega er ég hættur að gera mér neinar vonir með Everton er eiginlega búinn að missa alla von en kannski skeður kraftaverk á laugardaginn kemur í ljós.