Mynd: Everton FC.
Það var algjör risaleikur á dagskrá í kvöld, klukkan 18:00, þegar Chelsea tók á móti Everton á Stamford Bridge. Þessi lið eru í hörkubaráttu um fjórða sætið og með sigri hefði Everton verið með tveggja stiga forskot í fjórða sætinu og með leik til góða á Chelsea. Það tókst hins vegar ekki, enda risavaxið verkefni að vinna þennan leik, því Chelsea menn eru enn á öflugum kafla undir nýjum stjóra, Thomas Tuchel. Everton þó búið að vinna síðustu þrjá í röð fyrir þennan leik — en gegn lakari liðum. Eitthvað hlaut því að gefa eftir, og því miður reyndist það okkar megin…
Uppstillingin: Pickford, Digne, Holgate, Keane, Godfrey, Allan, Gomes, Gylfi, Iwobi, Richarlison, Calvert-Lewin.
Varamenn: Virgínia, Tyrer, Nkounkou, John, Davies, Onyango, Bernard, Broadhead, King.
James Rodriguez var fjarri góðu gamni vegna meiðsla og Mina hvergi sjáanlegur heldur. Mikilvægt og gott að sjá Allan í byrjunarliðinu, en ég veit ekki alveg hvað maður á að segja um þennan varamannabekk — 6 af 9 leikmönnum á bekknum kjúklingar. Eins gott að enginn meiddist í þessum leik…
En þá að leiknum…
Fyrri hálfleikur spilaðist örugglega nákvæmlega eins og Ancelotti lagði upp með, allavega framan af. Leyfðu Chelsea mönnum að hafa boltann mikið og dóla með hann og gera… nákvæmlega. ekki. neitt. Pickford hafði lítið sem ekkert að gera í markinu en svo breyttist leikplanið skyndilega þegar Chelsea menn skoruðu. Klassískt skíta-sjálfsmark, boltinn á leiðinni framhjá marki (að sjálfsögðu) en áður en að því kom fór boltinn í lappirnar á Gofrey og þaðan inn. Iwobi hafði slökkt á sér í aðdragandanum sem opnaði leið upp vinstri kantinn inn í teig og því fór sem fór.
Engin hætta búin að vera en Everton skyndilega komið undir. Og þá þurfti að fara að taka meiri áhættu í sóknarleiknum, sem opnaði varnarleikinn nokkuð.
Chelsea menn komust í dauðafæri í kjölfarið og aftur breytti boltinn um stefnu í leið að marki. Í þetta skiptið af fætinum á Keane sem reyndi að blokka skot en Pickford kastaði sér niður og varði algjörlega frábærlega!
Gylfi setti Richarlison svo inn fyrir vörn Chelsea með stungusendingu en varnarmaður náði að komast á milli. Richarlison reyndi að sóla en boltinn í hælinn á varnarmanninum og færið því forgörðum.
Gomes átti síðasta færi fyrri hálfleiks þegar hann átti skot rétt utan teigs sem Mendy í marki Chelsea náði að kasta sér niður á.
1-0 í hálfleik.
Everton byrjaði seinni hálfleik af nokkrum krafti og náðu góðri pressu á Chelsea en það voru hins vegar Chelsea menn sem skoruðu mark á 54. mínútu. Það mark dæmdi VAR þó réttilega af vegna hendi, þegar Havertz lagði hann fyrir sig inni í teig áður en hann sneri og skaut í markið. Iwobi fór út af fyrir Tom Davies skömmu síðar.
Á 63. mínútu gaf Pickford Chelsea mönnum víti þegar hann tók niður Havertz inni í teig. Var ekki langt frá því að ná til boltans en tók manninn í staðinn. Jorginho skoraði örugglega úr því og kláraði í raun þar með leikinn, því Chelsea menn voru nær því að bæta við en Everton að minnka muninn.
Joshua King var svo skipt inn á á 70. mínútu fyrir Gylfa og nokkrum mínútum síðar kom Bernard inn á fyrir Gomes.
Chelsea menn bættu næstum við marki á 79. mínútu þegar Werner komst einn á móti markverði eftir að hafa losað sig við Godfrey en Pickford varði skotið frá honum. Þrisvar í viðbót átti Pickford eftir að verja glæsilega frá Chelsea mönnum í lokin, annars vegar frá Werner og stuttu síðar frá Kante. Og meira að segja í uppbótartíma kom hann einni flottri markvörslu inn eftir langskot frá Mount.
Chelsea verðskuldaðir sigurvegarar í þessum leik, 2-0. Lítið við því að segja og þeir því komnir við stjórnvölinn í baráttunni um fjórða sætið.
Einkunnir Sky Sports: Pickford (5), Godfrey (5), Keane (6), Holgate (5), Digne (6), Allan (6), Gomes (6), Iwobi (5), Sigurdsson (5), Richarlison (5), Calvert-Lewin (5). Varamenn: King (5), Bernard (5), Davies (5).
Komið að þessari árlegu rassskellingu á Stamfurðu brú. Það er komið eitt, þá eru bara þrjú eftir.
Holgate er út á þekju og á gulu
Veit einhver með Coleman og Doucoure. Eins hvað sé langt í Mina. Ekki margir möguleikar varnalega í boði.
Vona að við jöfnum þetta í restina 🙂
Jæja!! Þar fór draumurinn um fjórða sætið……aftur.
Pickford klárlega okkar besti maður í kvöld hinir allir ekkert til að hrópa húrra fyrir.
Við erum 4 stigum frá fjórða sæti og með leik inni. Skiptir mestu máli hvar við verðum í lok móts.
Ekki góður leikur hjá Everton. Núna sér maður hvað hægri vængurinn er lélegur Holgate er ekki góður bakvörður og Iwobi er greinilega alveg búinn á því. Þessar stöður verður Everton að bæta úr í sumar svo liðið geti keppt við bestu liðin í deildinni næsta vetur. Samt ótrúlegt en satt Everton á ennþá sjens á 4 sætinu en þá þarf allt að ganga upp og hin liðin fyrir ofan að klikka. Pickford var langt besti leikmaður Everton í þessum leik gat ekkert gert í vítinu annars hefði Chelsea hvort sem er skorað.
Sammála þessu með hægri bakvörðinn nafni.
Pæling: Fá menn aldrei gult spjald fyrir að reyna að svindla svona eins og Haverts gerði þegar hann lagði boltann fyrir sig með hendinni. Ekki að það hafi skipt máli en…….