Mynd: Everton FC.
Everton vann geggjaðan og mjög svo sanngjarnan sigur á erkiféndunum í dag, Liverpool, á þeirra eigin heimavelli með tveimur mörkum gegn engu. Fyrra mark Everton kom mjög snemma leiks og maður hafði í raun aldrei stórar áhyggjur af því að Liverpool næði að komast aftur í leikinn, því varnarlína Everton stóð sig frábærlega og Keane þar manna fremstur í að hreinsa alla bolta sem bárust inn í teig, eða þá að ná mikilvægum snertingum til að trufla sóknartilburðina. Og ef eitthvað náði í gegn stóð Pickford alveg fyrir sínu!
Uppstillingin: Pickford, Digne, Keane, Holgate, Coleman (fyrirliði), Godfrey, Davies, Doucouré, Gomes, Rodriguez, Richarlison.
Varamenn: Olsen, Nkounkou, Allan, Onyango, Gylfi, Iwobi, Bernard, King, Calvert-Lewin.
En þá að leiknum:
Everton fékk óskabyrjun þegar James Rodriguez sendi stungu inn fyrir Kabak, nýja miðvörð Liverpool, og Richarlison kom á ferðinni framhjá honum og inn fyrir hægra megin í teig. Lagði svo boltann laglega framhjá Allison í markinu á fjærstöng vinstra megin. 0-1 fyrir Everton!
Liverpool átti ekki færi fyrr en á um 18. mínútu og þá voru þau tvö. Skot frá Firminho í botninn á Keane innan teigs og út af rétt framhjá stöng. Pickford líklega með það samt allan tímann. Seinna skotið geðveikt skot utan teigs frá Henderson, sem smellhitti boltann í hornið vinstra megin en Pickford með geggjaða fingurgóma-vörslu alveg út við stöngina.
Á 27. mínútu þurfi Henderson svo að fara af velli eftir að hafa meiðst á læri. Nei, hann harkaði það af sér og hélt áfram í nokkrar mínútur en gafst svo upp og fór að velli.
Everton var svo stuttu síðar (32. mínútu) í algjöru dauðafæri þegar Digne sendi frábæran háan bolta fyrir mark frá vinstri þar sem Coleman (!) var mættur fremstur allra manna og náði óáreittur að skalla á mark en Allison varði vel. Ef hann hefði bara stýrt boltanum á vinstri stöng hefði Allison átt engan séns.
0-1 í hálfleik. Einn púlarinn í herberginu með mér henti símanum sínum í veginn við sjónvarpið um leið og flautað var til leikhlés. Grínlaust.
Everton hélt áfram að leyfa Liverpool að dóla með boltann á miðsvæðinu í seinni hálfleik og sóknarlína þeirra náði aldrei að smella. Lítið að frétta framan af. Gylfa svo skipt inn á fyrir Gomes á 58. mínútu.
Coleman setti Richarlison inn fyrir vörnina með frábærri sendingu — Richarlison var hárfínt réttstæður og komst inn í teig en náði ekki skoti og ákjósanlegt færi fór því forgörðum.
Calvert-Lewin kom svo inn á fyrir James Rodriguez á 62. mínútu og hann átti eftir að gulltryggja þetta síðar í leiknum.
Gylfi komst í upplagt færi stuttu síðar vinstra megin í teig utarlega en skotið frá honum laust og varið. Liverpool svöruðu með stórhættulegri lágri fyrirgjöf fyrir mark frá hægri sem sigldi framhjá öllum og fór í innkast hinum megin. Pickford varði svo vel í kjölfarið frá Salah þegar hann náði að dansa í gegn og komst upp að marki.
En svo kom rothöggið. Þetta yndislega rothögg. Richarlison og Calvert-Lewin náðu flottri skyndisókn sem endaði með stungu frá Richarlison fram á Calvert-Lewin, sem hafði átt geggjaðan sprett fram og hann náði skoti að marki sem Allison varði vel. Calvert-Lewin lenti, hins vegar, í kjölfarið í samstuði við Trent og víti dæmt. VAR bað dómara um að skoða atvikið (sem hann og gerði) en dómarinn var viss í sinni sök. Víti. Gylfi á punktinn og skoraði niðri í vinstra horn. 0-2 fyrir Everton!!!
Ég verð reyndar að viðurkenna að ég var ekki sannfærður um að þetta hafi verið víti en þetta verður örugglega skoðað ofan í kjölinn í rólegheitunum á morgun.
Uppfært eftir leik: Eftir að hafa skoðað atvikið eftir á er kominn á þá skoðun að þetta hafi verið víti og er sammála Dermot Gallagher að mistök hafi verið gerð því Trent átti að fá rautt í kjölfarið fyrir að koma í veg fyrir marktækifæri.
Pickford átti svo geggjaða vörslu í uppbótartíma eftir frábært skot á mark. Pickford aldeilis búinn að vinna fyrir kaupi sínu í kvöld.
Og þannig hélst þetta. Everton að landa frábærum 0-2 sigri á Anfield í kvöld!! Ennþá meira sérstakt að þetta skildi vera fjórði tapleikur heima hjá Liverpool í röð. #ErfiðurHeimavöllur.
Everton þar með komið upp að hlið Liverpool með jafn mörg stig en Everton á leik til góða.
Einkunnir Sky Sports: Pickford (8), Holgate (7), Coleman (7), Keane (8), Godfrey (7), Doucoure (7), Davies (8), Gomes (6), Rodriguez (7), Digne (7), Richarlison (8). Varamenn: Calvert-Lewin (7), Iwobi (6). Sky Sports völdu Tom Davies mann leiksins og hann var fínn, en fyrir mér var Keane besti maður vallarins.
Enginn Liverpool maður með hærri einkunn en 6.
Vonandi mæta okkar menn klárir í slaginn en það ætti að sjást strax á fyrstu fimm mínútunum. Ef ekki, þá fer illa.
Mikið hrikalega leiðist mér þetta mannkerti hann Tómas á Livepool TV (Síminn sport).
Sammála gjörsamlega óþolandi.
Ég lækkaði niður. Það var eiginlega mun betra en ap hlusta á hann. Hann kemur úr Liverpool skóla Hafliða.
Er það ekki gaurinn sem startaði Fótbolti.net? Fer aldrei inn á þá aumu síðu.
Jú, það er hann.
Dominic Calvert-Lewin er að koma inná fyrir Dominic Calvert-Lewin.
Tómas í gær þegar Dominic Calvert-Lewin kom inná fyrir James Rodrigues.
Frábært að sjá að menn eru klárir, ættum að ná amk stigi.
Gomes má fara útaf í hálfleik
Sammála. Árti að fara útaf í hálfleik. Sem betur fer fékk hann ekki annað gult áður en honum var skipt útaf.
er sammála Gomes útaf. og þeir meiga pressa aðeins meira
Eftir hverju er verið bíða með skiptingar?
Lpool er að fara að jafna ☹
Gylfi Sig🤗🤗🤗🤗🤗🤗😁🤗
Pickford maður leiksins miðað við allt sem hefur verið í gangi síðan í heima leiknum á móti Lpool. Enn annars frábær úrslit og barátta í liðinu.😛😛😛😛😛
Til hamingju Everton🥳
Loksins, loksins maður þarf að fá sér eitthvað hjartastyrkjandi eftir þennan leik. Gaman að sjá hversu vel Pickford stóð sig, flott markvarsla hjá honum hvað eftir annað. Stórkostlegur leikur.
Tek undir með Jóni, frúin náði vídeói af mér eftir mark Gylfa og það má ekki komast í almenna umferð. Ég er ofboðslega kátur Everton-maður í dag 🙂
Þetta var stórkostleg frammistaða hjá öllu liðinu og greinilegt að það var eitthvað plan í gangi sem gekk fullkomlega upp.
Það eina sem angrar mig eftir þennan langþráða sigur er að nú eru töpin gegn Newcastle og Fulham enn meira svekkjandi.
Vonandi mæta menn jafn vel undirbúnir í næsta leik en hann er gegn Southampton á Goodison og hann hefur ekki beinlínis verið óvinnandi vígi upp á síðkastið.
Pickford, Keane og Richarlison eru allir í liði vikunnar að mati BBC — og allir mjög vel að því komnir:
https://www.bbc.com/sport/football/56148189
Frábær baráttusigur hjá Everton. Pickford, Meane og Tom Davids voru bestu leikmenn Everton. Ótrúlegt Tom bar af að miðjumönnunum Andre Comes heillar mig ekki og sennilega versti leikur Doucoure fyrir Everton ótrúlega margar feilsendingar hjá honum í leiknum en berst þó fyrir liðið. Richarlison er að vakna loksins hefur ekki verið mjög sannfærandi í vetur. Finnst það góð hugmynd að Gylfi og James skiptist á að spila á miðjunni fyrir aftan Calvert Lewin. Vonandi fara Everton að vinna heimaleikina og ótrúlegt þrátt fyrir mörg töp eiga Everton ennþá sjens á topp 4 en það verður mjög erfitt og þá má Everton ekki mistiga sig mikið restina á mótinu.
Sigur gegn Liverpool á Anfield. Nýr völlur Everton á Bramley Moore Dock samþykktir af Everton borg og Digne framlengdi samning sinn við Everton. Þokkaleg vika að baki.
Hér er greining á leiknum. Skemmtileg lesning:
https://sportslens.com/tactical-analysis-how-carlo-ancelottis-tweaks-helped-everton-get-a-historic-victory-against-liverpool-at-anfield/334897/