Mynd: Everton FC.
Uppstillingin: Pickford, Digne (fyrirliði), Keane, Mina, Godfrey, Holgate, Davies, Gomes, Rodriguez, Richarlison, Calvert-Lewin.
Varamenn: Olsen, Lössl, Kenny, Coleman, Gylfi, Iwobi, Bernard, Gordon, Tyler Onyango (miðjumaður úr unglingaliðinu).
Sem sagt, Godfrey í vinstri bakverði, Holgate í hægri, Digne á vinstri kanti og Davies djúpur miðjumaður. Restin nokkurn veginn eins og maður á von á.
Leicester með undirtökin frá upphafi en ekkert um færi framan af og heldur ekki nein skot — frá hvorugu liði — fyrr en eftir hálftíma leik. Og það skot var af dýrari gerðinni…
James Rodriguez með boltann utan teigs, reyndi sendingu inn í teig en blokkerað. Rodriguez gerði vel og var fyrstur í lausa boltann, tók gabbhreyfingu á varnarmann rétt utan teigs og setti boltann í stöngina hægra megin og inn. Óverjandi fyrir Schmeichel í markinu! 1-0 fyrir Everton!
Leikurinn jafnaðist eftir markið en áfram létu færin á sér standa. Leicester menn náðu sínu fyrsta skoti á mark, vel utan teigs, á lokasekúndum fyrri hálfleiks, en auðveldlega varið.
Líklega með tilþrifaminni hálfleikjum tímabilsins en á meðan Everton leiðir er okkur líklega slétt sama.
1-0 í hálfleik.
Leicester menn sýndu klærnar á 50. mínútu þegar þeir náðu stungu inn hægra megin inn í teig og þaðan náðu þeir skoti úr þröngu færi sem Pickford varði vel. Boltinn barst þaðan til Leicester manns við miðjan teig sem skaut, sem betur, fer framhjá.
Leicester hertu þumalskrúfuna eftir því sem leið á seinni hálfleikinn og tókst nokkrum sinnum að komast inn með stungum inn í teig hægra megin en alltaf hélt vörnin. En á 65. mínútu náðu þeir skoti utan teigs gegnum varnarmúrinn sem Pickford náði að kasta sér á, þrátt fyrir að sjá seint. Skotið samt of fast og lak inn af innanverðri stönginni. 1-1. Centimetraspursmál hvort boltinn færi inn af stöng eða aftur til Pickford, en inn fór hann.
Erfitt samt að segja að þetta hafi ekki verið verðskuldað, enda Everton varist nokkuð djúpt og lítið gert í seinni. En það virtist kvikna smá neisti í þeim við markið þó að færin létu að mestu á sér standa áfram, hjá báðum liðum.
Holgate fór út af fyrir Iwobi á 79. mínútu. Digne þar með færður niður í vinstri bakvörð og Richarlison yfir á vinstri kant til að mynda pláss fyrir Iwobi á hægri kanti).
Gylfi inn á fyrir Rodriguez á 85. mínútu — nokkuð sem við höfðum kallað eftir áður en markið komið (enda Rodriguez á gulu og farinn að þreytast) — og Coleman kom inn á fyrir Calvert-Lewin. Richarlison þar með settur upp á topp. Það hins vegar gerðist ekki fyrr en Calvert-Lewin hafði náð fríum skalla á mark eftir fyrirgjöf. Algjört dauðafæri og ef þessi leikur hefði verið einhverjum mánuðum fyrr hefði hann alltaf sett boltann í hornið. En ekki í kvöld, því miður.
Gomes fékk svo upplagt færi rétt fyrir leikslok þegar boltinn barst til hans óvænt nálægt fjærstöng vinstra megin eftir horn… En hann var ekki viðbúinn, enda hafði boltinn breytt um stefnu á leið til hans og Gomes missti boltann aðeins of langt frá sér þannig að varnarmaður náði að hreinsa – annars hefði hann verið í dauðafæri. Gomes, það er að segja — ekki varnarmaðurinn.
Sem sagt: Tveir sénsar í lokin til að taka öll stigin þrjú en það fór forgörðum. Á heildina litið samt kannski bara sanngjarnt 1-1 jafntefli. Everton þar með sótt fjögur stig til Leicester á tímabilinu, sem er ásættanlegt þegar mætt er liði í toppbaráttunni sem er búið að vinna fimm leiki í röð í öllum keppnum og ekki tapað í átta leikjum í röð — þeas. síðan þeir mættu Everton síðast.
Einkunnir Sky Sports: Pickford (5), Godfrey (7), Holgate (6), Mina (6), Keane (7), Digne (7), Davies (7), Gomes (6), Rodriguez (7), Richarlison (7), Calvert-Lewin (6).
Eftir frekar stirða byrjun hjá liðinu okkar átti Gomez glæsilega sendingu á Digne (sem nb. spilar á vinstri kant, ekki vörn) hann átti síðan viðstöðulausa sendingu inn að miðju á James sem að skaut fyrst með vinstri fékk síðan boltann til sín aftur og skaut með hægr (ekkert mál) og voila, stöngin inn! Eitt núll með einu glæsilegasta marki (með aðdraganda) sem maður hefur séð.
…þetta var reyndar fyrirgjöf fyrst með vinstri hjá honum.
Vel gert Pickford á 53.min.
Þvílík drulla!!
Ég er orðinn pínu þreyttur á þessu „narrative“ í bresku pressunni varðandi öll þessi meintu mistök hjá Pickford. Það er stundum talað um að pressan reynist enskum landsliðsmönnum alltaf erfið og ég held að við séum svolítið að sjá það í umfjöllun Sky Sports í kvöld. BBC er by the way með mun fagmannlegri umfjöllun þar sem réttilega er bent á að Pickford hafi séð skotið seint en samt náð að kasta sér niður og verja í stöng. Það munaði ótrúlega litlu að hann hefði náð að koma í veg fyrir mark. Þetta er spurning um centimetra hvort hann er álitinn hetja eða málaður sem einhver skúrkur. Ef Pickford hefði staðið í lappirnar og horft á boltann fara inn, hefði umsögnin líklega verið á þá leið að hann hafi lítið við markinu getað gert. En af því að hann var snöggur og náði að kasta sér niður og setja fingurna í boltann en boltinn lak inn af stöng þá talar Sky Sports um að hann hafi gert enn ein mistökin. Það er ekki heil brú í þessu. Ég er ekki að halda því fram að Pickford sé gallalaus, en það bara er ekki hægt að tala um einhver mistök þarna.
Hárrrrrétt hjá þér Finnur. Áður en að mark Leicester kom voru þeir búnir að pressa mjög stíft í svona 5 mínútur og okkar menn vörðust vel þangað til að markið kom. Það má kenna öllu liðinu um.
Finnur ég er ekki sammála þér. Góður markvörður á alltaf að verja þetta skot en ég viðurkenni að hann sá boltann seint. Finnst Everton mjög lélegir framávið nema í restina. Leicester stjórnaði þessum leik fyrstu 75 mínútur en Everton komu sterkir inn í restina. Vörn Everton var mjög traust í þessum leik nema í markinu. Fannst Everton frekar heppnir að ná jafntefli í þessum leik. Ancelotte haltu Richarlisson alltaf á vinstra kanti og Iwobi hægra kanti annað er bull. Við sjáum hvað Doucoure er frábær leikmaður allt annað flæði framávið þegar hann spilar leikinn. Henda Tom Davies og Andre Comes út í næsta leik fá Doucoure og Gylfa inn næst í staðinn takk fyrir Ancelotte.
> Góður markvörður á alltaf að verja þetta skot
En… það er akkúrat málið. Hann varði skotið. Ég er búinn að horfa á endursýninguna nokkrum sinnum og hann hafði engan tíma til að athafna sig — boltinn sést seint því hann var að fara í gegnum þvögu af leikmönnum og svo fer hann gegnum klofið á einum Leicester manni sem rétt náði að opna klofið til að forða því að blokkera skotið. Fram að því er engin leið fyrir Pickford að segja hvar boltinn endar — hann gæti breytt um stefnu af síðasta leikmanni. En Pickford sýndi að hann er með frábær viðbrögð (eins og allir góðir markverðir) og náði að kasta sér niður og verja boltann.
Ef boltinn hefði farið einum cm lengra til vinstri á stöngina og því komið út aftur (þó ekki nema rúllað eftir línunni) og Pickford náð að kasta sér á hann hefði þetta myndskeið farið beint í Youtube portfolio-ið hjá honum. Umræðan eftir leik væru þá um hvað þetta hefði ein flottasta varslan á tímabilinu og hvernig hann hefði tryggt Everton sigurinn. Hann átti nokkrar aðrar flottar vörslur í leiknum og hefði því líklega fengið 7 eða 8 í einkunn.
En í staðinn fór boltinn hins vegar í stöng og inn og þar erum við komnir á svæði sem hefur miklu meira með heppni að gera en hæfileika. Það má svo litlu muna til að útkoman sé allt önnur.
En, ég spyr aftur… Hvar eru mistökin í þessu? Hverju átti hann að breyta? Átti hann _ekki_ að kasta sér á boltann? Eina sem ég sé haldið fram er að hann átti að „gera betur“. Það flokkast ekki sem mistök í mínum bókum. BBC talar auk þess ekki um nein mistök í sinni greiningu…
Ef þetta væri hinum megin vallar og við ímyndum okkur Richarlison einan frammi með varnarmenn í sér og hann reynir skot utan teigs sem fer í innanverða stöng og út (og svo nær Schmeichel boltanum)… myndum við þá tala um mistök hjá Richarlison bara af því að hann skoraði ekki? Er hann þá lélegur sóknarmaður af því að „góðir sóknarmenn eigi _alltaf_ að skora úr svona færi“? Sem, by the way, er demonstrably false, alveg eins og þetta komment með að „góðir markmenn eiga alltaf að verja þetta“. Enginn af toppmarkvörðum heims getur haldið því fram að það hafi _aldrei_ á ferlinum komið fyrir að hann hafi kastað sér niður til að verja bolta og náð að koma hendi fyrir en skotið hafi verið of fast og endaði inni.
Því spyr ég — af hverju er þetta þá flokkað sem mistök hjá Pickford þegar hann er hársbreidd frá því að tryggja sigur Everton í leiknum?
sælir félagar ,og góðan daginn Finnur. er sammála með að góður markmaður á að verja þetta skot.og með hitt líka.ég held að Ancelotte sé bara að dreifa álaginu.mér finst ef liðið er gott þá á hann ekki að gera neina breitingu á liðinu.Svo finst mér líka þegar við skorum fyrsta markið þá bakar liði of mikið til baka mér finst þeir gera það of mikið mættu sækja meira.kv Þorri KOMA SVO ÁFRAM EVERTON
Finnur ég er sammála með að Pickford var mjög góður í þessum leik. Ég sagði ekki að þetta væri mistök hjá Pickford að verja ekki þetta skot. En það er alveg hægt að verja þetta skot með frábærri markvörslu. Svo er spurning er Pickford nógu góður til að Everton verður í toppbáráttu næstu ár ég efast um það en Pickford er góður markvörður en samt finnst mér nokkrir markverðir betri en hann í ensku mín skoðun. Svo vonandi kaupir eða leigir Everton sóknarmann t.d. Bosníu maðurinn hjá Roma mjög góður eða ungi strákurinn hjá Bayern kemur í ljós.
Sammála þér Finnur 100% Það eru ekki alltaf mistök þegar markmenn fá á sig mark þar sem að þeir ná að koma við boltan. Líka sammál Þorra með leikaðferðina.
Þannig voru fyrstu 18 mínúturnar í fyrri og 22 í seinni arfaslakar.
Sérstaklega í seinni þar sem að við komumst varla fram fyrir miðju og bökkuðum allt of mikið(nú eða réðum bara ekki við Leicester). Ef að það er meininginn að liggja aftur og ná skyndisóknum þá þurfa það væntanlega að vera skyndisóknir. fannst Tom Davies cera með skárra móti í þessum leik, hvorki að missa boltan mikið né að brjóta klaufalega af sér. Eitthvað sem er t.d ekki hægt að segja um Richarlison. Enn jafntefli góð niðurstaða fyrir okkur.Nú verður nóg að gera framundan og eins gott að allir haldist heilir. Áfram Everton
Mig langar að koma með smá innlegg í Pickford umræðuna.
Þetta mark var honum að kenna. Ekki vegna þess að mér finnist að hann hefði átt að verja þetta skot, hann gerði vel í að komast aðeins í boltann, heldur vegna þess að það kom eftir hornspyrnu sem hann gaf að óþörfu, þegar hann sló fyrirgjöf sem var alltaf á leiðinni framhjá, aftur fyrir.
Sú fyrirgjöf kom eftir aðra hornspyrnu þar sem Pickford náði aðeins að krafsa í boltann en ég er ekki í neinum vafa um að Olsen hefði gripið þann bolta.
Annars var Pickford búinn að vera nokkuð góður fram að þessu en það er bara alltaf hættan með hann, að hann missi einbeitinguna og geri eitthvað heimskulegt.
Annars var sorglegt að sjá hvað Everton eru slappir þegar það vantar bæði Allan og Doucoure.
MIstökin hjá Pickford eru að kosta okkur fullt af stigum.
Ekki aðeins átti hann að verja skotið auðeldlega. Hann sló upphaflega boltann í horn sem var á leiðinni útaf. Óþarfa drama eins og vanalega.
Ef við ætlum að verða topp lið verðum við að eiga topp markmann. Pickford er góður markmaður en ekki nægjanlega stöðugur.