Mynd: Everton FC.
Everton mætir til London í dag að spila við West Ham en þeir eru undir stjórn Davids nokkurs Moyes. Þeir eru sem stendur í bullandi fallbaráttu, aðeins stigi (og nokkrum mörkum) frá því að vera í þriðja neðsta sæti, sem er einmitt það sem Moyes var ráðinn til að koma í veg fyrir.
Þær fréttir bárust úr okkar herbúðum nýverið að Gylfi og Richarlison væru báðir meiddir en inn koma í staðinn Delph og Moise Kean. Áfram verður leikin 4-4-2 leikaðferðin, sem hefur reynst Ancelotti vel í deildinni hingað til.
Uppstillingin: Pickford, Digne, Holgate, Mina, Coleman, Bernard, Delph, Davies, Walcott, Moise Kean, Calvert-Lewin.
Varamenn: Stekelenburg, Baines, Schneiderlin, Sidibé, Niasse, Gibson, Gordon.
Everton mun meira með boltann fyrsta korterið, 65% á móti 35% hjá West Ham, en átti samt erfitt með að koma boltanum gegnum miðjuna. Dómarinn var auk þess svolítið flautuglaður í byrjun og því erfitt að koma nokkru flæði af stað í leiknum.
West Ham fengu ágætt færi á 19. mínútu eftir háa fyrirgjöf frá Noble en skalli frá sóknarmanni rétt framhjá marki. West Ham menn náðu svo að koma boltanum í netið á 21. mínútu en sóknarmaður þeirra augljóslega rangstæður og markið taldi ekki.
Varnarmenn og miðjumenn Everton gerðust sífellt sekir um að missa boltann á slæmum stað í eigin vallarhelmingi, sem gaf West Ham mönnum færi á skyndisókn. Upp úr einu slíku atviki fengu þeir dauðafæri þegar sóknarmaður þeirra komst inn í teig upp að marki en Pickford varði glæsilega með fætinum.
Walcott fékk fínt færi á 32. mínútu eftir flottan undirbúning hjá Delph og Digne, en hann fékk háa fyrirgjöf frá þeim síðarnefnda. Var á auðum sjá hægra megin í teig en náði ekki góðu skoti, beint á markvörð.
Athyglisvert að sjá markvörð West Ham tefja leikinn strax á 35. mínútu.
West Ham menn fengu algjörlega óþarfa aukaspyrnu á 39. mínútu þegar Delph braut á Lanzini út við hliðarlínu. Þurfti ekki að brjóta — hlaupaleið Lanzini stefndi út af. Þulurinn sagði að West Ham hefðu ekki skorað eitt einasta mark með skalla á tímabilinu og var varla búinn að sleppa orðinu þegar Diop skallaði fyrirgjöfina inn. 1-0 West Ham.
Everton svaraði strax eftir hornspyrnu frá Luca Digne. Þulurinn sagði þá, áður en Digne sendi boltann fyrir að Everton hefði aðeins náð að skora fjórum sinnum eftir horn. Þá tók hinn þulurinn andköf og sagði „Af hverju segirðu þetta!? Þú sást hvað gerðist hinum megin“! Alltaf gaman að sjá hvað sjónvarpsstöðvarnar velja hlutlausa einstaklinga til að fjalla um leiki Everton, en þessi ákveðni einstaklingur er ekki bara fyrrum leikmaður West Ham heldur líka stuðningsmaður Liverpool. Týpískt. En honum varð ekki að ósk sinni, því Digne sendi frábæran bolta inn í teig, sem Holgate skallaði áfram og Calvert-Lewin náði að skalla inn á fjærstöng.
1-1 í hálfleik.
Ancelotti gerði eina breytingu í hálfleik: Anthony Gordon inn á fyrir Bernard. Ekki vegna meiðsla, skv. þuli, heldur taktísk breyting. Anthony Gordon lét til sín taka og var líflegur í seinni hálfleik en hann fékk færi strax á upphafsmínútum seinni hálfleiks þegar markvörður varði fyrirgjöf frá hægri út í teig. Skotið frá Gordon hins vegar hátt yfir. Spurning hvort Moise Kean hafi truflað hann í skotinu, með því að gera tilkall til boltans líka en lúffaði að lokum fyrir Gordon…
Sidibé skipt inn á fyrir Walcott á 56. mínútu og hann tók sér stöðu hægra megin á kantinum fyrir framan Coleman.
West Ham menn náðu skoti á mark á 69. mínútu, sem breytti um stefnu af Digne og fór í sveig yfir Pickford í markinu. Pickford með frábæra vörslu í horn. Það var eina dauðafærið sem var þess virði að hripa niður, annars var eiginlega bara um hálffæri að ræða. Endursýning sýndi hins vegar að boltinn var líklega á leiðinni framhjá.
Davies fékk einn séns á lokamínútunum til að stela sigrinum með þrumuskoti af nokkuð löngu færi, en West Ham menn náðu að kasta sér fyrir það og verja í horn.
Niasse kom inn á fyrir Moise Kean á 74. mínútu, sem hafði ekki náð að setja mark sitt á leikinn. Niasse var sæmilega líflegur í lokin, en tókst ekki að skapa sér færi.
1-1 jafntefli því niðurstaðan.
Uppfært 19. janúar: Sé á endursýningu daginn eftir að mér láðist að skrifa um eina geggjaða vörslu frá Pickford eftir flottan skalla af stuttu færi. Sýndi ótrúlegt viðbragð og leikni að ná að verja boltann alveg út við stöng.
Einkunnir Sky Sports: Pickford (7), Coleman (7), Mina (7), Holgate (8), Digne (7), Walcott (6), Davies (5), Delph (6), Bernard (5), Calvert-Lewin (7), Kean (6). Varamenn: Sidibe (7), Niasse (5), Gordon (6). Mason Holgate var valinn maður leiksins .
Held að Ancelotti sé að sjá betur og betur hversu risavaxið verkefni hans er. West ham er ekki sérlega gott lið og spiluðu frekar illa í dag, samt voru þeir betra liðið og maður var alltaf skíthræddur um að þeir myndu setja inn sigurmarkið því þeir fengu færin til þess.
Að mínu mati var Pickford okkar besti maður í dag, hann hélt okkur inni í leiknum í fyrri hálfleik þegar varnar og miðjumenn okkar virtust staðráðnir í að klúðra þessu með lélegum sendingum eða létu leikmenn West ham ræna af sér boltanum hvað eftir annað á slæmum stöðum.
Ancelotti er risaþjálfari sem getur allt.
Emre can er það eitthvað
Ekkert gamalt liverpooldót takk!
Ancelotti á blaðamannafundinum fyrir Newcastle leikinn: „I think I said at the last press conference that all the names that were [in] the newspaper were wrong. I can say the same today. They’re wrong. All the names [in] the newspaper are wrong. Also all the names on Sky are wrong!“
Núna virðast 9 menn vera meiddir og liðið fer nánast að velja sig sjálft. Richarlison, Gylfi spila ekki næsta leik og Keane byrjar amk ekki. Iwobi er frá áfram og auðvitað Gomez og Gabbamin líka.
Það verður áhugavert að sjá hverjir spila á miðjunni en Davis og Delph fengu lélega dóma í leiknum gegn West Ham, ég sá reyndar ekki leikinn en spurning hvort við höfum aðra sem geta fyllt þessa stöðu. ToffeeTV telja að Davis og Schneiderlin byrji leikinn en sjáum hvað setur.
Ég held að þetta lið byrji
Pickford
Sidibé-Holgate-Mina-Digne
Walcott-Davis-Delph-Bernard
Kean-DCL
Ég vil samt sjá Baines og Gordon fá meira að spila.