Mynd: Everton FC.
Á morgun mætir Everton á Wembley til að eigast við Manchester United í undanúrslitum FA bikarsins kl. 16:15. Það þarf ekki að fjölyrða um að þetta er stærsti leikurinn á tímabilinu hingað til en með sigri kæmist liðið í úrslit bikarsins og myndi mæta þar Crystal Palace eða Watford. United liðar líta á leikinn við Everton sem úrslitaleikinn í FA bikarnum og að það sé bara formsatriði að klára úrslitin. Held það geti komið þeim í koll þó vissulega séu Everton og Man United með sterkari mannskap á pappírunum. Það er ekkert gefið í þessum leik og þaðan af síður í úrslitunum.
Everton hefur yfirhöndina þegar litið er til leikja þar sem þessir tveir klúbbar mætast í FA bikarnum en af samtals 11 leikjum hefur Everton unnið 6 og United 5. Everton hefur jafnframt í tvö síðustu skipti slegið United út í undanúrslitunum (og allavega tvisvar unnið þá í úrslitunum). United hefur aftur á móti ekki unnið FA bikarleik á Wembley síðan þeir unnu Newcastle 1999, las ég á Sky Sports, að mig minnir. Ótrúleg staðreynd ef rétt er.
Báðir stjórar liðanna eru undir nokkurri pressu, Martinez þó mun meiri þar sem flestir eru á því að hann komi ekki til með að vera í starfi mikið lengur ef Everton tapar í bikarleiknum á morgun. Bikarkeppnirnar hafa þó verið töluvert ævintýri á tímabilinu og það er svolítið eins og annað lið mæti til leiks í þeim en í deildinni. Vonandi að það verði raunin á morgun.
Meiðsladeildin er þó sérstakt áhyggjuefni fyrir þennan leik, sérstaklega varnarlínan en Everton hefur ekki átt einn einasta varnarmann á bekknum í síðustu tveimur leikjum og hvorki bætti rauða spjaldið hjá Mori né brotthvarf Stones um miðbik síðasta leik úr skák. Af stóru nöfnunum okkar í vörn — sem hvorki eru í banni, meiddir né tæpir — eru aðeins Baines og Oviedo heilir og þeir eru báðir vinstri bakverðir (!). Spáið í það.
Hvað skal gera varðandi miðvarðarstöðuna?
Everton spilaði lungað úr derby leikinn með miðjumenn í báðum miðvarðarstöðunum (McCarthy og Besic). Ég sé það ekki alveg virka í fyrirgjöfum frá United þegar Fellaini er inni í teig (194cm á hæð) þar sem Besic er 177cm og McCarthy 180cm. En hvað er til ráða? Jagielka og Stones, okkar fyrstu valkostir í miðvarðarstöðunum, eru báðir tæpir og Mori er náttúrulega í banni þannig að hann er ekki að fara að leysa neinn af. Við vitum að Barry getur leyst þessa stöðu en hann fór sjálfur meiddur af velli í síðasta leik. Og þá erum við farin að horfa til ungliðanna en Mason Holgate er þar valkostur sem og Matthew Pennington (sjá nánar), sem var kallaður úr láni sínu hjá Wallsall. Við verðum líklega bara að krossleggja fingur að það náist að sprauta og tjasla saman bæði Jagielka og Stones fyrir leikinn. Martinez sagði reyndar að Stones eigi séns en að Jagielka sé mjög ólíklegur.
Hvað skal gera varðandi hægri bakvarðarstöðurnar?
Hún er einnig mikill hausverkur því Coleman er frá (missti af síðasta einum og hálfum leik eða svo vegna meiðsla) og varaskeifa hans, Hibbert, er ekki í leikformi. Vissulega getur Oviedo leyst af en maður er hálf smeykur við það, miðað við frammistöðu hans í síðasta leik (sem var afleit). Lennon er annar valkostur í bakverðinum og ekki laust við að maður myndi líka vilja sjá kjúklinginn Tyius Browning þar en hann stóð sig frábærlega á Anfield um árið í sínum fyrsta leik í byrjunarliðinu. En hann er náttúrulega meiddur líka. Týpískt. Galloway væri annar valkostur úr unlingastarfinu en hann er bara skráður með 1 leik á tímabilinu með U21 árs liðinu svo hann er líklega meiddur líka (allavega pottþétt ekki í leikformi).
Þetta verður eitthvað. Sem betur fer er mikið betra ástandið á miðjumönnum og framlínu Everton heldur en varnarmönnunum en þó er Barry líklega frá vegna meiðsla í nára. Besic ætti að geta leyst hann af með sóma og líklegt að við sjáum svipaða framlínu og í síðasta leik: Robles, Baines, Stones, Pennington, Lennon, Besic, McCarthy, Mirallas, Barkley, Deulofeu, Lukaku. Spurning líka hvort Cleverley fái séns á móti sínum gömlu félögum. Hjá United eru aðeins Bastian Schweinsteiger, Luke Shaw og Adnan Januzaj frá.
Það getur allt gerst í þessum leik, bæði hvað varðar dómgæslu, meiðsli og spjöld og þetta getur farið á hvorn veginn sem er. Ég ætla að spá tæpum 1-0 sigri öðru hvoru megin en eitthvað segir mér að Everton liðið myndi ekki slá hendinni á móti vítaspyrnukeppni til að skera úr um sigurvegara. Vonandi að Lukaku poti inn einu og vörnin haldi loksins (líkt og í Chelsea leiknum) svo ekki komi til þess.
Koma svo. Áfram Everton!
Það er hvergi betra að svara fyrir vonda frammistöðu heldur en inná vellinum sjáflum og láta verkin tala. Leikmenn og þjálfarateymi liðsins okkar verður að nálgast þennan leik á þeirri forsendu að þeir skuldi betri frammistöðu heldur en á undanförnum vikum og komi stuðningsmönnum sínum og sér sjálfum í úrslitaleikinn í FA það gæti bjargað tímabilinu að lyfta bikar í vor. Ég ætla að vera bjartsýni gaurinn og spá okkur góðum sigri 3-0 og allir grjótharðir.
Rosalega ánægður með Halla. Styð hans bjartsýni alla leið. Koma svo Everton ☺
Hibbert í vörnina og Pennington. Hibbert skorar, the rest is history.
Sorry fyrir að vera svartsýni gaurinn, það er ekki af því að mér þyki það gaman, en ég er hræddur um að við eigum ekki séns í dag.
Ég ætla samt að horfa á leikinn með bróðir mínum sem er manure maður og vona það besta.
Fer bara að ryksuga ef allt er á leið til fjandans.
Án efa mikilvægasti leikurinn á leiktíðinni. Það er ekki laust við að maður sé orðinn spenntur. Ef leikmenn gefa allt í þetta þá er þetta vel hægt.
Frábær saga hér á ferð. Við erum ekki kallaðir people’s club fyrir ekki neitt http://433.moi.is/enski-boltinn/hjartnaem-saga-everton-og-virgin-trains-bjorgudu-deginum-hja-5-ara-gomlum-studningsmanni-lidsins/
Ég trúi á sigur í dag!
Vonandi er þessi saga fyrirboði um það sem koma skal.
Uppstillingin komin:
http://everton.is/2016/04/23/everton-man-united-2/