Mynd: Everton FC.
Áður en lengra er haldið er rétt að minna fólk á Íslendingaferðina á Goodison Park sem og á árgjöldin til félagsins. Endilega sýnið stuðning í verki því án ykkar stuðnings væri ekkert félag!
Vindum okkur þá í seinni hluta viðtalsins (fyrri hlutinn hér) en í þetta skiptið er fókusinn meira á andstæðingana.
Gengi Liverpool hingað til, ástæður þess og veikleikar liðsins?
Elvar: Gengi Liverpool það sem af er ári hefur ekki verið neitt sérstakt en þeir eru samt á ekki svo slæmum stað í deildinni og eru bara með einu stigi minna en Everton. Hins vegar hafa sigurleikir þeirra verið annaðhvort tæpir eða jafnvel náð sigri sem skrifast á mistök dómara. Liverpool á í nokkru basli og vilja margir kenna fjarveru Henderson um það en ég vil meina að brotthvarf Suarez sé enn að hafa áhrif og klárlega einnig brotthvarf Sterling og auðvitað meistara Gerrard — að ekki sé minnst á meiðsli Sturridge, sem hafa haft sín áhrif.
Veikleikar Liverpool er vörnin að mínu mati og mér finnst þeir mjög háðir Sturridge í framlínunni. Án Sturridge eru þeir bara ekki að skora nóg og þeir eru bara með 7 mörk skoruð í fyrstu 7 leikjum og þar af 3 mörk í síðasta leik en þá var Sturridge með. Liverpool er jú með -2 í markatölu eins og staðan er í dag.
Georg: Gengi Liverpool hingað til hefur verið mjög sveiflukennt. Það virðist vanta stöðugleika í liðið og hafa þeir verið í basli bæði með vörn og sókn. Fyrir síðasta leik (gegn Aston Villa) var Liverpool einungis búið að skora 4 mörk í fyrstu 6 umferðunum og segir það ýmislegt um vandræði þeirra í sóknarleiknum. Þó má vænta þess að endurkoma Sturridge í liðið eigi eftir að hjálpa þeim mikið fram á við en þó er aldrei hægt að treyst á að hann haldist heill. Ég tel þá eiga í mestu vandræðum með varnarleikinn, Rodgers hefur hróflað mjög mikið við varnarlínuna og virðist ekki vita hver hans sterkasta vörn sé.
Finnur: Utan vallar sýnist mér sem helsti veikleiki Liverpool sé nefndin sem sér um leikmannakaup, því þrátt fyrir töluverð fjárútlát hefur árangurinn látið á sér standa og nokkuð mikið um miðlungsleikmenn sem keyptir voru á allt of háu verði (Dejan Lovren gott dæmi). Innan vallar hefur verið töluverður hringlandaháttur með leikmenn og stöður þeirra og mann grunar að Rodgers viti ekki hvert hans besta lið er. Það vantar auk þess leiðtogana í liðið við brottför Gerrard (og meiðsli Henderson) og undanfarin ár hefur verið í gangi ákveðin þróun sem hefur leitt til þess að þeir eru ekki með neina lykil-leikmenn sem hafa leikið með Liverpool síðan þeir voru táningar og vita allt um hvað derby leikurinn snýst og hvað það merkir fyrir stuðningsmenn að tapa þessum leik. Menn eins og Gerrard, Carragher og fleiri. Þá skortir auk þess víddina í sinn sóknarleik — þeirra helsta von, Sterling, var seldur og Jordan Ibe því eini alvöru kantmaðurinn sem ég man eftir í liðinu og miðað við það sem ég hef heyrt hefur hann ekki verið að heilla menn á tímabilinu og liðið reynt of mikið að fara upp gegnum miðjuna. Okkar veikleikar gætu reynst bakvarðarstöðurnar þar sem við gætum verið að spila með óvana menn þannig að það myndi henta okkur betur varnarlega séð að þeir reyni eitthvað miðjumoð. Þeim hefur gengið erfiðlega að skapa færi í sókninni (og þar hjálpa ekki nýleg meiðsli Benteke og Firmino) en ekki hefur heldur þurft mikla pressu til að fari að hrikta verulega í stoðum varnarinnar og Mignolet hefur hvað skal segja… ekki beint verið að skapa mikla öryggistilfinningu meðal varnarmanna sinna í teignum. Það getur þó allt gerst í þessum leik en kemur til með að hjálpa okkar mönnum að áhorfendur eru alveg ofan í vellinum á Goodison Park og eiga eftir að skapa töluverðan hávaða sem setur aukna pressu á varnarleikinn hjá Liverpool og gefur okkar mönnum byr undir báða vængi.
Halli: Ástæða gengi liðsins er að mínu mati Brendan Rodgers og trúleysi hans á verkefni sínu. Frá því að hann var hársbreidd frá því að vinna titilinn fyrir 18 mánuðum síðan (sem betur fer unnu þeir ekki) þá hefur hann verið að rótera með leikkerfi fram og til baka og leikmenn hafa ekki hugmynd um hvort þeir séu lykilmenn í liðinu eða hvort þeir eru róterandi leikmenn. Menn sem keyptir hafa verið fyrir háar fjárhæðir hafa ekki staðið undir væntingum og tel ég hluta vandans vera ábyrgðarleysi Rodgers að hann standi ekki með þeim mönnum sem hann vill að spili og láti undan pressu og spili öðrum í þeirra stað. Niðurstaðan er að Brendan er ekki maðurinn en megi hann vera þarna sem lengst.
Það er einnig stór veikleiki Liverpool í þessu 3-4-1-2 leikkerfi því þeir eru að fá alltof mikið af mörkum á sig og það að þurfa alltaf að skora 2-3 mörk í leik til að vinna er of mikið.
Leikmenn sem þarf helst að varast?
Elvar: Þurfum klárlega að hafa gætur á Sturridge sem ég hef mikið álit á og einnig Coutinho og þurfum að koma í veg fyrir skot hans fyrir utan teig, sem geta verið mjög hættuleg. Þurfum að geta brugðist við tækni og snerpu Sterling þar sem hann er bjartasta von Liverpooooo, nei sorry, þeir seldu hann, bara gleymdi mér aðeins, sorry. Benteke er klárlega hættulegur (þó hættuminni en Lukaku) en held hann sé tæpur fyrir þennan leik.
Georg: Ég tel Coutinho og Sturridge þá leikmenn sem helst ber að varast, þeir náðu vel saman gegn Aston Villa og skoraði Sturridge 2 mörk og Coutinho lagði upp 2 mörk í þeim leik. Ef við náum að halda þeim sem mest úr spilinu þá geta Liverpool átt í miklum vandræðum fram á við.
Finnur: Ef við náum að stoppa Coutinho held ég að við förum langt með að stoppa Sturridge líka (Sturridge þarf náttúrulega að halda sér heilum fram að leik). Ég held að vinnuhestar á borð við McCarthy, Naismith og Barry (langhlauparinn í liðinu) eiga eftir að spila stórt hlutverk þar. Það er erfitt að halda Kone á bekknum eftir síðasta leik en Naismith á það til að skora alltaf í stóru leikjunum (stundum þrennu) þannig að hann gæti átt eftir að spila stóra rullu, hvort sem það er í byrjunarliði eða af bekknum (eins og í Chelsea leiknum). Martinez á við skemmtilegt vandamál að stríða að velja á milli þeirra.
Spá um úrslit/markaskorara?
Elvar: Spái því að leikurinn fari 3-1 þar sem Lukaku, Barkley og Deulofeu skora fyrir Everton og Sturridge skorar fyrir Liverpool.
Georg: Ég spái þessum leik 3-1 fyrir Everton, Lukaku mun skora 2 mörk og Deulofeu 1 mark. Sturridge skorar fyrir Liverpool.
Finnur: Þetta getur farið hvernig sem er, en ef ekkert umdeilt atvik á sér stað (Úff, [Rowan] Atkinson að dæma) held ég að þetta verði tæpt — kæmi mér ekkert á óvart þó Everton myndi lenda undir enn á ný en næði að komast yfir af harðfylgi og sigra. Það hefur svolítið verið línan á tímabilinu. Giska á 1-1 eða 2-1 fyrir Everton, Lukaku og Naismith. Liverpool hafa fengið á sig níu mörk í síðustu fjórum deildarleikjum, þannig að það kæmi líklega á óvart ef Everton setti ekki allavega eitt mark á þá.
Halli: Ég ætla að spá 2-0 fyrir Everton og skorar Lukaku annað úr víti og Coleman hitt.
Georg á svo lokaorðin…
Ég hef mikla trú á liðinu á þessari leiktíð. Breiddin í liðinu hefur aukist frá því á síðasta tímabili þrátt fyrir að vera ekki í Evrópudeildinni líkt og í fyrra. Við erum með mjög ungt og ferskt lið með mikla reynslubolta inn á milli. Gaman finnst mér að sjá hvað ungir leikmenn hafa verið að standa sig vel og hefur Galloway vaxið gríðarlega mikið á þessari leiktíð. Ég spái því að við verðum að berjast um 4.-6. sæti á þessari leiktíð. Ef við höldum lykilmönnum heilum þá ættum við að eiga möguleika á Meistaradeildarsæti, þó kannski sé of snemmt að ræða þá hluti á þessum tímapunkti.
Annars segi ég bara: Áfram Everton! 3 stig í hús á sunnudag!
Everton.is þakkar spekingunum ummælin og spyrjum hvort það er eitthvað sem lesendur vilja bæta við, t.d. spá fyrir um úrslit og/eða markaskorara eða benda á eitthvað sem ekki hefur komið fram ennþá? Minnum líka enn og aftur á félagsgjöldin og Íslendingaferðina!
Svo kannski ekki úr vegi líka að spyrja hvað fólki finnst um þessa upphitun. Er þetta að virka? Er þetta eitthvað sem við ættum að gera oftar?
þetta er klárlega að virka mæli með að þið snillingar ættuð að halda svona áfram bara þegar að kemur að alvöru leikjunum sem skipta máli mitt áliið og já 3 stig á sunnud, áfram bláir
Eitt sem gleymist alveg að taka inn í myndina hjá ykkur er það að síðan 2000 hefur Everton bara náð að sigra Liverpool 4 sinnum. Það er alveg fáránlega léleg tölfræði
Alveg sama hve lélegir Liverpool menn hafa verið þá bara nær Everton aldrei að gera neitt á móti þeim.
En aldrei að vita hvað gerist í næsta leik. Mínir menn eru algjörlega með allt lóðrétt þessa dagana og alveg klárt að Rodgers er að þjálfa sína síðustu leiki. Spurning hvort að slæmt tap um helgina klári ekki bara málið.
Sæll Steini og mikið er gaman að sjá þig aftur hér hjá okkur. Ég get alveg tekið undir það að árangur Everton á móti rauðum hefur ekki verið nægilega góður á undanförnum árum og er þar ein helsta ástæðan að Steven Gerrard hefur alltaf átt sína bestu leiki á hverri leiktíð á móti Everton og yfirleitt verið örlagavaldur í þessum viðureignum. Hans verður EKKI saknað á Goodison Park get ég sagt þér. Við mætum kokhraustir til leiks á sunnudaginn og ætlum okkur sigur eins og reyndar í öllum leikjum sem við tökum þátt í.
Steini, það er okkur afskaplega mikið gleðiefni að sjá þig viðhelda brennandi áhuga þínum á tölfræði Everton. Það er þó öllum hollt að líta á báðar hliðar peningsins og því ekki úr vegi að minnast á að Liverpool er búið að eyða um þrjú _hundruð_ milljónum punda í leikmenn á undanförnum örfáu misserum — sem hefur eingöngu skilað einum sigri gegn Everton í síðustu 6 tilraunum. En burtséð frá því… maður hefði búist við því að lið í svona mikilli eyðslu/neyslu myndi vera að keppa um enska meistaratitilinn, svo ég vísi nú í orð mikils meistara.
Ég var búinn að gleyma að Gerrard væri hættur……hver á þá að vera dómari 😉
Góður!!
Það þarf að vera hægt að setja like á sum komment ?
Mjög gaman að lesa veglega upphitun, meira svona.