Everton vs. Man City

Mynd: Everton FC.

Stórleikur þriðju umferðar verður leikinn á sunnudaginn á Goodison Park þegar Everton og Manchester City eigast við kl. 15:00. City menn eru með fullt hús stiga á toppnum eftir tvo leiki en Everton taplausir í fimmta sæti með fjögur stig eftir að hafa auðveldlega ýtt til hliðar Southampton á útivelli í síðasta leik. Að mati Sky eru þetta þau tvö lið sem stóðu sig best um síðustu helgi og fréttamiðlar búast allir við sigri City en það er aldrei hægt að afskrifa Everton, eins og við þekkjum. Það er þó ekki laust við að mann klæji í fingurna að lesa umfjöllunina ef Everton myndi skella City um helgina. Þess má geta að á síðustu fimm árum hefur Everton unnið þá þrisvar á Goodison Park, gert eitt jafntefli og tapað einum.

Þetta verður þó gríðarlega erfiður leikur, enda City menn í fantaformi og greinilega vel skipulagðir og hungraðir eins og sjá mátti í leik þeirra gegn ríkjandi meisturum, Chelsea, í síðasta leik.

Enn vantar örfáa leikmenn í hópinn en virtir fréttamiðlar (BBC) eru farnir að bendla Everton við framherjann Andriy Yarmolenko (15M) hjá Dynamo Kiev (sem við ættum að þekkja vel) og argentíska miðvörðinn Ramiro Funes Mori (5M) þannig að það er aldrei að vita hvort annar eða báðir verða kynntir til leiks á sunnudaginn í hálfleik.

Slúðrið segir einnig að Chelsea hafi boðið í þriðja skipti í John Stones (30M í þetta skiptið) og að Everton hafi snögglega neitað, sem fyrr. Ýmsir misgáfaðir hafa tjáð sig um þessi mögulegu skipti, til dæmis Andy Gray, sem komst aldeilis í sviðsljósið fyrir síðustu ummæli sín, en hann lét hafa það eftir sér að Everton hefði einfaldlega ekki efni á að selja. Hann hefur greinilega ekki fylgst með þróuninni á sjónvarpsrétti hjá Úrvalsdeildinni undanfarin ár. Við flokkum þetta líklega bara undir #hlutirsemandygraysegir. Neville Southall var hins vegar ekki sammála Andy.

Í öðrum fréttum er það helst að Gibson virðist höndla illa fjarveruna vegna langvarandi meiðsla, og Howard hefur ákeðið að gefa kost á sér aftur í bandaríska landsliðið.

Af ungliðunum er það að frétta að bæði U18 ára liðið og U21 árs liðið lentu undir í sínum leikjum en áttu flott svör við því. Þeir síðarnefndu tóku á móti Liverpool U21, þar sem nýliðinn Mason Holgate lék sinn fyrsta leik í vörninni. Hann var svo óheppinn að fá á sig dæmda frekar vafasama vítaspyrnu sem Liverpool skoruðu úr og þeir náðu svo þriggja marka forystu. En áður en flautað hafði verið til loka hálfleiks var Everton liðið búið að minnka muninn í 3-1. Everton liðið stillti upp öflugu sóknarliði í seinni hálfleik og náðu að jafna af harðfylgi og voru alls ekki langt frá því að sigra. Lokatölur 3-3 en hægt er að sjá mörkin hér. Mörk Everton skoruðu þeir Joe Williams, Conor McAleny og Tom Davies en Conor McAleny, sem hefur verið við jaðar aðalliðsins, skoraði ekki bara heldur lagði einnig upp mark í leiknum.

Everton U18 mættu líka United U18 á útivelli og lentu undir með marki úr aukaspyrnu en þeir svöruðu einnig með þremur mörkum og fóru með sigur af hólmi (3-1). Hægt er að sjá mörkin hér en þau skoruðu Broadhead, Bramall og Donohue.

12 Athugasemdir

  1. Georg skrifar:

    Ég spái okkar mönnum 2-1 sigri gegn City, Lukaku og Mirallas með mörkin.

    Yarmolenko virðist vera að nálgast okkur þar sem að Sky eru yfirleitt mjög áræðanlegir. Það væri frábært að fá þennan leikmann. http://www.skysports.com/football/news/11671/9958774/everton-agree-yarmolenko-deal

    Þetta sagði Martinez varðandi leikmannamál. “There are a couple of signings that are well in advanced stages. We are looking for those two or three players.“

    Ekki ósennilegt að Yarmolenko og Ramiro Funes Mori séu á meðal þeirra sem eru á þessu „advanced stages“.

  2. Ari S skrifar:

    1-0 Með marki frá Barkley.

  3. Elvar Örn skrifar:

    Ég er viss um að amk verði Ramiro Funes Mori kynntur sem nýr leikmaður Everton fyrir leikinn á morgun og jafnvel í dag. Mori er varnarmaður sem er klárlega staða sem við þurfum að eiga fleiri leikmenn.
    Yarmolenko virðist einnig mjög líklegur og ég er aðeins að hugsa hvaða stöðu Martinez ætlar honum. Hann er mjög sterkur á hægri væng en þar höfum við Mirallas og Deulofeu og jafnvel McGeady á góðum degi. Yarmolenko er einnig góður fyrir aftan striker og er það mjög líklegt að honum sé ætluð sú staða. Yarmolenko er víst einnig flinkur á vinstri kanti svo hugsanlega leikmaður sem hentar Everton vel.
    Hrikalega flottur leikmaður amk í þeim fáu tilvikum sem maður hefur séð hann spila.
    Það væri nú ekkert leiðinlegt að vinna City á morgun, ég tel að það gæti breytt ýmsu fyrir okkar ágæta klúbb.

  4. þorri skrifar:

    Verða menn ekki klárir á morgun.Það er fínt að fá þá báða. Erum við þá ekki rosalega vel mannaðir.Mig hlakkar svo til að sjá leikinn á morgun að ég get ekki beðið.Ég kem á ölver á morgun og verð með ykkur að fagna góðum sigri á Man citi. Allirt á ölver á mörgun.ÁFRAM EVERTON koma svo og mæta og fá góða stemmingu hjá okkur.

  5. Ari S skrifar:

    Það besta er að Yarmolenko er sennilega sterkari leikmaður en þeir þrír sem þú nefnir Elvar. Ég vona svo innilega að hann komi til okkar og nái að blómstra.

    Mirallas hefur verið góður annann hvern leik þar sem hann hefur vantað stöðugleika og þá verður fínt að hvíla hann í slöku leikjunum og láta Yarmolenko spila… 😉

    Það væri ekki slæmt að hafa Yarmolenko, Mirallas, Deulofeu, McGeady og jafnvel Lennon líka á köntunum tveimur,

    Sjáum til og vonum það besta.

  6. Ari G skrifar:

    Mér finnst McGready ekki heima í þessum hóp. Hann er mun slakari leikmaður en hinir. Vonandi kaupir hann þessa 2 leikmenn þá eru Everton mjög vel settir ef þeir selja engan leikmann. Kannski þarf Everton ekki kaupa þá sóknarmann ef Kone heldur áfram að spila svona vel og svo getur Mirallas líka spilað sem framherji fyrir aftan Lukaku samt finnst mér hann betri á hægri vængnum.

  7. Ari S skrifar:

    McGeady er leikmaður Everton. Þú getur ekki neitað því nafni.

  8. Elvar Örn skrifar:

    Með sigri á morgun þá fer Everton í efsta sætið, just saying.

    Ágætt að nefna það líka hér að í seinustu 18 leikjum Everton gegn Man City á Goodison hafa Everton unnið 10, fimm þeirra jafntefli og aðeins þrjú töp svo það er aldrei að vita nema Everton landi sigri.

  9. Ingvar Bæringsson skrifar:

    1-1 Frekar bjartsýnn. Ég hefði spáð okkur sigri ef ekki væri fyrir þá staðreynd að þá kæmumst við í toppsætið og það er ekki að fara að gerast.

  10. þorri skrifar:

    sælir félagar er leikurinn kl 3
    i dag

  11. Finnur skrifar:

    Já, klukkutími í leik og uppstillingin komin:
    http://everton.is/?p=9723

  12. Teddi skrifar:

    Við erum að horfa á 1-2 tap ef eitthvað er að marka tilfinninguna fyrir þessu. Hef vonandi rangt fyrir mér.