Notice: Function _load_textdomain_just_in_time was called incorrectly. Translation loading for the html5reset domain was triggered too early. This is usually an indicator for some code in the plugin or theme running too early. Translations should be loaded at the init action or later. Vinsamlegast skoðaðu Aflúsun í WordPress fyrir frekari upplýsingar. (Þessum skilaboðum var bætt við í útgáfu 6.7.0.) in /var/www/virtual/everton.is/htdocs/wp-includes/functions.php on line 6114
Everton – Man United 3-0 - Everton.is

Everton – Man United 3-0

Mynd: Everton FC.

Þrátt fyrir blíðskaparveður í nágrenni Goodison Park sáu leikmenn Manchester United aldrei til sólar í þessum leik, enda Everton grimmari, ákveðnari og mun beittari í sínum sóknaraðgerðum og sigurinn aldrei í hættu. Everton liðið jafnframt líklegra til að bæta við en fá á sig mark.

Martinez stillti þessu svona upp: Howard, Baines, Stones, Jagielka, Coleman, Barry, McCarthy, Osman, Barkley, Lennon, Lukaku. Varamenn: Robles, Garbutt, Alcaraz, Besic, Mirallas, Naismith, Kone.

Fyrir leik var stutt minningarathöfn og einnar mínútu þögn um Sir Phillip Carter sem titlaður var „Club President for Life“ hjá Everton og lést á dögunum en svo flautaði dómarinn til merkis um að leikur væri hafinn.

Taktík Everton var augljós frá upphafi, liggja djúpt og leyfa United að dóla með boltann en sækja hratt um leið og færi gæfist. Og það skilaði árangri strax á 4. mínútu þegar United fengu horn en okkar menn unnu boltann og keyrðu hratt upp völlinn. Þetta féll allt með okkur í þeirri sókn. Lukaku vann skallaeinvígi, framlengdi á Coleman sem reyndi fyrirgjöf frá hægri en boltinn fór í hælinn á McNair og út við miðjan teig og barst þar til McCarthy sem kom á hlaupinu og sólaði tvo United menn (McNair og Blind). Komst einn upp að endamörkum og setti hann gegnum klofið á Gea sem kom á hlaupinu á móti honum. 1-0 Everton!

Fellaini var næstum búinn að jafna strax þegar hann braut á Barry, sem var aftastur, stal af honum boltanum og komst einn upp að marki… en skotið afleitt – yfir markið og uppskar hlátur frá Gwlady’s stúkunni fyrir vikið. Besta færi United í hálfleiknum og eiginlega eina almennilega færi þeirra fyrir hlé.

Blind átti skot af löngu á 10. mínútu en lítill kraftur og beint á Howard. Níu mínútum síðar áttu þeir svo skalla á markið eftir aukaspyrnu en aftur beint á Howard.

Lukaku svaraði með skoti af löngu færi á 27. mínútu — beint á De Gea en svo bætti Everton við öðru marki á 34. mínútu. Everton liðið fékk þá þrjár hornspyrnur í röð og úr þeirri þriðju stakk Stones varnarmann af, hljóp á nærsvæðið og skallaði í fjærhornið. 2-0 Everton!

Barkley fékk ákjósanlegt skotfæri af löngu eftir sendingu frá Lennon en skaut yfir. 2-0 í hálfleik. Everton með boltann tæp 40% en með fjögur skot sem rötuðu á rammann á móti tveimur frá Man United.

Falcao inn fyrir Fellaini í hálfleik, engin breyting hjá Everton.

United menn voru ekki langt frá því að minnka muninn strax í upphafi seinni hálfleiks þegar boltinn barst til Rooney sem var á auðum sjó, einn á móti markverði en Howard gerði gríðarlega vel að gera sig breiðan og loka á hann. Besta færi United í öllum leiknum og nánast eina almennilega færi þeirra í seinni hálfleik.

Lukaku átti stuttu síðar frábæra fyrirgjöf frá vinstri eftir að hafa stungið Valencia af og komist upp að endalínu en enginn samherji mættur til að pota inn á fjærstöng.

Mirallas kom inn á fyrir Osman á 68. mínútu og hann átti aldeilis eftir að setja mark sitt á leikinn.

Falcao átti reyndar fyrst skalla aftur fyrir sig (á mark) eftir langa fyrirgjöf fram. Hann gerði þar ráð fyrir að Howard myndi hlaupa á móti og ætlaði að setja boltann yfir hann. Howard hins vegar vel staðsettur, bakkaði aðeins og greip bara boltann.

En þá var komið að Mirallas — á 74. mínútu. Barkley reyndi langa sendingu fram á Lukaku en sá síðarnefndi augljóslega rangstæður. Lukaku hafði þó vit á að stoppa og láta boltann vera til að hafa ekki áhrif á leikinn en einhverra hluta vegna stoppuðu allir, héldu greinilega að dómarinn væri að fara að dæma óþarfa rangstæðu. Allir nema Mirallas, þeas, sem fékk þar með frítt færi, sótti boltann, hljóp upp að marki og lagði hann auðveldlega framhjá De Gea. 3-0 fyrir Everton.

Falcao náði loks að koma tuðrunni í netið fyrir United á 81. mínútu en augljóslega rangstæður í undirbúninginum þegar boltinn barst og dómarinn því ekki í vafa. Ekkert mark.

Mirallas var svo ekki langt frá því að bæti við öðru marki með glæsilegu skoti utan af velli sem De Gea sló yfir markið á lokamínútunum.

Kone og Naismith komu inn á fyrir Lukaku og Barkley á 86. mínútu en Everton landaði þessum sigri nokkuð auðveldlega. 16 stig af síðustu 18 mögulegum í höfn. Martinez hlýtur að vera í harðri samkeppni um titilinn stjóra mánaðar eftir þessa leikjahrinu.

Einkunnir Sky Sports: Howard 7, Baines 8, Stones 8, Jagielka 7, Coleman 8, McCarthy 9, Barry 7, Barkley 8, Lennon 7, Osman 7, Lukaku 7. Varamenn: Kone 7, Mirallas 8, Naismith 7. United fengu 6 niður alla línuna, fyrir utan Blind og Valencia sem fengu 5 og Luke Shaw sem fékk 7.

 

13 Athugasemdir

  1. Teddi skrifar:

    GAMAN Í DAG!
    Ég sem ætlaði að leggja mig yfir fyrri hálfleik. 😀

  2. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Svo virðist sem ég hafi haft DÁSAMLEGA rangt fyrir mér. Það er ekki leiðinlegt, verst að vera fastur í vinnunni og missa af öllu fjörinu.

  3. Ari G skrifar:

    Frábær leikur hjá Everton. Vörnin frábær ein mistök hjá Barry annars fullkomin. Meðalmennskan allsráðandi vel MaCarthy og Stones bestu menn Everton fyrir mörkin.

  4. Finnur skrifar:

    Frábær afmælisgjöf fyrir Þórarinn Jóhannsson, yfir-hönnuð Everton síðunnar.

    Til hamingju með daginn! 🙂

  5. Finnur skrifar:

    Klárlega fyrirsögn dagsins hjá Mogganum:

    Everton niðurlægði United
    http://www.mbl.is/sport/enski/2015/04/26/everton_nidurlaegdi_united/

  6. Finnur skrifar:

    Stones og McCarthy í liði vikunnar að mati BBC: http://m.bbc.com/sport/football/32475940

  7. Halli skrifar:

    Flottur leikur hjá okkar mönnum í dag. Mér fannst varnarlínan hjá okkur vinna saman þannig að sóknarmenn Man U komust aldrei í takt við leikinn og svo biðu Barkley, Osman, Lennon og Lukaku eftir boltanum algjörlega klárir í áhlaup á þá og gafst þetta líka svona vel. Ég vil bara sigra í 4 síðustu leikjunum og ná í 8. sætið. Takk fyrir mig og góðar stundir.

  8. Ari S skrifar:

    Í umsögninni um fyrsta markið þá var það McCarthy sem að byrjaði sóknina eftir hreinsun minnir mig… hann gaf boltann framávið og endaði svo með hann þegar hann var nærri dottinn en skoraði samt.

    Mark ársins hjá Everton í minni bók.

  9. Finnur skrifar:

    Það er margt skondið búið að birtast í kjölfar þessa ágæta sigurs í dag, en í uppáhaldi hjá mér eru samskipti Ara S við einn United manninn…

    Ari var nefnilega í vinnunni og missti af leiknum en birti eftir leik stöðufærsluna: „Mikið geta sumar endursýningar verið góðar“

    United maðurinn ætlaði aldeilis að skjóta Ara í kaf með kommentinu: „Var búið að finna upp TV 1984?“

    Ari hefði getað svarað með nýlegum sigri Everton á United á Old Trafford, 6 stigin sem við tókum af þeim í fyrra, að United hafi tapað síðustu þremur á Goodision og ekki unnið í 7 tilraunum þar. En nei – Ari gróf bara upp vídeóið þar sem Everton tók tvennuna yfir United árið 1984, fyrst 5-0 og síðan 1-2. 😀
    https://m.youtube.com/watch?v=08ojFNTG1oE

  10. Teddi skrifar:

    Vel gert Ari S.

    Fyrst upp í hugann sem mark tímabilsins er jöfnunarmark Jagielka á Anfield.

  11. Finnur skrifar:

    Það er sko ekkert leiðinlegt að lesa greiningu Executioner’s Bong á svona sigurleik. 🙂
    https://theexecutionersbong.wordpress.com/2015/04/27/tactical-deconstruction-everton-3-0-man-utd/

  12. Einar G skrifar:

    Þetta var geggjað 🙂 Svo er eitt ungstirnið hér að gera góða hluti með Tranmere http://www.101greatgoals.com/goals/england/evertons-george-green-scored-screamer-debut-goal-tranmere-official-video/

  13. Ari S skrifar:

    Ánægður með þig Finnur minn 🙂