Dynamo Kiev – Everton 5-2

Mynd: Everton FC.

Everton er úr leik í Europa League eftir 5-2 tap á útivelli gegn spræku liði Dynamo Kiev í 16 liða úrslitum. Tvö mörk skildu liðin að samanlagt  — og sveið sérstaklega sárt að sjá tréverkið neita Barkley um tvö mörk, að ekki sé minnst á mögulegt víti sem Osman átti að fá. En, Dynamo Kiev spiluðu mjög vel í leiknum og eru verðugir sigurvegarar. Grunar að þeir eigi eftir að ná langt.

Uppstillingin: Howard; Baines, Jagielka, Alcaraz, Coleman; Barry, McCarthy, Naismith, Atsu, Barkley; Lukaku. Bekkurinn: Robles, Garbutt, Stones, Gibson, Besic, Osman, Kone.

Um þúsund stuðningsmenn Everton á pöllunum í þessum leik, þrátt fyrir ótryggt ástand í landinu. Gaman að sjá að það er alltaf flottur hópur fólks sem fylgir liðinu, sama hvort leikið er í Rússlandi, Frakklandi, Þýskalandi, Sviss — og nú Úkraínu.

En þá að leiknum. Bæði lið voru lífleg frá fyrstu mínútu en Everton þó með yfirhöndina. Barkley átti fyrsta skotið á mark á 5. mínútu, nokkuð utan teigs en markvörður varði — þó hann næði fyrst ekki að halda boltanum. Barkley endurtók leikinn nokkrum mínútum síðar en skotið blokkerað og sama má segja um Naismith sem átti einnig blokkerað skot — nema hvað innan teigs. Úkraínumennirnir helst í háum fyrirgjöfum fyrir mark utan af kanti til að byrja með.

Dynamo Kiev fengu þó óskabyrjun þegar þeir skoruðu á 20. mínútu með þrumufleyg utan teigs frá Andrei Jarmolenko sem fékk boltann á miðju og náði að komast langleiðina að teignum og tók smá gabbhreyfingu á Barry og hlóð í skotið… beint. upp. í. samskeytin. Hefði ekki getað hitt boltann betur. 1-0 Dynamo Kiev og þar með varð Everton að skora til að forðast það að vera slegið út úr keppni því staðan orðin 2-2 samanlagt en Dynamo Kiev með mark á útivelli sem myndi fleyta þeim áfram.

Everton svaraði að bragði með skyndisókn. Naismith setti Barkley inn fyrir vörnina með glæsilegri stungusendingu og Barkley náði glæsilegu skoti frá vinstri. Hann hafði betur gegn markverði en boltinn fór hins vegar í stöngina og út. Jarmolenko var næstum búinn að bæta við fyrir Dynamo með skoti innan teigs sem Howard varði glæsilega í horn. End to end stuff.

Og næst var komið að Everton og Lukaku var þar að verki. Boltinn fór i hendi á leikmanni Dynamo innan teigs, hefði átt að vera víti en það kom ekki að sök því boltinn barst til Lukaku sem setti ennþá flottara mark í andlitið á Dynamo en Jarmolenko skoraði nokkrum mínútum áður. Everton búnir að snúa taflinu við. Staðan 1-1 eða 2-3 samanlagt Everton í vil og Dynamo Kiev fóru frá því að vera á leið áfram yfir í það að þurfa tvö mörk.

Naismith var ekki langt frá því að bæta við marki með skoti innan teigs en skotið í varnarmann og í horn.

Dynamo Kiev voru þó ekki hættir því þeir skoruðu úr skyndisókn. Löng sending inn í teig sem hrökk af sóknarmanni Dynamo yfir á hinn sóknarmann þeirra (Teodorczyk) sem skoraði. Staðan 2-1 fyrir Dymamo Kiev og þar með allt í járnum því staðan jöfn samanlagt 3-3 og hvorugt liðið með yfirhöndina.

En Dynamo náðu forystunni á 36. mínútu með marki frá Veloso. Alcaraz tapaði skallaeinvígi, en Jageilka vann sitt skallaeinvígi. Boltinn barst þó til Veloso sem þrumaði í netið. Staðan orðin 3-1 fyrir Dynamo en á móti kom að aðeins eitt mark frá Everton myndi nægja (sigra á útivallarmörkum).

3-1 í hálfleik og engin breyting á liðunum.

Everton voru líklegri fyrstu tíu mínútur seinni hálfleiks — eða alveg þangað til við fengum blauta tusku í andlitið — mark frá Dynamo á 56. mínútu, eiginleg svolítið gegn gangi leiksins í seinni hálfleik. Stungusending kom inn fyrir vörnina hægra megin og fyrirgjöf. Fyrra skotið blokkerað en boltinn barst til Gusev sem skaut í stöngina og inn. Howard búinn að kasta sér í fyrra skotinu og náði ekki jafnvægi fyrir seinna skotið. Staðan orðin 4-1 fyrir Dynamo Kiev og útlitið orðið ansi svart. Everton þurfti tvö mörk til að komast áfram.

Everton átti tvö flott svör sem voru ekki langt frá því að skila marki. Atsu átti frábært skot frá hægri innan teigs en markvörður Dynamo varði meistaralega með útréttri hendi. Barkley átti svo algjörlega frábært skot frá vinstri með góðri sveigju sem stefndi í samskeytin hægra megin en – því miður – í stöngina og út. Annað skiptið í leiknum sem tréverkið neitaði Barkley um mark.

Tvöföld skipting hjá Everton: Atsu og Naismith út af fyrir Kone og Osman. Blásið til sóknar enda þurfti Everton tvö mörk og tæplega hálftími eftir.

Tvisvar vildu Everton fá víti fyrir það sem leit út fyrir að vera brot inni í teig, fyrst Lukaku en svo Osman. Lukaku hafði lítið til síns máls, sýndi endursýning, en Osman aftur á móti — ég er ekki frá því að það hafi verið brot.

Dynamo svöruðu með stungusendingu inn í teig sem Howard varði í horn. Enn séns — meira en 20 mínútur eftir.

En sú von slökknaði á 76. mínútu þegar Dynamo skoruðu með langskoti langt utan af velli, beint upp í samskeytin. Fallegasta mark leiksins og staðan orðin 5-1. Everton þurfti þar með þrjú mörk á 13 mínútum sem er svolítið risavaxin pöntun á útivelli í Úkraínu gegn Dynamo Kiev. Yarmolenko var auk þess næstum búinn að bæta við eftir varnarmistök en skot hans í neðnverða slána.

Jagielka minnkaði þó muninn með skalla úr horni á 82. mínútu en Everton þurfti samt tvö mörk sem komu ekki.

Osman átti skot á fjærstöng á 88. mínútu sem markvörður varði og Lukaku átti flott skot rétt innan teigs, sem breytti um stefnu af varnarmanni en markvörður varði og lauk þar með ævintýri Everton í Evrópudeildinni þetta árið.

Held við getum verið stolt af okkar liði þrátt fyrir að hafa fallið úr leik. Liðið skapaði nóg að færum til að vinna þennan leik og með smá heppni hefði niðurstaðan getað orðið allt önnur.

En víkjum þá að fréttum vikunnar en þar er helst að enska landsliðið mun á næstunni (halda áfram að) nýta hæfileika þriggja leikmanna Everton en Baines, Jagielka og Barkley eru allir í hópnum. Af ungliðunum er það að frétta að John Lundstram var lánaður til Scunthorpe United í einn mánuð og Úrvalsdeildin hleypti af stokkunum nýrri vefsíðu sem stíluð er á krakka 6-12 ára en hana má finna hér.

Og að endingu má svo geta þess Everton FC kom afskaplega vel út úr Premier League Fan Survey 2015 en niðurstöðurnar voru nýlega kunngerðar.

96% sögðust jákvæð í garð klúbbsins (80% stuðningsmenn hinna liðanna sögðu já við því að meðaltali).
92% sögðu að klúbburinn væri vel rekinn (78% hjá hinum).
95% sögðu að klúbburinn væri á réttri leið (77% hjá hinum).

… og í um helmingi svara við spurningum sem náðu til upplifuninnar á vellinum var klúbburinn í efsta sæti eða næst-efsta sæti hvað ánægju varðar. Vel gert. Við þekkjum það vel hvað það er gaman að koma á Goodison.

Hægt er að lesa nánar um könnunina hér.

21 Athugasemdir

  1. Diddi skrifar:

    þessi vörn er náttúrulega bara brandari hjá okkur. Samt hlær maður ekki neitt 🙂

  2. Elvar Örn skrifar:

    Það virðist vera nóg fyrir þá að skjóta á markið þá verður mar.
    Ef Everton skorar 1 mark þá erum við komnir í bílstjórasætið, þetta er ekki búið strákar, vil bara ekki trúa því.

  3. Gestur skrifar:

    Alkataz alveg skelfilegur og Barry líka , Barkley kann ekki að spila fótbolta og setja svo Atsu inná í byrjunarliðið í millvægasta leik tímabilsins. Hvað þurfum við að horfa á þetta lengi

  4. Gestur skrifar:

    Gömlu mennirnir settir inná

  5. Ari S skrifar:

    Barkley er nú búinn að setja boltann tvisvar í stöng. Hann kann þetta alveg er bara ekki í formi.

  6. Gestur skrifar:

    já og passa að hafa Barry inná

  7. Diddi skrifar:

    það er ekkert varið í þessa Evrópudeild 🙂

  8. Gunnþór skrifar:

    Amen.

  9. Ingvar Bæringsson skrifar:

    Jæja þar fór síðasta hálmstráið hjá okkur þetta tímabilið.
    Ætli sé ekki óhætt að segja bless við menn eins og Stones, McCarthy, Coleman, Mirallas, Barkley og Lukaku. Geri ekki ráð fyrir að þeir nenni að standa í annari fallbaráttu með Everton á næsta tímabili en það var kannski veik von um það hefðum við unnið Evrópudeildina og komist þannig í CL.
    Takk kærlega fyrir Martinez!! Öll uppbygging síðustu ára að engu orðin.

    • Ari S skrifar:

      Þetta er nú ekki alveg rétt með það að öll uppbygging sé að engu orðin Ingvar minn. Ég þori að veðja að næsta tímabil verður miklu betra. Vonandi klára leikmennirnir þetta tímabil með stæl og eftir annasamt sumar munum við koma sterkari til leiks í haust.

      kær kveðja,

      Ari

  10. ólafur már skrifar:

    ég sá ekki leikinn þar sem að ég var í skólanum en fékk uppfært af livescore og eftir þennan leik vill ég manninn burt ég hef aldrei verið jafn reiður og sár og ég segji takk Martinez fyrir að eyðileggja uppbyggingu liðsins mér er sama hver kemur í staðinn en áfram bláir

  11. Ari G skrifar:

    Er í sjokki. Ég hef alltaf varið Martinez en ég get það ekki lengur. Þetta var hræðilegur varnarleikur vill ekki hrósa neinum nema Barkley fannst hann eiga sinn besta leik í langan tíma. Everton þarf að hugsa sinn gang vill að Martinez klári tímabilið og sennilega hættir hann í sumar.

    • Ari S skrifar:

      Málið er að við þurfum akkúrat ekkert að verja manninn né hæla honum. Hann er bara starfsmaður hjá OKKAR félagi/klúbbi. Hann stendur og fellur með sínum ákvörðunum og ef hann fær tækifæri til þess að taka til í sumar (að mínu mati) munum við koma sterkari til leiks í haust. Byrja á því að fá Andriy Yarmolenko og Aleksandar Dragović frá Dynamo Kiev. Þá verður þetta allt í lagi. 🙂

  12. Diddi skrifar:

    Ef Alcaraz og Barry verða í byrjunarliðinu á móti QPR, þá fer ég að hafa áhyggjur af getur Martinez til að höndla þetta starf 🙂

    • Ari S skrifar:

      Sammála, þá er eitthvað mikið að ef hann velur þá tvo.

      • Ari S skrifar:

        En Everton yrði sennilega sektað ef hann myndi velja Barry og láta hann leika. Því kallinn er í banni.

  13. Diddi skrifar:

    einnig vil ég setja Robles í markið og henda Howard út, hann er búinn að vera vægast sagt hörmulegur undanfarið