Mynd: Everton FC.
Enn á ný er uppskera David Moyes í þessum viðureignum Everton og Manchester United afskaplega rýr. En við grátum það ekki lengur. Uppstillingin komin: Howard (fyrirliði), Baines, Distin, Stones, Coleman, McCarthy, Barry, Mirallas, Barkley, Naismith og Lukaku. Varamenn: Robles, Hibbert, McGeady, Deulofeu, Osman, Garbutt, Alcaraz.
Leikurinn var í járnum framan af og liðin skiptust á að ná yfirhöndinni. Lítið um alvöru færi í byrjun, kannski helst eitt sem Naimsith fékk en skaut yfir — og sömuleiðis lítið um skot að marki. En svo náði Everton að brjóta ísinn þegar Phil Jones, sem lá í teignum, varði skot Lukaku með hendi á 26. mínútu. Og Clattenburg dæmdi víti, ótrúlegt en satt! Baines setti boltann í mitt markið. 1-0 fyrir Everton. Everton hefði reyndar geta fengið aðra vítaspyrnu nokkru áður í leiknum, að mér sýndist — þó ég hafi ekki náð endursýningunni, en Clattenburg ekki sammála því. Hann gat þó ekki sleppt tveimur vítaspyrnum í röð — það hefði verið full gróft!
Eftir 35 mínútna leik var United ekki búið að hitta einu sinni á mark Everton og átti aðeins eftir að ná því einu sinni í öllum hálfleiknum, að mig minnir, en það var skalli beint á Howard upp úr horni, rétt fyrir hálfleik.
Mirallas átti stórhættulega fyrirgjöf frá hægri sem Lukaku reyndi að renna sér á og var hársbreidd frá því að ná til knattarins og stýra honum í netið.
United héldu boltanum nokkuð vel og náðu pressu á Everton en mikill meirihluti sókna þeirra virtist brotna niður þegar boltinn nálgaðist vítateiginn enda leikmenn Everton með góða einbeitingu gegnum allan leikinn og fljótir að stíga út, mæta mönnum og eyða hættunni. Þeir voru auk þess mjög vakandi fyrir skyndisóknum og uppskáru vel eftir eina slíka.
Það var á 41. mínútu þegar Everton náði flottri skyndisókn sem endaði með því að Coleman sendi frábæra stungusendingu á Mirallas sem hljóp inn í teig hægra megin, var spilaður réttstæður af vinstri bakverði United (Buttner) og setti boltann í netið framhjá De Gea. 2-0. Allt brjálað á Goodison Park!
United áttu skalla úr horni rétt fyrir hálfleik, en beint á Howard eins og áður sagði.
2-0 í hálfleik og þó United hefðu verið meira með boltann virkuðu þeir síður en svo sem vel smurð vél. Everton hafði sýnt góða baráttu og varist vel þegar á reyndi. Vel verðskuldað að vera 2-0 yfir. Maður var smeykur við þennan leik fyrirfram en í hálfleik var ekki laust við að maður undraðist hvað þetta hefði verið auðvelt í fyrri hálfleik. Distin út af í hálfleik og Alcaraz inn á.
United setti pressu á Everton í upphafi seinni hálfleiks, Rooney komst í hálffæri upp við mark sem var hreinsað í horn og Kagawa reyndi skot af löngu en beint á Howard. En svo náði Everton að komast betur í takt við leikinn.
Alcaraz átti skalla úr horni stuttu síðar en beint á De Gea. Lítil hætta. United svaraði í sömu mynt; með auðveldum skalla frá Kagawa beint á Howard á 58. mínútu.
Mirallas, sem átti frábæran leik í dag, bjó til færi fyrir Lukaku upp úr nánast engu með mjög langri sendingu fram af hægri kanti inn í teig, kom honum inn fyrir vörn United en skot Lukaku ekki nógu gott og því varið. Á þeim tímapunkti var um klukkutími liðinn af leiknum og Everton átt fjögur skot á markið en United aðeins eitt.
Pirringurinn í United mönnum jókst með hverri mínútunni sem leið og náði hámarki þegar Rooney reyndi ljóta tæklingu á McCarthy og hefði það getað endað illa. McCarthy lá eftir þau viðskipti og haltraði nokkuð eftir en Rooney slapp við spjald.
Barkley út af fyrir Osman á 69. mínútu.
Mirallas skapaði aftur færi, í þetta skipti á 76. mínútu, og kom þar með Naismith í dauðafæri en Naismith náði ekki að klára það. Þremur mínútum síðar kom aftur skyndisókn frá Everton: fjórir sóknarmenn á móti þremur varnarmönnum United sem endaði með því að boltinn barst til Naismith vinstra megin í vítateignum sem náði mjög flottu skoti. De Gea þurfti að hafa sig allan við, kastaði sér á fjærstöngina og rétt náði að slá boltann í horn. Var á leiðinni stöngina inn og United menn prísuðu sig sæla. Ekkert kom þó úr horninu né næstu skyndisókn Everton.
Rooney var næstum búinn að minnka muninn rétt fyrir lok leiks þegar hann fékk stungusendingu inn í teig vinstra megin og komst einn á móti markverði en Howard varði stórglæsilega í horn af „point blank range“.
Everton svaraði með þungri sókn og skoti frá Mirallas sem var varið í horn — sem ekkert kom úr. McGeady kom inn á í blálokin en breytti litlu. Lokastaðan 2-0 og stuðningsmenn Everton sungu til Moyes „You’re getting sacked in the morning“!!
Frábær sigur í dag. 6 stig tekin af United á tímabilinu, í fyrsta skipti síðan 1969. Ekki slæmt og enn séns á sæti í Meistaradeild!
Einkunnir Sky Sports: Howard 7, Baines 7, Distin 7, Stones 9, Coleman 9, Barry 7, McCarthy 7, Mirallas 8, Barkley 6, Naismith 7, Lukaku 8. Varamenn: Alcaraz 8, Osman 5, McGeady 5. United með heila NÍU leikmenn sem fengu 5 í einkunn, þar af sjö úr byrjunarliðinu! Þrír aðrir með 6 og markvörður þeirra með 7. Minnir að þetta séu lægstu einkunnir sem ég hef séð andstæðinga Everton fá á Goodison Park á tímabilinu!
Gleðilega páska!
frábær fyrrihálfleikur og fer til Adda Löggu að horfa á þann seinni í pönnsur, heyrumst kallarnir 🙂
Hversu mikil gleði!?!
Vá hvað þetta var skemmtilegt fyrsta sinn í 44 ár sem við náum að sigra heima og heiman. ManU var samt með 62% boltann en það vantaði alla ógnun frá þeim, við vorum mun hættulegri og sigurinn hefði hæglega getað verið stærri.
Nú er bara að fagna og njóta dagsins 🙂
Þvílíkur dugnaður í leikmönnum í þessum leik við vorum í allt öðru hlutverki en í flestum leikjum tímabilsins miklu minna með boltann og þarf af leiðandi mikið að elta menn og pressa þá það gekk frábærlega upp. Man U áttu skot á ramman sem eru teljandi á fingrum annarar handar og aðeins eitt dauðafæri en við áttum töluvert marga góða sénsa fyrir utan mörkin. Mitt mat á leikmenn Howard var alveg með þennan leik. Coleman næstbesti maðurinn hvað ætli hann hafi hlaupið margar ferðir upp og niður kantinn. Stones spilar eins og hann sé reynslumesti maður liðsins. Distin frábær í fyrri hálfleik og var ég smeikur við skiptinguna í hálfleik en Alcaraz kom inn mjög öflugur vann mikið af skallaboltum bæði í vörn og sókn og varðist einfaldlega og losaði boltann vel. Baines alveg eins og maður vill hafa hann og skilaði vítinu. McCarthy besti maður vallarins. Barry hef séð hann betri en fínn samt. Barkley hef líka séð hann betri en kraftmikill. Mirallas mjög góður en er oft að gera hlutina of flókna. Naismith draumur hvers stjóra duglegasti maður vallarins hefði samt átt að skora fékk alveg færin í það. Lukaku gerði örugglega það sem fyrir var lagt að taka á móti boltanum og dreifa svo spilinu og hlapa í eyðurnar sem skapast vel gert. Osman sást ekki eftir að hann kom inná.
6 stig á móti Man U og Moyes á fyrsta tímabili já takk
Halli já takk 6 stig í vetur á móti Man utd hefði þegið það í upphafi tímabils. Eins og Coleman sagði eftir leik (maður leiksins að mati sky) eftir vonbrigði í síðasta leik var þetta frábær sigur, var sjálfur ekki bjartsýnn fyrir þennan leik en menn voru skynsamir varnarlega og það skóp þennan sigur, McCarthy sem eru kaup ársins að mínu mati í enska boltannum var frábær í þessum leik sem og flestum öðrum leikjum í vetur, Alcaraz kom flottur inn í seinni hálfleik en aðrir voru á pari held ég.
Diddi þú skilar kveðju til meistara Adda frá mér.
Geri það, annars fær hann líklega þessa kveðju hér, hann er alltaf að gægjast hér inn 🙂
Læk á það og stórt læk á leikinn í dag. Utd voru lélegir í dag og engin barátta þar. Okkar menn börðust allan leikinn, þrátt fyrir að vera tveimur yfir. Góður dagur í öllum skilningi.
Kveðjur bestar, Addi
Addi hættur að gægjast á glugga hér á síðunni og farinn að kommenta í fyrsta skipti. Stórt like á það! 🙂
Addi, Gunnþór biður að heilsa þér 🙂
Skýrslan komin. Glæsilegur sigur. Gleðilega páska!
Geggjaður sigur í dag og setur sokk uppí nokkra efasemdarmenn frá síðasta leik.
Coleman frábær og McCarthy geggjaður, Mirallas beittur, Howard magnaður, vörnin góð og í reynd allir góðir, Barkley kannski minnst góður enda að spila úr stöðu hefði viljað hafa McGeady eða Deulofeu í þeirri stöðu en samt svakalega sáttur. Já og Naismith barðist svakalega vel og hefði átt að setja amk 1 mark.
Ennþá séns á 4. sæti og árangurinn og spilamennskan í vetur hreint út sagt mögnuð.
Frábær dagur, frábær leikur. Þetta lið getur bara orðið betra og betra á næstu árum. Coleman, Stones, Mirallas frábærir þá sér í lagi Seamus Coleman.
Fyrsta skipti í langann tíma sem ég spái rétt hérna á síðunni
2-0
Gunnþór og Diddi……. told you so. 😉
Gleðilega Páska.
Kær kveðja,
Ari S
Ari S, ég spáði 1 – 0, og var því ekki langt frá 🙂
Ari þú mátt ekki misskilja okkur bara svona sigur og eins á móti Arsenal falla pínu í skuggan á svona drulluúrslitum eins og á móti cp því við værum með þetta svo í okkar höndum ef við hefðum unnið þann leik,en það þýðir ekki að gráta Björn bónda heldur safna liði.
Var að átta mig á því að með sigrinum í dag er eiginlega afskaplega hæpið að Everton geti mögulega endað neðar en í núverandi sæti (fimmta).
Everton er (eftir sigurinn á United) með 69 stig og þrjá leiki eftir. United (sem eru tveimur sætum neðar en Everton) þurfa að vinna *alla* sína fjóra leiki sem þeir eiga eftir til að _jafna_ þann stigafjölda og þurfa að vinna upp 7 stiga markamun Everton að auki. En aðeins eitt jafntefli Everton í síðustu þremur leikjum myndi gera endanlega út um möguleika þeirra til að komast upp fyrir Everton.
Tottenham eiga _smá_ séns — en einn sigurleikur í viðbót hjá Everton (eða þrjú jafntefli) gerir eiginlega út um þeirra möguleika líka því þeir eru með svo arfaslaka markatölu sem lið að hún er verri en hjá jafnvel Mrtn Skrtl varnarmanni Liverpool, sem er búinn að skora ég veit ekki hvað mörg sjálfsmörk á tímabilinu! 🙂
Ég segi því eins og Bjarni Fel, að það er „næsta víst“ að Evrópubolti bíður Everton á næsta tímabili, bara spurning um hvor keppnin það verður því við getum horft upp töfluna nánast áhyggjulaust. Eitt stig vantar á Arsenal, sem eru með verra markahlutfall en Everton þegar þrír leikir eru eftir. Að komast yfir City er svolítið hæpnara þar sem þeir eru með súper markahlutfall og tvo leiki til góða en á móti kemur að þeir eru bara tveimur stigum á undan og hafa sýnt að þeir geta verið mjög brokkgengir þegar á reynir (og eru með einn besta mann sinn, Yaya Toure, meiddan).
Þetta verður spennandi! 🙂
Málið er það Finnur að úr því sem komið er er maður svekktur að lenda bara í fimmta sætið.
Ertu búinn að gefa fjórða sætið upp á bátinn?
skrtel er með betra markahlutfall en tottenham því hann er markahæsti varnarmaðurinn með 7 mörk í úrvalsdeild, tók það af okkar manni Coleman 🙂 og ég segi eins og Gunnþór, ég verð hundsvekktur með fimmta sætið en við erum enn í baráttunni um CL sæti 🙂
Jamm, skil þig.
Það verður samt að draga sjálfsmörkin frá, ekki satt? Coleman hefur því vinninginn enn um sinn. 🙂
já en það breytir engu um að markahlutfallið hjá honum það er betra en hjá totturunum sem ég held að hafi bara 2 í plús, skrtel er með aðeins meira í plús 🙂
Talandi um Coleman og Skrýtlu. Þeir eru báðir í liði vikunnar að mati BBC! 🙂
http://www.bbc.com/sport/0/football/27099078
Frábær leikur hjá Everton. Utd fengu eitt alvöru færi í öllum leiknum. Coleman og Mirallas bestu menn Everton og aðrir ekki langt undan. Hræðilegt að þurfa að enda kannski í 5 sætinu til að spila í ruslkeppni UEFA en vonandi misstigur Arsenal sig og Everton nái að stela 4 sætinu það er alltaf von.
Þetta var frábært og ég leyfi mér að segja fáránlega auðvelt. Ég var ekki bjartsýnn fyrir leikinn (ekki frekar en oft áður) þar sem man utd áttu enn smá séns á CL sæti og bjóst því við þeim dýrvitlausum í þennann leik auk þess á maður því ekki að venjast að Everton nái tvennunni gegn þeim.
Ég er samt pínu svekktur með að okkar menn skyldu ekki skora fleiri mörk því þau hefðu hæglega getað orðið fleiri.
Greining Executioner’s Bong á leiknum:
http://theexecutionersbong.wordpress.com/2014/04/20/tactical-deconstruction-everton-2-0-man-utd/
Skemmtileg lesning — og skemmtilegar myndir fylgja að auki. 🙂
Fín lesning hér líka á nsno:
http://www.nsno.co.uk/everton-news/2014/04/adapt-to-thrive/
Vonandi láta Utd Martinez vera þegar Moyes verður rekinn. Framtíð Everton er mjög góð með Martinez við stjórnvölinn enda var hann minn draumastjóri. Nú verður bara að treysta á kraftaverkið að Arsenal misstigi sig í restina og Everton steli 4 sætinu af Arsenal. Það er alltaf von.
Ég tel akkúrat engann möguleika á því að Martinez sé á leið frá okkur. Aldrei til liðs sem er fyrir neðan Everton og er mun slakara. Hugsanlega þó til Barcelona eftir 3-4 ár ekkert annað þangað til. Þá verðum við líka orðnir enskir meistarar, get næstum því lofað ykkur því 😉
Af hverju í ósköpunum ætti Martinez annars að fara frá okkur til Manchester United? Hann er búinn nú þegar að ná stórglæsilegum árangri með Everton og á mikinn og góðan séns á að skella liðinu í meistaradeild evrópu á næsta tímabili. Látum þá segja Moyes upp fyrst áður en við förum að pæla í slíkum hlutum… mín skoðun… 🙂
Ef hann færi nú til þeirra (sumir kalla þetta að vera raunsær) þá væri hann að missa af tækifærinu að fara til Barcelona á næstunni, ég stórlega efast um að hann myndi nokkuð hugsa um að fara til þeirra (MUTD)
Þessar pælingar…úff… við gætum kannski skellt upp þræði um það hvert hann sé að fara og/eða hvert Baines, Coleman, McCarthy, Barkley, Stones fari og hvort að Lukaku og Deulofeu verði ekki örugglega einhvers staðar annars staðar en í Everton á næsta ári? Er fólk ekki almennt að fatta það að okkar tími er að byrja á ný? Það er mjög bjart framundan og EF að Kenwright væri á þeim buxunum að selja leikmenn þá er hann í dag með að minnsta kosti tvo ef ekki þrjá leikmenn sem eru yfir 30 milljón punda virði og hugsanlega einn af þeim 60 milljón punda virði. Sá gæti grætt…
En málið er að hnan þarf ekki að selja einn einasta leikmann.
Eins og ég sé þetta dæmi þá er Everton einfaldlega að yfirstíga Manchester United og það væri niðurleið fyrir Roberto Martinez að fara frá Everton til þeirra. End of…
Annars var ég bara með smá gleðigrín til ykkar Gunnþór og Diddi þegar ég sagði told you so… 🙂
kær kveðja og góðan dag,
Ari S
Staðfest! Búið að reka Moyes:
http://www.bbc.co.uk/sport/0/football/27107795
Mér finnst nú þessi frétt ekki eiga neitt erindi hér á þessa síðu, hver er þessi moyes ??? 🙂
🙂
Þetta hefur tvennt með Everton að gera, að mínu viti:
1) Þetta er að ég held í annað (ef ekki þriðja sinn?) á skömmum tíma sem Everton rekur síðasta naglann í líkkistu stjóra beins samkeppnisaðila. Ancelotti fékk að fjúka nánast strax og flautað var til leiksloka í sigurleik Everton gegn Chelsea og mig minnir líka að Everton hafi verið síðasti deildarleikur Villa-Boas áður en hann var rekinn frá sama liði. Nú fylgir Moyes sömu leið, í sínum fyrsta leik á Goodison með Utd. Það er ekki furða að gamla Goodison-daman hafi orð á sér fyrir að vera erfið heim að sækja. 🙂
2) Moyes er hér að bætast við vaxandi lista Everton manna sem hafa komist að því að grasið er ekkert endilega grænna hinum megin — og mistekist að uppfylla væntingar (Fellaini, Rodwell, Francis Jeffers — nokkur dæmi svona „off the top of my head“). Gott að vita að menn eins og Baines voru með augun opin þegar þeir voru að skoða sín samningsmál. 🙂
… og Baines, Stones og Mirallas í liði vikunnar að mati Goal tímaritsins:
http://www.goal.com/en-gb/news/2896/premier-league/2014/04/22/4767555/premier-league-team-of-the-week-podolski-ramsey-joined-by
Þessi leikur gegn Man Utd sýndi bara getumuninn á þessum tveimur liðum. Frábær úrslit og því erum við ennþá í baráttunni um 4. sætið.
Áhugavert að hugsa til þess að Moyes hafi verið rekinn eftir leikinn gegn okkur.
Heldur verri fréttir eru þær að Mirallas er frá út leiktíðina. Hann fór útaf undir lok leiksins gegn Utd en núna er ljóst að hann er frá næstu 3 vikurnar. http://www.evertonfc.com/news/archive/2014/04/22/mirallas-out-for-final-three-games
Skelfilegt að missa Mirrallas í seinustu þremur leikjunum en ég treysti á að McGeady eða Deulofeu leysi þessa stöðu með sóma. Held satt best að segja að það væri best fyrir klúbbinn að láta McGeady byrja þar sem Deulofeu er að öllum líkindum að yfirgefa okkur í sumar.
Fyndið til þess að hugsa að Everton er búið að tryggja sér sæti í Evrópudeildinni á næsta ári (er kannski forkeppni þar líka) en maður er bara að fókusera á að reyna við 4 sætið og þar með Meistaradeildarsæti (eða öllu heldur undankeppni þar).
Einnig er næsta víst að í versta falli endum við í 5 sæti (nei Tottenham á ekki séns á að vinna upp þennan mun) og hefði maður tekið því fagnandi í byrjun leiktíðar. En við skulum samt stefna á 4 sæti svo lengi sem möguleikinn er til staðar. Jafntefli gegn Crystal Palace hefði haldið okkur í 4 sætinu, soldið svekkjandi en tímabilið búið að vera frábært hjá okkur verð ég að segja.
Já og líklega verður Distin einnig frá þessa seinustu þrjá leiki (hef ekki séð staðfestingu á því reyndar) en þar ætti Alcaraz að koma inn en þó gæti Jagielka og Stones myndað miðvarðarparið þar sem Stones hefur verið frábær og er ekki rétt að Jagielka hefur spilað vinstri miðvörð t.d. með landsliðinu?
Það er vont að missa Mirallas í síðustu þrjá leikina, þetta er alveg kjörið tækifæri fyrir McGeady, vona að hann standi sig vel. Þá kannski setur hann Coleman framar og Hibbert í bakvörð. Við virðumst ekki eiga neina unga miðjumenn til að gefa tækifæri enda erum við með 4 miðjumenn í meiðslum. Við eigum enn sjens á 4 sætinu og það er alveg frábært.
Moyes rekinn!! Who cares???!!!!! Alveg er mér sama.
Ætli hann taki ekki bara við Norwich, eru þeir ekki að leita að stjóra? Hugsa að hann gæti gert góða hluti þar.
Góðan daginn félagar. Leikurinn við man utd var skemmtilegur á að horfa þó að man utd hefði verið meira með boltann þá voru Everton menn að verjast mjög vel með Stones og Distin til að byrja með. Hann fór út af í seinni hálfleik. Þá kom hann Alcaraz mér fannst hann standa sig mjög vel. McCarthy kom mjög vel út á miðjuni. Coleman var bara frábær að mínu dómi. Howard stendur alltaf fyrir sínu. Enda er hann búinn að gera nýjan samning. Annars var Everton liðið í heldina mjög gott og ég er bara bjartsýnn upp á framhaldið og við tökum 4. sætið.
Er ekki sáttur að Man utd skuli láta hann Moyes fara. Því hann er góður stjóri ekki í nokkrum vafa um það.
Moyes er mjög góður stjóri og við skulum ekki gleyma því of fljótt að Everton á honum mjög margt að þakka. Hann hefur náttúrulega sína kosti og galla og hentar því betur í ákveðin verkefni en önnur. United verkefnið hentaði illa (eins og augljóst er orðið) en hann verður örugglega ekki lengi atvinnulaus — það er nóg af klúbbum sem eru að berjast í bökkum við að reyna að tryggja sér sess meðal liða í efri hluta Úrvalsdeildar fyrir sem allra minnstan pening. Moyes hentar afar vel í slíkt verkefni. Mig grunar þó samt (ef ég þekki hann rétt) að hann hafi hug á að reyna fyrir sér næst í Þýskalandi — ef tækifæri gefast.
ég spái því að newcastle eða tottenham verði ofan á 🙂
Þetta er pæling eftir að David Moyes var rekinn frá Manchester United.
Það var nokkuð augljóst að erfitt væri fyrir hvern sem er að feta í fótspor Sir Alex Ferguson hjá Manchester United. Bara eiginlega alls ekki hægt. Þá er ég að tala um að ná álíka árangri og Alex náði.
Krafan var að koma liðinu í meistaradeildina en tókst ekki. Muna menn ekki hvað gerðist hjá Leeds United og er Manchester United á sömu leið og þeir?
Ég held að þessar prímaddonnur sem eru á stjóramarkaðnum í dag hafi ekki haft pung í að taka við af Sir Alex Ferguson og flestir ef ekki allir verið því fegnir að David Moyes myndi taka við.
Þessu má líkja við hrægamma sem að bíða við hliðarlínuna í þeirri von að fá eitthvað bitastætt þegar og ef stjórinn yrði rekinn. Það má kannski kalla þetta hugrekki hjá David Moyes að hafa tekið við þessu starfi það er nokkuð ljóst.
The scottish Braveheart anyone?
Það er mun auðveldara að taka við af Moyes heldur en Sir Alex Ferguson, það er nokkuð ljóst. Núna verður næsti stjóri Manchester United alltaf miðaður við David Moyes en ekki Sir Alex Ferguson. Var þetta ástæðan fyrir því að Sir Alex valdi David Moyes?
kær kveðja,
Ari
Auðvitað vona ég að við missum ekki Martinez strax en það kemur að því einhvern tímann því miður. Alveg sammála því að hann tekur sennilega við Barcelona einhvern tímann vonandi lætur hann ekki stjórnast af peningum og taki við öðru liði í Englandi. Alveg sammála að það séu bjartir tímar framundan. Þótt Barkley yrði seldur t.d. fyrir 50 millur mundi það örugglega bara styrkja liðið meiri breytt þótt ég vilji auðvitað ekki missa Barkely allavega er lágmarksverð fyrir hann 50-60 millur. Þótt Everton missi nokkra menn í meiðsli verður bara að taka á því og vonandi misstigur Arsenal sig eina von okkar núna til að ná 4 sætinu.
Öðru liði í englandi? Fatta menn ekki að Everton ER stórt lið í Englandi og okkar tími er að byrja á ný? Barkley fer ekkert, þá gætum við alveg eins lagt upp laupana og snúið okkur að handbolta, Martinez líka ef hann selur Barkley. 🙂
Og eitt enn, við erum með Martinez, við erum með Barkley, við erum með Stones og við erum með McCarthy. Ein bjartasta og besta framtíð hjá einu liði í Englandi.
Það þarf ekkert að vera að hugsa svona (hver fer hvert), við skulum njóta tímans og njóta þess að halda með svona flottu félagi.
Við erum Everton.
Úrkast tímabilsins að mati Goal:
http://www.goal.com/en-gb/news/2896/premier-league/2014/04/24/4765063/fellaini-van-wolfswinkel-more-goals-worst-premier-league-team-of-
Enginn *núverandi* leikmaður Everton þar. 🙂
þetta er snilld 🙂 http://www.breakingnews.ie/sport/everton-fan-buys-hilarious-banner-in-tribute-to-irelands-mccarthy-628706.html
Það er líka talað um þetta á nokkrum stöðum, vonum við ekki bara að það sé eitthvað til í þessu? 🙂
http://sportwitness.ning.com/forum/topics/gerard-deulofeu-agreement-in-principle-to-continue-at-everton
Hahahaha! 😀 Það verður ekki af þeim sem styðja Everton tekið; Húmorinn er til staðar! 🙂
Og mikið rétt! Deulofeu verður hjá okkur á næsta tímabili. Ábyrgist það! 🙂 Þið heyrðuð það hér fyrst.