Ferðasaga frá Goodison — valtað yfir Arsenal!

Myndir: SÓG

Everton klúbburinn á Íslandi útvegaði nokkrum Íslendingum miða á leikinn um helgina þar sem Everton tók ansi hressilega á móti Arsenal og fór með sigur af hólmi, 3-0. Við báðum Svein Ólaf, einn forsprakka ferðarinnar, um stutt yfirlit yfir upplifunina í ferðinni og fylgir ferðasagan hér á eftir. Ég gef Sveini orðið:

Í byrjun febrúar ákváðum við bræðurnir, Gunnar, Rúnar, Sveinn og tengdasonur Gunnars, Friðrik (Arsenal maður) að stökkva á ódýra miða til Manchester með Icelandair. Leikurinn sem varð fyrir valinu var Everton vs Arsenal. Við ákváðum að fara á „alvöruleik“ þótt að sagan væri ekki með okkur í liði í þessari viðureign.

Miðarnir í höfn og spennan magnast.

.

Miðarnir í höfn og spennan magnast

Þegar nær leið brottför, jókst vægi leiksins meir og meir, allt þar til að við áttuðum okkur á því að þetta væri „massive game“ eins og tjallinn orðar það. Líklegast mikilvægasti leikur tímabilsins til þessa. Við ákváðum að kaupa okkur miða á Manchester City vs Southampton sem leikinn var á laugardeginum 6.apríl. Og gistum því í Manchester til hagræðingar.

Þegar við settumst upp í leigubílinn á leið okkar á leikinn, og báðum leigubílstjórann að keyra okkur út á Etihad stadium, svaraði hann að bragði: „aaaahhhh the most beautiful place in the world!“ Hann var svo yfir sig ánægður að fá norðurlandabúa í bílinn sem voru ekki á leiðinni á Old Trafford að hann hálf táraðist og samkjaftaði ekki alla leiðina. Þannig gerðist það að við Karamelludrengirnir (plús einn Gunner) urðum City menn í einn dag. Leigubílstjórinn vinalegi keyrði okkur á harðasta City klúbbinn í gjörvallri Manchester Mary D’s (sjá StreetView) og þar klæddum við okkur upp, svo erfitt var að sjá hverjir væru harðari City aðdáendur: við eða Gallagher­ bræður.

Manchester Mary D'sManchester Mary D’s
Leikurinn sjálfur var skemmtilegur, Southampton spilaði vel, (við hálf héldum með þeim, og áttum erfitt með að leyna því) en City eru svo beittir fram á við að þeir skora hreinlega að vild, og það var það sem þeir gerðu. 4­-1 í undarlegum leik, þar sem okkur fannst Southampton spila betur á löngum köflum en töpuðu samt illa. Stemmningin var undarlega afslöppuð hjá aðdáendunum, einstaka söngur, nettur fögnuður þegar þeir skoruðu, sungu Blue Moon í lokin, en voru farnir að trítla heim á leið þegar 10 mín. voru eftir af leiknum. En það hefur svo sem enginn áhuga á þessum leik. Spólum áfram 20 tíma.

Við lentum á Kirkdale lestarstöðinni um kl. 12.15 (kick off 1.30) sem var fullseint. Þannig að við gengum hröðum skrefum upp að Goodison, í breiðfylkingu Everton manna og einstaka flækinga. Spennan lá í loftinu, og þessar þúsundir manna gengu í þögulli eftirvæntingu upp að „Gömlu dömunni“. Við merktum okkur í einum grænum (eða einum bláum öllu heldur) með húfum og treflum, sem keypt voru í Everton tjaldi við Goodison Road. Og sölukonan mætti okkur af ekta scouser hlýju: „aight luv! How you doin luv?“ Því næst var að finna rétta innganginn: „Enter via Turnstile 46-­47“. Sætin voru í Lower Bullens.

Við smokruðum okkur inn á Goodison og ég stóðst ekki mátið, rauk inn hliðið næst leikvanginum, og sá hetjurnar í seilingarfjarlægð hita upp. Mirallas, Naismith, Osman, Lukaku á léttu joggi og Distin með hálstak á McCarthy (vinalegt hálstak), oooohhh ég var kominn heim!

Tilfinning sem átti bara eftir að styrkjast sem á leið leikinn. Ég hafði ekki komið á Goodison síðan 1997, þegar við unnum West Ham 3-1 og síðan þá hafði Everton ástríða mín bara aukist með hverju árinu sem leið. Af skynsemi hafði ég ákveðið að láta allt bjórþamb vera þennan morguninn, bæði vildi ég vera allsgáður meðan á leiknum stæði og eins vildi ég ekki þurfa að bregða mér á klósettið og sóa mínútum í piss og missa jafnvel af marki. Ég fylgdi þessari reglu af þýskri festu, og sá ekki eftir því. Því frá fyrstu mínútu var stemmningin á Goodison biiiluuuð! Stærð leiksins og hin þögla spenna, spratt fram í söngvum, hvatningarhrópum, dómaraköllum og almennum leiðindum í garð Arsenal leikmanna. Loksins var ekki asnalegt hvernig ég lét á Everton­leik, hérna var það eðlilegt, og ég gerði það með 35.000 ástríðusystkunum mínum.

Sjónarhornið okkar á Lower BullensSjónarhornið okkar á Lower Bullens
Ég þarf ekki að lýsa leiknum fyrir ykkur, það sáu hann allir. Óaðfinnanlega spilaður af okkar hálfu og margir töluðu um það eftir leikinn að það þyrfti að fara langt aftur í tímann til þess að finna sambærilega spilamennsku á Goodison. Taktísk snilld hjá Roberto Martinez — skildi Arsenal eftir í tætlum. En stemmningin á Goodison, púfff, ég fæ gæsahúð af tilhugsuninni, ég hef farið á þónokkra leikvanga, bæði í fótbolta, körfubolta og öðrum íþróttum — hjóm eitt, í samanburði. Eftir leikinn, fórum við í Everton One búðina við leikvanginn og versluðum á okkur og afkomendurna. Merseyside brosti hringinn þennan dag. Ég er ekki enn búinn að ná glottinu af andlitinu, þremur dögum síðar. Ég dauðöfunda þá sem eru að fara út nú í vor.

Svona leikferð er auðvitað alltaf lotterý, varðandi spilamennsku og úrslit en ég var reyndar í frábærum félagsskap og þá getur fátt klikkað, en mér líður eftirá eins og við höfum fengið 8 rétta af fimm mögulegum.

Rúnar, Gunnar Örn og Friðrik niðri við Höfn í EvertoniuRúnar, Gunnar Örn og Friðrik niðri við Höfn í Evertoniu
Við á Everton.is þökkum Sveini og félögum kærlega fyrir skemmtilega ferðasögu!

9 Athugasemdir

  1. Hallur skrifar:

    Glæsilegt

  2. Elvar Örn skrifar:

    Flott ferðasaga

  3. Finnur skrifar:

    Já, mjög gaman að lesa þetta. Hefði mikið viljað vera á pöllunum á þessum leik. Þetta hefur verið alveg magnað.

  4. Eyþór Hjartarson skrifar:

    Þetta hefur verið svakaleg upplifun.

  5. Halli skrifar:

    Svenni til hamingju með ferðina allt gott fyrir ykkur

  6. Gestur skrifar:

    skemmtileg saga

  7. Elvar Örn skrifar:

    Þú verður að koma með sem lukkutröll í ferð Everton klúbbsins á næsta leikári 🙂

  8. Gunnþór skrifar:

    Nei bara í næsta leik Elvar minn,hann er í mai það verður SVAÐALEGT.

  9. Albert Gunnlaugsson skrifar:

    Alveg frábært. Hef upplifað mig svona, sem eina hópsál með 35 þ öðrum stuðningsmönnum Everton. Um að gera að að sem flestir sem fara svona ferð skrifi smá ferðasögu.