Newcastle vs. Everton

Mynd: Everton FC.

Það er kvöldleikur á dagskrá annað kvöld (þriðjudag) þegar Everton á leik við Newcastle á útivelli kl. 19:45. Útileikjaformið er það sem hefur haldið aftur af Everton þetta tímabilið því ef bara heimaleikjaformið myndi telja væri Everton nú í Champions League sæti. Þegar kemur að jafnteflum á útivelli trónir Everton á toppnum — ásamt West Brom — með 6 jafntefli. Þetta er nokkuð sem þarf að laga og rétt að byrja á morgun.

Everton hefur unnið þrjá af síðustu fjórum leikjum gegn Newcastle en þrír af þeim leikjum voru reyndar á heimavelli. Útileikurinn vannst þó og eini heimaleikurinn sem vannst ekki var 2-2 jafntefli (sem við þekkjum allt of vel — rán um hábjartan dag því tvö lögleg mörk voru dæmd af Everton).

Það var mjög gott að sjá Barkley í fantaformi í leiknum gegn Swansea, skoraði mark og fiskaði víti sem hafði aldeilis mikið að segja í leiknum og virðist að nálgast sitt gamla form. Ekki síðra að sjá Lukaku skora sitt þriðja mark í fjórum leikjum frá því hann kom aftur úr meiðslum.

Lítið að frétta úr meiðsladeildinni: Kone, Gibson og Oviedo frá (langtímameiðsli) og Traore frá í einhverjar vikur. Sama gildur um Pienaar en það verður bara að teljast tækifæri fyrir McGeady sem hefur komið manni á óvart að undanförnu. Líklegt að Jagielka verði með, sem eru miklar gleðifregnir, en hann er mjög nálægt endurkomu. Ef ekki á morgun þá í næsta leik, er mitt mat sem sérfræðingur í meiðslum íþróttamanna. Líkleg uppstilling: Howard, Baines, Distin, Jagielka, Coleman, Mirallas, McCarthy, Barry, McGeady, Barkley, Lukaku.

Newcastle verða án sóknarmannsins Loic Remy og varnarmannsins Mathieu Debuchy og náttúrulega Alan Pardew, stjóra Newcastle, sem verður fjarri góðu gamni vegna banns sem hann fékk fyrir að skalla leikmann Hull.

Í öðrum fréttum er það helst að Martinez sagði að allt yfir 70 stigum væri líklegt til að skila sæti í Meistaradeildinni (ef ég skildi hann rétt) en ég á mjög erfitt með að trúa að það eigi eftir að reynast rétt. Mér sýnist nefnilega sem Arsenal sé nú okkar helsti keppinautur um fjórða sætið og — sökum markamunar — þyrftu þeir ekki nema 9 stig í viðbót til að tryggja sér fjórða sætið. Þeir eiga eftir heimaleiki gegn Swansea, West Ham, Newcastle og West Brom og útileiki gegn Hull og Norwich þannig að mann grunar að 71 stig gæti ekki verið nóg. En aldrei að vita. Arsenal eiga eftir að heimsækja Goodison Park (6 stiga leikur) og Everton á jafnframt leik til góða. Með hagstæðum úrslitum þar getur Everton saxað forskot Arsenal í 2 stig og þá er allt opið. Kannski er Martinez líka bara að stilla væntingum í hóf.

Af ungliðunum er það að frétta að U18 ára liðið endaði 6 leikja sigurgöngu sína gegn Stoke U18 á útivelli með því að gera jafntefli 1-1. En öllu verra var að U21 árs liðið tapaði fyrir West Brom U21 á útivelli, 5-0.

Leikurinn við Newcastle er í beinni á Ölveri annað kvöld. Ekki láta ykkur vanta!

15 Athugasemdir

 1. Halli skrifar:

  Það er gott að byrja á að setja nýtt stigamet félagsins í EPL núverandi fjöldi stiga er 65 ef ég man alveg rétt það væri gaman að slá það og sjá hverju það skilar liðinu þessi 65 stig skiluðu CL sæti á sínum tíma. Útivallarformið okkar er ekki gott aðeins 1 sigur í síðustu 6 leikjum þannig að það væri gott að girða sig og ná í 3 stig úr þessum leik ég ætla að spá 0-2 MaCeady og Delufeu með mörkin

 2. þorri skrifar:

  Góðan daginn félagar. Lið Newcastle er í 8. sæti og ég held að þetta lið sé nokkuð gott. Það sem við verðum að laga er vörninn, mér fannst hún mjög léleg í síðasta leik. Annars held að þessi leikur fari 1-3. Og þeir sem skora verða Coleman, Barkley, Deulofeu. Verðum við ekki að halda í vonina og landa 4 sætinu og Arsenal fari að tapa? VIÐ SEGJUM ÁFRAM EVERTON skemmtið ykkur vel á Ölveri í kvöld.

 3. þorri skrifar:

  Haldið þið að Coleman fari til Man. Utd í sumar? Ég vona ekki. Ég vona að Martinez haldi honum lengur því hann er þvílíkur hlekkur fyrir okkur.

 4. Finnur skrifar:

  Hef engar áhyggjur af Coleman. Hann blómstrar undir Martinez og líður vel þar sem hann er nú.

  Útileikjaformið hefur verið að fara með okkur undanfarið en eftir að hafa yfirspilað Arsenal á Emirates og sigur á United á Old Trafford (plús útisigur gegn Swansea) var Everton fyrirmunað að ná sigri á útivelli og hefur eiginlega varla náð einu sinni jafntefli síðan. Fjögur töp í síðustu fjórum útileikjum lítur ekki vel út en á móti kemur að þrír leikirnir voru á móti liðum í efstu fjórum sætunum og þar af tveir (gegn Chelsea og Tottenham) sem flokkast sem afar ósanngjörn 1-0 töp.

  Ég er smeykur við leikinn af þessum sökum en vona að gengið á útivelli fari nú loks að jafnast á við heimaleikina. 0-1 og títtnefndur Coleman með markið. 🙂

  Og Diddi, ekki orð!

 5. Diddi skrifar:

  Nú smellur þetta hjá okkur og við drullum yfir hundlélegt Newcastle lið 0-4. Skítsama hverjir skora 🙂

 6. Finnur skrifar:

  Jæja, þá er það búið spil. 😉

 7. Hallur skrifar:

  Sigur og ekkert annað

 8. Orri skrifar:

  Ég held að þetta falli með okkur í kvöld. Ef við ætlum okkur 4. sætið kemur ekkert annað en sigur til greina. Með sigri í kvöld og von um hagstæð úrslit í Arsenal leiknum er allt galopið hvað 4. sætið varðar.

 9. Diddi skrifar:

  ég hélt að ég mætti bara ekki nefna eitt nafn, maður hlýtur nú að mega spá og spekúlera 🙂

 10. Finnur skrifar:

  Jújú, Diddi. Mig vantaði bara blóraböggul ef þetta færi ekki sem skyldi. 🙂

 11. Orri skrifar:

  Diddi er fínn blóraböggull, enda hefur hann breitt bak.

 12. Ingvar Bæringsson skrifar:

  Held að þetta verði jafntefli 0-0 eða 1-1 fyrir okkur 🙂

 13. Finnur skrifar:

  Uppstillingin: http://everton.is/?p=7042

 14. Diddi skrifar:

  er ekki kallaður Diddi Blóri útaf engu 🙂

 15. Eiríkur skrifar:

  Glæsilegur sigur okkar manna. Og ekki verra að Swansea
  náði í jafntefli (sem þeir áttu ná líklega líka skilið á laugardag). Samt á því að spilamenskan er ekki alveg eins þétt og áður, enn hverjum er ekki sama þegar það skilar þremur stigum og „clean sheet“. Barkley og Deulofeu flottir.