Newcastle – Everton 0-3

Mynd: Everton FC.

Martinez ákvað að hvíla Mirallas í leiknum gegn Newcastle og McGeady tók einnig sæti sitt aftur á bekknum. Uppstillingin fyrir Newcastle leikinn því: Howard, Baines, Distin, Stones og Coleman. Osman og Deulofeu á köntunum, McCarthy og Barry á miðjunni og Barkley fyrir aftan Lukaku frammi. Martinez hafði sagst vona að Everton myndi ná sömu hæðum og gegn Newcastle í heimaleiknum, þegar Everton sundurspilaði þá gersamlega og komst í 3-0 í fyrri hálfleik.

En það virtist ekki uppi á teningnum því Everton menn voru steinsofandi í byrjun leiks og maður hugsaði með sér „ó, nei — svona leikur“… Því það voru Newcastle sem byrjuðu af krafti og settu mikla pressu á mark Everton á upphafsmínútunum. Tvisvar lenti Everton í nauðvörn en Stones og McCarthy náðu hvor um sig mikilvægri blokkeringu til að stoppa flott skot áður en Everton náði að komast inn í leikinn og komast í færi. Þetta reyndust fyrstu af mörgum flottum tæklingum og blokkeringum sem Everton náði, en vörnin stóð sig frábærlega í leiknum og Newcastle menn áttu í mestu vandræðum með að klára færi sín með skoti á rammann.

Það fór þó um mann í byrjun enda leit þetta illa út en smám saman róaðist leikur Everton, þeir fóru að halda boltanum meira og smám saman að vaxa ásmegin. Á 14. mínútu vildu Everton menn fá víti þegar virtist brotið á McCarthy inni í teig. Newcastle mennirnir í salnum sóru það þó af sér og ekkert dæmt.

En þetta var bara forsmekkurinn því aðeins örfáum mínútum síðar sendi Barkley á Osman sem sendi mjög flotta stungu inn í teig á Lukaku en skotið frá honum varið í dauðafæri. Þarna átti að vera komið mark frá Everton.

Það kom hins vegar mjög skömmu síðar upp úr skyndisókn þegar Barkley óð bókstaflega upp allan völlinn og lék á varnarmann og þrumaði boltanum upp í þaknetið! Hafði allan tímann mann til að gefa á (t.d. Lukaku) en afgreiddi þetta bara sjálfur! Mjög glæsilegt mark. 0-1 staðan og þannig var það í hálfleik.

Newcastle með 6 tilraunir á mark en engin þeirra á rammann, tvær hjá Everton, báðar á rammann.

Og Everton bætti öðru marki við skömmu eftir leikhlé, Deulofeu tók á sprettinn upp hægri kant og náði glæsilegri fyrirgjöf, beint á Lukaku sem potaði inn. Fjórða mark hans í fimm leikjum og hann aldeilis að stimpla sig inn í liðið aftur eftir meiðsli. 0-2 fyrir Everton.

Newcastle reyndu hvað þeir gátu til að jafna, áttu skot af löngu á 56. mínútu en beint á Howard. Ben Arfa kom inn á fyrir þá stuttu síðar og hann kom með góða innspýtingu inn í leikinn fyrir þá, því það var eins og allt gott frá Newcastle færi gegnum hann. Gouffran átti viðstöðulaust skot á 60. mínútu vinstra megin úr teig. Smellhitti boltann í fyrsta, eftir fyrirgjöf frá Anita en boltinn rétt yfir.

Everton svaraði með skoti á 73. mínútu frá Lukaku en hann hafði unnið boltann af harðfylgi en skotið, því miður, beint á Krul í markinu.

Ben Arfa skapaði dauðafæri skömmu síðar þegar hann sendi eitraða fyrirgjöf frá vinstri á Anita en sá einfaldlega hitti ekki markið í algjöru dauðafæri beint fyrir framan Howard. Þá held ég að Newcastle mennirnir hafi farið að hugsa að þeir myndu aldrei ná að jafna.

Cisse átti til dæmis flottan skalla að marki stuttu síðar en boltinn á leið út af þó Howard hefði varið með tilþrifum.

Naismith kom inn á fyrir Barkley á 82. mínútu en aðeins fimm mínútum síðar var Everton búið að bæta við marki. Lukaku fyrir framan teig, sendi til hliðar á Osman sem tók við honum inni í teig og þrumaði upp í þaknetið. Staðan orðin 0-3!

Og Everton voru ekki hættir því rétt fyrir lok leiks, tók Deulofeu upp sprettinn vinstra megin og gaf eitraða sendingu fyrir, líkt og í öðru markinu, en Naismith vantaði nokkra sentimetra í að pota honum inn. Algjört dauðafæri og Newcastle menn heppnir að fá ekki á sig fjórða markið.

0-3 sigur á útivelli því staðreynd. Og önnur úrslit í kvöld afar hentug Everton. City vann United og Arsenal tapaði stigi gegn Swansea á heimavelli. Arsenal eru í augnablikinu 6 stigum á undan Everton. Næsta umferð verður Arsenal erfið því þeir eiga leik gegn Man City á meðan Everton spilar við Fulham. Og svo mæta Arsenal á Goodison Park þar á eftir en sigurvegarinn í þeim leik gæti (ef úrslitin falla með okkar mönnum) endað í fjórða sæti eftir þá umferð. Það væri ekki ónýtt! Og Everton á leik til góða á Arsenal — gegn Crystal Palace!

Einkunnir Sky Sports: Howard 6, Baines 6, Distin 7, Stones 7, Coleman 6, Osman 7, Barry 7, McCarthy 7, Deulofeu 8, Barkley 8, Lukaku 7. Varamaðurinn Naismith fékk 6. Newcastle menn fengu 6 á línuna, fyrir utan eina fimmu (de Jong) og tvær sjöur (Gouffran og Cisse). Nokkuð sammála einkunnum Everton — fannst kannski Coleman eiga aðeins meira skilið, fannst hann mjög góður. Lukaku er alveg ótrúlegur — manni finnst hann lítið gera í leiknum og svo setur hann mark á andstæðinginn, enn og aftur.

En við kvörtum ekki yfir því. Meira svona takk!

18 Athugasemdir

  1. Ari S skrifar:

    Barkley upp hálfann völlinn með boltann, GLÆSIMARK!

    0-1 meira af þessu 🙂

  2. Ari S skrifar:

    Deulofeu frábær í kvöld, gaf á Lukaku sem skoraði. 0-2!

  3. Ari S skrifar:

    VÁÁÁ…Osman þvílíkt mark þvílíkur undirbúningur. 0-3

  4. Diddi skrifar:

    Liðið var frábært í kvöld og mörkin maður!!!!!! Vissum að það hlyti að koma að þokkalega öruggum sigri því það hefur verið stígandi í Barkley og Deloafeu. Ekki verra að arsenal misstigu sig og eiga mancity um helgina en við verðum að vinna fulham og þá setjum við upp rosalega viðureign gegn arsenal á Goodison. Sef vel í nótt 🙂

  5. Ingvar Bæringsson skrifar:

    VÁ!!!!! Þvílík snilld!!!
    Algjörlega frábær leikur hjá okkar mönnum.
    Newcastle átti góðar 2 mínútur í upphafi en eftir það var þetta eiginlega aldrei spurning.
    EF liðið getur mætt af þessum krafti í þessa leiki sem eru eftir þá fer jafnvel svartsýnasta fólk (ég) að hafa trú á að ná 4. sætinu.

  6. Diddi skrifar:

    en umfjöllun fjölmiðla fer alltaf jafnmikið í taugarnar á mér, þetta er grein á 433.is sem mér sýnist ekkert skárri en fotbolti.net þegar kemur að okkar áskæra liði, þetta er til skammar og eitthvað sem stuðningsmannafélagið á að mótmæla kröftuglega. Hvað á svona lagað að þýða ??
    http://www.433.is/frettir/england/byrjunarlid-kvoldsins-i-ensku-urvalsdeildinni-cleverley-byrjar-gegn-city/

    • Finnur skrifar:

      Er eitthvað á fotbolti.net og 433.is sem er ekki að finna á öðrum vefsvæðum? Ég læt alveg vera að lesa þessar síður — finnst lítil ástæða til að gefa þeim auglýsingatekjur…

  7. Ari G skrifar:

    Stórkostlegur leikur hjá Everton. Deloafeu spilaði á heimsmælikværða maður leiksins. Mark Barkley var hreinasta snilld. Besti leikur Stones frá upphafi sem ég hef séð. Með svona leik vinnur Everton rest.

  8. Halli skrifar:

    Flottur leikur hjá okkar mönnum. Nú er það bara í okkar höndum að ná í CL sæti eigum leik inni á Arsenal og leik heima við þá ef þeir vinnast erum við fyrir ofan þá. Leikgreining kvöldsins að mínu mati Howard solid, Coleman ok ekki meira, Stones ok, Distin flottur, Baines góður, Barry og McCarthy frábærir, Deulefeu góður en hefði mátt gefa boltan meira, Osman lala en skoraði svo að hann fær góða einkunn, Barkley Frábærrrrr, Lukaku gerði það sem við biðjum um: skorar mörk aftur og aftur. 3 stig í hús, yeayea!

  9. Gunnþór skrifar:

    Flottur sigur hjá Everton liðinu, bullandi séns á 4. sæti, verður spennandi að vera á Goodison þann 3 maí. Hvað gerist, ætla menn ekki að fjölmenna þann 3. maí til Liverpoolborgar?

  10. Finnur skrifar:

    Vel á minnst, Gunnþór! Sjá nánar hér:
    http://everton.is/?p=6872

    Það eru 12 sem ég veit af, sem eru búnir að bóka sig í ferðina. Það er takmarkað sætaframboð en ekki fullt ennþá, skv. síðustu fregnum. Og þetta gæti verið leikur sem skiptir sköpum varðandi næsta tímabil.

    Ekki láta þetta framhjá ykkur fara! 🙂

  11. Finnur skrifar:

    PS. Leikskýrslan komin.

  12. þorri skrifar:

    Góðan daginn félagar. Þetta var mjög góður leikur hjá okkar mönnum í gærkveldi. Ég sá leikinn endursýndan í gærkveldi. Everton voru mjög góðir í leiknum. En Newcastle voru líka mjög góðir í gær. Er ekki sammála Einari, Newcastle átti líka nokkuð í leiknum í gær. En við vorum bara betri við teiginn hjá þeim. Mér fannst Deulofeu áberandi góður í gær. Mér fanst hann bara bera af. Markið hjá Barkley var hrein snilld. Hann sást ekkert til að byrja með í leiknum en eftir hann skoraði þá var hann meira inn í leiknum og var mjög góður. Þetta var æðislegt hjá okkur að taka þennana leik, nú munar bara 6 stigum á okkur og Arsenal og fjóða sætið er ekki óraunhæft eins og staðan er núna. OG markið sem Osman skoraði var snilld og æðislega spilað hjá okkur. Ef við spilum svona eins og í gær þá er góður möguleiki á Evrópusæti hjá okkur. Liðið virkar eins og smurð vel. Og Howard er frábær í markinu. ÁFRAM EVERTON

  13. Diddi skrifar:

    ég þarf ekki á fotbolti.net eða 433.is að halda til að fá fótboltafréttir og mér finnst þetta ekki snúast um það. Þetta snýst um þá fjölmiðlaumræðu sem býr til eitthvað sem börn og fullorðnir heyra og sjá. Til að gera Everton sýnilegt og aðlaðandi fyrir t.d. krakka sem eru að móta sér skoðun. Ef Everton vinnur manutd á útivelli eins og gerðist í des. þá er fyrirsögnin ekki Everton vann sinn fyrsta leik á old trafford í………os.frv. HELDUR, manutd tapaði í gær. Við þyrftum að bjóða fram einn úr okkar röðum sem skríbent á fotbolti.net til að skrifa eingöngu EVERTON fréttir. Mér finnst þetta skipta töluvert miklu máli fyrir okkar klúbb.

    • Finnur skrifar:

      Pant ekki! 🙂

    • Finnur skrifar:

      En, jú. Ég skil hvað þú átt við.

      Grunar samt að það sé ekki nóg að gerast pistlahöfundur — þú þyrftir að koma að ritstjórn líka, því það er fólkið sem ákveður fyrirsagnirnar og breytir þeim gjarnan til að reyna að lokka fleiri lesendur að.

  14. Ari S skrifar:

    Ég þekki Hafliða Breiðfjörð persónulega og hef oft og mörgum sinnum sent honum póst (reiðilestur) yfir því hversu mikið er skrifað um ákveðin lið og lítið um Everton. Eins hef ég oft bent á neikvæða umfjöllun í formi þess sem Diddi er að tala um.

    Aldrei skrifað „Everton sigraði ensku meistarana í Manchester United“ heldur eru það meistararnir sem að töpuðu og voru lélegir…(þess vegna töpuðu þeir). Ég er svo oft búinn að angra mig á þessu að ég er eiginlega hættur að angra mig á þessu.

    Ég reyndar hitti kappann í BYKO í dag þar sem ég er að vinna… ég var á hlaupum en skaut samt að honum að hann yrði að koma með myndbandsfrétt af Barkley markinu…. þetta er bara svo flott sagði ég… „já það kemur í dag…“ var svarið…. enn ekkert komið.. en dagurinn svo sem ekki búinn…

    Ég skrifaði nokkuð margar fréttir á fyrstu Everton síðuna sem Tóti startaði en ég er samt alls ekki viss um að ég myndi nenna að vera þarna… á fotbolti.net… hehe 😉 Ég hef meira að segja oft hugsað um að hreinlega sækja um vinnu þar (aftur hehe) en Hafliði er með unga krakka í vinnu helst allir undir tvítugu nema ritsjórinn sem er 24 og var 14 ára þegar hann byrjaði…

    Leikurinn í gær var virkilega flottur og fallegur hjá okkar mönnum. Mér fannst Deulofeu vera bestur – hann var alltaf hættulegur og ég tók ekki eftir því að hann hefði gefið boltann of lítið. Ég tók einu sinni eftir því þegar hann geystist upp vinstri kantinn þá hefði ég vilja sjá hann skjóta í stað þess að gefa fyrir. Þvílíkir hæfileikar sem þessi drengur hefur og vonandi náum við að halda honum næsta vetur líka. Hann hefur bara gott af því að vera hjá okkur allavega einn vetur í viðbót, annars staðnar hann á bekknum hjá Barcelona og vonandi gerir hann sér grein fyrir því. Barkley var líka virkilega góður í gær og markið sem hann skoraði er í algerum heimsklassa…….

    Kær kveðja, Ari