Mynd: Everton FC.
Næsti leikur er í átta liða úrslitum FA bikarsins gegn Arsenal, sem vart þarf að minna lesendur þessarar síðu á, en leikurinn er á laugardaginn kl. 12:45. Þetta verður gríðarlega erfitt verkefni, en það er ansi langt síðan Everton vann á Emirates (aldrei undir stjórn Moyes) en frammistaðan þar fyrr á tímabilinu lofaði afskaplega góðu. Arsenal menn hafa í bikarkeppninni lagt Tottenham, Coventry og Liverpool — allt á heimavelli, og það er ljóst að allt annað en tap verða frábær úrslit fyrir Everton. Það er ótrúlegt að hugsa til þess þó að Everton hafa ekki tapað á heimavelli andstæðinga í FA bikarnum síðan í fjórðu umferð FA bikarsins árið 2006. Jafnframt hefur Everton ekki tapað gegn Arsenal í síðustu þremur leikjum — allt jafntefli reyndar, þannig að það er aldrei að vita hvað gerist.
Hjá okkur eru Jagielka, Traore, Kone, Oviedo og Gibson frá en að öðru leyti er liðið fullskipað. Þær fréttir bárust að lánsmaðurinn Traore þarf ekki uppskurð vegna sinna meiðsla og verður því áfram hjá félaginu og tekur þátt í síðustu leikjum tímabilsins. Arsenal menn urðu fyrir því óláni í vináttuleik Englands við Danmörku í gær að miðjumaður þeirra, Jack Wilshere, fótbrotnaði eftir tæklingu frá Daniel Agger og verður því fjarri góðu gamni um helgina. Aaron Ramsey, Kim Kallstrom og Theo Walcott er einnig frá og miðvörðurinn Laurent Koscielny sagður tæpur.
Í öðrum fréttum er það helst að miðjumaður okkar, James McCarthy, var valinn írski ungliði ársins í Dublin síðastliðinn sunnudag en hann vann þennan titil einnig árið á undan. Coleman og Duffy voru einnig tilnefndir til verðlauna (Coleman sem leikmaður ársins og Duffy sem U21 árs leikmaður ársins).
Everton U18 unnu Man City U18 2-1 á heimavelli með mörkum frá Tom Davies og Arlen Birch og Everton U21 unnu Bolton U21 á útivelli 2-3. Everton komust yfir í leiknum með marki úr víti frá Luke Garbutt en Bolton svöruðu með tveimur mörkum frá Iliev. Matthew Kennedy jafnaði metin og Mason Springthorpe varði víti fyrir Everton sem gerði það að verkum að glæsimark Conors McAleny (sem er nýkominn aftur eftir fótbrot) af löngu færi varð sigurmark Everton í leiknum. Hægt er að sjá helstu leikatvik í vídeói hér.
Heimta sigur gegn Arsenal hjálpar okkur að Arsenal þarf að spila á móti Bayern á þriðjudaginn en þeir eiga engan sjens í þá. Spái 2:1 sigri Everton Lukubu og Barkley með mörkin.
Það rifjaðist upp fyrir mér þegar Arsene Wenger stærði sig eitt sinn af því að Arsenal væru að keppa á fjórum vígstöðvum í einu (um deildarmeistaratitil, FA bikar, Champions League og League Cup, að mig minnir). Og svo rákust þeir á vegg akkúrat þegar kom að seinni hluta febrúar/fyrri hluta mars en það virðist yfirleitt vera tíminn sem leikjaálagið á Arsenal fer að segja all hressilega til sín.
Champions League virðist vera að ganga þeim úr greipum um þessar mundir (sbr. tap á heimavelli fyrir nokkrum dögum) og sama má segja um síðustu þrjú tímabilin þar á undan: duttu alltaf út í fyrri hluta mars.
FA bikarinn var nákvæmlega sama sagan: gekk þeim úr greipum 16. febrúar í fyrra (tap fyrir Blackburn heima), 18. febrúar tímabilið þar á undan (tap fyrir Sunderland) og 12. mars þar á undan (tap fyrir United).
Við verðum bara að vona að sagan endurtaki sig nú og Everton komist á Wembley eins og fyrir tveimur árum… 🙂
En það þarf að hafa mikið fyrir þessu ef svo á að verða og þetta verður *mjög* erfiður leikur. Jafntefli stórkostleg úrslit að mínu mati. Við sýndum það reyndar fyrr á tímabilinu að Everton var undantekningin frá reglunni hvað varðar það að fullskipað Arsenal lið dómineri önnur lið á Emirates. Everton betri aðilinn á löngum köflum í leiknum (og Arsenal snertu varla boltann í fyrri hálfleik). En þá var Barkley líka í fantaformi (maður leiksins þá) og Jagielka með, en hvorugt er hægt að segja í dag. En á móti kemur að Baines verður með nú, sem var ekki þá — og sem betur fer er Lukaku kominn aftur og farinn að skora, ég segi nú ekki annað!
Ætla að vera sæmilega bjartsýnn og spá 1-1 jafntefli. Lukaku með jöfnunarmark fyrir okkur á lokamínútunum! 🙂 Hefði verið líklegur til að spá marki frá McCarthy (MarkCarthy!) en fyrst ég bregð út af þeirri reglu þá hlýtur hann að skora á morgun, ekki satt? 🙂
Spennandi laugardagur framundan.
Blóð á tönnum gunners eftir tap gegn Djoke,
Því miður 2-0 fyrir Arsenal.
Þetta verður gaman og erfitt. Vonandi tekst hið ómögulega að vinna Arsenal. Leikurinn er ekki búinn fyrr en dómarinn hefur flautað leikinn af en við mætum allir á Ölver og skemtum okkur vel.
Ef við vinnum á Emirates á morgun verð ég mjög hissa og ofsa glaður en því miður get ég ekki séð það gerast. Ég ætla meira að segja að gerast svo frakkur að halda því fram að það verði hreinlega passað upp á að við vinnum ekki. Þarna er ég að sjálfsögðu að vísa til vals FA á dómara fyrir leikinn en ég las á vefsíðunni Royal Blue Mersey að það væri staðfest að Clattenburg dæmi leikinn.
Ég ætla að spá 2-1 fyrir Arse Arteta með sigurmarkið úr vafasömu víti.
ég ætla að spá því að við vinnum 1-2 og McCarthy með 1 fyrir Finn, og svo skorar Lukaku 1. Annars er mér skítsama hver skorar svo lengi sem úrslitin verða okkur hagstæð. Áfram Everton. p.s. er sammála Ingvari að twattenburg er ekki ákjósanlegt val fyrir okkur miðað við fyrri reynslu okkar 🙂
Nei, Diddi, nú eyðilagðir þú þetta! Nú skorar McCarthy ekki í leiknum, fyrst búið er að spá honum marki! Ég sem var búinn að spara hann og spara, með því að spá honum alltaf marki, og beið bara rétta tækifærisins til að sleppa honum lausum! Það er eins gott — þín vegna — að hann skori!
rólegur Finnur, það er ekki oft sem spár mínar hafa ræst en hún rætist í dag 🙂 Annars sá ég á Sky að þeir reikna með að Robles haldi sinni bikarstöðu í marki og ég verð að segja að ég er á móti því. Þegar við erum komnir svona langt þá verðum við að tjalda reynslumesta og sterkasta liði sem við höfum völ á. Ég treysti því að við Martinez höfum svipaða dómgreind hvað þetta varðar 🙂
Uppstillingin komin:
http://everton.is/?p=6954
Þessi fer 0-1 Baives úr víti á 89 mín